31.3.2023 | 09:12
Dauðateygjur eða nagli í líkkistuna?
Í grein á Krossgötum í gær vitnaði ég til Benjamíns Franklin. Eftir að hafa fylgst með vanhugsaðri og illa framsettri vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í gær, þar sem Alþingi var að nauðsynjalausu breytt í leikhús fáránleikans, rifjuðust upp orð annars manns sem einnig átti frumkvæði að stofnun Bandaríkjanna: ,,Lýðræði endist ekki lengi. Það tærist fljótt, eyðist og tortímir sjálfu sér. Hvergi hefur lýðræði komist á fót sem framdi ekki sjálfsmorð" (John Adams 1735-1826).
Ef skrípaleikurinn sem var til sýnis í þingsal Alþingis í gær var til merkis um að lýðræðið hér sé í dauðateygjunum, þá er þetta nýja frumvarp mögulega nagli í líkkistuna.
Alþingi og íslenskur réttur gengisfelldur?
Sem lögfræðingur og lýðræðissinni er ég sleginn yfir því að komið sé fram lagafrumvarp þar sem því er slegið föstu sem meginreglu að reglur EES skuli ganga framar lögum frá Alþingi. Að mínu viti stenst þetta ekki stjórnarskrá og gengur í bága við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Auk þess verður að benda á að út frá samningsforsendum Íslendinga 1993 ætti þessi breytingartillaga að hljóma þveröfugt við það sem nú er lagt til. Betra hefði verið að hún hljómaði svona:
- ,,Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skulu íslensk lög ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum". [Leturbr. AÞJ]
Þung undiralda
Á málfundi sem ég sótti í gær fékk ég hljóðnemann óvænt í hendur og gerði þetta að umtalsefni. Bara svo það komi skýrt fram, þá er ég þeirrar skoðunar að menn ættu í lengstu lög að reyna að vinna að framgangi sinna stefnumála innan þeirra stjórnmálaflokka sem fyrir eru. Sjálfur vil ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að rétta kúrsinn hjá Sjálfstæðisflokknum. Hvort það mun hafa eitthvað að segja er alls óvíst. Öllum má þó vera ljóst að það er þung og vaxandi undiralda í samfélaginu vegna þess lýðræðisskorts sem Íslendingar búa við innan EES og þess hvernig réttaröryggi borgaranna er ógnað ef framangreint frumvarp nær fram að ganga.
Lokaorð
Stjórnmálaflokkar eiga ekki kjósendur sína. Ef haldið verður áfram að ögra fólki með ólýðræðislegri lagasetningu (að formi og efni), og ef stjórnmálaflokkar fara ekki að sýna hollustu við stefnumið sín og knýjandi hagsmuni landsmanna, þá munu kjósendur óhjákvæmilega hætta að sýna flokkunum hollustu og stuðning. Tíminn verður að leiða í ljós hvort lýðræðið verður þar með dautt og grafið eða hvort það rís upp til nýs lífs.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.