Hvað skortir íslensku þjóðina mest?

Sigurbjörn EinarssonEinu sinni efndi íslenskt tímarit til verðlaunasamkeppni um svar við spurningunni: Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Hvert er svarið? Ekki snjallasta heldur sannasta svarið?

Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: „Vér eigum menn.“ Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það land er auðugt, sem á menn. Jónas kvað fyrir meira en 100 árum:

… eyjan hvíta / átt hefur sonu fremri vonum.

Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku. Og það land er ekki ríkt, sem er fátækt að slíkum mönnum, þótt fjölmennt væri og fésælt. Sú þjóð er ekki að vaxa og ekki að auðgast, þó hún vaxi að höfðatölu og auratali, sem rýrnar að manndómi, tapar á vettvangi trúmennsku, bindindissemi, grandvarleiks, ábyrgðarvitundar, samviskusemi. Sú þjóð er ekki að dafna sem gerist hirðulaus um hugarfar sitt, sinnulaus um sál sína. Sú kynslóð er ekki upplýst, sem afrækir uppbyggingu hins innra manns, hversu fjölfróð sem hún kynni að vera. Slík lýðmenntun og landsmenning, sem hefur annað í fyrirrúmi en það, sem miðar að innri vexti og þroska einstaklinganna, horfir ekki fram, heldur aftur, hversu glæst sem hún kann að vera á ysta borði. Það fólk er ekki á leið inn í jarðneskt sæluríki, sem hættir að líta til himins, hversu mjög sem hagir vænkast, þægindi aukast, öryggi vex. Það eru meiri líkur á að slík kynslóð sé á leið ofan í þá jörð sem hún prettar um himininn, niður í dýflissu af einhverju tagi, svarthols sinnar eigin jarðhyggju, sinnar eigin tækni, í tröllahelli, sem gín að baki hillinganna, ef hún lýkur þá ekki ferli sínum í ófæru þeirrar styrjaldar, sem guðvana girnd, vitfirrtir vítisórar og djöflatrú æsir á hendur henni.

[…] Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Þú veist það svo vel. Það er meira af heilskyggni, fleiri slíkir menn. Viltu ekki að þínum hluta bæta úr þeim skorti?

Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (Skálholtsútgáfan 2006) 275-278.


Bloggfærslur 25. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband