26.4.2023 | 08:06
Risamál má ekki afgreiða í flýti og af léttúð
Utanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um bókun 35 19. apríl sl. og að lokinni 1. umræðu þann dag gekk málið til utanríkismálanefndar. Á vef Alþingis er ekki annað að sjá en að unnið sé á leifturhraða að afgreiðslu málsins í nefndinni. Þetta virðist vera gert undir stjórn varaformanns nefndarinnar Njáls Trausta Friðbertssonar (D) í fjarveru nefndarformannsins Bjarna Jónssonar (VG).
Athygli vekur að nefndin óskaði eftir umsögnum frá 7 aðilum 24. apríl sl. og að skilafrestur umsagnar er örstuttur, þ.e. til 2. maí nk. Val á umsagnaraðilum er einnig mjög athyglisvert, en nöfn þeirra má sjá hér. Með fullri virðingu fyrir öllum þessum 7 umsagnaraðilum má ganga út frá að umsagnir þeirra verði allar jákvæðar og að þau muni ekki sjá mikla meinbugi á því að frumvarpið verði að lögum. Frammi fyrir þessum lista hlýtur íslenskur almenningur að spyrja hvers vegna utanríkismálanefnd kýs að velja umsagnaraðila úr svo þröngu mengi. Hvers vegna er ekki leitað til manna sem skiluðu umsögn um þessi atriði í aðdraganda EES samningsins 1993? Af hverju kýs utanríkismálanefnd að sniðganga prófessorana Stefán Má Stefánsson og Guðmund Alfreðsson, sem manna best þekkja söguna og þau stjórnskipulegu álitaefni sem hér reynir á? Af hverju er ekki óskað umsagnar Arnaldar Hjartarsonar aðjúnkts og héraðsdómara sem ásamt Stefáni Má hefur varað við því að frumvarp utanríkisráðherra verði að lögum í núverandi mynd? Af hverju leitar nefndin ekki umsagnar Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og dr. Hafsteins Dan Kristjánssonar sem nýverið birtu grein um frumvarpið þar sem dregin er fram sú staðreynd að hér er ekki um neitt smámál að ræða, heldur breytingu sem er til þess fallin að hafa veruleg og afgerandi áhrif á gildandi rétt.
Á hvaða vegferð er utanríkismálanefnd í þessu máli? Hvers vegna hefur ríkisstjórn Íslands nú fyrirvaralaust gefist upp gagnvart ESA? Í góðri fréttaskýringu Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu í dag er kallað eftir því að þessi skyndilegi viðsnúningur íslenskra stjórnvalda verði útskýrður.
Framangreindur flýtir og hraður viðsnúningur kalla á skýringar. Býr eitthvað að baki sem ekki þolir dagsljósið? Tala þingmenn og ráðherrar af heilindum þegar þau gera lítið úr mikilvægi frumvarpsins? Frumvarpið hefur í sér fólgna ráðagerð um framsal löggjafarvalds Alþingis og eftirgjöf á fullveldi þjóðarinnar. Í því ljósi er vandséð að þingmenn, sem allir hafa unnið drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins, hafi heimild til að veita frumvarpi þessu lagagildi. Fullveldið tilheyrir þjóðinni og ef gefa á það eftir verður þjóðin að fá að tjá hug sinn beint með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég læt aðra um að tjá sig um það hvort og þá hvaða afleiðingar það ætti að hafa ef talið yrði að þingmenn og ráðherrar hefðu með framgöngu sinni í þessu máli rofið þau heiti sem þeir hafa sjálfir unnið að stjórnarskrá lýðveldisins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.