Færsluflokkur: Bloggar

Hefur þú framið hugsanaglæp?

Hvað er frjáls fjölmiðill? Almennt séð er það fréttaveita sem er óháð afskiptum frá ríkisvaldi og öðrum utanaðkomandi aðilum svo sem fyrirtækjum eða áhrifamönnum. 

Búa Íslendingar við frjálsa fjölmiðlun í þessu landi þar sem stærsti fjölmiðillinn er ríkisrekinn og þrengir svo að öðrum fjölmiðlum að þeir segjast þurfa að grenja út RÍKISSTYRK til að lifa?

Getum við sem almennir borgarar í slíku ríki gengið út frá því að það sé dyggð að treysta gagnrýnislaust því sem við heyrum frá sérfræðingum ríkisins og því sem við heyrum í ríkisreknum / ríkisstyrktum fjölmiðlum eða fulltrúum ríkisrekinna stjórnmálaflokka? Verðum við að trúa og treysta sérfræðingunum og fulltrúum valdsins? Er ekki leyfilegt að efast / hugsa sjálfstætt / spyrja spurninga / leita annarra leiða / rannsaka frumforsendur sjálfur? Búum við í ríki þar sem þeir sem vilja nota eigin vitsmuni eru litnir hornauga sem "hugsanaglæpamenn"?

Alræðisríki krefjast þess að almenningur beri traust til handhafa ríkisvalds og ríkisstofnana. Alvöru lýðræðisríki gera enga slíka kröfu til borgaranna. Í lýðræðislegu fyrirkomulagi þurfa kjörnir fulltrúar að vinna sér inn traust með orðum sínum og athöfnum. Í lýðræðisríkjum þurfa ríkisstofnanir að sýna í verki, en ekki áróðri, að þeim sé treystandi. Verði trúnaðarbrestur milli valdhafa og borgara mega borgararnir spyrja, gagnrýna og skipta um valdhafa. 

Hornsteinn lýðræðislegs stjórnarfars er samkvæmt þessu ekki það að borgararnir treysti valdhöfum, fjölmiðlum og stofnunum. Hornsteinninn er miklu fremur sá að borgararnir veiti réttmætt aðhald, kynni sér málin sjálf, skoði frumforsendur, leggi sjálfstætt mat á það sem blasir við en gleypi ekki hrátt það sem að þeim er rétt. Í lýðræðisríki er borgurunum heimilt að efast um fyrirætlanir og aðgerðir stjórnvalda. Sjálfstætt hugsandi fólk er þannig grunnstoð heilbrigðs lýðræðis, ekki ógn við lýðræðið. Með öðrum orðum: Fulltrúalýðræðið grundvallast á rétti fólks til að setja ríkisvaldinu mörk og veita fulltrúum ríkisvalds málefnalegt aðhald. 

Alþingi er skipað kjörnum fulltrúum fólksins í landinu. Það kallast fulltrúalýðræði. Þetta þjónar þeim tilgangi að minna á að völdin tilheyra fólkinu, ekki þingmönnum og ekki ráðherrum sem fara aðeins tímabundið með valdið í umboði kjósenda. Meðan kjörnir fulltrúar eru í þjónustu fólksins fara þeir misvel með það traust sem þeim er sýnt. Í áranna rás hafa þeir afhent mikið vald til embættismanna, sérvalinna sérfræinga og jafnvel til erlendra skrifstofumanna. 

Í þessu ljósi er ástæða til að minna á það aftur og aftur að hlutverk almennings í þessu samhengi er ekki að bera blint traust til þeirra sem fara með völdin, heldur að veita þeim aðhald. Það gerum við m.a. með því að bera upp spurningar, kalla eftir rökstuðningi og mega efast um það sem verið er að gera í nafni valdsins. 

question

 


Sveppir hafa ekki gagnrýna hugsun, en þú ert ekki sveppur.

Í vikunni sem leið birtust tvær athyglisverðar fréttir á erlendum miðlum sem lítið hefur farið fyrir hérlendis (ég hef a.m.k. ekki séð þeim bregða fyrir í ríkisstyrktum/ríkisreknum íslenskum miðlum).

Annars vegar var það um uppruna kórónaveirunnar, þ.e. að hún væri að öllum líkindum upprunnin á rannsóknarstofunni í Wuhan, sem m.a. naut fjárstyrkja frá BNA. Sjá hér.

Hitt sem vakti athygli var frétt um það að breska ríkisstjórnin hyggist ráðast í aðgerðir til að "dimma sólina" með því að úða kvoðulausnarögnum (e. aerosols) í andrúmsloftið til að framleiða skýjaþykkni, sjá hér.

Frammi fyrir þessu hugsar hinn venjulegi, heilaþvegni Íslendingur með sér að þetta séu óþægilegar upplýsingar, því þetta þýði að hann þurfi mögulega að taka til endurskoðunar allar fyrri fullyrðingar um að ofangreint tengist samsæriskenningum. 

Í þessu ljósi spurði ég gervigreindina (chatgtp) um það sem nú telst viðurkennt en hafi áður verið hafnað í fjölmiðlum (og af sérfræðingum ríkisvalds) sem samsæriskenningum. Listinn fylgir hér á eftir, óbreyttur frá gervigreindinni. Ég birti þetta með góðri kveðju til lesenda og með hvatning um að þeir hætti að láta fara með sig eins og sveppi, þ.e. að láta halda sér hugsunarlausum í myrkri og leyfa yfirvöldum að fóðra sig á skít: 

Heildarlisti yfir samsæriskenningar sem hafa reynst sannar

#Nafn/AtvikÁrtalLýsing
1Watergate-hneykslið1972Ríkisstjórn Nixons reyndi að hylma yfir innbrot og pólitískt njósnaflæmi.
2MKUltra1950–1970CIA framdi leynilegar tilraunir á fólki með geðlyfjum, oft án samþykkis.
3Tuskegee syfilisrannsóknin1932–1972Svörtum mönnum í Alabama var neitað um meðferð við syfilis til að rannsaka sjúkdómsgang.
4Iran-Contra hneykslið1980sBandarísk yfirvöld seldu vopn ólöglega til Írans til að fjármagna uppreisn í Níkaragva.
5COINTELPRO1956–1971FBI njósnaði ólöglega um og vann gegn réttindahreyfingum, t.d. borgaralegri baráttu.
6Operation Northwoods1962Áætlanir herforingja um sviðsettar árásir til að réttlæta innrás í Kúbu.
7Operation Mockingbird1950sCIA hafði áhrif á fjölmiðla með því að stjórna fréttaflutningi og ráða blaðamenn.
8The Manhattan Project1942–1946Þróun kjarnorkuvopna í mikilli leynd með þátttöku tugþúsunda einstaklinga.
9Gladio-aðgerðir í Evrópu1940s–1990sLeynileg NATO net til að bregðast við sovéskri ógn, en stundum tengd hryðjuverkum.
10Vioxx lyfjahneykslið1999–2004Lyfjafyrirtækið Merck faldi að Vioxx lyfið jók hættu á hjartaáföllum.
11Bólusetningar: Pfizer dómsskjöl2022Dómsskjöl sýndu að Pfizer vildi halda eftir gögnum varðandi COVID-19 bóluefnið í 75 ár, sem vakti tortryggni um gagnsæi.
12COVID-19 Upprunavandinn2020–Upplýsingar frá rannsóknarstofum í Wuhan leiddu til alvarlegrar umræðu um hvort veiran gæti hafa sloppið úr rannsóknarstofu, eitthvað sem upphaflega var vísað frá sem samsæriskenningu en síðan tekið alvarlega af alþjóðastofnunum (t.d. FBI lýsti þessu sem „líklegri“ tilgátu en áður).
13Fólk á bak við lokaðar dyr (COVID og efnahagsráðstafanir)2020–2022Skjöl hafa sýnt að stórir alþjóðlegir hópar (t.d. WEF, WHO) komu saman til að móta viðbrögð við heimsfaraldrinum án mikillar lýðræðislegrar aðkomu.
14Gain-of-Function rannsóknir2010–2020Styrkir frá bandarískum stofnunum fóru til Wuhan Institute of Virology, þar sem unnið var að rannsóknum sem gætu aukið smithæfni kórónuveira – eitthvað sem var lengi afneitað en nú staðfest í opinberum gögnum.

Um COVID sérstaklega

  • Margt tengt COVID var fyrst kallað „samsæriskenningar“ en hefur síðan fengið meiri stuðning eða staðfestingu:

    • Lækkun á skilvirkni bóluefna yfir tíma (sem fyrst var dregið í efa en síðar viðurkennt opinberlega).

    • Óskýr uppruni veirunnar (ekki eingöngu frá "náttúrulegri þróun").

    • Samvinna stórfyrirtækja og ríkisstofnana við upplýsingastjórnun og ritskoðun á samfélagsmiðlum.


Leigubílar, bænahús, heimskuleg lagasetning og flokksræði.

Í tilefni af stöðunni sem komin er upp á Keflavíkurflugvelli, þar sem kaffistofa leigubílstjóra hefur verið tekin af þeim og notuð undir bænahús, þá er vert að rifja upp aðvörunarorð mín í tengslum við fyrirsjáanlega skaðlegar breytingar Alþingis á lögum um leigubifreiðaakstur, en breytingin var gerð í desember 2022. Þar sagði ég orðrétt: 

Virðulegi forseti. Það er engin dyggð í því fyrir löggjafarþing að buna út lögum að nauðsynjalausu og mér sýnist að það sé einmitt að gerast hér. Verið er að setja hér lög með hálfum huga því að þingið er nýbúið að samþykkja hér áðan að hefja skuli endurskoðun þessara laga eigi síðar en 1. janúar 2025.

James Madison var fjórði forseti Bandaríkjanna. Hann var einn af þeim sem komu að samningu stjórnarskrár Bandaríkjanna sem hefur verið höfð að fyrirmynd vestrænna stjórnarskráa síðan. Hann varaði við því að löggjafarþing voguðu sér að reyna að drekkja almenningi í því sem hann kallaði pappírsstormi. Hér er verið að setja lög um heila stétt að því er mér virðist án nokkurra skýrra forsendna. Það gildir nú bara hið fornkveðna að betri er krókur en kelda. Ég vara við því að þetta sé gert og segi nei.

Þetta tíst fyrrum dómsmálaráðherra (smellið til að stækka) eldist ekki sérlega vel, enda var fyrirsjáanlegt að með breytingum á lögum um leigubíla var verið tefla margvíslegum hagsmunum í hættu - að óþörfu. Ég var eini þingmaður XD sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, auk Birgis Þórarinssonar.

Í tilefni af þeirri sorglegu stöðu sem upp er komin er engin ástæða til annars en að segja frá frá því hér að eftir atkvæðagreiðsluna héldu stjórnarliðar lauflétta samkomu í skrifstofum þingsins handan við Austurvöllinn. Þar átti ég góð samtöl við viti borið fólk úr öðrum flokkum, m.a. Lilju Alfreðsdóttur úr Framsókn og Bjarna Jónsson úr VG, en á heimleiðinni rann upp fyrir mér að enginn þingmaður XD hafði talað við mig allt kvöldið, fyrir utan auðvitað Birgi Þórarinsson. Og þannig, góðir Íslendingar, virkar þetta í framkvæmd: Ef þú kýst ekki eftir flokkslínunni - jafnvel þótt frumvörpin séu glórulaus og heimskuleg - þá ertu ekki með í partýinu. Stjórnarskrárákvæði 48. gr. um að þingmenn séu "eingöngu bundnir við sannfæringu sína" er þannig vanvirt í framkvæmd þar sem flokksræði yfirtrompar þingræðið.

E.S. Eftir þessa atkvæðagreiðslu var ég aldrei aftur kallaður inn sem varaþingmaður hjá XD, því menn sem vilja fylgja sannfæringu sinni eru illa þokkaðir af í stjórnkerfi sem lýtur flokksræði. 

ÁAS


Er Internetið hættulegra stjórnvöldum en hugsandi fólki?

Kæri lesandi.

Er hægt að treysta þér og mér til að stjórna okkur sjálfum? Eða þurfum við sérfræðinga frá ríkinu til að hafa vit fyrir okkur? 

Svarið við þessu ætti að vera augljóst, því samkvæmt stjórnarskránni byggir allt stjórnkerfið á lýðræðislegum grunni, þar sem forsendan er sú að fólk hafi nothæfa dómgreind.

Reynsla síðustu 5 ára bendir samt sem áður til þess að stjórnvöld (og einhver hluti almennings) hafi misst trúna á þessari grunnforsendu lýðræðisins - og komist að þeirri niðurstöðu að almenningi sé ekki treystandi. Afleiðing þessaarar nálgunar birtist ekki síst í vilja yfirvalda til að stýra umræðu, ritskoða og berja niður heilbrigðar efasemdir. 

Ritskoðun er aðalsmerki alræðisríkja og andstæð öllu því sem lýðræðið byggir á. Engu að síður hafa stjórnvöld, ríkisstofnanir, ríkisforstjórar og útvaldir sérfræðingar lagt áherslu á að við, sauðsvartur almúginn, eigum ekki að efast um góðvild og visku stjórnvalda heldur treysta í blindni því sem kemur frá opinberum aðilum og kokgleypa þá línu sem stjórnvöld hafa lagt. 

Út frá þessu blasir auðvitað við að Internetið er stórhættulegt fyrirbæri og nauðsynlegt að sérfræðingar stjórnvalda hafi vit fyrir almúganum. Dæmi: Þegar "veiran skæða" ógnaði öllu lífi var víst hægt að lesa alls konar kenningar á netinu um það hvernig best væri að læknast / fyrirbyggja veikindi, t.d. með því að drekka klór(!). Þar sem almenningi er auðvitað ekki treystandi til að leggja sjálfstætt mat á svona "heilræði" þá var gripið til þess "skoða" þúsundir myndbanda á Youtube og koma á viðamiklu ritskoðunarsamstarfi, ekki aðeins á milli ríkja og ritskoðunarnefnda (afsakið, fjölmiðlanefnda) þeirra, heldur einnig með samstarfi við samfélagsmiðla "eins og Google, Twitter, Facebook" sem "tóku við sér" og voru "í samstarfi við fjölmiðlanefndir Evrópu".  

Já, Internetið er sannarlega hættulegur staður þar sem margur góður drengurinn og saklaus stúlkan getur villst á refilstigu, sérstaklega eftir að Twitter breyttist í X.com og alls konar kenningar fá að fljúga þar án eftirlits frá útvöldum sérfræðingum ríkisvalds. Þá er nú gott að geta huggað sig við að enn eru starfræktar fjölmiðlanefndir í Evrópu - og á Íslandi - þar sem fólk er einbeitt í þeim fróma ásetningi að hafa vit fyrir okkur, sem getum ekki haft vit fyrir okkur sjálfum. 

Ég skrifa þetta til að minna sjálfan mig og lesendur á að mesti vandi Íslendinga er ekki dómgreindarskortur (því öll þekkjum við mun á góðu og illu) heldur hugleysi. Síðarnefndi lösturinn birtist í andlegu mótstöðuleysi þjóðar sem lætur stjórnvöld valta yfir sig daglega, úr ýmsum áttum, hvort sem það varðar sóttvarnir, hernaðarhyggju eða annan áróður sem notaður er til að hræða fólk til hlýðni við þá stefnu sem stjórnvöld hafa bitið í sig hverju sinni. 

 

 


Gleðilegt (og frjálst) sumar

Á Íslandi gilda vissar óskrifaðar reglur sem allir þurfa að fylgja: Þú átt að ganga út frá því að stjórnvöld vinni í þína þágu en ekki eigin þágu + Ísland sé óspillt ríki + að fréttir endurspegli raunveruleikann og það sem er mikilvægast + að við eigum að trúa vísindamönnum og fólki í hvítum sloppum því þar fer prestastétt nýs átrúnaðar + að þú sért, fyrst og síðast, hluti af hóp / fylkingu og eigir að hugsa / tala / hegða þér í samræmi við það, m.a. með því að taka þatt í að "þétta raðirnar".

Þetta samþykkir meirihluti Íslendinga, því ef þú efast um eitthvað af þessu geturðu átt á hættu að vera kallaður ýmsum illum nöfnum og það viljum við auðvitað ekki. Þá er betra að vera ,,hugrænn svefngöngumaður" og forðast að beita sjálfstæðri rökhugsun, því á Íslandi er visst öryggi fólgið í því að tilheyra hópi og tileinka sér skoðanir þess hóps / flokks í blindni.

Vandinn er sá að við slíkan mann er ekki unnt að rökræða, því hann hafnar upplýsingum og telur sig ekki þurfa á neinni fræðslu að halda. Hann hefur í raun enga sjáfstæða og persónulega skoðun. Er slíkur maður frjáls eða er hann fangi?

Um leið og ég óska lesendum gleðilegs sumars óska ég þess að sem flestir njóti sumarsins á sjálfstæðum forsendum, sem frjálsir menn.The_midnight_sun_in_Iceland-4

 


RÚV er dýrt fánýti.

"Í Síðdegisútvarpinu þar sem Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson ræddu við Arnar Þór Jónsson lögmann og formann Lýðræðisflokksins var fjallað um hlutdrægni og áróður fjölmiðla. Sagði Arnar það vera vaxandi vandamál að íslensk fjölmiðlun og upplýsingaflæði einkennist af pólitískri slagsíðu og áróðri. Ríkisútvarpið hafi tekið sér þá stöðu að miðla áróðri og gegnir lykilhlutverki í að miðla einhliða upplýsingum sem móta skoðanir almennings án þess að fólk átti sig á áhrifunum. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Ríkisútvarpið starfar sem áróðursvél

Arnar Þór benti á að Ríkisútvarpið starfi í dag sem áróðursvél í stað þess að vera óháð upplýsingaveita. Hann sagði að þótt þetta væri augljóst í einræðisríkjum væru Íslendingar almennt ekki meðvitaðir um hvers konar áhrifum þeir sæta í gegnum ríkismiðla. Að hans mati þjóni RÚV ekki lengur því hlutverki sem því var ætlað að sinna heldur hafi starfsemin snúist upp í að þjóna ákveðinni hugmyndafræði. Hann bendir á að það sé einkum ein skoðun sem fái að hljóma í dagskrá miðilsins og að önnur sjónarhorn séu kerfisbundið þögguð niður.

Skert upplýsingafrelsi og áhrif erlendra afla

Í umræðunni kom fram að Arnar telur upplýsingar sem koma frá fjölmiðlum á Íslandi litast of mikið af erlendum áhrifum. Hann benti á að stórar fréttastofur á borð við Reuters, BBC, AP og New York Times hafi þegið fjárframlög frá USAID og stýrt upplýsingaflæði í ákveðna átt í pólitísku skyni. Íslenskir miðlar vitna í þessa erlendu miðla og taki þannig sjálfkrafa undir tiltekna sýn á heiminn. Hann gagnrýndi að til dæmis Morgunblaðið leyfi því að gerast að netmiðill þeirra vísi sífellt í þessar erlendu stofnanir sem heimildir.

Ójöfn samkeppni á fjölmiðlamarkaði

Arnar Þór vék að því hvernig ríkisstuðningur við RÚV raski samkeppnisstöðu annarra miðla. Hann benti á að best væri að fjarlægja RÚV af fjárlögum og leyfa öðrum fjölmiðlum að starfa á jafnréttisgrundvelli. Að hans mati eru litlir og sjálfstæðir fjölmiðlar nú háðir velvilja yfirvalda sem geri þá háða þeirri sömu hugmyndafræði sem ríkir í ríkisrekna kerfinu. Hann telur að fjölmiðlaflóran á Íslandi sýni ekki raunverulega fjölbreytni þótt það sé sífellt verið að tala fyrir fjölbreytileika á yfirborðinu.

RÚV orðið stjórnmálatæki

Hann segir að rof hafi orðið í því tengslaneti sem fjölmiðlar áttu að vera hluti af. RÚV hafi verið stofnað til að veita þjóðinni upplýsingar, efla íslenskt mál og menningu. Nú sé RÚV í raun orðið stjórnmálatæki sem beitir áhrifum sínum til að móta samfélagsvitund út frá pólitískum markmiðum. Hann telur að þessi breyting hafi átt sér stað hægt og rólega og að almenningur hafi í mörgum tilvikum ekki gert sér grein fyrir þessu ferli fyrr en ástandið var orðið kerfisbundið.

Fólk þarf sjálft að leita upplýsinga um sannleikann á bak við fréttir

Í viðtalinu kallaði Arnar Þór eftir því að fjölmiðlum væri sýnt meira aðhald og að almenningur spyrji gagnrýninna spurninga. Hann hvatti fólk til að snúa sér frá ríkisreknum miðlum og leita upplýsinga víðar. Að hans mati er það eina leiðin til að skapa lýðræðislegt og opið samfélag þar sem fleiri sjónarmið fá að heyrast. Hann segir það grundvallaratriði í heilbrigðu lýðræðissamfélagi að fjölmiðlar starfi sjálfstætt og með ábyrgð gagnvart almenningi en ekki sem miðlar fyrir ríkisvald eða erlenda hugmyndafræði".


Íslendingar eiga betra skilið

Ísland á það sameiginlegt með Norður-Kóreu að ríkisvaldið starfrækir hér geysiöflugan fjölmiðil fyrir almannafé, sem segir ekki bara fréttir, heldur framleiðir líka "skemmtiefni" fyrir landsmenn og annast skoðanamótun fyrir stjórnvöld. 

Eins og í Norður-Kóreu hefur ríkisfjölmiðillinn náð góðum árangri. Svo góðum reyndar að öfugt við Norður-Kóreumenn vita Íslendingar ekki, þegar þeir setjast niður fyrir framan sjónvarpið, að þeir eru að móttaka áróður. Öfugt við Norður-Kóreu þar sem menn vita að útsendingar ríkisfjölmiðilsins eru áróðursmiðaðar, setjast Íslendingar fyrir framan "imbakassann", grunlausir og grandlausir, og hlæja að "bröndurum" Gísla Marteins; syngja með Helga Björns um dásemdir þess að "skemmta sér" heima í stofu; lofsama sóttvarnaþríeykið og kjósa svo meirihluta þess á þing (fyrir að bjarga okkur frá "drepsótt" sem var engin drepsótt - og fyrir að mynda hér nánast algjöra samstöðu um "bóluefni" sem voru ekki eiginleg bóluefni); bölsótast út í Rússa fyrir að bera alla ábyrgð á Úkraínustríðinu, hneykslast á þeim sem vita ekki að kynin eru nú 72 en ekki bara 2; hafa enga hugmynd um hver gæti hafa sprengt gasleiðsluna í Norðursjónum; halda að Viðreisn sé hægriflokkur og að Sjálfstæðisflokkur nútímans standi vörð um sjálfstæði Íslands; trúa kosningaloforðum allra flokka en samþykkja að þau séu svikin; leyfa ríkisreknum fjölmiðlum (og ríkisreknum stjórnmálaflokkum) að gera mikilvægustu mál að aukaatriði (vextir, málfrelsi, vaxandi skrifræði, skuldastaða heimila, woke-væðing ríkisstofnana, löggæslumál, afsal ríkisvalds úr landi, vernd tungumálsins); sætta sig við að alþingismenn tali um gallabuxur og plasttappa í ræðustól Alþingis en láti erlenda skrifstofumenn í Brussel semja lagareglurnar sem gilda hér á landi; vera það skattpínd að þrír af fimm dögum vinnuvikunnar fari í að vinna fyrir ríkið sem ráðstafar peningunum í stríðsrekstur, dýrt skrifstofuhúsnæði ríkisstofnana og alls konar peningasóun svo að við sitjum eftir með lélega vegi, lélegt menntakerfi, lélegt heilbrigðiskerfi, hækkandi skatta og sífellt meira ríkiseftirlit.

Hvað er hægt að gera til að snúa þessu við? Hvaða ráð hafa lesendur? Hvernig er hægt að opna augu almennings fyrir því hvernig komið er fram við okkur?

Íslendingar eiga betra skilið. 

 


,,Fréttir" til sölu

Kæru landsmenn, ef þið eruð enn að eyða tíma ykkar í að horfa á sjónvarpsfréttir og fá skilaboð þaðan um hvað þið eigið að hugsa, þá er hér umhugsunarverð ábending sem furðu lítið hefur farið fyrir í íslenskum fjölmiðlum: 

Wikileaks hefur flett ofan af fjárstuðningi USAID við fjölmðla í meira en 30 löndum frá árinu 2003. Fjármunir hafa runnið til 6.200 blaðamanna og 707 fréttamiðla, auk þess sem styrkir hafa runnið til 279 félagasamtaka. Í þessu felast stórkostleg afskipti bandarískra yfirvalda af alþjóðlegri fjölmiðlun síðustu tvo áratugi. Á fjárlögum fyrir árið 2025 voru 268,4M dollara eyrnamerktar "sjálfstæðum fjölmiðlum og frjálsu upplýsingastreymi" (e. independent media and the free flow of information). Meðal fjölmiðla og fréttaveitna sem þegið hafa þessa styrki eru: Reuters: 9M dollara; AP 500þ dollarar; Politico 32M dollara; New York Times 2,6M dollara; BBC 3,2M dollara; Internews 404M dollara. Rétt er að undirstrika að þetta eru einmitt þeir fjölmiðlar og fréttaveitur sem RÚV, mbl.is og visir.is virðast hafa allt sitt vit frá. 

Hefur fjölmiðlanefnd vakið athygli á þessum afhjúpunum? Hefur fjölmiðlanefnd einhvers staðar lagt til að tekið verði til umræðu hversu varnarlaus almenningur hefur verið gagnvart áróðri og hvernig fréttamennskan hefur greinilega verði gerð að söluvöru? Því hef ég ekki tekið eftir, en ég veit hins vegar að þegar "veiran skæða" var mest til umræðu þá hvatti fjölmiðlanefnd okkur til að taka mest mark á "stórum og rótgrónum" fjölmiðlum. Umrætt átak nefndarinnar "mikilvægu" fór af stað í maí 2020, en einmitt í þessum sama mánuði voru íslensk heilbrigðisyfirvöld upptekin við að nota PCR próf á allt sem hreyfðist. Í maí 2020 voru 10 manns taldir hafa látist úr Covid hérlendis, en 1798 tilfelli höfðu greinst og 3640 taldir hafa smitast, sem benti til að dánartíðni smitaðra væri 0,3%. Þótt augljóst væri orðið strax á þessum tíma að C19 var samkvæmt þessu ekki drepsótt - og ekki hættuleg ungu og heilsuhraustu fólki - var haldið áfram að berja á fólki með linnulausum hræðsluáróðri í fjölmiðlum. 

Ég veit ekki með ykkur, en það var einmitt um þetta leyti sem ég hætti að taka mark á "stórum og rótgrónum fjölmiðlum"

P.S. Að lokum legg ég til að RÚV verði tekið af fjárlögum / rekstur þess skorinn niður um 90% og fjölmiðlanefnd verði lögð niður.

 


,,Styrkur trúarinnar er fólginn í veikleika hennar"

Í fallegri páskamessu í Akureyrarkirkju nú í morgun vitnaði séra Svavar Alfreð Jónsson til orða úr hugvekju eftir Ellert B. Schram, sem birtist árið 2006 og er hér endurbirt að hluta í tilefni páskahátíðarinnar: 

Lífshlaupið er enginn dans á rósum. Hörmungar, ógæfa, dauðsföll og mótlæti verða á vegi okkar flestra. Það eiga margir um sárt að binda. Með tímanum lærir maður að lifa með sorginni og sársaukinn verður öðruvísi eftir því sem frá líður. Þó er það svo að þau atlot sem best duga, þegar á reynir, eru bænirnar og blessun þeirra sem þjóna kirkju og köllun Guðs. Og þetta segi ég án þess að vilja vera væminn. Kirkjustarfið og boðskapur kristinnar trúar er athvarf hins sorgmædda, hins þjáða og hinnar eilífu vonar. Ekki í lausnum eða viðgerðum, ekki í drambi og dekri, heldur í auðmýktinni og umkomuleysinu frammi fyrir örlögunum.

Ég held nefnilega að styrkur trúarinnar sé fólginn í veikleika hennar. Hún getur ekkert sannað, hún getur engum atburðum breytt, hún getur ekkert annað gert en að falla á hné niður og játa sig sigraða gagnvart almættinu.

Það sem ég er að reyna að segja er einfaldlega það, að trúin snýst ekki eingöngu um Bíblíuskýringar eða heilaga ritningu, heldur boðar hún von, hún kennir okkur kristilegt hugarfar og hún felur í sér siðferðilegan styrk, til að standast ógæfu, illvirki og andspyrnu. Kristnin er með öðrum orðum sá rauði þráður, sem spunninn er í lífi okkar, kristinna manna, í siðferði, kærleika og samkennd. Hún gefur okkur von um bata, hún líknar brotinni sál, hún færir okkur trúna á hið góða. Að sjá til sólar. Að gefast ekki upp. Að trúa á hið óræða.

Við skiljum ekki hið vonda og andstyggilega af því að það er andstætt siðferði okkar. Við sjáum ljósið í góðri hegðan, góðum fyrirmyndum og birtunni sem stafar frá hinu ímyndaða himnaríki. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, sagði Jesú. Hvað á hann við? Jú, að með breytni okkar og framferði í lífinu sé vegurinn varðaður, frá vöggu til grafar, frá fæðingu til eilífðar. Þannig lifum við, þótt við deyjum. Ekki í holdi og blóði, en í andanum og sannleikanum.

Gleðilega páska.opin


Seneca þá og Ísland nú

Fyrri kynslóðir Íslendinga, sem öldum saman bjuggu við fátækt, réttleysi, kúgun, misskiptingu, valdaleysi, einangrun og áhrifaleysi, þar sem innlendir valdamenn gengu fram í nafni fjarlægs konungsvalds og helsta úrræði niðurlægðrar þjóðar var að auðmýkja sig enn frekar með því að senda bænaskjöl til konungs, átti sér þann draum að verða sjálfstæð þjóð, þjóð á meðal þjóða, sem ætti sitt eigið land og nyti arðs af vinnu sinni og auðlindum landsins, án erlendrar skattheimtu og að hóflegir skattar rynnu til uppbyggingar á íslenskum innviðum til þjónustu fyrir þá sem vilja byggja landið.

Fyrir rétt rúmlega 80 árum náðu Íslendingar því takmarki að eignast hér sjálfstætt lýðveldi, með eigin löggjafarvaldi og innlendu dómsvaldi, og þótt það hafi gerst nokkuð átakalaust, þá grunaði varla nokkurn mann að þessi sama þjóð myndi nokkrum áratugum síðar - átakalaust - láta frá sér lýðveldið, lögin, landið og valdið. Þetta sjáum við þó gerast þegar Íslendingar nútímans, sem ein auðugasta, friðsælasta þjóð heims, sem státar af hreinni náttúru og miklum auðlindum, ætlar að láta nýja ríkisstjórn halda áfram á vegferð þeirrar fyrri, að gangast ESB, Nato, SÞ o.fl. erlendum valdastofnunum á hönd. Þetta gerist átakalaust og nánast umræðulaust, nánast eins og þetta skipti engu máli.

Í leit að skýringum / hliðstæðum má mögulega líta til Rómarveldis og falls þess. Rómverski heimspekingurinn, ræðusnillingurinn og leikskáldið Seneca (4 fyrir Krist - 65 eftir Krist) þekkti valdakerfið af eigin raun og þar með spillinguna og sóunina sem viðgekkst hjá yfirstéttinni. Hann taldi að fólki hefði verið betur borgið í lýðveldi en undir harðstjórn, því lýðveldið grundvallaðist á dyggðum (hugrekki, hófsemi, visku, réttlæti), þar sem valdhafar svöruðu til ábyrgðar og valdinu var dreift; þar sem fólk gat varist ofríki með lögum; þar sem hugdjarfir menn veittu harðstjórninni viðnám í nafni sjálfsákvörðunarréttar, innlendra laga og frelsishugsjónar.   Seneca

En Seneca sá með eigin augum að samborgarar hans skeyttu meira um hégóma og fánýti en gott stjórnarfar. Í bók sinni "Um lífsins stuttu stund" (e. On the Shortness of Life) undrast Seneca m.a. hvernig menn sem hann hélt að væru sæmilega viti bornir geta setið heilu á hálfu dagana á rakarastofum borgarinnar til að láta snurfusa hár og skegg, í umræðum um hvort þetta hár eigi að klippa eða greiða, og missa jafnvel stjórn á skapi sínu takist rakaranum ekki að fela skallablettinn. Orðrétt spyr Seneca: "Hver, meðal þessara manna, myndi ekki fremur vilja sjá lýðveldið hverfa en hár sitt? Hver þeirra er ekki áhugasamari um fegurð höfuðs síns en að hafa það á herðunum? Hver myndi kjósa mikinn heiður umfram stílfágun?" 

[Tilvitnun Seneca um að hafa höfuðið á herðunum vísar væntanlega til þess að viðkomandi gangi fram eins og hugsandi menn en ekki eins og höfuðlaus hænsni]. 

Ég vona að Íslendingar eigi góða páska og nýti þá til íhugunar um það sem mestu varðar, en gleymi sér ekki í hégómanum eins og Rómverjarnir á tíma Seneca. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband