Ofríki í nafni velferðar

Í velferðarríkinu Danmörku er nú rætt um valdmörk ríkisins, nánar tiltekið um hugsanlegt ofríki velferðarkerfisins gagnvart almennum borgurum. Hversu langt leyfist ríkinu að ganga inn á svið einkalífs? Hver eru mörkin t.d. í tilviki foreldra og fjölskyldulífs? Þessi grein sem birtist í Berlingske föstudaginn 3.2. sl. fjallar um vísbendingar þess efnis að ríkisvaldið sé tekið að seilast full langt í frelsisskerðingum / stýringu gagnvart einstaklingum í nafni verndar. Þetta birtist m.a. í aðgerðum gegn sjúkdómum, hegðun barna, misjöfnum aðstæðum fjölskyldna o.fl.

Ef menn hleypa valdhöfum ofan í hálsmálið á sér er ekki víst að það tryggi öryggi almennings í bráð og lengd. Fórnarkostnaðurinn er þá ekki bara skert frelsi, heldur er í reynd verið að má út mikilvæg öryggismörk. Dæmin sanna að persónuleg friðhelgi, vernd einkalífs o.fl. hverfa í skuggann þegar „Stóri bróðir“ gerist of nærgöngull.

Í alræðisríkjum hefur frelsinu verið fórnað í skiptum fyrir öryggi. Það sem verra er: Í stað öryggis sitja menn uppi með óöryggi og lifa í ótta við stjórnvöld. Öll lagaleg vernd borgaranna hverfur þá út um gluggann. Réttarríkið umbreytist í innantóma skel þar sem mönnum er daglega mismunað á grundvelli laga. Undir merkjum umhyggju / verndar / velferðar / öryggis beita valdhafar borgarana ofríki og brjóta þar með samfélagssáttmálann sem völd þeirra byggja á. Í slíkum ríkjum verða skýr mannréttindaákvæði haldlaus í framkvæmd. Réttaröryggi hverfur sjónum. Eftir stendur aðeins falskt öryggi. Vegferðin sem hófst undir merkjum öryggis endar þá í öryggisleysi. Ef menn standa ekki á bremsunni getur velferðarkerfið hæglega orðið að tæki í höndum ofríkismanna.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arnar.

Það er þess vegna sem það þarf að andæfa, spyrja  spurninga, hafa kjark í að gagnrýna.

Annars falla orð eins og frelsi og sjálfstæði í glatkistu minninganna.

Það mættu fleiri hafa kjarkinn þinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.2.2023 kl. 13:12

2 identicon

Þeir sem verða fyrir því að stjórnvöld leggja bann við yfirgangi þeirra tala gjarnan um ofríki. Til dæmis þegar reykingar voru bannaðar á ýmsum stöðum. Þá töldu sumir frelsið felast í því að þurfa ekkert að taka tillit til þess að athafnir þeirra gætu skaðað aðra. Sama kom upp í covid, sumt fólk taldi, og telur, það ofríki að fá ekki að smita aðra að vild.

Þegar menn byrja að tala um ofríki kemur mér fyrst til hugar að skoða hverja þeir vilji skaða og hverjum þeir vilja sýna yfirgang.

Vagn (IP-tala skráð) 7.2.2023 kl. 09:04

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það hafa nú fleiri en Danir verið að ræða "hver eru réttindi og skyldur ríkissmiðju" síðustu árin, og af bæði ábyrgð og dýpt.

Guðjón E. Hreinberg, 7.2.2023 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband