8.2.2023 | 18:18
Hvert stefnir stofnanaveldið?
Á ríkið að ráða því hvað má segja og hvað ekki, hvað má ræða og hvað ekki, um hvað má efast og hvað ekki, hvað má gagnrýna og hvað ekki? Sá sem svarar slíkum spurningum játandi er í raun að lýsa stuðningi við stofnun Sannleiksráðuneytis í anda 1984 eftir Orwell. Við hin, sem svörum þessum spurningum neitandi, verðum að horfast í augu við greinilega öfugþróun í þessum efnum, sem birtist nánast daglega í fréttum, nú síðast í fréttum af þöggunartilburðum Ferðamálastofu.
Í frjálsu samfélagi má hver sem er tjá skoðanir sínar gagnvart hverjum sem heyra vill. Þetta þýðir ekki að fólki leyfist að beita stofnanavaldi / ríkisvaldi til að þvinga skoðanir sínar upp á aðra, banna öðrum að tjá sig, svipta fólk atvinnu, vega að einstaklingum eða reyna að stýra umræðu.
Í frjálslyndu réttarríki hljótum við að ganga út frá þeirri meginreglu að jafnvel þótt fólk telji sig hafa höndlað allan sannleikann, þá leyfist viðkomandi ekki að þvinga þá sýn / skoðun / trú upp á aðra. Þetta þýðir í framkvæmd að þú mátt aðhyllast hvaða sjónarmið sem er og innan marka laga máttu bjóða fólki að velja eða hafna því sem þú hefur fram að færa.
Meðan við viljum lifa í frjálsu samfélagi ber okkur í lengstu lög að verja rétt annarra til að hafa frjálst val og til að fylgja samvisku sinni. Í frjálsu samfélagi þvingum við ekki skoðanir upp á aðra. Þú mátt trúa því sem þú vilt, en á móti kemur að þú þarft að leyfa öðrum að trúa því sem þau velja að trúa.
Í ríki sem kennir sig við frjálslynt lýðræði hefur enginn einn maður, enginn hópur og engin stofnun vald til að ákveða hvaða skoðanir okkur leyfist að hafa. Slíkt stjórnarfar er kennt við einveldi, klerkaveldi eða alræði. En meðan enginn hreyfir andmælum þokumst við í átt til slíkra stjórnskipulegra ófara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)