Færsluflokkur: Bloggar

USSR þá, USA núna?

Margvíslegar hugsanir, flestar mjög óþægilegar, brjótast fram þegar horft er á ,,kappræður" Biden og Trump sem fram fóru sl. nótt

1. Hvað er það við nútímastjórnmál sem veldur því að kjósendum er að lokum aðeins gefið val á milli tveggja vondra kosta? 

2. Myndir af þeim Biden og Trump minna á forsíðumyndir Morgunblaðsins frá því um 1980 þar sem sjá mátti að stjórn Sovétríkjanna var skipuð tinandi gamalmennum. Sem barni leið mér ekki vel við tilhugsunina um að þessir óstyrku menn hefðu aðgang að kjarnorkuhnappnum. ussr

3. Í aðdraganda kappræðna vegna forsetakosninganna hér í vor tók ég frá samtals 2 klst til að fara yfir helstu mál. Því bjóst ég við miklu af Biden, sem hafði æft sig í heila viku fyrir kappræðurnar. Biden stóð þó ekki undir væntingum. Hann leit ekki vel út. Hann tafsaði, missti þráðinn oft. Hann staulaðist inn á sviðið og þurfti aðstoð konu sinnar til að komast niður af sviðinu.

Hér er verið að kjósa um mikilvægasta embætti á plánetunni jörð. Demókratar munu eftir sem áður segja að Trump sé vanhæfur til að gegna embættinu. Eftir þessar kappræður getur enginn þeirra haldið því fram að Biden sé hæfur til að gegna því.

 

 


Gullflibbarnir

Í gær birtist nýr þáttur á Brotkast.is þar sem ég fjalla m.a. um hina nýju yfirstétt sem nefna má ,,gullflibba", því ,,hvítflibbar" eru léttvægir í samanburðinum. Á fundum gullflibbana koma saman ríkustu og valdamestu einstaklingar jarðar ásamt sérvöldum klappstýrum sem fara svo heim í hérað (þjóðríkin) og bera út boðskapinn / innleiða hann í lagaframkvæmd. Gullflibbar heimsins / súperstéttin (e. superclass) eru taldir vera 6-7 þúsund manns í heild, eða 0,0001% af heildarmannfjölda jarðarinnar. Gullflibbarnir eru valdameiri en nokkur annar hópur í mannkynssögunni ... og þau vilja stjórna því hvernig við hin lifum.

Áætlanir þeirra eru ekkert leyndarmál. Þær eru víða gerðar heyrinkunnar, m.a. í Davos þar sem þau koma saman árlega á einkaþotum sínum til að ræða hvernig draga má úr kolefnisfótspori litla fólksins. Sumir fundarmanna eru ríkari en heilu þjóðríkin, en vissulega eru þarna líka minni auðmenn og fulltrúar þeirra, þ.e. þeir sem fá sérstakt boð.

Á fundum þessum er m.a. rætt hvernig takast megi á við fátækt, loftslagsmál, jafnrétti og sóttvarnir. Á fundunum ber lítið á raunverulegum rökræðum, því þar eru allir sammála um grunnforsendurnar og líka um ,,lausnirnar", sem ræddar eru með bros á vör án andmæla, án gagnrýni, án efasemda. Í Davos geta fundarmenn líka brosað breitt því tillögurnar miða að því að gera hina ríku enn ríkari, draga úr eftirliti gagnvart stórfyrirtækjum, miðstýra lögregluaðgerðum og þenja út lögregluvald, skerða fullveldi þjóðríkja, þrengja að borgaralegu frelsi, mannréttindum og lýðræði, í stuttu máli nýtt alheimsskipulag með alheimsstjórn, þar sem ríkisstjórnir þjóðríkjanna verða eins konar embættismenn æðstu stjórnenda (sem enginn kaus). Þannig má þétta eftirlit með almenningi og skerða athafnafrelsi fólks til að tryggja að allt sem gert er þjóni "the greater good", sjá nánar hér. 

--

Í næsta þætti ætla ég að fjalla um stöðu Íslands í heimi sem virðist verða sífellt háskalegri og þar sem stórfyrirtæki og auðmenn seilast til áhrifa yfir auðlindum landsins okkar. Ég mun benda á endurtekin söguleg stef, því Íslendingar hafa áður staðið frammi fyrir slíkri ásælni, m.a. í byrjun 20. aldar þegar norskir auðmenn sóttust eftir að kaupa upp alla fossa á Íslandi og stunduðu hér meiriháttar hvalveiðar enda var lýsið mjög eftirsótt og verðmætt. Með samstilltu átaki stjórnmálamanna náðu Íslendingar að hrinda þessu oki af sér og endurheimta yfirráð yfir sínum auðlindum. Nú er öldin önnur og fáir (ef nokkrir) sem standa til varnar. 

 


Hlaðvarp AÞJ

Eins og fram kemur í þessari frétt þá ætla ég að gera tilraun á þessum nýja vettvangi næstu vikur / mánuði. Væntanlegir hlustendur hafa þegar sent mér eftirfarandi tillögur að umfjöllunarefni, sbr. listann hér fyrir neðan þar sem ég hef engu bætt við en aðeins tekið út tillögur sem henta mér alls ekki. Þetta gæti orðið gott hliðarverkefni meðan ég er að lenda eftir forsetakosningarnar. Lesendum er frjálst að bæta við þennan lista í athugasemdum hér fyrir neðan. 

Réttarhöldin yfir Sókratesi

Hvernig á að lifa innihaldsríku lífi?

Fréttir vikunnar

Hver er höfundur Njálu?

Sjálfstæðisbárátta Íslendinga

Blómaskeið íslenskra bókmennta

1984 eða Brave New World: Viðvörunarrit eða handbók fyrir harðstjóra?

Veganesti fyrir unga menn: Viska, hófsemi, hugrekki, réttlæti

Meistarinn og Margaríta

Dýrabær (e. Animal Farm) eftir Orwell

Dæmisögur Esóps

Nietzche

Postmódernisminn

Arkitektúr á Íslandi

Marteinn Lúter og Martin Luther King

Kvikmyndin High noon

Táknfræði

Táknfræði í Biblíunni

Keltnesk áhrif á Íslandi

Endurreisnin i Evrópu og á Íslandi

Skólakerfið

Frelsisstríð bandaríkjanna /sjálfstæðisyfirlýsingin

Orustan við Hastings

Leitin af heilögum kaleik

Heimspekilegar spurningar: Er til sannleikur? Gott vs illt. Fallegt vs ljótt

Myndmál klassískrar myndlistar

Scott Milgram

Einar Jónsson myndhöggvari

Michalangelo

Hver er tilgangur lífsins?

Höfum við frjálsan vilja?

Markús Árelíus

Mens sana in corpore sano

Mannasiðir

Að takast á við áskoranir

Tungumálið, af hverju skiptir það máli?

Stóuspeki: Hindrunin er vegurinn 

Jónas Hallgrímsson

Turnar í íslenskri menningu

Amusing ourself to death

Bókin um veginn / Ferlið og dygðin

Af hverju er flóð í nánast öllum trúarbrögðum? Myndlíking þess?

Landnáma

Stofnun Alþingis árið 930

Lög á Íslandi eða saga lögfræðinnar

Evrópusambandið

Orkuskortur

Hver vilt þú að arfleifð þín verði?

Enski boltinn

Speki Konfúsíusar

Karl Marx

Voltaire

Rene Descartes

Machiavelli

Art of War

Tómas frá Akvínó

Dietrich Bonhoeffer 


mbl.is Arnar Þór gerir hlaðvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vangaveltur í hljóði og mynd

Söguhetja Orwells í bókinni 1984, Winston Smith, starfaði í Sannleiksráðuneytinu við það að endurskrifa sögulegar heimildir til að þau samræmdust síbreytilegri stefnu stjórnvalda. Samræma varð stefnuna annars vegar og söguna hins vegar til að fela þá staðreynd að stjórnarstefnan var gersneydd öllu sem kenna mætti við prinsipp: Stefnan miðaði að því einu að halda völdum. Starfs síns vegna sá Winston betur en aðrir hve lúaleg og óheiðarleg framganga stjórnvalda var. Þess vegna fór hann að efast um lögmæti stjórnarinnar og hugsa ,,óleyfilegar hugsanir" um það hvort allar fullyrðingar stjórnvalda væru réttar. Þetta var skrifað árið 1949 - áður en hugtakið samsæriskenningar var orðið til. Nú yrði Winston væntanlega uppnefndur "álhattur". Í heimi þar sem geysa eilíf stríð (e. perpetual war) er illa séð að menn efist um stefnu stjórnvalda og alls ekki má draga í efa heilindi stóru fjölmiðlanna, því þar er ekkert sagt nema það sem er satt og rétt. Í skáldsögu Orwells varð Winston að forðast að segja nokkrum frá efasemdum sínum, enda lá hörð refsing við slíku. Nú er slíkt athæfi kennt við dreifingu rangra eða villandi upplýsinga, sbr. ensku hugtökin mis- og disinformation.Arnar Broadcast

Búum við Íslendingar við gott stjórnarfar? Við heilbrigt lýðræði eða við flokksræði? Er skoðanamyndun hér með öllu frjáls eða er hrært í henni með skoðanakönnunum og hræðsluáróðri? Kjósum við út frá eigin sannfæringu eða kjósum við þann næst besta fremur en þann sem við vildum helst kjósa? Er hægt að framkalla siðbót í íslenskum stjórnmálum? Í nýjum þætti á Brotkast.is leyfi ég mér að hugsa upphátt og tala út frá hjartanu. Hér er klippa úr fyrsta þættinum. Takk fyrir að horfa / hlusta.

 

 

 


Hver erum við? Hverju þjónum við? Fyrir hvað stöndum við?

Í dag er haldin þjóðhátíð, þar sem við fögnum því að vera sjálfstæð þjóð. Grunnforsenda þess að Ísland sé sjálfstætt er sú að við, almennir borgarar, séum sjálfstæð í hugsun og gjörðum. Sýnum við slíkt sjálfstæði í orðum og verki ... eða einkennast hugsanir okkar og athafnir af hjarðhegðun? Látum við stjórnast af því sem við teljum að aðrir vilji að við gerum? Ef meirihlutinn stefnir í ranga átt, förum við þangað líka? 

Daglegt líf minnir okkur á þessa eilífu togstreitu mannlegrar tilveru, þar sem tveir pólar togast á: Þörf okkar fyrir að tilheyra einhverju stærra / Þörf okkar fyrir frelsi.íslenski fáninn

Ef við viljum geta verið sjálfstæð sem einstaklingar og sem þjóð þurfum við sjálfstæða hugsun og hugrekki til að geta staðið með sannfæringu okkar, varið rétt okkar og gætt að frelsi okkar. Að öðrum kosti týnum við sjálfum okkur, gleymum uppruna okkar, vitum ekki lengur fyrir hvað við stöndum og ekki hver við erum. Sagan sýnir að rótlaust fólk lætur betur að stjórn en þeir sem standa á föstum grunni. 

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá manni sem nefndur Fífl-Egill því hann gerði einfaldlega það sem honum var sagt að gera. Egill þessi lét m.ö.o. hvorki samvisku sína né gagnrýna hugsun þvælast fyrir sér. Um hann segir nánari í sögunni að jafnan hafi ,,leikið að honum dætur heimskunnar, þær dul og rangvirðing svo hann vissi ekki gjörla hver hann var“.

Orðið dul vísar hér til þess að hafa of mikið sjálfsálit, vera haldinn hroka eða skorta sjálfsþekkingu. Vonandi verða það ekki örlög Íslendinga að ofmetnast, tapa sjálfum sér og glata þannig bæði sjálfsvirðingunni og virðingu annarra.

Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða.

Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenska lýðveldisins.

Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki kokgleypa erlendar hugmyndir hugsunarlaust. Stjórnmálamenn eiga að þjóna kjósendum, ekki gerast strengjabrúður auðmanna / erlendra stofnana.

Á þetta ber að minna alla daga, en þó kannski sérstaklega á þjóðhátíðardaginn.

Til hamingju með 80 ára lýðveldisafmælið. 


Tekur þú ábyrgð?

Með hverjum deginum sem líður verður erfiðara að gera greinarmun á stjórnarflokkunum - og stjórnmálaflokkunum almennt. Hægri og vinstri flokkar hafa þjappað sér saman um stefnumál þannig að öll nauðsynleg breidd er horfin. Skýringarnar eru vafalaust margar: Eitruð umræðumenning á samfélagsmiðlum gæti verið ein skýring. Einsleitar skoðanir háskólamanna, fjölmiðlamanna, menningarvita, embættismanna o.fl. gæti verið önnur. Pólitísk umræða má ekki verða of einsleit, hugsunin ekki of fábreytileg, því ef málefnalegt aðhald skortir eykst hættan á efnahagslegu og pólitísku tjóni. 

Erum við nógu dugleg að taka þátt í umræðu um nútíð okkar og framtíð? Leyfum við öðrum að velja skoðanir okkar? Látum við skoðanakannanir ráða atkvæði okkar? Látum við yfirgangsseggi fæla okkur frá þátttöku í almennri umræðu?

Forsenda þess að lýðræðið haldi velli og að kosningar endurspegli raunverulegan vilja almennings er að borgararnir láti sig varða um samfélagið og þróun þess. Það gerum við með því að taka þátt í samfélagsumræðu, nýta kosningarétt okkar og kjörgengisrétt. Þetta gerum við þó ekki aðeins af hugsjón, heldur vissulega einnig til að gæta eigin hagsmuna, meðvituð um það að góð lög verða ekki til án góðrar umræðu. William Boetcker (1873-1962) taldi alla slíka þátttöku vera líftaug lýðræðis og lagasetningar. Ein frægustu ummæli hans lúta að því sem hann kallaði „sjö glæpi gegn heimalandinu“:

  1. Ég hugsa ekki.
  2. Ég veit ekki.
  3. Mér er sama.
  4. Ég er of upptekinn.
  5. Ég skipti mér ekki af.
  6. Ég hef engan tíma til að lesa og finna út úr því.
  7. Ég hef ekki áhuga.

Íslendingar misstu af þessari bylgju en munu grípa ,,seinni bylgjuna"

Bitur reynsla hefur leitt til þess að kjósendur á meginlandi Evrópu hafa fengið nóg af sósíalisma, bæði þjóðernissósíalisma og fjölþjóðlegum sósíalisma. Kjósendur á meginlandinu hafa líka fengið nóg af fjölmiðlum sem kalla alla "harðlínumenn" (e. hard-right) sem kjósa ekki vinstri flokka. Skynsamt fólk, sem kann skil á almennu velsæmi, er líka búið að fá nóg af blaðamönnum sem klína öfga-stimplum á hvern þann sem ekki skrifar athugasemdalaust undir pólitískan réttrúnað ráðandi stétta sem vilja ráða yfir öllum sviðum daglegs lífs undir því yfirskini að við verðum að ,,bjarga plánetunni".

Pólítískur rétttrúnaður samtímans hefur tekið á sig mynd trúarkreddu, þar sem vegið er að mælikvarða góðs og ills með afstæðishyggju; þar sem almennir borgarar eru hræddir við að andmæla af ótta við útskúfun og þar sem þess er krafist að staðreyndir séu látnar víkja fyrir ímyndun. Menn geta reynt að halda því fram að svart sé hvítt, stríð sé friður, 2+2 séu 5 og að menn geti upplifað sig sem ketti og gert kröfu um kattasand á almenningsklósettum, en pendúllinn er farinn af sveiflast til baka og leitar aftur í átt til heilbrigðrar skynsemi því óheilindi, ósannsögli, bull, fals og tvöfeldni þola ekki sólarljós upplýstrar rökræðu.kúla

Evrópumenn hafa fengið nóg af leikrænum tilburðum og yfirborðslegum stimplum. Um leið og kjósendur höfnuðu áróðursbrögðum sem beitt er á vettvangi fjölmiðla fór Emmanuel Macron á taugum og boðaði umsvifalaust til kosninga.

Þessi andófshreyfing mun ná til Íslands: Sagan sýnir að allar slíkar bylgjur ná hingað til lands fyrr eða síðar. Það er því ekki spurning um hvort, heldur hvenær viðsnúningurinn verður. Hvar ætlar þú að vera þegar miðflóttaaflið skellur á skurn gerviveraldarinnar?

 


Í góðum höndum?

Utanríkisráðherra Íslands birti langa grein í gær undir yfirskriftinni ,,Hví styður Ísland vopnakaup fyrir Úkraínu?". Í greinininni segir m.a. að í flóknum heimi séu ,,fá málefni algjörlega svarthvít; en landvinningastríð Rússlands í Úkraínu er eitt af þeim".

Frammi fyrir þeirri mynd sem dregin er upp í grein utanríkisráðherra er full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig staðið er að stefnumótun og ákvarðanatöku á vettvangi utanríkismála hérlendis. Hafa embættismenn í utanríkisráðuneytinu og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar kosið að láta mata sig á einhliða upplýsingum og viðhaft ótilhlýðilega rörsýni við val á þeim grunni sem byggt er á? Hér sem annars staðar ber að skoða viðfangsefnið út frá fleiri hliðum en einni. Af handahófi má t.d. benda hér á grein eftir bandaríska háskólaprófessorinn Jeffrey Sachs, The Real History of the War in Ukraine: a Chronology of Events and Case for Diplomacy. Sachs er heimsþekktur fræðimaður og hófstilltur í framsetningu, en myndin sem hann dregur upp í grein sinni er ekki svarthvít eins og sú sem birtist í fyrrnefndri grein utanríkisráðherra Íslands.  

Í kveðjuræðu sinni 17. janúar 1961 varaði Dwight Eisenhower við valdaásælni hergagnaiðnaðarins og þeirri hættu sem fólgin er í því að vald færist í hendur fólks sem hefur hag af því að kynda ófriðarbál um allan heim fremur en að slökkva slíka elda. Eisenhower hvatti til þess að almenningur héldi vöku sinni gagnvart þeirri hættu að pólitísk stefnumörkun yrði afhent hagsmunaaðilum, vísindamönnum, tæknimönnum og vopnaframleiðendum, því slík þróun myndi óhjákvæmilega veikja lýðræðið, grafa undan stjórnskipuninni og borgaralegu frelsi. 

Er lýðveldið okkar í góðum höndum hjá þeim sem nú halda um stýrið? 

 


Gegnumlýsing

Þankabrot frambjóðanda að loknu forsetakjöri

Um leið og ég þakka öllum þeim sem sýndu mér stuðning í orði og verki, vil ég óska Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjör hennar í embætti forseta Íslands.

Í dag hef ég hvílst og fengið fjölmörg símtöl og hvatningarorð sem ég tek með mér inn í framtíðina, hver svo sem sú framtíð verður. Ég treysti því að verða leiddur til þess staðar sem mér er ætlaður. 

Líkja má reynslu síðustu mánaða við einhvers konar gegnumlýsingu, þar sem maður sér samfélag sitt og samferðamennina í nýju ljósi, hvað er heilt og hvað ekki. Í sama ljósi sér maður hvað er heilt í innra lífi manns sjálfs og hvað þarf að styrkja. 

Þegar stjórnkerfið og framgangur kosninganna er skoðað í þessu skæra ljósi birtast mögulegar hliðstæður úr eftirfarandi sögu: 

Til að afstýra uppreisn meðal þrælanna ákveður þrælahaldarinn að boða til kosninga, þar sem þrælarnir fá að kjósa milli frambjóðenda sem hann hefur sjálfur valið. Frambjóðandi A lofar styttri vinnudegi, frambjóðandi B lofar skárri hádegismat. Með þessu er uppreisninni afstýrt og þrælarnir halda áfram að vinna, því þeir ímynda sér að þeir hafi stjórn á aðstæðum sínum. Einn þrællinn, Samúel, neitar að sætta sig við aðstæður. Hann stendur upp og varar aðra við því að kjósa A eða B, því þeir geri ekki annað en að sjá til þess að fólkið sé áfram í ánauð, því hvorugur frambjóðandinn hafi neitt fram að færa sem muni leysa þau úr fjötrum. En máttur blekkingarinnar er svo sterkur að þrælarnir, sem ímynda sér að þau hafi raunverulegt val, stimpla Samúel sem hættulegan mann og hann er húðstrýktur til bana fyrir að vilja skaða lýðræðið. 

Þegar horft er á hið pólitíska landslag hérlendis, þ.m.t. stjórnmálaflokka, fjölmiðla og álitsgjafa, er niðurstaðan þá sú að við búum við heilbrigt lýðræði? Breytir miklu í reynd hvort við kjósum flokka / frambjóðendur til hægri eða vinstri? Eða vex sérfræðingaveldið / báknið / tækniræðið stöðugt, án tillits til niðurstaðna kosninga? Hver er útgönguleiðin? Ný hugmyndafræði? Stofnun nýs stjórnmálaflokks?   

 

E.S. Dæmisagan hér að ofan er sett fram hér í 12 mínútna stuttmynd, sem vel er þess virði að sjá: The Jones Plantation (youtube.com)


Á kjördag

Í dag er hátíðisdagur því Íslendingar fá nú að velja sjöunda forseta lýðveldisins. Forseti er ekki aðeins þjóðhöfðingi heldur ein meginstoð stjórnskipunarinnar og gegnir þannig lykilhlutverki í því að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar, verja hagsmuni almennings, tilveru okkar og frelsi. Lýðræðisbarátta – og sjálfstæðisbarátta – okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóðarinnar gagnvart ásælni peningavaldsins og ofurefli kerfisins. Í þessu samhengi erum við öll samherjar þegar kemur að því að verja grunnstoðir velsældar og almannahags gagnvart firringu í formi vélmenningar og tölvuvæðingar, þar sem mennskan er gengisfelld, þar sem hópar eru settir í forgrunn en einstaklingarnir hverfa áhrifalausir í fjöldann, þar sem hinn mannlegi þáttur tilverunnar á sífellt erfiðara uppdráttar andspænis fjöldaframleiðslu, skrifstofubákni, valdahyggju, tæknivæðingu, afskræmingu náttúru og gengisfellingu þess sem okkur er dýrmætast. Hvernig stuðlum við að jafnrétti í slíkum heimi? Hvernig verjum við sakleysið og hreina náttúru? Hvernig verja einstaklingarnir sjálfstæði sitt í slíku umhverfi og smáþjóðir fullveldi sitt?íslenski fáninn

Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun. Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð. Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því sem við á og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða. Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með auðlindir okkar og innri málefni íslenska lýðveldisins. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi sem þeim hefur verið falið, ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum eða sérfræðingum sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar.

Allt vald þarf að tempra og það á ekki síst við um löggjafarvaldið. Í því samhengi hefur forseti stjórnskipulegar heimildir og stundum beinlínis skyldur til að veita Alþingi aðhald og eftirlit.

Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum sem að framan eru nefndar. Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa.

Við Íslendingar höfum margt að verja, sem fyrri kynslóðir hafa fært okkur að gjöf: Landið okkar, hreina náttúru, dýrmætar auðlindir, tungumálið, bókmenntir, sögu, menningu, frelsi okkar sjálfra og fullveldi Íslands. Á þessum stoðum hvílir hagsæld okkar nú og möguleikar okkar til framtíðar. Til að verja allt þetta megum við ekki verða ofurseld ólýðræðislegu, ómanneskjulegu kerfi. Manngildið verður ekki metið út frá framleiðslu og framleiðni.

Ég býð mig fram til að leiða þjóðina af braut alhæfinga, tillitsleysis og ofríkis, frá stjórnarfyrirkomulagi þar sem valdið kemur að ofan, því hið raunverulega vald býr hjá fólkinu, í grasrót samfélagsins. Ég treysti Íslendingum til að marka sína eigin braut á grunni frjálsrar hugsunar og sjálfstæðrar skoðanamyndunar. Til þess þurfum við upplýsingar, ekki valdboð, frjálslyndi en ekki fyrirmæli „stóra bróður“. Nú sem aldrei fyrr þurfum við að nýta hugvit og frumkvæði, hæfileika og framtak hvers einasta Íslendings, fremur en áætlanir og útreikninga seinvirks stjórnkerfis.

Verði ég kjörinn forseti lýðveldisins mátt þú, kæri lesandi, treysta því að ég mun virða sérhvern einstakling, frelsi hans og dýrmæti, þjóna íslensku samfélagi, verja yfirráðarétt Íslendinga yfir auðlindum okkar og vaka yfir landi okkar og þjóð.

Ég treysti því að þú nýtir kosningarétt þinn, samfélagi okkar til framdráttar og Íslandi til heilla.

(Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júní 2024}


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband