28.2.2023 | 09:12
Úlfakreppa stjórnmálanna.
Nýjar reglur frá ESB munu valda því að íþyngjandi losunarskattar verða lagðir á flug til og frá íslandi. Málið er ljóslega viðkvæmt á ýmsa kanta, en varpar um leið ljósi á það sem er að gerast á bak við leiktjöld / ytri ásýnd stjórnmálanna.
Hefðbundin stjórnmál eru að leysast upp í einhvers konar sjónhverfingu. Á bak við tjöldin stýrir tækniveldið för (vísindi, tækni og iðnaður). Tækniveldið er alþjóðlegt og starfar utan við stjórnmál þjóðríkjanna. Afleiðingarnar má sjá í því hvernig lýðræðið víkur fyrir einhvers konar tækniræði og hvernig hagsmunir þjóðríkisins víkja fyrir yfirþjóðlegum sjónarmiðum. Kjörnir stjórnmálamenn telja sig ekki eiga annan kost en að staðfesta það sem þegar hefur verið ákveðið annars staðar. Þetta þýðir að lagasetning er í síauknum mæli hugsunarlaus innleiðing erlendra reglna. Þetta birtist líka í því hvernig innlendir embættismenn fylgja í blindni línum sem lagðar hafa verið erlendis.
Til að dylja þessa umbreytingu fyrir almenningi er lögð mikil áhersla á að halda uppi ásýnd sjálfstæðis og lýðræðis. Gagnvart kjósendum er mikilvægt að þessi ásýnd haldi velli, því afhjúpun gæti valdið almennum óróa. Stöðugt erfiðara verður þó að fela þá breytingu sem er að eiga sér stað: Stjórnmálin eru að umbreytast í gervistjórnmál. Á sama tíma er raunhagkerfið sett í þumalskrúfur gervihagkerfis sem á hugmyndafræðilegum grundvelli vill m.a. stýra orkunotkun og eldsneytisvali, sbr. m.a. áðurnefnda losunarskatta.
Framangreind umbreyting er hvergi rædd. Stjórnvöld vinna að lausn á bak við tjöldin með lobbíisma. Þar með eru íslensk yfirvöld í reynd farin að starfa samkvæmt erlendum leikreglum, en ekki á þeim skýra grundvelli sem stjórnarskráin markar lýðveldinu okkar. Að þetta sé hvergi gagnrýnt er til marks um það hversu máttlaus pólitisk rökræða er orðin.
Kjósendur sitja í raun uppi með valdhafa í erlendum borgum sem svara ekki til neinnar ábyrgðar vegna afleiðinga þeirra ákvarðana sem teknar eru. Í slíku umhverfi er ekki við öðru að búast en einmitt því sem blasir við í tilviki losunarskattanna, þ.e. að ákvarðanir t.d. miðist við hag / ásýnd valdsins (ESB) fremur en hugsanlegt tjón Íslendinga. Þegar hagsmunir valdhafa fara ekki lengur saman við hagsmuni þegnanna hlýtur að koma að því að áhorfendur bauli á leikarana (stjórnmálamenn) og vilji yfirgefa leikhúsið.
Ef stjórnmálamenn á Íslandi vilja afstýra því að algjör trúnaðarbrestur verði milli þeirra og kjósenda þarf að viðurkenna þá stöðu sem uppi er og taka hana til heiðarlegrar umræðu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.