Hugur þinn og hjarta eru þín eign, ekki ríkisins

Reynsla síðustu ára bendir til að vestrænar þjóðir kunni ekki að verjast valdhöfum sem undir yfirskyni umhyggju vilja skerða frelsi okkar. Þjóðfélögum okkar er í auknum mæli stjórnað af fólki sem gefur sig út fyrir að vera frjálslynt, fólki sem í orði kveðnu styður málfrelsið. Þegar þetta sama fólk kallar eftir ritskoðun til að vernda okkur er verið að bjóða falskt öryggi.

Tjáningarfrelsið er lífæð alls lýðfrelsis. Sú þjóð sem afhendir valdhöfum úrskurðarvald um hvað má segja og hvað ekki, afhendir ríkinu um leið alla umræðustjórn. Í slíku þjóðfélagi viðgengst engin lifandi umræða og fólk fer ósjálfrátt að ritskoða sjálft sig. Ef að er gáð má víða finna vísbendingar um það hvernig verið er að þrengja umræðuna, loka fyrir sjónarmið, banna gagnrýni, fela óþægilegar upplýsingar.

Frjálslynt stjórnarfar bannar fólki ekki að hafa óvinsælar skoðanir, heldur býr svo um hnútana að menn beri ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Frjálslynt fólk hefur trú á samborgurum sínum, er reiðubúið að hlusta á röksemdir og svara með rökum. Stjórnlynt fólk aðhyllist ritskoðun, styður slaufunarmenningu og umræðustjórn, en leggst gegn frjálsum fjölmiðlum. 

Við búum nú í samfélagi þar sem ríkið vill í auknum mæli taka ábyrgðina af herðum okkar, en gerir á móti tilkall til þess að taka af okkur frelsið um leið. Slík skipti leiða okkur í átt til alræðis, þar sem allir eru steyptir í sama mót og aðeins ein ,,ríkisskoðun" leyfð.

Við erum hugsandi verur sem tjáum okkur með orðum og athöfnum. Verkefni hvers dags er að tjá sig fallega og af virðingu fyrir öðrum. Stundum tekst okkur það vel og stundum ekki eins vel. Með því að samþykkja einsleitni og ritskoðun myndum við skapa flatneskjulegt, taugaveiklað, óheiðarlegt og huglaust samfélag þar sem enginn þyrði að tjá eigin hug og hjarta. Með því værum við að svíkja okkar innsta kjarna, samvisku okkar og mannlega reisn. Við eigum ekki að setja ljós okkar undir mæliker. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki hægt að orða þetta betur.

Takk fyrir.

Sigurður Kristján Hjaltested, 29.1.2023 kl. 18:26

2 identicon

Hvernig er hægt að búa svo um hnútana að menn beri ábyrgð á orðum sínum og gjörðum ef stjórnvöld eiga ekkert að aðhafast? Eiga einstaklingar að lemja þá sem fara með lygar og bull sem skaðar fólk og drepur? Á að safna liði gegn þeim sem halda sitt frelsi trompa öryggi annarra?

Vagn (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 18:35

3 identicon

Skylda ríkisins er að koma í veg fyrir skaða en ekki bregðast bara við þegar skaðinn er skeður. Eins og að banna akstur undir áhrifum en ekki bara sekta fyrir slys sem fullir ökumenn valda.

Vagn (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 18:58

4 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn, ég mæli með að þú víkkir sjónsviðið. Það gæti hjálpað þér svara þínum eigin spurningum. Í frjálsum samfélögum er ábyrgðin fyrst og fremst lárétt, þ.e. manna á milli, en ekki lóðrétt, milli ríkis og borgara. Þú virðist vera fastur í síðarnefndu þjóðfélagsmyndinni. Hlutverk ríkisins er að setja ramma utan um frjálst athafnalíf, ekki að vera eins og hlemmur sem kæfir eða umboðslaus barnfóstra. Góðar stundir.

Arnar Þór Jónsson, 29.1.2023 kl. 22:01

5 identicon

Útúrsnúningi átti ég ekki von á. En tek með sama hugarfari og samúð og öðru sem frá þér kemur.

Vagn (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 23:49

6 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn, það er ekki útúrsnúningur að vilja verja þær meginreglur sem best hafa reynst. Tjáningarfrelsið er stjórnarskrárvarin meginregla, sem svo er studd af meiðyrðalöggjöf o.fl. MIðað við það sem til þín hefur sést virðist þú aðhyllast valdboð og miðstýringu en ekki frjálslyndi og valddreifingu. Nánari lýsingu er ekki hægt að gefa fyrr en þú þorir að stíga fram undir fullu nafni. Þá getur fólk lagt betra mat á það hvers vegna þú skrifar eins og þú gerir.   

Arnar Þór Jónsson, 30.1.2023 kl. 08:13

7 identicon

Þar sem ég er ekki opinber persóna, ekki verið í fjölmiðlum og aldrei tengst stjórnmálum, fæ ég ekki séð hvernig þú heldur þig geta varið anarkismann sem þú boðar með því að fara í manninn.

Vagn (IP-tala skráð) 30.1.2023 kl. 08:56

8 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn, nú ertu orðinn alveg rökþrota á bak við gervinafnið þitt. Ég hef sennilega skrifað yfir 800 bls. um lög, stjórnmál og samfélagsmál. Hvergi hef ég mælt anarkisma bót, þvert á móti hef ég varað við því. Hertu þig upp.

Arnar Þór Jónsson, 30.1.2023 kl. 09:06

9 identicon

800 blaðsíður þurfa ekki að innihalda neitt af viti og eru enginn mælikvarði á neitt nema pennagleði. Frelsið sem þú boðar er ekkert annað en anarkismi, sama hvað þú kallar það.

Vagn (IP-tala skráð) 30.1.2023 kl. 09:57

10 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn (eða hvað sem þú heitir í raun), þú vonandi lærir af þessu að vaða ekki fram með rakalausar staðhæfingar. Frelsi með ábyrgð er ekki anarkismi. Frjálslyndi, valddreifing og takmörkuð ríkisafskipti eru stef sem reynst hafa vel. Sú forsjárhyggja og valboð sem þú aðhyllist er ávísun á vandræði. Stærilætið sem lesa má út úr skrifum þínum er óskiljanlegt þegar á sama tíma blasir við að þú ert tilbúinn að nota sleggjudóma án þess að hafa lesið þig til / sett þig inn í mál. Allt þetta er óverjandi þar til þú þorir að stíga fram sjálfur og leggja á borðið hvaða reynslu / þekkingu þú hefur fram að færa sem gefur þér leyfi til að tala eins og þú gerir. 

Arnar Þór Jónsson, 30.1.2023 kl. 10:46

11 identicon

Frelsi þar sem ætlast er til þess að einstaklingarnir sýni ábyrgð en ekki neinum er gert að fylgja því eftir er anarkismi. Það er ekki frjálslyndi að takmarka ríkisafskipti þar sem ríkisafskipti eru það eina sem fær einstaklingana til að haga sér á ábyrgan hátt og ritskoðun það eina sem kemur í veg fyrir að þeir skaði aðra. Frelsi sem takmarkast ekki við að skaða aðra er ekki frjálslyndi.

Og ég get enn ekki séð hvers vegna þú þurfir að vita nafn mitt og skónúmer til að vita hvort þú eigir að vera sammála eða ekki.

Vagn (IP-tala skráð) 30.1.2023 kl. 12:29

12 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Vagn, ef það er hobbý hjá þér að skreyta bloggsíður með þínum skoðunum, þá væri ráðlegt fyrir þig að hugsa áður en þú skrifar. Þetta síðasta svar þitt lýsir fáfræði, þröngsýni og forstikkaðri forræðishyggju. Svarið afhjúpar hugsunarhátt sem menn þora almennt ekki að flagga. Í þessu ljósi skil ég af hverju þú kýst nafnleynd. Þú myndir ekki þora að flagga þessum ljótu hugmyndum undir nafni. 

Arnar Þór Jónsson, 30.1.2023 kl. 14:41

13 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

... forstokkaðri forræðishyggju ...

Arnar Þór Jónsson, 30.1.2023 kl. 14:46

14 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Fáfræði,þröngsýni, ritskoðun, takmörkun á málfelsi og forræðishyggja, þrýfst yfirleitt í löndum

þar sem asnar draga vagna og kerrur.

Sigurður Kristján Hjaltested, 30.1.2023 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband