Sjálfstæðismenn athugið

Stefna Sjálfstæðisflokksins byggir á þeim klassíska grunni að lögin eigi sér lýðræðislega rót. Sjálfstæðisflokkurinn hefur það hlutverk að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands. Fullveldi snýst um að hafa rétt til að setja sín eigin lög, sem borgararnir geta treyst á að gildi í daglegu lífi sem grundvöllur fyrirsjáanleika og réttaröryggis. Þetta er lögfræðilegt atriði, en einnig pólitískt og samfélagslegt. Í þessu felst nánar að lög standa ekki undir nafni nema þau þjóni tilteknu samfélagi og að ekki er unnt að tala um samfélag fyrr en það hefur komið sér upp lögum í einhverri mynd. Íslenskur réttur – og vestræn stjórnskipun – byggir á því að lögin eigi sér lýðræðislegan grundvöll, þ.e. að allt vald komi frá þjóðinni, og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum.

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að tryggja að grunnstefna hans sjáist í daglegri framkvæmd stjórnmálanna. Þverpólitísk moðsuða hefur valdið því að grunngildi Sjálfstæðisflokksins hafa horfið í móðu. Kjarnagildum hefur verið ýtt til hliðar en jaðarsjónarmið gerð miðlæg.  Þögn og meðvirkni hefur grafið um sig eins og krabbamein. Það er eitthvað mikið að ef lárétt skuldbinding milli kollega (stjórnmálamanna / embættismanna annarra ríkja) er farin að vega þyngra í framkvæmd en hin lóðrétta tenging milli kjörinna fulltrúa og borgara.

Hluti skýringarinnar á þessari öfugþróun er sú að Ísland er orðið að „aðildarríki“ en áherslan á þjóðríkið er hverfandi. Alþingi samþykkti vissulega árið 1993 að Ísland yrði aðili að efnahagslegu samstarfi (EES), en Íslendingar hafa aldrei formlega samþykkt að verða aðilar að pólitísku yfirþjóðlegu sambandi í núverandi mynd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband