Hvert stefnir stofnanaveldið?

 

Á ríkið að ráða því hvað má segja og hvað ekki, hvað má ræða og hvað ekki, um hvað má efast og hvað ekki, hvað má gagnrýna og hvað ekki? Sá sem svarar slíkum spurningum játandi er í raun að lýsa stuðningi við stofnun Sannleiksráðuneytis í anda 1984 eftir Orwell. Við hin, sem svörum þessum spurningum neitandi, verðum að horfast í augu við greinilega öfugþróun í þessum efnum, sem birtist nánast daglega í fréttum, nú síðast í fréttum af þöggunartilburðum Ferðamálastofu

Í frjálsu samfélagi má hver sem er tjá skoðanir sínar gagnvart hverjum sem heyra vill. Þetta þýðir ekki að fólki leyfist að beita stofnanavaldi / ríkisvaldi til að þvinga skoðanir sínar upp á aðra, banna öðrum að tjá sig, svipta fólk atvinnu, vega að einstaklingum eða reyna að stýra umræðu.

Í frjálslyndu réttarríki hljótum við að ganga út frá þeirri meginreglu að jafnvel þótt fólk telji sig hafa höndlað allan sannleikann, þá leyfist viðkomandi ekki að þvinga þá sýn / skoðun / trú upp á aðra. Þetta þýðir í framkvæmd að þú mátt aðhyllast hvaða sjónarmið sem er og innan marka laga máttu bjóða fólki að velja eða hafna því sem þú hefur fram að færa.

Meðan við viljum lifa í frjálsu samfélagi ber okkur – í lengstu lög – að verja rétt annarra til að hafa frjálst val og til að fylgja samvisku sinni. Í frjálsu samfélagi þvingum við ekki skoðanir upp á aðra. Þú mátt trúa því sem þú vilt, en á móti kemur að þú þarft að leyfa öðrum að trúa því sem þau velja að trúa.

Í ríki sem kennir sig við frjálslynt lýðræði hefur enginn einn maður, enginn hópur og engin stofnun vald til að ákveða hvaða skoðanir okkur leyfist að hafa. Slíkt stjórnarfar er kennt við einveldi, klerkaveldi eða alræði. En meðan enginn hreyfir andmælum þokumst við í átt til slíkra stjórnskipulegra ófara.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Meðan við viljum lifa í frjálsu samfélagi ber okkur – í lengstu lög – að verja rétt annarra til að hafa frjálst val og til að fylgja samvisku sinni."

Í lengstu lög, já - og fram í rauðan dauðann ef með þarf. 

Því þangað sóttu þeir frelsið sem gáfu okkur það

og guldu það dýru verði í blóði og blýi. 

Baldur Gunnarsson (IP-tala skráð) 8.2.2023 kl. 19:41

2 identicon

Frjálst samfélag, samkvæmt ofansögðu, er villta vestrið og á ekkert skylt við siðað samfélag.

Gallinn við klisjur, hraðsoðin slagorð, miklar einfaldanir og lítt ígrundaðar skoðanir er að það hljómar allt vel en gagnast ekki nema til sjálfsupphafningar. Þegar á hólminn er komið verður lítið úr froðunni. Má bjóða ykkur frelsishetjunum að verja rétt Anders Behring Breivik til að hafa tekið sér frjálst val og fylgt samvisku sinni? Hvað ætli fyrrverandi dómarinn hafi sent marga í fangelsi sem voru bara að fylgja samvisku sinni? Eigum við að leyfa fólki að hafa frjálst val til að kúga og kvelja aðra ef samviska þeirra er þannig gerð? Og hvers vegna máttu starfsmenn ferðamálastofu ekki hafa frjálst val og fylgja samvisku sinni? Á frjálst val og það að fylgja samvisku sinni bara að vera fyrir útvalda?

Siðað samfélag segir hingað og ekki lengra, frjálst samfélag segir láttu vaða, sama er mér hverja þú skaðar.

Vagn (IP-tala skráð) 8.2.2023 kl. 21:01

3 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn, ertu kominn aftur með valdboðið og stjórnlyndið? Enn á bak við dulnefni af því þú treystir þér ekki til að afhjúpa hver boðar þessar ljótu skoðanir þínar? Komdu sem oftast, svo að lesendur geti séð hvernig þú skrumskælir og afbakar orð annarra, býrð til strámann sem þú svo ræðst að. Lýðræði, frálslyndi, réttarríki og lagarammi eru ekki kölluð klisjur og slagorð nema kannski á fundum hjá alræðissinnum. Flestir hafa nóg með að hafa stjórn á eigin lífi. En þú kannski telur þig vera undantekninguna sem sannar regluna. Komdu nú fram í dagsljósið og láttu ljós þitt skína, bjóddu þig fram til að hafa vit fyrir okkur hinum. Láttu á það reyna hvernig boð þín og bönn munu fara ofan í mannskapinn. 

Arnar Þór Jónsson, 8.2.2023 kl. 22:23

4 identicon

Það að hafa efasemdir um ágæti stjórnlauss frelsis og algjörs ábyrgðarleysis er ekki valdboð og stjórnlyndi. Og ef þér þykir það ljótt að mér finnist þú ekki eiga að hafa fullt frelsi til að vinna öðrum skaða þá er mér bara nokkuð sama, þó ég vorkenni óneitanlega þeim sem þurfa að umgangast þig. Lýðræði, frjálslyndi, réttarríki og lagarammi eru ekki það sem þú ert að prédika, lýsingar þínar á því sem þú óskar eftir (klisjurnar þínar og slagorðin) passa ekki við neitt af þeim.

Vagn (IP-tala skráð) 8.2.2023 kl. 22:51

5 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

VAgn, þú ert meiri karlinn. Sóðar þú út fleiri síður en mínar með svona útúrsnúningum? Þegar ég tala um að eitthvað sé leyfilegt innan ramma laga, þá er það ekki "stjórnlaust frelsi og algjört ábyrgðarleysi". Ég sé þig fyrir mér við tölvuna þína tautandi við sjálfan þig að það "þurfi bara að hafa vit fyrir fólki". Þú ert örugglega hárrétti maðurinn til þess. Vertu ekki svona feiminn. Stígðu fram og leyfðu okkur að sjá þig og heyra, því þú ert örugglega með tilbúnar patent-lausnir við öllum vanda.  

Arnar Þór Jónsson, 8.2.2023 kl. 22:58

6 identicon

Auðvitað sóða ég út fleiri síður en þínar með útúrsnúningum. En málfrelsisliðið (sem einhverra hluta vegna hafa mestan áhuga á að opinbera skoðanir sínar á konum, múslimum, gyðingum, svertingjum og flóttamönnum) hefur flest lokað á sínar síður nema fyrir útvalda. Þeir eru gjarnan meiri í orði en á borði.

Hvernig á að skilja það að þegar þú ert gagnrýndur fyrir að segjast ekki vilja að ríkið rammi af hvað þú mátt segja og gera þá segist þú vilja ramma? Þú ættir að ákveða hvort þú vilt. Þú getur ekki bæði haft ramma og verið laus við alla ramma.

Vagn (IP-tala skráð) 9.2.2023 kl. 00:15

7 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn, ég verð síðastur til að loka á þig. Tjáning þín hér er ómálefnaleg en gagnleg, því hún afhjúpar grundvallarmun á stjórnlyndi og klassísku frjálslyndi. Orðræða þín kristallar vilja til ritskoðunar og þöggunar. Í rökþroti grípur þú til þess að gera viðmælanda þínum upp skoðanir. Ég hef sem dæmi aldrei lofað stjórnleysi / anarkisma, aldrei boðað frelsi án ábyrgðar. Í stuttu máli hef ég á hundruðum blaðsíðna birt sjónarmið sem rúmast innan ramma lýðræðis og frjálslyndis og virðingar fyrir mannréttindum. Á því prófi fellur þú aftur og aftur. 

P.S. Ef þú vilt að ég útskýri fyrir þér þetta með ramma laganna, þá gegnir ramminn því hlutverki að verja frelsi fólks til orðs og athafna. Leiðin sem þú boðar, með skerðingum og forræðishyggju og fyrirskipunum er ávísun á ófrelsi og skelfingarástand. Lifðu heill. 

Arnar Þór Jónsson, 9.2.2023 kl. 07:17

8 identicon

Þegar ég varð kennari (12 ár síðan) hélt ég að stéttin væri opin, frjálslynd og virti skoðanafrelsi. Annað kom á daginn. Meðal kennara er fólk tilbúið að rægja kennara ærunni séu þeir ekki sammála málefnum translestarinnar. Vega að mannorði þeirra. Þeir sem fylgja translestinni hafa m.a. talað illa um söngkonuna sem vill vernda börn. Mjög skynsöm stúlka. 

Sumir kennarar vilja stoppa málfrelsið, s.s. með kvörtunum til Kennarasambandsins um skoðanir annarra. Bera fyrir hatursorðræðu og fordómum fylgi kennari ekki þeirri geðveiki sem ríkir í transmálefnunum. Á bæði við útlönd og Ísland. 

Hér gæti allt eins staðið í samtökum, ,,Í ríki sem kennir sig við frjálslynt lýðræði hefur enginn einn maður, enginn hópur og engin stofnun vald til að ákveða hvaða skoðanir okkur leyfist að hafa. "

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2023 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband