17.4.2023 | 09:09
,, ...börnum og hröfnum að leik.
Alþingi er helgasta stofnun lýðveldisins. Ef allt væri með felldu myndu þingmenn og ráðherrar líta á það sem skyldu sína að standa vörð um vald þess og virðingu. En nú virðist annað vera upp á teningnum.
Hvert stefnir?
Í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær undirstrikaði ég, með dæmum, alvarleika þess að vegið sé að réttaröryggi, fyrirsjáanleika laga, lýðræðisgrunni laganna og réttmætum væntingum með því að leiða í lög almenna forgangsreglu EES réttar. Ef þetta frumvarp verður að lögum er Alþingi í raun að gefa út óútfyllta ávísun sem ESB og stofnanir þess geta nýtt til að ógilda íslenskan rétt og víkja til hliðar ákvðum sem íslenskir borgarar og fyrirtæki hafa byggt á í góðri trú. Afleiðingarnar yrðu m.ö.o. þær að Íslendingar gætu ekki treyst því sem stendur í lagasafninu. Hverju geta menn treyst ef ekki er hægt að treysta því sem stendur í lögum?
Framsetning mín er ekki byggð á spádómum. Þetta er ályktun af áratugalangri réttarframkvæmd sem byggð er á skýrri tilvísun til Rómarsáttmálans sjálfs, þar sem tónninn er sleginn strax í upphafi með því að segja að stefnt sé að ,,stöðugt nánari samruna" (e. an ever closer union).
Hljóðlát bylting sem kemur ofan frá
Íslendingar verða að vakna til vitundar um hvað er að gerast. Hið nýja frumvarp utanríkisráðherra er til marks um að hér er að eiga sér stað hljóðlát bylting í stjórnarfari og stjórnskipun Íslands. Til að átta sig á þessu verðum við að skilja hvað ESB er í raun. Þáttur í því er að kunna skil á sögu ESB.
Upprunann má rekja aftur til hugmynda, sem fram komu á 3. áratugnum, um Bandaríki Evrópu að Norður-Amerískri fyrirmynd. Stjórnmálamenn hafa verið blindir gagnvart þessu. EES, sem fylgihnöttur ESB, hefur á síðari árum að mörgu leyti haft skaðleg áhrif á íslenska pólitík og lýðræði. Hugmyndir um stofnun yfirþjóðlegs sambandsríkis, með ólýðræðislega kjörinni stjórn, hafa verið dulbúnar sem eitthvað annað, þar á meðal sem friðar-, tolla- og fríverslunarbandalag, efnahagsbandalag og nú ESB (pólitískt og efnahagslegt bandalag). Í þessu samhengi má ekki líta fram hjá því hlutverki sem dómstóll ESB hefur tekið að sér, en hann hefur í reynd verið pólitískur dómstóll. Í framgöngu sinni og réttarframkvæmd hefur dómstóllinn seilst langt út fyrir öll hefðbundin mörk dómsvaldsins og gerst leiðandi í samrunaferlinu og knúið í gegn bein réttaráhrif Evrópuréttarins og æðstu lögsögu ESB dómstólsins, sem aðildarríkin sáu ekki fyrir árið 1957. Eftir dóma í Van Gend en Loos og Costa g. ENEL hefur dómstóllinn haldið áfram á sömu braut. Þannig má segja að við undirritun Lissabon sáttmálans 2009 hafi engin aðildarþjóð mátt ganga þess dulin hvers konar réttarskipan þau væru að festa í sessi. Annað gildir um Íslendinga sem hvorki hafa undirritað Maastricht sáttmálann um stofnun ESB 1993 né Lissabon samninginn. Engu að síður hefur það gerst á síðustu misserum að Þýskaland og Pólland sýna andstöðu gagnvart því að beygja sig alfarið undir það að ESB fari með æðsta vald og að lög ESB yfirtrompi jafnvel stjórnarskrár ríkjanna.
Segjum hlutina eins og þeir eru
Þrátt fyrir þá þróun sem við höfum orðið vitni að sl. ár og áratugi er því haldið fram að fullveldi okkar sé óskert. Hér fer hljóð og mynd ekki saman. Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn haldi beinlínis fram blekkingum og slái ryki í augu Íslendinga varðandi atriði eins og innleiðingu erlends réttar / áhrif ESB réttar?
Hafa sérfræðingarnir (og stjórnmálamennirnir) verið fullkomlega heiðarlegir? Að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni i EES samstarfinu? Eftir að hafa rætt við Helgu Völu Helgadóttur í fyrrnefndum útvarpsþætti í gær tel ég ljóst að flokkur hennar, Samfylkingin, er að slá ryki í augu sinna eigin kjósenda. Í Noregi, þar sem forgangur EES er viðurkenndur, hefur þetta t.d. þau áhrif að stéttarfélög geta ekki sinnt hagsmunagæslu á grunni landsréttar og vopnin eru slegin úr höndum þeirra með vísan til þess að fjórfrelsið yfirtrompi allt annað. Alvarleiki slíkra staðreynda verður ekki afgreiddur með flissi. Þetta er ísköld lögfræðileg staðreynd, en ekki ,,af því bara lögfræði eins og þingmaður Samfylkingarinnar kýs að orða sín svör.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.