Færsluflokkur: Bloggar
28.5.2023 | 15:44
Frumskylda dómara og þingmanna
Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar skulu embættismenn, þ.m.t. dómarar, vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Sama gildir um þingmenn, sbr. 47. gr. stjskr. Þetta felur í sér yfirlýsingu um að viðkomandi skuldbindi sig til að virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta má kalla frumskyldu íslenskra embættismanna.
Í þessu felst m.a. að dómarar mega ekki taka sér löggjafarvald og að þingmenn megi ekki taka sér vald til að skera úr um ágreiningsmál sem eiga heima fyrir dómstólum.
Nánar um hlutverk dómara og þingmanna
Dómsvaldið horfir ekki fram í tímann eins og löggjafinn. Hlutverk dómara er að horfa aftur í tímann, til atvika sem þegar hafa orðið og skera úr um hvaða lög giltu um ágreininginn, hvert inntak þeirra er og hvaða þýðingu þau hafa í tilgreindu tilviki.
Hlutverk þingmanna er að horfa fram í tímann og beita hyggjuviti sínu og siðviti til að móta lögin út frá hagkvæmnis- eða gagnsemissjónarmiðum.
Dómurum leyfist ekki að framselja vald sitt til annarra. Það ætti kjörnum þingmönnum ekki heldur að leyfast út frá stjórnarskránni. Samt hefur sú öfugþróun átt sér stað að lagasetningarvaldið er í stöðugt meira mæli framselt til erlendra stofnana, sérstaklega til ESB, en einnig til sérfræðinga, sem í kófinu fengu vald til að innleiða hér nokkurs konar tilskipanastjórnarfar vegna yfirstandandi hættuástands. Þessi tilhögun samræmist ekki kröfum stjórnarskrár því Alþingi er með þessu gert óvirkt. Við þessar aðstæður er sérlega brýnt að dómstólar standi vaktina og eftirláti stjórnvöldum ekki ,,ríkt svigrúm" til að stýra með reglum sem ekki hafa fengið viðunandi lýðræðislega umræðu og meðferð.
Óttinn er slæmur áttaviti
Sagan sýnir að það er lýðræðinu mjög hættulegt þegar ótti grípur um sig og almenningur kallar eftir aðgerðum sem miða að því að efla öryggi og draga úr hættu. Við þessar aðstæður fá sérfræðingar og stjórnmálamenn tækifæri til að láta ljós sitt skína og gefa til kynna að þeir geti leyst vandann með skjótvirkum aðgerðum.
Til hvers að hafa þunglamalegt lýðræði þegar við getum leyst málin með skilvirku sérfræðingaræði? Svarið er í því fólgið engum einum manni / engum fámennum hópi / engri klíku er treystandi fyrir öllu valdi. Fámennisstjórn jafnast aldrei á við virkt lýðræði þar sem öll sjónarmið fá að komast að við mótun réttarreglna. Gagnrýni og aðhald er öllum nauðsynlegt, sérstaklega löggjafanum.
Óttaslegið fólk getur verið reiðubúið til að afsala sér ýmsu því sem þeim er dýrmætast, m.a.s. málfrelsinu (réttinum til að gagnrýna stjórnvöld). Þannig hefur óttinn verið sá drifkraftur sem knúið hefur mörg lýðræðisríki sögunnar í greipar alræðis.
Lokaorð
Skjótar aðgerðir kunna að vera nauðsynlegar við vissar aðstæður, en þær mega ekki standa lengur en bráðnauðsynlegt er. Þar sem þessu sleppir verða dómarar að sinna sínu hlutverki og veita aðhald út frá lögum og stjórnarskrá, því ekkert lýðræðissamfélag sem vill standa undir nafni getur til lengdar verið ofurselt opinberum tilskipunum sem gefnar eru út í nafni hættuástands. Ef gefa á slíku stjórnarfari lausan tauminn eyðist ekki aðeins lýðræðið, heldur mannréttindin einnig.
Bloggar | Breytt 2.6.2023 kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2023 | 08:24
Réttlætir lítil hætta víðtækar mannréttindaskerðingar?
Réttarríkishugtakið vísar til þess að ríkið sé bundið af reglum. Hlutverk dómstóla í réttarríki er að hafa eftirlit með því að ríkið lúti þeim reglum sem því eru settar í stjórnarskrám og almennum lögum. Þetta er vörn borgaranna gegn því að handhafar ríkisvalds beiti valdi af geðþótta / á ófyrirsjáanlegan / óútreiknanlegan hátt. Í réttarríki ná lögin til allra, allir eru jafnir fyrir lögunum. Fyrir þessa hugsjón réttarríkisins hafa menn barist í gegnum aldirnar og fórnað bæði frelsi og lífi. Á þessum grunni byggja ákvæði mannréttindasáttmála og stjórnarskráa um frelsi og réttindi einstaklinganna. Í vestrænum ríkjum sem kenna sig við frjálslyndi og lýðræði hefur verið litið svo á að allt framangreint marki ramma utan um stjórnmálin.
Stjórnarskráin var aftengd í kófinu
Kórónuveiran (SARS-CoV-2) var kynnt til sögunnar vorið 2020 sem stórhættuleg heilsufarsvá, sem ógnaði öllum jafnt. Hættan var sögð slík að stjórnvöld tóku sér leyfi til að kippa stjórnarskrárákvæðum úr sambandi og svipta almenning borgaralegum réttindum. Ferðafrelsi, fundafrelsi, atvinnufrelsi og réttur barna til menntunar sættu margháttuðum og víðtækum skerðingum. Fyrirtækjum var lokað. Aðgengi að dómstólum skert. Stjórnsýslustofnunum var lokað. Allt var þetta gert á grundvelli þess að vernda þyrfti almenning fyrir aðsteðjandi ógn, því þetta væru fordæmalausir tímar og verja þyrfti líf og heilsu almennings. Þetta eru rök sem sótt eru til neyðarréttar.
Spurningar sem fleiri hefðu mátt spyrja
Í þingræðu 22.12.21 spurði ég m.a.
Er hættan sem við stöndum frammi fyrir orðin slík að það sé réttlætanlegt að ýta til hliðar hefðbundnum viðmiðum? Gengur þetta svo langt að það megi víkja til hliðar viðmiðum sem við höfum lagt til grundvallar, þ.e. um réttarríki, um borgaralegt frelsi eða um lýðræði? Eiga þessar undirstöður stjórnskipunarinnar að vera í uppnámi? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir svo alvarleg að það sé réttlætanlegt að raska hér öllu valdajafnvægi milli löggjafar, framkvæmdarvalds og dómsvalds? [ ] Er hættuástandið slíkt að það megi nota sóttvarnalög til almennra skerðinga á réttindum borgaranna? Er hættan sem við stöndum frammi fyrir slík að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar?
Var neyðarástand fyrir hendi?
Stjórnarskráin geymir enga almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi, en það var þó í reynd gert. Því verður að spyrja: Var neyðarástand fyrir hendi sem réttlætti að lögum þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til?
Svar: Samkvæmt ritrýndri grein sem fyrst var birt vorið 2020 og kom út í endanlegri útgáfu í júlí það ár, og síðan hefur verið birt í fréttabréfi WHO (sjá hér: 10.2471/BLT.20.265892) og byggð er á stranglega rannsökuðu alþjóðlegu mótefnaalgengi (e. international seroprevalence) er miðgildis dánartíðni (e. median IFR) fólks á aldrinum 0-59 ára 0,035%, en af öllum íbúum jarðar falla 86% í þennan aldurshóp. Þetta þýðir að 6,8 milljarðar manna (af u.þ.b. 8 milljörðum) höfðu 99,965% líkur á að lifa af kórónaveirusmit.[1] Dánarlíkur fólks undir 70 ára aldri (median IFR) 0,04%. Rétt er að undirstrika að þetta er yfirlitsrannsókn (meta-analýsa) sem byggir á fjölda annarra greina og dregur niðurstöður þeirra saman. Tekið er fram að þessar tölur byggja á rannsóknum sem gerðar voru áður en byrjað var að sprauta með svonefndum covid-bóluefnum. Einnig er ástæða til að geta þess að ofangreindar tölur kunna að ýkja hættuna þar sem þær byggjast á tölfræði sem nær til heilbrigðra jafnt sem fársjúkra einstaklinga, en viðurkennt er t.d. að offitusjúklingar voru í miklu meiri hættu en einstaklingar í eðlilegum holdum. Ennfremur ber að árétta að ofangreint hættumat varð mun lægra eftir að Omicron afbrigðið kom fram á sjónarsviðið, enda var Omicron vægara afbrigði veirunnar.
Lokaorð
Ég lýk þessu með tilvísun til fyrrgreindrar ræðu:
Virðulegur forseti. Ég vil, núna þegar ég dreg þetta saman, nota tækifærið til að minna áheyrendur á það að réttarríkið, bara svo að það komi fram hér í þessum sal, felur í sér að ríkisvaldið er bundið af reglum og á að sæta aðhaldi í samsvarandi mæli. Þessi hugsjón um réttarríkið felur í sér að borgararnir eru varðir gagnvart ólögmætri valdbeitingu ríkisins. Þetta er hugsjón sem hefur lifað með mannkyni öldum saman og við þekkjum að þetta var heilagt baráttumál t.d. á tímum einveldisins. Í þessu felst að ef skerða á borgaralegt frelsi þá verður það ekki gert nema samkvæmt ströngum reglum og að uppfylltum ströngum skilyrðum. [...] Við eigum ekki að láta það gerast að með vísan til neyðarástands sé Alþingi klippt út, lýðræði gengisfellt og einhvers konar tilskipunarstjórnarfar innleitt hér á landi.
[1] 0-19 ára ungmenni voru með og 99,9997% lífslíkur og 0,0003% dánarlíkur; 20-29 ára voru með 99,997% lífslíkur og 0,003% dánarlíkur; 30-39 ára voru með 99.989% lífslíkur og 0.011% dánarlíkur; 40-49 ára voru með 99,965% lífslíkur og 0,035 dánarlíkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2023 | 13:19
Fjölmiðlanefnd, gagnrýnin hugsun og frjáls skoðanamótun
Samkvæmt 10. gr. fjölmiðlalaga skal Fjölmiðlanefnd ,,vinna að því að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga". Hyggjum að verkum hennar:
Á vormánuðum 2020 réðst Fjölmiðlanefnd í sérstakt ,,Árvekniátak" til stemma stigu við flæði ,,falsfrétta og upplýsingaóreiðu" um kórónuveiruna. Átakið var gert til að varna því að ,,rangar og villandi upplýsingar, klæddar í búning alvöru frétta" hefðu ,,mótandi áhrif á skoðanir, hugmyndir og heilsufar almennings". Samkvæmt leiðbeiningum Fjölmiðlanefndar virtist betur mega treysta fréttum ef ,,stórir og rótgrónir miðlar" höfðu fjallað um málið.
Voru þetta góðar leiðbeiningar frá nefnd sem á að þjóna lýðræði og málfrelsi? Í leit að svari er vert að skoða framgöngu stórra og rótgróinna miðla í kófinu, sjá t.d. hér og dæmi nú hver fyrir sig. Myndbandið endurspeglar tíðarandann og undirstrikar hvernig ,,stórir og rótgrónir" fjölmiðlar snerust frá því að veita valdhöfum aðhald, en tóku þess í stað þá stefnu að veita almenningi aðhald í þágu valdhafa. Framganga þessara miðla og hinnar íslensku fjölmiðlanefndar mætti kallast einhvers konar aðför að gagnrýninni hugsun og frjálsri skoðanamyndun.
Í þessu samhengi er vert að rifja upp þetta viðtal Kristjáns Kristjánssonar við okkur lækna-Tómas, þar sem ég hvatti fólk til að beita gagnrýninni hugsun og varaði við uggvænlegum breytingum á stjórnarfari, sem ég sagði að gætu leitt okkur inn á braut alræðis. En vonandi nálgumst við það tímamark að geti horft gagnrýnum augum um öxl og jafnvel grínast með það hvernig hinn ,,frjálsi heimur" krafðist þess að fólk hneppti hugsun sína í fjötra kennivalds og vogaði sér ekki að efast um hinn ,,opinbera sannleika".
Í ljósi reynslu síðustu ára hefur traust til ,,stórra og rótgróinna" fjölmiðla beðið mikinn hnekki. Með þjónkun sinni og gagnrýnisleysi hefur Fjölmiðlanefnd brugðist lagaskyldum og fyrirgert tilverurétti sínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2023 | 08:39
Grunngildi Sjálfstæðisflokksins
Við stofnun Sjálfstæðisflokksins árið 1929 var mörkuð grundvallarstefna. Fyrstu tvö atriði hennar voru þessi:
- Að vinna að því að undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og 25 ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.
- Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis, með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Frá upphafi hefur það verið talin helgasta skylda flokksins að standa að standa á fyllsta rétti þjóðarinnar í þessum málum. Þetta hafa menn gert meðvitaðir um að sjálfstæðisbaráttan heldur áfram og er ævarandi. Í þessum tilgangi hafa sjálfstæðismenn barist gegn miðstjórnarvaldi á þeirri forsendu að slíkt vald leiði til alræðis. Þetta er byggt á reynslu en ekki spádómum, því sagan sýnir að valdinu verður að dreifa til að unnt sé að viðhalda réttarríki. Þetta verður best gert með virku lýðræði, sem byggist á frjálsri og virkri þátttöku almennings. Í slíku kerfi eru ráðamenn kosnir til valda í frjálsum kosningum og svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum.
Getur verið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins árið 2023 sé svo heillum horfinn að hann sé (með stuðningi við frumvarp um bókun 35):
- Horfinn frá því að standa á fyllsta rétti þjóðarinnar?
- Haldi að sjálfstæðisbaráttunni sé lokið?
- Vilji með lögum innleiða hér yfirþjóðlegt miðstjórnarvald ESB?
- Hverfa frá valddreifingu með því að gengisfella Alþingi?
- Veikja réttarríkið með því að skerða hér réttaröryggi borgaranna, fyrirsjáanleika laga og réttmætar væntingar til íslenskra laga?
- Veikja lýðræðið með því að færa löggjafarvald úr landi?
- Leggja ríkisvald í hendur fólks sem svarar ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart Íslendingum og hefur ekkert lýðræðislegt umboð til ákvarðanatöku?
Almennir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafa ekki veitt þingmönnum umboð til að snúast með þessum hætti gegn stefnu flokksins.
Hús þarf að byggja á traustum grunni, tré stendur fast á sinni rót, en flokkur sem slítur sig frá uppruna sínum má búast við að fjúka í næsta stormi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2023 | 07:33
Þjónar á eigin heimili undir valdi nýs húsráðanda?
Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag. Skilaboðin eru þessi:
Ef Íslendingar ætla að sofa meðan þetta frumvarp fer í gegnum Alþingi þá geta menn vænst þess að vakna mjög óþægilega þegar sá dagur kemur að afleiðingarnar birtast og nýr húsráðandi verður kominn inn til okkar. Hvað ætlar fólk að gera þá? Gerast þjónar á eigin heimili?
[Smellið til að lesa í fullri stærð]
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2023 | 10:20
Stjórnmálin fyrr og nú
Frelsisbarátta fyrri kynslóða snerist um mannréttindi, þ.e. að koma böndum á valdbeitingu ríkisins. Í þessum tilgangi voru settar stjórnarskrár, almenn lög og alþjóðasáttmálar, þar sem einnig eru lagðar þær skyldur á ríkið að það verji okkur gagnvart öðrum, bæði fólki og fyrirtækjum. Þróun síðustu ára, þar sem ríki og fyrirtæki seilast sífellt lengra inn á svið einkalífs, undirstrikar nauðsyn þess að standa vörð um frelsið / mannréttindin. Ef það verður ekki gert mun ríkisvaldið / fyrirtækjavaldið þrengja svo að tjáningarfrelsi, fundafrelsi, eignarétti o.s.frv. að lýðræðið mun ekki hafa neinn grunn til að standa á.
Maðurinn er í sínum innsta kjarna andleg vera. Vaxandi áhersla á efnishyggju hefur leitt til þess að sálin hefur gleymst. Afleiðingarnar birtast m.a. í því að menn skilgreina sig út frá líkamseinkennum.
Þegar unnið var að gerð Mannréttindayfirlýsingar SÞ varaði einn höfunda hennar, Charles Malik, við því að hinn andlegi kjarni mannsins yrði jaðarsettur. Hann minnti á að hugsun mannsins og samviska eru okkar helgustu og dýrmætustu verðmæti, því þau gera okkur unnt að greina sannleikann, beita frjálsum vilja og halda lífi. Þetta setti hann fram til að verjast áherslum kommúnista sem vildu setja ,,réttindi samfélagsins" ofar réttindum einstaklingsins.
Stjórnmál nútímans snúast ekki lengur bara um vinstri / hægri, heldur um það hvort menn ætla að standa vörð um frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarrétt eða hvort áherslan er á ,,réttindi samfélagsins" í anda kommúnisma. Þegar enginn stendur lengur vörð um fyrri stefnuna verður afleiðingin valdboð og ofríki í nafni fjöldans.
Ef takast á að verja frelsið og mannréttindin þurfum við að þekkja söguna og geta lært af reynslunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2023 | 08:33
Háðsádeila sem mótefni
Varúð. Eftirfarandi línur eru ekki fyrir þá sem bera skilyrðislaust traust til ríkisvalds og alls ekki fyrir þá sem treysta fyrirtækjum betur eftir því sem þau eru stærri. Þeir sem skipa sér í aðra hvora fylkinguna gætu fundið rykfallnar tilfinningar bærast innra með sér ef lengra er haldið með lesturinn, svo sem óþægilegan efa. Sérstaklega vil ég hlífa þeim sem telja að lausn erfiðustu samfélagsverkefna sé fólgin í nánu samstarfi og jafnvel samruna ríkis og stórfyrirtækja. Síðast en ekki síst vil ég forða þeim frá sársaukafullu endurmati sem kosið hafa þægilegt hugsunarleysi og blint traust fram yfir gagnrýna og sjálfstæða hugsun.
Þeir sem enn eru að lesa og telja þ.a.l. að framangreindar lýsingar eigi ekki við um þá, gætu glaðst yfir þessari perlu listforms sem kennt er við háðsádeilu. Þeir sem gætu haft húmor fyrir þessu eru m.a. þeir sem telja valdboðsstjórnarfar síðustu ára hafa rýrt traust á ríkinu; þeir sem telja það skyldu sína að andmæla ef ríkið gengur of langt í breiðvirkum og miðstýrðum ,,lausnum"; þeir sem vilja verja lýðræðislega stjórnarhætti gegn ógn ofríkis.
Voru allar aðgerðir stjórnvalda í kófinu réttlætanlegar? Var réttlætanlegt að stimpla allar efasemdir sem ,,upplýsingaóreiðu", ,,samsæriskenningar" eða ,,falsfréttir"? Var rétt á þeim grunni að opinberar stofnanir (Fjölmiðlanefnd) beittu sér með sérstöku átaki gegn frjálsri skoðanamyndun? Er hlutverk borgara í lýðræðissamfélagi í því fólgið að trúa öllu í blindni sem kemur frá handhöfum ríkisvalds, þar á meðal um virkni bóluefna? Er það skylda okkar að lamast af ótta þegar stjórnvöld mála skrattann á vegginn? Er þá ekkert svigrúm til sjálfstæðs mats, ekkert svigrúm til benda á litbrigði mannlífsins til að andmæla því að eitt skuli yfir alla ganga? Var í því ljósi t.d. réttlætanlegt að sprauta börn með mRNA lyfjum vegna veiru sem börnum stafaði engin tölfræðileg hætta af? Má spyrja slíkra spurninga? Ef svar þitt er jákvætt, þá mæli ég með að þú gefir þér 5 mínútur til að horfa á þetta. Ef svar þitt er nei, þá mæli ég fram varnaðarorð enn og aftur og bið þig um að undirbúa það sem áður kann að hafa verið óhugsandi, þ.e. að þú munir áður en langt um líður vilja endurmeta fyrri afstöðu þína til þeirrar umpólunar á stjórnarfari sem síðustu misseri leiddu yfir okkur.
Á endanum er það hvers og eins að svara því hvort hann vilji rata út úr þokunni, horfa fram hjá villuljósum og brjóta af sér hlekki hugsanafjötra. Háðsádeilan er kannski það listform sem valdboðssinnar óttast mest. Hér er flugbeitt dæmi um slíka list.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2023 | 07:23
Rándýr útúrsnúningur
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað um mikinn og vaxandi kostnað vegna flóttamanna sem hingað sækja. Leiðarinn endar með þessum orðum:
Miðað við hversu mikil þessi útgjöld eru orðin fá þau furðu litla umræðu. Líklega veigra margir sér við að ræða þessi mál þar sem það kallar iðulega á stóryrtar árásir. Staðan er þó orðin svo alvarleg að enginn stjórnmálamaður sem tekur hlutverk sitt alvarlega getur látið undir höfuð leggjast að beina sjónum að þessum vanda.
Í tilefni af þessu bendi ég lesendum á eitt lítið dæmi um hvernig útúrsnúningum og afbökunum er beitt til að aftra því að hér eigi sér stað breið, lýðræðisleg og málefnaleg umræða. Í þingræðu 14. desember sl., sem sjá má hér, fjallaði ég um þennan málaflokk og vísaði m.a. í tillögur Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, með eftirfarandi orðum:
Ég vil vekja athygli þingheims á því að í gær flutti forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, ræðu í breska þinginu þar sem hann lagði til og er að leggja fram frumvarp um að landamæraeftirlit verði stóreflt í Bretlandi, aðgerðir verði samræmdar til að koma í veg fyrir skipulagðan innflutning á fólki og misnotkun á fólki sem þar á í hlut. Það verði gert átak til að koma í veg fyrir að fólk geti unnið ólöglega í landinu og t.d. opnað bankareikninga. Stöðvuð verði rándýr og óhófleg útgjöld í þessum málaflokki sem fela m.a. í sér að fólk sé vistað á rándýrum hótelum. [Leturbr. AÞJ]
Þarna sá vefmiðillinn Miðjan sér leik á borði og setti upp þessa fyrirsögn: ,,Arnar Þór Jónsson Sjálfstæðisflokki segir flóttafólk vera rándýr sem þurfi að stöðva" (!)
Fyrir liggur að mörg börn í þessu landi búa ekki við góða lestrarkunnáttu, en Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, er ekki blaðabarn, heldur sjóaður blaðamaður. Hvers vegna kýs hann að starfa á svona lágu plani? Lýsingarorðið ,,rándýrt" er (augljóslega) ekki það sama og nafnorðið ,,rándýr". Hvaða hagsmunir kalla á að þyrlað sé upp ryki í stað þess að færa umræðuna fram í sólarljósið?
Af þessu tilefni vil ég undirstrika að ég hef á opinberum vettvangi hvergi sagt neitt ljótt eða ómálefnalegt, heldur aðeins hvatt til þess að menn og þjóðir verji sjálfsákvörðunarrétt sinn og lýðræðislegt stjórnarfar í anda klassísks frjálslyndis og sjálfstæðrar hugsunar. Þeir sem tala út frá þessum gildum þurfa ekki að óttast ,,stóryrtar árásir". Þetta eru verðmæt grunngildi sem hvert og eitt okkar verður að varðveita og láta endurspeglast í samtölum okkar við aðra. Þetta snýst um að halda fókus, verja grunninn, og víkja ekki af þeirri braut sem við vitum í hjarta okkar að er rétt.
Í þessum anda hvet ég stjórnmálamenn og alla aðra til frjálsrar en ábyrgrar tjáningar til varnar þeim gildum sem best hafa reynst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2023 | 05:53
Villandi fréttaflutningur af stóru máli
Þessi fréttaflutningur þarfnast þýðingar á mannamál. Í fréttinni segir orðrétt:
,,Aðspurð um málið, sagði von der Leyen að ESB sýndi Íslendingum skilning í málinu og að sameiginleg lausn hefði fundist, en tók jafnframt fram að málið væri enn í vinnslu og ætti eftir að ræða og útfæra betur. Fram kom að Ísland muni fá, árin 2025 og 2026, auknar heimildir til að losa koltvísýring í flugi".
Á mannamáli heitir þetta aðlögunarfrestur en ekki ,,undanþágur". Tveggja ára aðlögunarfrestur áður en ESB reglurnar öðlast fullt gildi gagnvart Íslandi er enginn sigur, heldur beiskur ósigur.
Rétt er að Íslendingar fylgist vel með og greini í hverju hin ,,sameiginlega lausn" gæti hafa falist. Ljótt væri ef hér er verið að vísa til þess að ríkisstjórn Íslands verði að fá frumvarpið um bókun 35 samþykkt á Alþingi og að ,,lausnin" felist í því að Íslendingar lögleiði almennan forgang ESB réttar umfram íslensk lög. Meðan frumvarpið er óafgreitt teljast þá ,,undanþágurnar" vissulega ,,enn í vinnslu" og sem eigi eftir ,,að útfæra betur".
Það er sannarlega illa komið fyrir stjórnmálunum þegar klæða þarf niðurlægingu í dulbúning og leiða kjósendur inn í speglasal til að villa um fyrir þeim.
Orðið ,,undanþágur" hljómar kannski betur en aðlögunarfrestur. Öllum má þó vera ljóst að þessi niðurstaða yrði ekkert annað en niðurlægjandi ósigur smáríkisins gagnvart yfirstjórn erlends ríkjasambands. Eina spurningin er hversu dýru verði þessi niðurstaða gæti hafa verið keypt. Lögleiðing frumvarps um bókun 35 gæti reynst Íslendingum margfaldlega dýrari en sem nemur kostnaði við þetta eina mál.
En kannski er yfirstéttinni einfaldlega slétt sama um losunarheimildir á flugferðir meðan þau sjálf fá sínar undanþágur og flugferðir í einkaþotum í boði skattgreiðenda.
Von der Leyen: Ísland fær undanþágur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2023 | 07:29
Pólitík án prinsippa?
Fyrirsögnin er sótt til lista yfir ,,sjö samfélagssyndir" sem Gandhi birti árið 1925. Gandhi mun hafa sagt að prinsipplaus stjórnmál leiddu til glundroða sem að lokum framkallar harðstjórn.
Segja má að ég hafi lagt embættisferil minn á hilluna í góðri trú um að kraftar mínir gætu nýst betur á vettvangi stjórnmála. Þótt aðrir flokkar hafi boðið mér góð sæti á framboðslistum kaus ég að halda tryggð við Sjálfstæðisflokkinn og hugsjónir hans. Það gerði ég af prinsippástæðum.
Í þessu ljósi er nöturlegt að lesa gagnrýni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Sjálfstæðisflokkinn Morgunblaðsgrein hans í dag. Lesturinn er nöturlegur því gagnrýnin er réttmæt. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur orðið viðskila við prinsipp flokksins, a.m.k. er ekki að sjá að þetta góða fólk framfylgi í verki þeim stefnumálum sem þau voru kosin til að vinna að og verja.
Ég læt nokkrar tilvitnanir úr grein SDG fylgja mér, svo lesendur geti sjálfir lagt mat á það hvort þingflokkur XD iðki nú ,,pólitík án prinsippa":
Þó verð ég að benda á að reglugerðir Evrópusambandsins sem miða að auknu miðstýringarvaldi streyma nú óhindrað í gegnum þingið, oft bornar fram af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og samþykktar af þingmönnum sem hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif þær muni hafa. Það kemur í ljós síðar þegar fyrirtæki og almenningur finna áhrif hins illskiljanlega og dýra reglugerðarvalds á eigin skinni.
Næst á lista er hin alræmda bókun 35 sem segir að til framtíðar skuli regluverk sem samið er af skriffinnum í Brussel og berst hingað á færibandinu teljast æðra en lög sem samin eru af fulltrúum íslenskra kjósenda.
Báknið hefur aldrei verið stærra. Það stækkar með hverjum mánuðinum og hverju frumvarpi þessarar ríkisstjórnar. Opinberir starfsmenn eru nú orðnir um þriðjungur starfandi fólks á Íslandi.
Ég hef áður skrifað grein um áform forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar um að setja samfélagið allt á innrætingarnámskeið um hvernig fólk eigi að hugsa og tjá sig. Ég læt vera að rekja það allt aftur en skemmst er frá því að segja að þetta felur í sér langstærsta inngrip sem stjórnvöld hér á landi hafa ráðist í til að stýra hugarfari og tjáningu landsmanna.
Ef flokkurinn ætlar að halda áfram að vanrækja grunnstefnu sína, ef hann ætlar að meta öll pólitísk mál eftir því hversu vel umbúðirnar falla að tísku samtímans, jafnvel að því marki að fallast á að keyra í gegn frumvarp um að nýja vinstrið fái vald til að leggja línurnar um þróun samfélagsins og að endurmennta þjóðina í rétthugsun ef sú er raunin vil ég alla vega geta sagt: ég reyndi að vara þá við. [Leturbr. AÞJ]
.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)