Ofríki í nafni velferðar

Í velferðarríkinu Danmörku er nú rætt um valdmörk ríkisins, nánar tiltekið um hugsanlegt ofríki velferðarkerfisins gagnvart almennum borgurum. Hversu langt leyfist ríkinu að ganga inn á svið einkalífs? Hver eru mörkin t.d. í tilviki foreldra og fjölskyldulífs? Þessi grein sem birtist í Berlingske föstudaginn 3.2. sl. fjallar um vísbendingar þess efnis að ríkisvaldið sé tekið að seilast full langt í frelsisskerðingum / stýringu gagnvart einstaklingum í nafni verndar. Þetta birtist m.a. í aðgerðum gegn sjúkdómum, hegðun barna, misjöfnum aðstæðum fjölskyldna o.fl.

Ef menn hleypa valdhöfum ofan í hálsmálið á sér er ekki víst að það tryggi öryggi almennings í bráð og lengd. Fórnarkostnaðurinn er þá ekki bara skert frelsi, heldur er í reynd verið að má út mikilvæg öryggismörk. Dæmin sanna að persónuleg friðhelgi, vernd einkalífs o.fl. hverfa í skuggann þegar „Stóri bróðir“ gerist of nærgöngull.

Í alræðisríkjum hefur frelsinu verið fórnað í skiptum fyrir öryggi. Það sem verra er: Í stað öryggis sitja menn uppi með óöryggi og lifa í ótta við stjórnvöld. Öll lagaleg vernd borgaranna hverfur þá út um gluggann. Réttarríkið umbreytist í innantóma skel þar sem mönnum er daglega mismunað á grundvelli laga. Undir merkjum umhyggju / verndar / velferðar / öryggis beita valdhafar borgarana ofríki og brjóta þar með samfélagssáttmálann sem völd þeirra byggja á. Í slíkum ríkjum verða skýr mannréttindaákvæði haldlaus í framkvæmd. Réttaröryggi hverfur sjónum. Eftir stendur aðeins falskt öryggi. Vegferðin sem hófst undir merkjum öryggis endar þá í öryggisleysi. Ef menn standa ekki á bremsunni getur velferðarkerfið hæglega orðið að tæki í höndum ofríkismanna.   


Bloggfærslur 6. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband