28.5.2023 | 15:44
Frumskylda dómara og þingmanna
Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar skulu embættismenn, þ.m.t. dómarar, vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Sama gildir um þingmenn, sbr. 47. gr. stjskr. Þetta felur í sér yfirlýsingu um að viðkomandi skuldbindi sig til að virða og verja stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta má kalla frumskyldu íslenskra embættismanna.
Í þessu felst m.a. að dómarar mega ekki taka sér löggjafarvald og að þingmenn megi ekki taka sér vald til að skera úr um ágreiningsmál sem eiga heima fyrir dómstólum.
Nánar um hlutverk dómara og þingmanna
Dómsvaldið horfir ekki fram í tímann eins og löggjafinn. Hlutverk dómara er að horfa aftur í tímann, til atvika sem þegar hafa orðið og skera úr um hvaða lög giltu um ágreininginn, hvert inntak þeirra er og hvaða þýðingu þau hafa í tilgreindu tilviki.
Hlutverk þingmanna er að horfa fram í tímann og beita hyggjuviti sínu og siðviti til að móta lögin út frá hagkvæmnis- eða gagnsemissjónarmiðum.
Dómurum leyfist ekki að framselja vald sitt til annarra. Það ætti kjörnum þingmönnum ekki heldur að leyfast út frá stjórnarskránni. Samt hefur sú öfugþróun átt sér stað að lagasetningarvaldið er í stöðugt meira mæli framselt til erlendra stofnana, sérstaklega til ESB, en einnig til sérfræðinga, sem í kófinu fengu vald til að innleiða hér nokkurs konar tilskipanastjórnarfar vegna yfirstandandi hættuástands. Þessi tilhögun samræmist ekki kröfum stjórnarskrár því Alþingi er með þessu gert óvirkt. Við þessar aðstæður er sérlega brýnt að dómstólar standi vaktina og eftirláti stjórnvöldum ekki ,,ríkt svigrúm" til að stýra með reglum sem ekki hafa fengið viðunandi lýðræðislega umræðu og meðferð.
Óttinn er slæmur áttaviti
Sagan sýnir að það er lýðræðinu mjög hættulegt þegar ótti grípur um sig og almenningur kallar eftir aðgerðum sem miða að því að efla öryggi og draga úr hættu. Við þessar aðstæður fá sérfræðingar og stjórnmálamenn tækifæri til að láta ljós sitt skína og gefa til kynna að þeir geti leyst vandann með skjótvirkum aðgerðum.
Til hvers að hafa þunglamalegt lýðræði þegar við getum leyst málin með skilvirku sérfræðingaræði? Svarið er í því fólgið engum einum manni / engum fámennum hópi / engri klíku er treystandi fyrir öllu valdi. Fámennisstjórn jafnast aldrei á við virkt lýðræði þar sem öll sjónarmið fá að komast að við mótun réttarreglna. Gagnrýni og aðhald er öllum nauðsynlegt, sérstaklega löggjafanum.
Óttaslegið fólk getur verið reiðubúið til að afsala sér ýmsu því sem þeim er dýrmætast, m.a.s. málfrelsinu (réttinum til að gagnrýna stjórnvöld). Þannig hefur óttinn verið sá drifkraftur sem knúið hefur mörg lýðræðisríki sögunnar í greipar alræðis.
Lokaorð
Skjótar aðgerðir kunna að vera nauðsynlegar við vissar aðstæður, en þær mega ekki standa lengur en bráðnauðsynlegt er. Þar sem þessu sleppir verða dómarar að sinna sínu hlutverki og veita aðhald út frá lögum og stjórnarskrá, því ekkert lýðræðissamfélag sem vill standa undir nafni getur til lengdar verið ofurselt opinberum tilskipunum sem gefnar eru út í nafni hættuástands. Ef gefa á slíku stjórnarfari lausan tauminn eyðist ekki aðeins lýðræðið, heldur mannréttindin einnig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.