Erfið reynsla

Ver VE-200 

Eldgosið í Heimaey markar einhvers konar núllpunkt í mínu lífi. Ásamt móðurfjölskyldu minni var ég fluttur upp á fastalandið í gömlum eikarbát, mb. Ver VE-200 í svarta myrkri og úfnum sjó. (Sjá neðst hlekk með farþegalista o.fl.) Þótt ég muni ekki þessa nótt hef ég endurupplifað hana ótal sinnum í gegnum frásagnir þeirra sem þarna voru með mér. Afi hírðist við keðjukassann, en amma lá í koju og hafði mig fyrir kodda. Hún sagði að þannig hafi hún komið mér í skilning um að þetta var engin skemmtisigling.

Eldgosið framkallaði ekki bara efnahagstjón heldur djúpstætt sálrænt áfall, sem fólk er enn að vinna úr, en allt of fáir geta talað um. Þegar afi vakti ömmu með fréttum af eldgosi spurði hún hvort ekki mætti samt sofa aðeins lengur. Þetta var hægt að tala um. Það var líka hægt að rifja upp pönnukökubaksturinn í eldhúsinu heima áður en gengið var niður að höfn. En það var aldrei hægt að tala um hvernig fólkinu leið. Eða er hægt að tala um hvernig fólki líður þegar það fer allslaust út úr húsum sínum? Hvernig er hægt að höndla spurningar og svör við eins viðkvæmum atburðum eins og að þurfa að kveðja heimkynni sín - og atvinnu - í óvissu um framtíðina?

Að alast upp með brottfluttum Eyjamönnum var eins og að tilheyra útlagasamfélagi. Umræðurnar snerust um lífið í Eyjum fyrir gos, um samhjálp og samstöðu fólks sem býr í litlu samfélagi þar sem menn þurfa að geta treyst á hvern annan. Ég lærði að þekkja nöfn fólks og húsa sem ég hafði þó aldrei séð. Núna, öllum þessum árum síðar, má spyrja hvernig lífið hefði orðið ef ekki hefði komið til þessara hamfara. Því get ég ekki svarað. Eins og margir aðrir kann ég ekki að tjá mig um þessar hörmungar. Eldgosið var margra kynslóða áfall. Um það sannfærðist ég endanlega um síðustu helgi þegar ég ætlaði að ræða um þetta við börnin mín, en kom ekki upp einu einasta orði.  

Sagan um Heimaeyjargosið er saga fólks sem er slitið upp af rótinni, missir heimilið, lífsviðurværið og félagsnetið. En þetta er líka saga um æðruleysi, styrk og baráttuþrek. Í þessu ljósi skil ég sem fullorðinn maður skilaboðin í spurningunni sem amma spurði mig svo oft þegar hún var flutt til Reykjavíkur: „Hvað gerir snigill sem hefur verið alla ævi að skríða upp á stein en dettur niður rétt áður en hann nær takmarkinu?“ Hún beindi þessari spurningu vafalaust jafnmikið til okkar beggja, en við vorum alltaf sammála um að rétta svarið væri þetta: „Hann byrjar upp á nýtt“. Eru þetta ekki bestu skilaboðin þegar við minnumst sárrar reynslu sem hefur sett líf okkar á hvolf? Það er ekki í boði að gefast upp.  

Ver VE-200


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Lífið er ein allsherjar Sissifusar ganga hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. 

Ragnhildur Kolka, 23.1.2023 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband