28.8.2023 | 08:02
Stærsta báknið
Til að hægt sé að tala um frjálsa þjóð í frjálsu landi, þarf sú þjóð að hafa hafa fullt forræði á þeim lögum sem hún býr við. Umræða um þetta kjarnaatriði hefur verið jaðarsett í Sjálfstæðisflokknum og menn eins og Björn Bjarnason reyna að smætta sjálfstæðisstefnuna niður í að hún snúist nú aðeins um frelsi einstaklingsins. Einstaklingur sem býr við ofríki stjórnvalda, ólýðræðislega lagasetningu og löggjafa sem svarar ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar er ekki frjáls. Besta vörn lýðræðislegs stjórnarfars er fullvalda ríki þar sem almenningur fær að kjósa fulltrúa sína á löggjafarþing í frjálsum og leynilegum kosningum.
Á fulltrúaráðsfundi XD um helgina kvörtuðu margir undan íþyngjandi og tilgangslausri lagasetningu, án þess að rót vandans væri nefnd, þ.e. skrifræðisveldið í Brussel. Reglur sem settar eru fyrir milljónasamfélög henta (augljóslega) ekki vel fyrir smáríki. Regluverk sem mælir fyrir um endalaust eftirlit og opinbera skoðunarmenn og skýrsluskil til yfirvalda íþyngja litlum og meðalstórum íslenskum fyrirtækjum meira en stórfyrirtækjum á meginlandinu. Á þennan mælikvarða teljast flest íslensk fyrirtæki lítil og lagasetningarárátta ESB verður stöðugt aðgangsharðari. Þetta birtist m.a. í því hvernig stöðugt fleiri svið eru felld undir gildissvið EES og hvernig reglurnar teygja sig stöðugt lengra inn í daglegt líf okkar.
Innleiðing þessara reglna hefur verið bremsulaus í 30 ár. Hraði og þungi þessa innstreymis fer vaxandi með hverju árinu. Veruleikinn sem ég hef verið að benda á - og áréttaði í umræðum um bókun 35 á fundinum um sl. helgi - er að hér er að teiknast upp grafalvarleg staða, þar sem upp er risið risavaxið, ólýðræðislegt, fjarlægt og valdagírugt skrifræðisbákn á meðan hinn almenni borgari, maðurinn á götunni, er gerður stöðugt minni og áhrifalausari um þróun mála.
Ég hef skorað á Sjálfstæðismenn að hætta fyrirvaralausri þjónkun við þetta lagasetningarbákn í Brussel og hyggja betur að grunngildum Sjálfstæðisflokksins um lýðræðislega ábyrgð, íslenskt löggjafarvald, sjálfstæði þjóðarinnar o.s.frv., því án þessa er tómt mál að tala um frelsi einstaklingsins. Málflutningur minn byggir á þeim grunni að besta leiðin (og eina leiðin) til að endurheimta fyrri styrk Sjálfstæðisflokksins sé að standa með sínum eigin stefnumálum í verki.
[Meðfylgjandi er umfjöllun Morgunblaðsins í dag um þessi mál. Smellið til að stækka]
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.