Í þjónustu hvers?

social mediaFyrri kynslóðir sáu líf sitt í órofa samhengi við líf forfeðra sinna. Líf þeirra var líka hluti af lífi afkomendanna. Fólk lifði í meira mæli í þjónustu við aðra, Guð og samfélagið. Menn tilheyrðu fámennum samfélögum, þar sem hver og einn hafði hlutverki að gegna. Líf nútímamannsins snýst fyrst og síðast um hann sjálfan. Hjálpræði sitt og sjálfsmynd reynir hann að sækja í hugmyndafræði sem er ekki trúarleg. Í hópnum samsama menn sig hver með öðrum og sækja jafnvel einkenni sín til hópsins. Þetta fæðir af sér alls konar þversagnir: Svið einkalífsins verður stöðugt þrengra á sama tíma og félagsleg einangrun fer vaxandi. Félagsleg tengsl trosna. Fjölskyldur brotna. Í þessu umhverfi er ekki skrýtið þótt fólk glími við ótta, þunglyndi, tómleika og tilgangsleysi.

Ein leiðin til að bregðast við þessu er að reyna að þenja út sjálfsímyndina með því að leita viðurkenningar annarra. Samfélagsmiðlar þrífast á þessu, þ.e. að vera vettvangur þar sem menn geta sótt (falska) staðfestingu á eigin virði í augum annarra.

Svonefndir samfélagsmiðlar blómstra í menningu þar sem velgengni er ekki mæld út frá öðru en samanburði við aðra, þar sem virði fólks er mælt í vinsældum (lækum), þar sem ásýnd vegur þyngra en athafnir, þar sem aðdáun er mikilvægari en virðing, þar sem betra er að virðast en að vera, þar sem hégóminn stýrir för en ekki innri rödd, þar sem menn sækjast eftir vindi en ekki sönnum verðmætum. Almannatenglar og áróðursvélar koma að góðum notum til að nálgast hin eftirsóttustu verðmæti nútímans: Ásýnd og ímynd.

Eins og fiskur í sem syndir í slíku vatni stefnir nútímamaðurinn að því að líta vel út í augum annarra; ganga í takt við hópinn; viðra aðeins vinsælar skoðanir; markaðssetja sjálfan sig sem dýrmætan starfskraft … með sveigjanlegt gildismat. 

Við erum vissulega öll sérstök, en við megum ekki gleyma því að við erum öll af sama meiði. Efniviður okkar allra er sá sami. Í grunninn erum við sköpuð í Guðs mynd, með guðsgjafir sem okkur ber að rækta - öðrum til góðs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband