Góður málstaður þolir umræðu, vondur málstaður ekki

Á hvaða grunni leyfir Björn Bjarnason sér að kalla framgöngu formanns utanríkismálanefndar „forkastanlega“? Síðan hvenær varð það sérstök dyggð að flýta afgreiðslu lagafrumvarpa án viðhlítandi umræðu? Hver er hin brýna nauðsyn sem kallar á tafarlausa samþykkt frumvarps utanríkisráðherra um bókun 35?

Skoðun sinni til stuðnings vísar Björn til þess að „meirihluti þingmanna“ styðji frumvarpið. Um leið lítur hann fram hjá því að málið hefur enn ekki fengið viðeigandi meðgöngu og umræðu. Tíminn og umræðan er hluti af lýðræðislegu og vönduðu lagasetningarferli.

Undirstaðan

Hraði, hugsunarleysi, tímapressa og ytri þrýstingur eiga ekki að vera hluti af vandaðri lagasetningu. Þetta er viðurkennt grundvallarsjónarmið í vestrænum rétti. Frá 18. öld hafa stjórnarskrár haft að geyma ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að handhafar æðsta valds misnoti stöðu sína. Þannig sjáum við endurtekin stef í stjórnarskrám, m.a. í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sem miða að því að skipta valdinu upp í aðskilda þætt og tryggja valdajafnvægi. Í þessum anda voru sett ákvæði i stjórnarskrár sem miða beinlínis að því að hægja á löggjafarferlinu. Deildaskipting Alþingis var hluti af þessari forskrift. Í stuttu máli er uppleggið það að lagasetning eigi ekki að gerast með áhlaupi, heldur eigi tillögur til laga að fá vandaða umfjöllun. Þetta er ekki síst gert til að aftra því að meirihlutinn valti yfir minnihlutann. Til að verjast þessu hefur stjórnskipunin veitt minnihlutanum úrræði til að tefja löggjafarferlið. Vilji menn fræðast nánar um þetta má t.d benda á skrif James Madison sem var 4. forseti Bandaríkjanna og meiri stjórnspekingur en bæði ég og Björn Bjarnason til samans.

Uppgerðarasi með dugnaðarfasi

Við vissar aðstæður getur vissulega verið brýnt að löggjafinn bregðist skjótt við ytri aðstæðum og atburðum. En mannlegt eðli býður alls kyns hættu heim og í því tilviki sem hér um ræðir hefur engin útskýrt hvers vegna nauðsynlegt var að afgreiða frumvarpið um bókun 35 með þeim hraða sem Björn Bjarnason virðist hafa óskað.

Flýtum okkur hægt

Hér er um að ræða mál sem er til þess fallið að veikja íslenskt lýðræði og Alþingi Íslendinga til frambúðar. Afleiðingarnar gætu verið alvarlegar, ekki aðeins fyrir þá sem nú byggja Ísland, heldur einnig síðari kynslóðir. Því á að þakka Bjarna Jónssyni fyrir að hægja á bráðræði stuðningsmanna umrædds frumvarps. Ég skora á alla sem umhugað er um framtíð lýðveldisins okkar að nýta sumarið til að krefja stuðningsmenn frumvarpsins um rök og skýringar. Hvaða hagsmunir kalla á að málið sé lagt fram nú eftir bráðum 30 ára aðild að EES? Hvaða nauðsyn krefst þess að málið sé afgreitt í flýti?

Daunill mál hafa takmarkað geymsluþol í sólarljósi

Eftir að hafa fylgst með óðagotinu sem einkenndi meðferð málsins í fjarveru formanns utanríkismálanefndar og eftir að hafa lesið rakalausan málflutning Björns Bjarnasonar hallast ég helst að því að stuðningsmenn frumvarpsins telji að málið gæti snúist í höndum þeirra eftir því sem málið fær meiri athygli og umræðu. Því vil ég hvetja landsmenn til að kynna sér þetta vonda mál til hlítar og veita viðnám þeim sem vilja keyra það í gegnum þingið með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband