Öfugþróun stjórnmálanna

Eins og aðrar vestrænar þjóðir sitja Íslendingar undir stöðugum þrýstingi pólitískrar rétthugsunar, sem miðar að því að kæfa frjálsa, sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Samhliða er linnulaust grafið undan sjálfsákvörðunarrétti manna og þjóða. Áhrif þessa þunga straums blasa nú víða við, m.a. á vettvangi stjórnmála og lagasetningar. Ein alvarlegasta myndbirting þessarar þróunar er frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 sem blessunarlega var stöðvað í utanríkismálanefnd og verður ekki afgreitt á þessu vorþingi.

Á fundi nefndarinnar 2. júní sl. gafst mér færi á að kynna umsögn mína um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Á fundinum fjallaði ég ítarlega um þá ólýðræðislegu strauma sem frumvarpið birtir og flæða nú, úr óvæntum áttum, um vettvang íslenskra stjórnmála. Frumvarpið lítilsvirðir lýðræðislega stjórnarhætti og grefur undan pólitísku lögmæti þeirra laga sem okkur er ætlað að búa við. Líta ber á þetta frumvarp sem stóran áfanga á langri og skuggalegri vegferð sem miðar að því að færa valdið úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa yfir til sérfræðinga sem settir hafa verið í valdastöður. Í stað réttarríkis, þar sem valdhafarnir þurfa sjálfir að lúta lögum, er verið að umbreyta réttinum í gamaldags valdboðsstjórnarfar, þar sem valdhafarnir fara sínu fram án þess að þurfa að lúta neinu aðhaldi. 

Á fyrrnefndum fundi utanríkismálanefndar varð mér ljóst að meirihluti þingmanna leggur meira upp úr ásýnd en pólitísku og lýðræðislegu lögmæti. Þetta birtist m.a. í þeirri nauðvörn helsta talsmanns frumvarpsins, að lög sem hingað eru send í pósti og Alþingi innleiðir án viðnáms og án umræðu teljist ,,íslensk lög" ekki síður en lög sem samin hafa verið út frá íslenskum aðstæðum og fengið viðunandi umræðu í þingsal. Með þessu eru stuðningsmenn frumvarpsins hættir að gera greinarmun á formi og efni. Með því að breyta lagasetningu Alþingis í innantóma skel er tekin sú áhætta að skelin verði, í fyllingu tímans, fyllt af reglum sem þjóna hagsmunum annarra en þeirra sem landið byggja.

Án andmæla?

Frammi fyrir þessu verða menn að stíga niður fæti og koma í veg fyrir að grafið sé undan burðarstoðum laga og lýðræðis hérlendis. Eða ætlar almenningur að horfa þegjandi upp á það að grafið sé undan Alþingi? Eru menn svo litlir í sér að þeir þori ekki að beita gagnrýninni hugsun og spyrja gagnrýninna spurninga? Ætlum við að sitja auðum höndum meðan lýðræðishefðir eru þynntar út og gerðar óvirkar?

Valdið skiptir um hendur en hverfur ekki

Íslendingar verða að átta sig á því að þegar valdið hverfur úr höndum kjósenda og kjörinna fulltrúa þeirra, þá hverfur það ekki út í tómið, heldur færist í hendur valdahópa sem þjóna eigin hagsmunum. Í þessum hópum situr fólk sem aðhyllist einhvers konar elítisma. Þar koma saman fulltrúar stórfyrirtækja og pólitískra valda, sérfræðingar og fjármálamenn, fræðimenn og fjölmiðlamenn. Þeir einu sem eiga sér ekki raunverulega fulltrúa á þessum fundum eru ég og þú, kæri lesandi. Okkar hlutverk í þessum nýja heimi er tvíþætt, þ.e. að borga og hlýða. 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband