26.7.2023 | 09:13
Huldumaður tjáir skýra hugsun
Huldumaðurinn Kári gæti hafa tileinkað sér orð eftir Thomas Sowell að ekki sé unnt að segja allan sannleikann nema annað hvort handan grafar eða handan nafns (sjá mynd). Í nýrri ritgerð Kára má finna eftirfarandi lýsingar sem vert er að vekja athygli á. Þótt undirritaður (AÞJ) hefði sjálfsagt viðhaft annað (og mildara) orðalag er mögulega sannleikskjarni þarna sem gæti ýtt við staðnaðri pólitískri umræðu:
,,Margir upplifa (og það réttilega!) fullkomið stjórnleysi í málefnum flóttamanna, í fjármálalífinu og á sviði orkumála. Engu er líkara en að íslensk stjórnvöld séu í bandi erlendra stofnana sem gefa stjórnvöldum skipanir. Þar má nefna Evrópusambandið, stofnanir Sameinuðu þjóðanna, s.s. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, auk dauðlega fólksins sem kemur saman í Davos. Vitleysan og stjórnleysi Íslands verða ekki skýrð öðruvísi en þannig að fólk fylgi skipunum erlendis frá. Veruleikafirringin er slík að fólki getur ekki verið sjálfrátt. Með breyttu þjóðskipulagi, frá lýðræði yfir í þjófræði, er ljóst að kosningar til Alþingis snúast að mestu leyti um það hvaða þjófar, eða fulltrúar þjófa, komast til valda. Vitanlega eru alltaf undantekningar, þvert á alla stjórnmálaflokka en meginlínurnar eru skýrar. Markaðsvæðing og rán á eigum almennings eru aldrei langt undan. Margir líta svo á að starf ráðherra sé að vera einskonar áhrifavaldur - síbrosandi og með fíflalæti í fjölmiðlum. Þau sem mest brosa hafa oft orðið þjóðinni til ævarandi skammar með blaðri sínu. Að hafa stefnu og þekkingu á t.a.m. alþjóðamálum skiptir hins vegar engu máli. Að auglýsa eigin persónu er það sem allt snýst um. Útlitið skiptir öllu máli en innihaldið engu. Þannig fólk þjónar þjófræðinu vel: það hefur engar skoðanir, þokukennda framtíðarsýn, mjög skerta dómgreind og takmarkað vit. Þessi blanda hefur orðið ofan á í íslenskum stjórnmálum og er boðin aftur og aftur, oft á nýjum belgjum. Því verður að teljast ólíklegt að Samfylking á nýjum belgjum valdi straumhvörfum eftir næstu kosningar. Eitruð peð og lík í lestinni raða sér oft á lista stjórnmálaflokka. Pólitísk nálykt fælir marga frá því að kjósa suma stjórnmálaflokka. Á meðan sama fólk er upptekið af eigin útliti og brosir í myndavélar, vinnur það skipulega að framsali íslensks fullveldis til erlendra stofnana, hvort heldur er til Evrópusambandsins eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar [WHO]. Einhverjr láta blekkjast en aðrir fá fullkomna skömm á þessum vesaldómi íslenskra ráðamanna. Alþingi Íslendinga er í raun og veru mesta uppspretta ofbeldis og ofríkis á Íslandi - gegn almenningi - en að sama skapi er sýnd ómæld undirlægja gagnvart erlendu valdi. Á þingi er þjóðin, og þegnar hennar, beitt skefjalausu ofbeldi í stóru og smáu. Fámennisklíkan, með sína dyggu fulltrúa á þingi, valtar yfir þjóðarviljann oft og ítrekað sem er vitanlega ein mynd ofbeldis. Hefur þjóðin t.a.m. verið spurð hvaða stefnu hún vilji reka í málefnum flóttamanna, orkumálum (auðlindamálum), heilbrigðismálum og alþjóðamálum? Í hvers umboði starfar Alþingi og þeir sem þar sitja? Hvað ræður því hvaða hagsmunir verða ofan á við atkvæðagreiðslur eða hvort málin koma yfirleitt til kasta Alþingis? Ef einhver heldur að til forystu í stjórnmálum veljist fólk yfirleitt vegna hæfni og jafnvel greindar, þá er það mikill misskilningur. Fólk velst fyrst og fremst í stjórnmál sökum þess að það er ófyrirleitnara en almennt gerist, frekara og yfirgangssamara. Valdalíkur þjóðfélaga samanstanda af slíku fólki. Þar nægir að nefna Evrópusambandið. Margt þetta fólk virkar þó kurteist á yfirborðinu, en frekja og yfirgangur eru aldrei langt undan. Innganga Íslands í Evrópusambandið mun af augljósum ástæðum ekki leysa vandann sem þarna er lýst. Það sem gerist er einfaldlega það að valdaklíkan á Íslandi binst valdaklíku Evrópu sterkari böndum, með neikvæðum afleiðingum fyrir almenning á Íslandi. Það er af og frá að almenningur muni hagnast á því. Þegar allt kemur til alls snýst þetta samstarf um það hvernig valdaklíkur stjórnmála og efnahagsmála ráða ráðum sínum. Þegar íslenskur ráðherra brosir í erlendar myndavélar er það til þess að styrkja samstöðuna inn á við - samstöðu innan valdaklíkunnar í stærra samhengi. Það er síðan annað mál að alltaf er til fólk sem (brosir) og hlær á röngum stað í leikritinu, eins og Halldór Laxness benti á í viðtali fyrir margt löngu".
[Leturbr. AÞJ]
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.