Daglegt val markar lífsbraut okkar ... og heilindi

Erum við sönn og heil í því sem við segjum og gerum? Er hollusta okkar til sölu? Erum við tilbúin að svíkja okkur sjálf, okkar eigin prinsipp, fyrir silfurpeninga? Fremjum við slík svik gagnvart sjálfum okkur / samborgurunum / samfélaginu fyrir launaseðilinn / fyrir að halda embættinu / fyrir frægð / fyrir frama?
Konstantínus mikli keisari lifði fyrir 1600 árum. Hann varð fyrstur allra Rómakeisara til að leyfa kristnum mönnum að rækja trú sína einnig opinberlega. Tími bænahalds og samkomu í neðanjarðar-grafhýsum var liðinn. Faðir hans, sem var keisari á undan honum, var enn heiðinn maður. Hann hét Konstantíus.
Þegar Konstantíus þessi komst til valda gerði hann sér grein fyrir því að fjölmargir kristnir menn gegndu mikilvægum störfum bæði í ríkisstjórn Rómaveldis sem og við hirð keisarans.
Hann gaf öllum kristnum starfsmönnum skipun:
Yfirgefið Krist eða yfirgefið starfið!
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra kaus frekar að leggja niður starfið en að afneita trúnni. Og þá kom keisarinn öllum á óvart og setti þá sem höfðu verið tryggir trú sinni aftur inn í embætti og rak hina sem í kjarkleysi og hugleysi höfðu afneitað Kristi í þeirri von að halda starfinu. Og hann sagði við þá:
Ef þið haldið ekki tryggð við Krist sýnið þið mér ekki heldur tryggð.
 
Þessi saga á erindi við okkur enn í dag. Skilaboðin eru að þeim er umbunað sem fylgja innsæi sínu og leið hjartans. Því ber okkur alltaf að velja heilindi og trúfestu fram yfir skjótfengna umbun, þægindi og metorð.

Bloggfærslur 29. mars 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband