Bannfæring í nafni umhyggju

Mbl baksíða 090623Baksíða Moggans í dag birtir skemmtilega mynd af myndarlegu og glaðværu fólki. Fyrirsögnin er líka falleg: ,,Endurmenntun HÍ í 40 ár og öllum opin". Á bak við léttleikann býr þó hreint ekkert grín, því fréttir vikunnar, um uppsögn Kristjáns Hreinssonar úr kennslustarfi við EHÍ, benda til að EHÍ sé í reynd ekki ,,öllum opin", a.m.k. ekki þeim skilningssljóu einstaklingum sem ekki hafa enn áttað sig á að runninn er upp tími guðlausrar hreintrúarstefnu sem kennir sig við ,,félagslegt réttlæti" (e. social justice). Í slíku andrúmslofti gildir, augljóslega, að hver sem vogar sér að efast um ríkjandi kennisetningar verður umsvifalaust bannfærður og gerður brottrækur.

Í þessu samhengi verður þó að taka fram og skilja, að bannfæringin er vitanlega gerð af umhyggjusemi og að æðstu prestar hinna nýju trúarbragða eru alls ekki á móti málfrelsi. Nú gildir einföld regla: Ef þú vilt ekki verða ritskoðaður, þá verður þú bara að passa þig á að segja ekkert rangt, ekkert sem bendir til efahyggju eða villutrúar. M.ö.o. verða menn að gæta þess að víkja ALDREI af braut réttrar hugsunar. Vei sé þeim sem ekki meðtaka þessi einföldu skilaboð og voga sér að efast um hinn opinbera sannleika, sem fréttastofur og fræðimenn færa okkur í útvarpsmessum fréttatímanna.

Þeir sem ekki láta segjast geta engum um kennt nema sjálfum sér þegar þolinmæði stjórnvalda þrýtur endanlega og lögreglan byrjar að handtaka þá sem voga sér að velja rangar hugsanir og röng orð. En við þurfum auðvitað ekki að hafa neinar áhyggjur, því það verður að sjálfsögðu gert til að verja frelsi almennings og stuðla að almennri velsæld. Amen.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband