27.1.2023 | 12:09
Hver stjórnar?
Hlutverk stjórnmála er að stýra þjóðarskútunni með farsælum hætti. Til að varast blindsker og strand er m.a. leitað til vísindamanna. Vísindin hafa þá það hlutverk að upplýsa fólk um aðsteðjandi hættur og veita ráðgjöf um hvernig megi draga úr hættunni. Þeim er ekki ætlað að taka öll ráð af fólki, svipta okkur sjálfræði og gera okkur ofurseld (kenni)valdinu.
Þetta er þó einmitt það sem við erum að verða vitni að: Nýtt stjórnarfar er að fæðast, sem þar sem áherslan er á hlýðni við yfirvald fremur en sjálfræði einstaklinga (og þjóða) í stjórn sinna mála.
Dæmi: Í kóvid-fárinu voru stjórnarskrárvarin réttindi í reynd afnumin og við færðumst úr því að búa í réttarríki yfir í að búa í sóttvarnaríki. Daglega er þrengt að lýðræðinu með (yfirþjóðlegu) valdboði. Á sama tíma umsnúast vísindin, frá frjálsri sannleiksleit yfir í kreddu sem bannar efasemdir og gagnrýni.
Sú óheillaþróun sem hér um ræðir mun halda áfram meðan ekki er sýnt nægilegt viðnám, meðan fólk er hrætt og auðtrúa, meðan við stöndum ekki vörð um stjórnarskrárvarin réttindi, lýðræðislegt stjórnarfar, þrígreiningu ríkisvalds, þingræði og lýðveldisstjórnarformið. Áfram mun síga á ógæfuhliðina meðan skorið er á tengsl valda og ábyrgðar, meðan fjölmiðlar eru í klappliði stjórnvalda, meðan vísindamönnum leyfist að setja fram ósannaðar kenningar og kalla þær vísindalegar staðreyndir. Á meðan allt þetta er óbreytt geta jafnvel örfáir menn hert tökin á þjóðfélaginu án þess að nokkur hreyfi andmælum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)