Kafbátahernaður úr undirdjúpunum

Björn Bjarnason skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann harmar að „mál frá utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins sem nýtur stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þingmanna“ hafi verið stöðvað í utanríkismálanefnd. Meginástæðan fyrir þessari stöðvun málsins er sú að í meðferð nefndarinnar hefur opinberast að málið er mun alvarlegra, stærra, flóknara og viðsjárverðara en fyrsta umræða í þingsal gaf til kynna. Þar skautuðu þingmenn létt yfir þau stjórnskipulegu álitamál sem hér reynir á. Í því samhengi nægir að benda á grundvallaratriði í greinargerð með frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35, þar sem orðrétt segir:

Á grundvelli íslenskrar stjórnskipunar og af eðli EES-samningsins sem þjóðréttarsamnings leiðir að gerðir verða almennt ekki sjálfkrafa hluti íslensks réttar. Því verður að leiða þær í íslensk lög með þeim aðferðum sem íslensk stjórnskipun áskilur.

Með öðrum orðum stendur stjórnarskrá lýðveldisins í vegi fyrir því að höfð sé „skemmri skírn“ á innleiðingu EES reglna í íslenskan rétt. Frumvarp utanríkisráðherra gengur gegn stjórnarskrá og felur í sér ráðagerð um ólögmætt framsal á íslensku ríkisvaldi. Á fundi með utanríkismálanefnd benti ég á að þingmenn hafi ekkert umboð til að ráðstafa löggjafarvaldi með þessum hætti. Ef vilji þeirra stendur til slíks verða þeir að koma hreint fram gagnvart kjósendum sínum og vinna að framgangi málsins með lögmætum hætti, þ.e. með því að gera tillögu um breytingu á stjórnarskrá sem heimilar slíkt valdaframsal. Slík breyting á stjórnarskrá kallar á viðamikið ferli og tvöfalda þinglega afgreiðslu með þingkosningum á milli.

Ef það er rétt hjá Birni Bjarnasyni að „yfirgnæfandi meirihluti“ núverandi þingmanna sé fylgjandi því að vegið sé að lýðveldinu og lýðræðinu með því að reyna að keyra í gegn frumvarp um framsal valds sem gengur gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, þá kalla ég það alvarleg tíðindi og trúnaðarbrest gagnvart íslenskri þjóð og stjórnarskránni sem þingmenn hafa unnið drengskaparheit að. Aðferð stuðningsmanna frumvarpsins við að reyna að hraða málinu í gegn án alvöru umræðu og án viðhlítandi umfjöllunar í utanríkismálanefnd má kalla ólögmætt frumhlaup sem ber vott um óheilindi gagnvart stjórnskipun landsins, stjórnarskrá og kjósendum.

Sem Sjálfstæðismaður ætti Björn Bjarnason ekki að ráðast að persónu formanns utanríkismálanefndar, heldur þakka honum fyrir að vilja sýna aðgát og vandvirkni við meðferð svo illa ígrundaðs frumvarps. Tímabært er að Björn og aðrir þeir sem stunda kafbátahernað, úr undirdjúpunum, í þágu ESB innan Sjálfstæðisflokksins íhugi nú stöðu sína gagnvart sjálfum sér, flokknum og kjósendum flokksins sem aðhyllast grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um lýðræðislegt stjórnarfar, frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og fullveldi Íslands, sem flokkurinn var stofnaður um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband