Færsluflokkur: Bloggar

Kossar, faðmlög og algjör samstaða

Í flugvél á leið til Íslands um daginn sat ég við hlið manns sem var að lesa bók um samskipti Úkraínu og Rússlands. Í lok flugsins spurði ég hann hvers hann hefði orðið vísari. Hann svaraði því til að Úkraína hefði verið sjálfstæð og fullvalda í mjög skamman tíma á 20. öld, áður en ískaldur hrammur rússneska bjarnarins lagðist ofan á ríkið. Hann bætti því við að Úkraína hefði að vísu haldið ytri ásýnd lýðræðis, því þingið hefði starfað áfram og tekið ákvarðanir um allt sem engu skipti, en ákvörðunarvaldið hefði í reynd verið fært til Kremlar.

Birtast í þessu stef sem eiga nú við um Ísland? Samtalið vakti áhuga minn á því hvort leita mætti samlíkingar milli Sovétríkjanna sálugu og heimsvaldastefnu ESB.

Upprifjun

Ég er nógu gamall til að muna eftir ógn kalda stríðsins, einhliða framsetningu fjölmiðla, rússneska dagblaðinu Pravda sem birti „sannleikann“, flokksþingum kommúnista þar sem samstaðan og samhljómurinn var algjör, þar sem leiðtogarnir töluðu máli allra og ræðum lauk með standandi lófataki, þar sem andmæli voru ekki liðin og þar sem efasemdir voru taldir merki um geðveilu.

Óþægileg samsvörun?

Í þessu ljósi horfi ég nú á vestræna „leiðtogafundi“ með vaxandi ónotum, enda verður ekki betur séð en að þar ríki algjör eining. Þar faðmast menn og jafnvel kyssast í gamla Sovét-stílnum. Samhugur og samstaða eru leiðarstefin eins og í Kreml forðum. Hver sem vogar sér að ganga ekki í takt má búast við að ýtt út í kuldann.  

Sovétríki fortíðarinnar og ESB (nýja-sovétið?) eiga það sameiginlegt að stjórnvöld vantreysta kjósendum. Völdin eru talin betur geymd í höndum sérvalinna embættismanna sem vita að framtíð þeirra er háð velvilja pólitískra ráðamanna. Í slíku kerfi njóta hlýðnir flokksgæðingar sérréttinda.

Sovétríkin og ESB eiga það sameiginlegt að borgararnir sitja undir linnulausum áróðri / trúboði pólitísks rétttrúnaðar, sem beinist ekki síst gegn fullveldi þjóðríkjanna, en á sama tíma er stefnt að því að styrkja nýja, yfirþjóðlega og miðstýrða tegund fullveldis þar sem hagsmunir heimsveldisins sitja í fyrirrúmi, ekki hagsmunir þjóðríkisins, og þar sem skorið hefur verið á ábyrgð valdamanna við borgarana.

Nýja stjórnarfyrirkomulagið, eins og gamla Sovét, tekur miðstýringu fram yfir sjálfsákvörðunarrétt, velur valdbeitingu fram yfir frelsi, nálgast öll mál út frá sjónarhóli hópsins / hjarðarinnar og lítilsvirðir um leið rétt einstaklingsins. Þar er ríkiseiningin mikilvægari en borgarinn. Þar er stýrt undir fölsku lýðræðis-flaggi í átt að strönd alræðis, þar sem réttarfarið verður að sýndar-réttarhöldum, lýðræðið að leiksýningu og embættismenn verja valdhafa en ekki borgarana. 

Samantekt

Þeir sem ekki eru læsir á hættumerkin geta fallið í þá gryfju að vilja fórna fullveldinu og ganga yfirþjóðlegu valdi á hönd. Fyrir smáríki er slík ráðagerð hrein óhæfa enda verða þau þar með peð á taflborði heimsveldanna. Peð eru léttvæg fórn á slíkum taflborðum.

  


Góður málstaður þolir umræðu, vondur málstaður ekki

Á hvaða grunni leyfir Björn Bjarnason sér að kalla framgöngu formanns utanríkismálanefndar „forkastanlega“? Síðan hvenær varð það sérstök dyggð að flýta afgreiðslu lagafrumvarpa án viðhlítandi umræðu? Hver er hin brýna nauðsyn sem kallar á tafarlausa samþykkt frumvarps utanríkisráðherra um bókun 35?

Skoðun sinni til stuðnings vísar Björn til þess að „meirihluti þingmanna“ styðji frumvarpið. Um leið lítur hann fram hjá því að málið hefur enn ekki fengið viðeigandi meðgöngu og umræðu. Tíminn og umræðan er hluti af lýðræðislegu og vönduðu lagasetningarferli.

Undirstaðan

Hraði, hugsunarleysi, tímapressa og ytri þrýstingur eiga ekki að vera hluti af vandaðri lagasetningu. Þetta er viðurkennt grundvallarsjónarmið í vestrænum rétti. Frá 18. öld hafa stjórnarskrár haft að geyma ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að handhafar æðsta valds misnoti stöðu sína. Þannig sjáum við endurtekin stef í stjórnarskrám, m.a. í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sem miða að því að skipta valdinu upp í aðskilda þætt og tryggja valdajafnvægi. Í þessum anda voru sett ákvæði i stjórnarskrár sem miða beinlínis að því að hægja á löggjafarferlinu. Deildaskipting Alþingis var hluti af þessari forskrift. Í stuttu máli er uppleggið það að lagasetning eigi ekki að gerast með áhlaupi, heldur eigi tillögur til laga að fá vandaða umfjöllun. Þetta er ekki síst gert til að aftra því að meirihlutinn valti yfir minnihlutann. Til að verjast þessu hefur stjórnskipunin veitt minnihlutanum úrræði til að tefja löggjafarferlið. Vilji menn fræðast nánar um þetta má t.d benda á skrif James Madison sem var 4. forseti Bandaríkjanna og meiri stjórnspekingur en bæði ég og Björn Bjarnason til samans.

Uppgerðarasi með dugnaðarfasi

Við vissar aðstæður getur vissulega verið brýnt að löggjafinn bregðist skjótt við ytri aðstæðum og atburðum. En mannlegt eðli býður alls kyns hættu heim og í því tilviki sem hér um ræðir hefur engin útskýrt hvers vegna nauðsynlegt var að afgreiða frumvarpið um bókun 35 með þeim hraða sem Björn Bjarnason virðist hafa óskað.

Flýtum okkur hægt

Hér er um að ræða mál sem er til þess fallið að veikja íslenskt lýðræði og Alþingi Íslendinga til frambúðar. Afleiðingarnar gætu verið alvarlegar, ekki aðeins fyrir þá sem nú byggja Ísland, heldur einnig síðari kynslóðir. Því á að þakka Bjarna Jónssyni fyrir að hægja á bráðræði stuðningsmanna umrædds frumvarps. Ég skora á alla sem umhugað er um framtíð lýðveldisins okkar að nýta sumarið til að krefja stuðningsmenn frumvarpsins um rök og skýringar. Hvaða hagsmunir kalla á að málið sé lagt fram nú eftir bráðum 30 ára aðild að EES? Hvaða nauðsyn krefst þess að málið sé afgreitt í flýti?

Daunill mál hafa takmarkað geymsluþol í sólarljósi

Eftir að hafa fylgst með óðagotinu sem einkenndi meðferð málsins í fjarveru formanns utanríkismálanefndar og eftir að hafa lesið rakalausan málflutning Björns Bjarnasonar hallast ég helst að því að stuðningsmenn frumvarpsins telji að málið gæti snúist í höndum þeirra eftir því sem málið fær meiri athygli og umræðu. Því vil ég hvetja landsmenn til að kynna sér þetta vonda mál til hlítar og veita viðnám þeim sem vilja keyra það í gegnum þingið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.


Kafbátahernaður úr undirdjúpunum

Björn Bjarnason skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann harmar að „mál frá utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins sem nýtur stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þingmanna“ hafi verið stöðvað í utanríkismálanefnd. Meginástæðan fyrir þessari stöðvun málsins er sú að í meðferð nefndarinnar hefur opinberast að málið er mun alvarlegra, stærra, flóknara og viðsjárverðara en fyrsta umræða í þingsal gaf til kynna. Þar skautuðu þingmenn létt yfir þau stjórnskipulegu álitamál sem hér reynir á. Í því samhengi nægir að benda á grundvallaratriði í greinargerð með frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35, þar sem orðrétt segir:

Á grundvelli íslenskrar stjórnskipunar og af eðli EES-samningsins sem þjóðréttarsamnings leiðir að gerðir verða almennt ekki sjálfkrafa hluti íslensks réttar. Því verður að leiða þær í íslensk lög með þeim aðferðum sem íslensk stjórnskipun áskilur.

Með öðrum orðum stendur stjórnarskrá lýðveldisins í vegi fyrir því að höfð sé „skemmri skírn“ á innleiðingu EES reglna í íslenskan rétt. Frumvarp utanríkisráðherra gengur gegn stjórnarskrá og felur í sér ráðagerð um ólögmætt framsal á íslensku ríkisvaldi. Á fundi með utanríkismálanefnd benti ég á að þingmenn hafi ekkert umboð til að ráðstafa löggjafarvaldi með þessum hætti. Ef vilji þeirra stendur til slíks verða þeir að koma hreint fram gagnvart kjósendum sínum og vinna að framgangi málsins með lögmætum hætti, þ.e. með því að gera tillögu um breytingu á stjórnarskrá sem heimilar slíkt valdaframsal. Slík breyting á stjórnarskrá kallar á viðamikið ferli og tvöfalda þinglega afgreiðslu með þingkosningum á milli.

Ef það er rétt hjá Birni Bjarnasyni að „yfirgnæfandi meirihluti“ núverandi þingmanna sé fylgjandi því að vegið sé að lýðveldinu og lýðræðinu með því að reyna að keyra í gegn frumvarp um framsal valds sem gengur gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, þá kalla ég það alvarleg tíðindi og trúnaðarbrest gagnvart íslenskri þjóð og stjórnarskránni sem þingmenn hafa unnið drengskaparheit að. Aðferð stuðningsmanna frumvarpsins við að reyna að hraða málinu í gegn án alvöru umræðu og án viðhlítandi umfjöllunar í utanríkismálanefnd má kalla ólögmætt frumhlaup sem ber vott um óheilindi gagnvart stjórnskipun landsins, stjórnarskrá og kjósendum.

Sem Sjálfstæðismaður ætti Björn Bjarnason ekki að ráðast að persónu formanns utanríkismálanefndar, heldur þakka honum fyrir að vilja sýna aðgát og vandvirkni við meðferð svo illa ígrundaðs frumvarps. Tímabært er að Björn og aðrir þeir sem stunda kafbátahernað, úr undirdjúpunum, í þágu ESB innan Sjálfstæðisflokksins íhugi nú stöðu sína gagnvart sjálfum sér, flokknum og kjósendum flokksins sem aðhyllast grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um lýðræðislegt stjórnarfar, frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og fullveldi Íslands, sem flokkurinn var stofnaður um.


Bannfæring í nafni umhyggju

Mbl baksíða 090623Baksíða Moggans í dag birtir skemmtilega mynd af myndarlegu og glaðværu fólki. Fyrirsögnin er líka falleg: ,,Endurmenntun HÍ í 40 ár og öllum opin". Á bak við léttleikann býr þó hreint ekkert grín, því fréttir vikunnar, um uppsögn Kristjáns Hreinssonar úr kennslustarfi við EHÍ, benda til að EHÍ sé í reynd ekki ,,öllum opin", a.m.k. ekki þeim skilningssljóu einstaklingum sem ekki hafa enn áttað sig á að runninn er upp tími guðlausrar hreintrúarstefnu sem kennir sig við ,,félagslegt réttlæti" (e. social justice). Í slíku andrúmslofti gildir, augljóslega, að hver sem vogar sér að efast um ríkjandi kennisetningar verður umsvifalaust bannfærður og gerður brottrækur.

Í þessu samhengi verður þó að taka fram og skilja, að bannfæringin er vitanlega gerð af umhyggjusemi og að æðstu prestar hinna nýju trúarbragða eru alls ekki á móti málfrelsi. Nú gildir einföld regla: Ef þú vilt ekki verða ritskoðaður, þá verður þú bara að passa þig á að segja ekkert rangt, ekkert sem bendir til efahyggju eða villutrúar. M.ö.o. verða menn að gæta þess að víkja ALDREI af braut réttrar hugsunar. Vei sé þeim sem ekki meðtaka þessi einföldu skilaboð og voga sér að efast um hinn opinbera sannleika, sem fréttastofur og fræðimenn færa okkur í útvarpsmessum fréttatímanna.

Þeir sem ekki láta segjast geta engum um kennt nema sjálfum sér þegar þolinmæði stjórnvalda þrýtur endanlega og lögreglan byrjar að handtaka þá sem voga sér að velja rangar hugsanir og röng orð. En við þurfum auðvitað ekki að hafa neinar áhyggjur, því það verður að sjálfsögðu gert til að verja frelsi almennings og stuðla að almennri velsæld. Amen.

 


Öfugþróun stjórnmálanna

Eins og aðrar vestrænar þjóðir sitja Íslendingar undir stöðugum þrýstingi pólitískrar rétthugsunar, sem miðar að því að kæfa frjálsa, sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Samhliða er linnulaust grafið undan sjálfsákvörðunarrétti manna og þjóða. Áhrif þessa þunga straums blasa nú víða við, m.a. á vettvangi stjórnmála og lagasetningar. Ein alvarlegasta myndbirting þessarar þróunar er frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 sem blessunarlega var stöðvað í utanríkismálanefnd og verður ekki afgreitt á þessu vorþingi.

Á fundi nefndarinnar 2. júní sl. gafst mér færi á að kynna umsögn mína um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Á fundinum fjallaði ég ítarlega um þá ólýðræðislegu strauma sem frumvarpið birtir og flæða nú, úr óvæntum áttum, um vettvang íslenskra stjórnmála. Frumvarpið lítilsvirðir lýðræðislega stjórnarhætti og grefur undan pólitísku lögmæti þeirra laga sem okkur er ætlað að búa við. Líta ber á þetta frumvarp sem stóran áfanga á langri og skuggalegri vegferð sem miðar að því að færa valdið úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa yfir til sérfræðinga sem settir hafa verið í valdastöður. Í stað réttarríkis, þar sem valdhafarnir þurfa sjálfir að lúta lögum, er verið að umbreyta réttinum í gamaldags valdboðsstjórnarfar, þar sem valdhafarnir fara sínu fram án þess að þurfa að lúta neinu aðhaldi. 

Á fyrrnefndum fundi utanríkismálanefndar varð mér ljóst að meirihluti þingmanna leggur meira upp úr ásýnd en pólitísku og lýðræðislegu lögmæti. Þetta birtist m.a. í þeirri nauðvörn helsta talsmanns frumvarpsins, að lög sem hingað eru send í pósti og Alþingi innleiðir án viðnáms og án umræðu teljist ,,íslensk lög" ekki síður en lög sem samin hafa verið út frá íslenskum aðstæðum og fengið viðunandi umræðu í þingsal. Með þessu eru stuðningsmenn frumvarpsins hættir að gera greinarmun á formi og efni. Með því að breyta lagasetningu Alþingis í innantóma skel er tekin sú áhætta að skelin verði, í fyllingu tímans, fyllt af reglum sem þjóna hagsmunum annarra en þeirra sem landið byggja.

Án andmæla?

Frammi fyrir þessu verða menn að stíga niður fæti og koma í veg fyrir að grafið sé undan burðarstoðum laga og lýðræðis hérlendis. Eða ætlar almenningur að horfa þegjandi upp á það að grafið sé undan Alþingi? Eru menn svo litlir í sér að þeir þori ekki að beita gagnrýninni hugsun og spyrja gagnrýninna spurninga? Ætlum við að sitja auðum höndum meðan lýðræðishefðir eru þynntar út og gerðar óvirkar?

Valdið skiptir um hendur en hverfur ekki

Íslendingar verða að átta sig á því að þegar valdið hverfur úr höndum kjósenda og kjörinna fulltrúa þeirra, þá hverfur það ekki út í tómið, heldur færist í hendur valdahópa sem þjóna eigin hagsmunum. Í þessum hópum situr fólk sem aðhyllist einhvers konar elítisma. Þar koma saman fulltrúar stórfyrirtækja og pólitískra valda, sérfræðingar og fjármálamenn, fræðimenn og fjölmiðlamenn. Þeir einu sem eiga sér ekki raunverulega fulltrúa á þessum fundum eru ég og þú, kæri lesandi. Okkar hlutverk í þessum nýja heimi er tvíþætt, þ.e. að borga og hlýða. 

 

  

 


Þakkir og brýning

Að loknu vel heppnuðu málþingi um sl. helgi í Reykholti hefur gefist tilefni til að íhuga margt sem þar kom fram. Um 50 manns lögðu á sig að ferðast um langan veg, en í lok dags var samhljómur um að ferðin hefði verið fyrirhafnarinnar virði. Sem dæmi um gæði erindanna sem flutt voru bendi ég á frábæra grein sem Þorsteinn Siglaugsson skrifar í Morgunblaðið í dag, ,,Sérfræðingarnir og fjötur ósjálfræðisins" en greinin er byggð á framsögu sem Þorsteinn flutti á málþinginu. 

Í grein sinni beinir Þorsteinn kastljósinu að ábyrgð sérfræðinga þegar kemur að þátttöku í lýðræðislegri umræðu og frjálsri skoðanamyndun. 

Ég hvet alla til að lesa grein Þorsteins, en vil um leið hvetja menn til að íhuga hvort hvert og eitt okkar taki nægilega ábyrgð eða hvort við fylgjum í blindni þeim sem vilja leika hlutverk ,,skoðanaleiðtoga". Leggjum við sjálfstætt mat á það sem við heyrum? Beitum við gagnrýninni hugsun? Varla er það göfugt markmið að leitast við að deyfa sig fyrir raunveruleikanum og leita huggunar í sýndarveruleika? 

Í grein Þorsteins er vísað til þess að sérfræðingar, fjölmiðlar o.fl. setji upp nokkurs konar leiktjöld í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að almenningur hugsi sjálfstætt. 

Í anda Sókratesar ber að minna á að það er skylda okkar að herða upp hugann, svipta leiktjöldunum til hliðar og skoða það sem við blasir í gagnrýnu ljósi. Aðeins þannig getum við orðið betri menn og lifað betra lífi, aðeins þannig getum við orðið virkir þátttakendur í lýðræðislegri umræðu og orðið fær um velja milli þess sem er rétt og rangt. 

Í stað þess að láta sérfræðingana leiða okkur inn í draumaland sýndarveruleika ber okkur að kasta af okkur hlekkjum óttans og hætta að láta berast með straumnum. Þetta er það sem Sókrates átti við með að ,,rannsaka líf sitt". Viðvörun hans á enn erindi við okkur, þ.e. að órannsakað líf er einskis virði. 

Það er ekkert göfugt við að kjósa að vera blindur á sjálfan sig og þora ekki að leita svara við stóru spurningunum, s.s. hver er ég, hver eru gildi mín, hverju vil ég áorka í lífinu, hvernig samfélag vil ég taka þátt í að móta, hverju trúi ég, hvaða hugsjónir vil ég standa vörð um? 

 

 


Reykholt kl. 11 á morgun

Málþingið hefst kl. 11 á morgun í Reykholti í Borgarfirði með ávarpi og sögulegu yfirliti sr. Geirs Waage. Aðalræðumaður dagsins verður prófessor Hans Petter Graver, sem flytja mun erindi að loknu hádegishléi. Fyrir og eftir ræðu HPG munu aðrir ræðumenn fara vítt og breitt um sviðið. Stefnt er að því að eftir hverjar 2 ræður muni gefast 15-20 mínútur fyrir frjálst samtal. [Smellið á myndina til að sjá nánari lýsingu]Málþing

Að málþinginu loknu, kl. 17.10, gefst viðstöddum færi á að sækja stutta tíðagjörð og andakt í Reykholtskirkju undir stjórn sr. Geirs og sr. Gunnlaugs Garðarssonar. Þar mun ég lesa úr Fjallræðunni og flytja hugleiðingu. 

Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og eiga góða og gefandi stund. 

 


Jarðvegur ógnarstjórnar

Ógnarstjórnir fyrri alda hafa sprottið upp úr jarðvegi þar sem einstaklingarnir voru kerfisbundið og miskunarlaust dregnir í dilka út frá því hvaða þjóðfélagshópi menn eru taldir tilheyra. Flokkunin getur byggst á útlitseinkennum, ,,hreinleika", skoðunum, trú, búsetu o.fl. Ógnarstjórnir 21. aldar munu byggja á sama grunni. Lykillinn er í því fólginn að sundra fólki, skipa þeim í ,,klíkur" og berja þannig niður það sem telja má kjarna mennskunnar, þ.e. frelsi sérhvers manns til hugsunar, tjáningar, lífsafkomu o.s.frv.

Með því að „klíkuvæða“ allt samfélagið, þ.e. með því að færa borgurunum þau skilaboð að þau tilheyri þessum eða hinum hagsmunahópnum og verði að samræma hugsanir sínar hagsmunum hópsins er jafnvægi og frið raskað.

Háskaleg þróun

Þróun í þessa átt er hættuleg því hún gerir einstaklinginn að óvirkum áhorfanda í hinu pólitíska og lýðræðislega ferli. Í stað rökræðu milli einstaklinga umbreytast stjórnmálin í baráttu mismunandi hagsmunahópa, þar sem einstaklingurinn er í algjöru aukahlutverki, ef nokkru. Klíkuvæðingin er andstæð lýðræðinu.

Klíkuvæðingin er drifin áfram af undirliggjandi andúð á lýðræðinu sem óskilvirku stjórnkerfi, þar sem ákvarðanataka sé langdregin, sem útheimti mikla fyrirhöfn. Klíkuvæðingin gefur mönnum kost á að höfða til lægstu hvata fólks, framkallar spillingu og elur á ófriði.

Staðan 

Nú er svo komið að í raun mætti segja að hagsmunahópar / klíkur hafi yfirtekið stjórnmálin í heild. Þessir hópar klæða málflutning sinn í búning hlutlausrar greiningar og nota fjármuni sína og aðgengi að ráðamönnum til þess að keyra hagsmunamál sín í gegnum þær stofnanir sem lögum samkvæmt er ætlað að vera „hliðverðir“ samfélagsins. Í framkvæmd birtist þetta sem algjört áhrifaleysi grundvallarstofnana / lýðræðislegra yfirvalda.

Í klíkusamfélaginu ber enginn ábyrgð. Þar hafa klíkurnar (hagsmunahóparnir) leyst borgarana af hólmi sem grunneining samfélagsins. Hlutverk einstaklinganna er aðeins að vinna í þágu hagsmunahópsins og framfylgja skipunum. Í slíku umhverfi þarf ekki að koma á óvart að einstaklingarnir fari að líta á sig sem fórnarlömb. 

Ef menn leggja ekki rækt við hlutverk sitt sem einstaklingar í lýðræðissamfélagi, ef þeir eru ekki minntir á ábyrgð sínar, skyldur og réttindi þá verða þeir óvirkir, afsala sér ábyrgð – og hætta að vera sjálfstæðir einstaklingar. Þess í stað verða þeir þá aðeins hluti af þessum eða hinum hópnum. Frumskylda þeirra er þá talin vera við hópinn, en ekki samfélagið sem slíkt. Einstaklingurinn er þá orðin algjör aukastærð í lýðræðislegu tilliti. Samtalið fer aðeins fram á milli hópa, iðulega í formi skítkasts. Þegar svo er komið verða menn að snúa til baka og rækta grunninn ef lýðræðið á ekki að leysast upp í sjónhverfingu.

Samantekt

Þessi klíkumyndun er stærsta ógnin við lýðræðið. Þess vegna er hún aldrei rædd af fyrirsvarsmönnum hagsmunahópanna. Til að flækja þessa stöðu horfum við upp á sambærilega þróun á alþjóðlega sviðinu þar sem stórfyrirtæki, þrýstihópar, alþjóðleg samtök, yfirþjóðlegar stofnanir keppa sín á milli og taka sér völd yfir þjóðríkinu. 

Ein afleiðingin af öllu þessu er sú innanlandsófriður verður sífellt herskárri, en á sama tíma minnka áhrif innlendra stjórnvalda og yfirþjóðlegt vald færist í aukanna.  

Við þessu þarf að bregðast með því að vekja fólk til meðvitundar um ábyrgð sína, kalla fólk til þess að hlusta eftir sinni innri rödd, sem er rödd skynseminnar og samviskunnar. Ég leyfi mér að birta þessar línur til að minna á að við berum ekki fyrst og fremst skyldur gagnvart klíkunni okkar, heldur gagnvart samfélaginu öllu.

Í málþingi í Reykholti nk. laugardag mun ég fjalla nánar um þetta og kalla eftir samtali. Ég hvet alla áhugamenn um vernd og viðhald lýðræðis til að mæta og taka þátt. 


Stálhöndin strýkur þér um vangann (2)

Fyrirsögnin, sem sótt í fyrri bloggfærslu, er of góð til að vera einnota. Meðan öfugþróun stjórnarfars í átt frá frjálslyndi til ofríkis heldur áfram, þá er réttara að nota þessa fyrirsögn sem þema til að lýsa þeirri óheillaþróun sem við blasir.

Gáfaðri menn en ég, þar á meðal C.S. Lewis, hafa hvatt okkur til að varast ,,velviljaða harðstjóra", þ.e. þá sem með vísan til ,,umhyggjusemi" eru tilbúnir að beita valdi til að geta ,,haft vit fyrir okkur". 

Á þessum grunni er verið að leggja skatta á flugferðir, leggja höft á notkun jarðefnaeldsneytis, banna díselbíla, hefta tjáningarfrelsið (undir merkjum ,,hatursorðræðu"), skikka alla í samræmda lyfjagjöf, berjast gegn sykri með skattlagningu og framselja lýðræðislegt vald í hendur ókjörinna sérfræðinga.

Í veröld sem verður ,,ný og góð" víkur enginn frá línunni sem vægðarlausu góðmennin hafa lagt, því öllum hefur verið kennt að ,,hugsa rétt". 

brave_new_world_1984-e1618820502562

 

 


Málþing í Reykholti 3. júní nk.

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá málþingi sem fram fer nk. laugardag undir yfirskriftinni ,,Endalok þjóðveldis - endalok lýðveldis?". Mbl 300523

Umfjöllunarefni málþingsins hverfast aðallega um vald, stefnumörkun og ákvarðanatöku. Hvar á valdið að búa: Í nándinni eða í fjarskanum? Fjallað verður um jafnvægislistina þarna á milli og hættuna sem fylgir því þegar menn missa frá sér myndugleika, aðild að valdakerfinu og þar með mennsku. Hver er staða manns sem býr við þau örlög að aðrir véla með hann og örlög hans? Rætt verður um forsendur þess að menn ráði sér sjálfir. Hvar liggja hin heilnæmu mörk í þeim efnum? Má greina samsvörun milli þess að Íslendingar gengust undir erlent konungsvald á 13. öld og aðstæðna nú á tímum? Rýnt verður í nauðsyn þess að tengsl valds og þjóðar séu skýr og ótvíræð. Rætt verður um mögulegar afleiðingar þess að ákvarðanataka um innviði og grunnstoðir færist úr landi.

Málþingið er opið og allir áhugasamir eru hvattir til þátttöku.

 

Málshefjendur verða:

Hans Petter Graver, lagaprófessor við Háskólann í Osló

Haraldur Ólafsson, formaður Heimssýnar

Jón Bjarnason, fyrrv. ráðherra

Arnar Þór Jónsson, formaður Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál

Þorsteinn Siglaugsson, formaður Málfrelsis

Ragnar Önundarson, fyrrv. bankastjóri

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband