Færsluflokkur: Bloggar
14.4.2024 | 07:28
Geir Ágústsson virtúós
Kæru lesendur.
Ykkur hefur verið gefin dýrmæt gjöf, sem er bloggsíða Geirs Ágústssonar, en Geir er einn beittasti penni Íslendinga nú á tímum. Færsla hans í gær er svo skýr og góð að ég hefði viljað skrifa hana sjálfur. Þegar ég las hana kom í hug sagan af því þegar Bjarni Thorarensen las Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson og sagði "Nú er mér bezt að hætta að kveða".
Tilvísuð færsla Geirs er hljóðar svo:
Höfum þetta bara alveg á kristaltæru: Flestir frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að leita að þægilegri innivinnu, og, ekki síður mikilvægt, mikilli athygli.
Þeir vilja ferðast til útlanda til að drekka kampavín með útlendingum.
Þeir vilja klippa á borða.
Þeir vilja vera þægir og óumdeildir.
Kannski var þetta allt í góðu einhvern tímann, en núna eru breyttir tímar. Alþingi er á fullu að innleiða beint og óbeint framsal á fullveldi Íslands til erlendra embættismanna.
Þingið er líka að reyna koma á fyrirkomulagi sem keyrir utan við stjórnmálin. Það er gert með því að setja lög sem leyfa ráðherrum að innleiða allskyns takmarkanir í gegnum reglugerðir. Heilu atvinnugreinarnar hafa nú þegar fengið að finna fyrir því.
Þingið er með veik hné. Minnisblað frá útlöndum fær það til að hrista og skjálfa.
Þingið reyndi að binda Íslendinga í skuldafangelsi fyrir ekki mörgum árum síðan. Það tókst ekki af því að fyrrverandi forseti ákvað að spyrja þjóðina.
Sem leiðir hugann að hlutverki forseta í dag.
Hann getur ekki lengur verið falleg sál sem gróðursetur tré eða klappar börnum. Forseti þarf að vera vakandi. Hann þarf að vera varðhundur. Stjórnarskráin heimilar þetta.
Því miður segja skoðanakannanir að Íslendingar ætli að kjósa gegnumstreymisloka frekar en varnagla.
Vonum að það breytist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2024 | 10:06
Undiraldan vex
Með hverjum deginum sem líður tengja fleiri við málflutning minn. Á ferð um landið finn ég sterka undiröldu sem bíður þess að brjótast upp á yfirborðið. Ég trúi því að þetta undirliggjandi þjóðfélagsafl muni fleyta mér langt í kosningunum. Úr Morgunblaðinu í dag má tilnefna tvær greinar sem tengjast beint þeim áherslum sem framboð mitt grundvallast á.
Leiðari Morgunblaðsins í dag hefst svona:
Áhyggjur af stöðu lýðræðisins hafa farið vaxandi í hinum frjálsa heimi undanfarin ár. Einræðisríkjum vex ásmegin, en pópúlisminn ágerist. Í Evrópusambandinu verður lýðræðishallinn sífellt brattari, og hvarvetna í þróuðum lýðræðisríkjum þar er Ísland ekki undanskilið trompar regluverkið bæði lýðræðið og einstaklingsfrelsið í síauknum mæli.
Þar ræðir um valdahnupl ókjörinna og ábyrgðarlausra embættismanna, lagatækna og hagsmunaafla, sem frekar færist í aukana en hitt. Sem aftur mun reynast vatn á myllu pópúlískra afla, en milli þeirra og möppudýranna kremst vestrænt, frjálslynt lýðræði.
Nýjasta dæmið um það hvernig ólýðræðislegar stofnanir hrifsa til sín völd frá almenningi er frá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) í Strassborg, sem í fyrri viku kvað upp dóm, sem í senn færir út kvíar dómstólsins og setur lýðræðið í annað sæti.
Í sama blað dagsins í dag skrifar Meyvant Þórólfsson, fyrrverandi háskólakennari, ágæta grein um forsetaframbjóðendur hinnar líðandi stundar. Mér þykir vænt um stuðninginn sem hann lýsir yfir við framboð mitt og er einnig hugsi yfir því sem hann nefnir um mögulegan þátt fjölmila í skoðanamyndandi fréttaflutningi. Grein Meyvants verðskuldar ekki annað en að vera birt í heild sinni og ég leyfi mér að láta hana fylgja hér:
Af vindhönum og forsetaefnum
Liðin eru 80 ár frá því að Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti þjóðhöfðingi frumbyggja þessa örríkis. Hann hlaut aldrei mótframboð og var því sjálfkjörinn forseti til dauðadags. Mótframbjóðendur Ásgeirs Ásgeirssonar árið 1952 voru tveir og Kristjáns Eldjárns árið 1968 einn. Hvorugur hlaut mótframboð í embætti. Sjálfhverfusóttin, sem nú geisar meðal frumbyggjanna, var sem sagt óþekkt fram eftir öldinni sem leið. Mótframbjóðendur næstu forseta voru jafnan þrír en núverandi forseta átta. Allir fengu þeir mótframboð í embætti. Nú er liðið hátt á aðra öld og sjálfhverfusóttin orðin að faraldri. Mótframbjóðendur sjöunda forseta lýðveldisins virðast nú á áttunda tug þótt framboðsfrestur sé enn drjúgur.
Hvað veldur?
Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan heiður að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni?
Trú á eigin getu? Íslendingar eru vissulega meðal hamingjusömustu þjóða heims samanber skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar. Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm. Spilling hefur einatt leikið okkur grátt. Jónas heitinn Kristjánsson tók svo til orða að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur.
Eða hugsa sumir þetta kannski sem grín? Höfuðborgin mun seint hjarna við eftir sirkus Besta flokksins fyrir áratug, gjörning sem var stundum rosalega skemmtilegur og fyndinn eins og meðhjálpari sirkusstjórans komst að orði. Bent hefur verið á tyrkneskan málshátt í því sambandi, verðan umhugsunar: Það að trúður flytjist í höll gerir hann ekki að kóngi, en höllina hins vegar að sirkus.
Eða er það vindhaninn á Bessastaðakirkju? Þegar Bessastaðir urðu að bústað forseta var gamli vindhaninn fjarlægður af turni kirkjunnar og kross settur í staðinn af virðingu við hina lútersku þjóðkirkju, enda þjóðhöfðinginn höfuð hennar. Á tveggja alda afmæli turnsins var krossinn fjarlægður og nýr vindhani settur upp til að geta séð hvernig vindar blása hér á Álftanesi eins og núverandi forseti komst að orði, en hann stendur utan trúfélaga eins og kunnugt er. Upplifa einhverjir hinna nýju frambjóðenda sig kannski eins og Pétur postula forðum, þegar hann afneitaði Jesú hyggjast þeir sum sé láta á það reyna hvort vindhaninn á turni Bessastaðakirkju taki upp á því að góla, eins og haninn í sögunni um Pétur, ef þeir stökkva á Siðmenntarvagninn og afneita Jesú og þjóðkirkjunni?
Eða áskorun til að mæta átakamálum?
Fyrsti forseti íslenska lýðveldisins fylgdi málum eftir af kyrrlátri festu og hógværð og var laginn við að laða til einingar andstæð sjónarmið, eins og Hermann Jónasson komst að orði. Þrátt fyrir hógværð og hæglæti hikaði Sveinn Björnsson sjaldan við að skipta sér af stjórnmálum með beinum eða óbeinum hætti. Hann kom hreint til dyranna í deilunni um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og einnig þegar synja þurfti beiðni um þingrof.
Átakamálin voru mörg í þá daga; þau eru enn fleiri nú og erfiðari. Forsetaefnið sem á endanum verður kosið er þess vegna ekki öfundsvert. Framar öllu skyldi það forðast þá glýju í augum að verða óumdeilt sameiningartákn, er ferðist um í svartri bifreið með blaktandi fána og sitji tedrykkjur þess á milli með erlendum þjóðhöfðingjum eða setji popphátíð í páskabyl norður við heimskautsbaug.
Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar í húfi
Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar. Hann er staðfastur og laus við hégómlegar hugargælur samanber orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur. Og hann sækist síst af öllu eftir sviðsljósinu svo notuð séu hans orð.
Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi. Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikst í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði. Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB og fleiri alþjóðlegra stofnana. Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur sem stafa af bókun 35 og síðast en ekki síst þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér að ástæðulaust sé að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigst til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá fyndnasta föstudagssófa veraldar, og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents. Miðvikudagskvöldið 3. apríl tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem sterka frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin að RÚV segi henni hverjir komi til greina sem forsetaefni?
Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2024 | 08:33
Glatað lýðræði?
Til hvers erum við að kjósa forseta? Til hvers kjósum við þingmenn? Er það ekki til að vera ráðsmenn, umsjónarmenn eigna okkar, vörslumenn hagsmuna okkar? Þessir fulltrúar eiga að vera hollir og dyggir þjónar sem starfa fyrir fólkið í landinu - ekki fyrir sig sjálfa og ekki fyrir flokkinn sinn heldur fyrir þjóðina.
Það er ekki réttur kjörinna fulltrúa, heldur skylda þeirra, að gera allt sem hagsmunir og þarfir þjóðarinnar kalla á sé það innan ramma laga og stjórnarskrár.
Blákaldur pólitískur veruleiki Íslendinga er sá að engu skiptir hvaða flokka fólk kýs því við stöndum alltaf frammi fyrir sömu niðurstöðu þar sem ríkisvaldið þenst út á kostnað einstaklinganna og borgaralegs frelsis.
Framboð mitt til embættis forseta Íslands er hugsað sem mótvægi; mótframboð gegn aðgerðaleysi - og andvaraleysi - kjörinna fulltrúa. Eins og mál hafa þróast hérlendis á síðustu árum þolir erindi mitt enga bið vegna þess að ef engin breyting verður á mun lýðræði okkar halda áfram að veikjast og jafnvel glatast.
Það er afar mikilvægt að þjóðin velji sér forseta sem mun standa vörð um lýðræðið, frelsi okkar og sjálfstæði.
[Greinin birtist fyrst á www.visir.is 11. apríl 2024]
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2024 | 09:57
Þjóðarskútan þarf styrka stjórn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2024 | 08:38
Sannleikurinn frelsar
Á páskum gefst tóm til íhugunar og lestrar. Rit Dr. Sigurbjörns Einarssonar geyma mörg gullkorn sem gefa kraft og styrk. Undir yfirskriftinni ,,Sannleikurinn sem frelsar" segir Sigurbjörn frá því að árið 1880 hafi verið byrjað að reisa alþingishús í Reykjavík.
Það var æði stórmannleg ákvörðun, sem lýsti áræði fátækrar en vaknandi þjóðar.
Þegar að því kom að leggja skyldi hornstein hússins, þurfti að velja spakleg orð til þess að letra með honum í grunninnn. Fyrir vali urðu orð Krists: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Þau eru skráð á skilfurskjöld í hornsteini Alþingishússins.
Sextíu árum síðar höfðu Íslendingar reist sér veglegt háskólahús. Í því húsi er kapella eða kirkja. yfir altari þess helgidóms í musteri íslenskra vísinda eru skráð gullnu letri sömu orð: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.
Tvö hinna tignustu húsa Íslendinga eru helguð þessum einkunnarorðum. Það er auðsætt að þau hafa þótt tilkomumikil.
Ein fátæk kirkja af mörgum íslenskum var máluð fyrir nokkrum árum. Ágætur listamaður bauðst til þess að skreyta hana fyrir ekkert. það var þegið með þökkum. Vel þótt við eiga að mála ritningarorð á kórbogann. Og þessi orð voru valin: Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Þar standa þau stóru og fögru letri skráð, meira segja á latínu.
Hver og einn þarf að velja hvert athyglin beinist hverju sinni. Þessu vali mætum við á hverjum degi. Veljum við sannleika, fegurð, heiðarleika, kærleika og frelsi eða ætlum við að byggja líf okkar á ósannindum, ljótleika, sviksemi, illsku og helsi? Ég vona að ég sé að skynja hjörtu Íslendinga rétt, og að hver og einn vilji setja athygli og orku í það sem er satt, rétt, fagurt og gott. Með réttu vali breytum við aðstæðum okkar til hins betra, því það sem við veitum athygli vex. Þá eigum við bjartari og betri tíma framundan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2024 | 10:34
Við höfum ekki ótakmarkaðan tíma
,,Íslenska þjóðin verður öllum öðrum fremur, vegna smæðar sinnar, að geta byggt traust og vonir á hverjum einasta hlekk, hverjum einasta einstakling." Jóhann Hafstein, Þjóðmálaþættir (Almenna bókafélagið 1976), bls. 32. Þessi orð, sem ég rakst á í gærkvöldi, ríma vel við meðfylgjandi texta sem birtist á bls. 5 í helgarútgáfu Moggans. [Smellið til að stækka].
Í forsetakjöri 1. júní nk. gefst Íslendingum einstakt tækifæri til að velja sér þjóðkjörinn forseta í beinni kosningu. Fáar þjóðir hafa tækifæri á slíku. Viljum við velja fulltrúa fjárhagslegrar / pólitískrar elítu eða viljum við velja mann sem er óháður slíkum öflum? Með framboði mínu vil ég veita Íslendingum tækifæri til að eiga rödd á ríkisráðsfundum og víðar, þar sem tækifæri gefst til að minna kjörna fulltrúa og ókjörna valdamenn á að það er þjóðin sem er hinn sanni valdhafi. Sá maður þarf að vera óháður flokksaga og kunna að standast hópþrýsting. Samviska hans og sannfæring mega ekki vera til sölu. Þetta þarf að vera maður sem þorir að tjá sannfæringu sína óttalaust. Þessi maður þarf að treysta sér til að efast þegar allir aðrir virðast sannfærðir. Ég treysti mér til að gegna þessu mikilvæga hlutverki og vona að Íslendingar treysti mér til þess einnig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2024 | 10:26
Daglegt val markar lífsbraut okkar ... og heilindi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2024 | 22:30
Hvað skortir íslensku þjóðina mest?
Einu sinni efndi íslenskt tímarit til verðlaunasamkeppni um svar við spurningunni: Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Hvert er svarið? Ekki snjallasta heldur sannasta svarið?
Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: Vér eigum menn. Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það land er auðugt, sem á menn. Jónas kvað fyrir meira en 100 árum:
eyjan hvíta / átt hefur sonu fremri vonum.
Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku. Og það land er ekki ríkt, sem er fátækt að slíkum mönnum, þótt fjölmennt væri og fésælt. Sú þjóð er ekki að vaxa og ekki að auðgast, þó hún vaxi að höfðatölu og auratali, sem rýrnar að manndómi, tapar á vettvangi trúmennsku, bindindissemi, grandvarleiks, ábyrgðarvitundar, samviskusemi. Sú þjóð er ekki að dafna sem gerist hirðulaus um hugarfar sitt, sinnulaus um sál sína. Sú kynslóð er ekki upplýst, sem afrækir uppbyggingu hins innra manns, hversu fjölfróð sem hún kynni að vera. Slík lýðmenntun og landsmenning, sem hefur annað í fyrirrúmi en það, sem miðar að innri vexti og þroska einstaklinganna, horfir ekki fram, heldur aftur, hversu glæst sem hún kann að vera á ysta borði. Það fólk er ekki á leið inn í jarðneskt sæluríki, sem hættir að líta til himins, hversu mjög sem hagir vænkast, þægindi aukast, öryggi vex. Það eru meiri líkur á að slík kynslóð sé á leið ofan í þá jörð sem hún prettar um himininn, niður í dýflissu af einhverju tagi, svarthols sinnar eigin jarðhyggju, sinnar eigin tækni, í tröllahelli, sem gín að baki hillinganna, ef hún lýkur þá ekki ferli sínum í ófæru þeirrar styrjaldar, sem guðvana girnd, vitfirrtir vítisórar og djöflatrú æsir á hendur henni.
[ ] Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Þú veist það svo vel. Það er meira af heilskyggni, fleiri slíkir menn. Viltu ekki að þínum hluta bæta úr þeim skorti?
Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (Skálholtsútgáfan 2006) 275-278.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2024 | 14:11
Forsetinn, málfrelsið og lífæð lýðræðisins
Ísland er á hraðri leið undir áhrifavald ESB. Sú vegferð nýtur stuðnings flestra þingflokka á Alþingi Íslendinga. Sú afstaða þingmanna afhjúpaðist á fundi með utanríkismálanefnd 9. maí 2023.[1] Með framlagningu frumvarps um bókun 35 er stefnan mörkuð, en frumvarpið miðar að því að lögfesta, sem almenna meginreglu, að íslensk lög skuli víkja fyrir reglum ESB ef árekstur verður.
Hvað þýðir þetta fyrir Íslendinga? Svar: Samhliða því að stöðugt fleiri málaflokkar eru felldir undir EES samninginn mun ákvörðunarvald í stórum málaflokkum flytjast frá Alþingi til ESB, eins og þegar liggur fyrir á sviði orkumála. Þetta mun hafa þau áhrif að við missum ekki aðeins frá okkur lögin, heldur einnig völdin. Í framkvæmd mun þetta auka hættu á að Íslendingar missi úr sínum höndum eignarhald og yfirráð yfir landinu, vatninu, rafmagninu og sjávarútveginum. Í stuttu máli þýðir þetta að við munum missa frá okkur frelsið og sjálfsákvörðunarréttinn.
Íslendingar verða að átta sig á að í ráðherraráði ESB ráða stærstu ríkin för og stöðugt fækkar þeim málaflokkum þar sem enn er krafist einróma samþykkis aðildarríkjanna. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir að ríki geti beitt neitunarvaldi á sviði orkumála eða sjávarútvegs. Með afhendingu íslensks ríkisvalds til fjarlægra stofnana er grafið undan sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga.
Þegar þráðurinn milli valdsins og borgaranna hefur verið rofinn með þessum hætti erum við á háskalegri leið, þar sem burðarstoðir lýðræðisins falla: Í stað þess að viðurkennt sé að valdið stafi frá þjóðinni og að ríkið sé þjónn fólksins er lagt til grundvallar að valdið komi frá ríkinu og að fólkið þjóni ríkinu.
Frammi fyrir þessu verður að minna á, í aðdraganda forsetakosninganna, að tilgangur ríkisvalds er ekki að veita réttindi, heldur að tryggja þau og verja. Hvert og eitt mannsbarn, hver og einn Íslendingur, er dýrmætur, mikilvægur og einstakur. Því þarf rödd hvers og eins að fá að heyrast. Til að raddirnar hljómi, svo að valdhafar heyri, þurfum við að hafa hugrekki til að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tala út frá eigin brjósti. Slík tjáning og slíkt samtal er frumforsenda þess að þráðurinn slitni ekki milli valds og borgara. Í þessu samhengi er málfrelsið í raun lífæð lýðræðisins, sem hvorki má stífla né rjúfa.
Sem verndari stjórnarskrárinnar og íslensks lýðræðis hefur forseti lýðveldisins það hlutverk að tala kjark og þor í þjóðina þannig að hún rísi upp, taki ábyrgð á tilveru sinni og finni styrk til að standa gegn ofríkistilburðum innlendra valdamanna, erlendra ríkja og fjarlægs stofnanavalds.
[1] Sjá nánar umsögn sem kynnt var á fundinum: https://www.althingi.is/pdf/erindi_mals/?lthing=153&malnr=890
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2024 | 15:37
Rödd fólksins í landinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)