Innsýn í innviði innra starfs

Þegar þetta er ritað, á sunnudagsmorgni eftir flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins, er ég enn að vinna úr því sem þar bar fyrir augu og eyru. Í þessu „undarlega ferðalagi“ sem tilvera okkar er, má líta á svona samkomu sem áhugavert tækifæri til að fá innsýn inn stofnanakerfi þjóðfélagsins (því stjórnmálaflokkar nútímans eru orðnir að stofnunum), en líka í mannlegt eðli.

Sjálfstæðismenn eru gott og vel meinandi fólk. Á fundinum í gær voru allir glaðir, brosmildir, vinsamlegir og viðtalsgóðir, m.a.s. við þá sem ekki ganga alltaf í takt við aðra! Sjálfstæðismönnum til hróss má segja að þau kunni vel þá dýrmætu list að geta rökrætt mál og verið ósammála án þess að það framkalli óvild og vinslit.

Að því sögðu vil ég deila nokkrum persónulegum þönkum um þennan fund í gær og skoða í víðara samhengi. Þegar málefnastarf hófst á fundinum var kveikt á skeiðklukku og í 20 mínútur urðu elskulegir samherjar að „línumönnum“. Með hugtakinu „línumönnum“ á ég við þá sem tala ekki út frá eigin hjarta og hlusta ekki með opnum huga, heldur tala út frá flokkslínunni, eins og þau telja sig eiga að gera. Þessa manngerð hef ég oft hitt áður, m.a. í háskólaumhverfinu þar sem rétttrúnaðarlína pólitískrar rétthugsunar framkallaði setningar eins og að „við“ þyrftum að „banna“ hina og þessa tegund tjáningar, en líka á fundum í dómarafélaginu þar sem þeirri hugmynd var haldið á lofti að við værum starfið okkar en ekki sjálfstæðir einstaklingar með sjálfstæða hugsun og sjálfstæða rödd.mark twain

Ég set þessar línur á blað til áminningar fyrir sjálfan mig og þá sem þetta lesa, því enn hef ég engan hitt sem er betri í hlutverki „línumanns“ en sem hann sjálfur. Utanríkisráðherra og varaformaður XD lýsti þessu ágætlega í gær þegar hún sagði að innst inni værum við öll friðsemdarfólk, þótt það væri skylda okkar út á við að vera herská og kenna öðrum þjóðum lexíu. [Hér er ræða utanríkisráðherra lauslega umorðuð til að árétta inntakið, en lesendur eru hvattir til að íhuga í þessu samhengi erlendan málshátt sem segir að tannlausir hundar gelti hæst. Mín skoðun er sú, að það fari Íslendingum ekki vel, sem herlausri þjóð, að hvetja aðrar þjóðir til blóðsúthellinga. Betur færi á að við værum málsvarar friðar en hernaðar].

Helsta lexía mín eftir gærdaginn er sú að okkur myndi farnast betur sem einstaklingum, sem flokki og sem þjóð ef við þyrðum að tala með okkar eigin rödd, vera við sjálf, hlusta af einlægni og sjá aðra sem dýrmæta ferðafélaga á lífsins braut. Vandi Sjálfstæðisflokksins er að hann þorir ekki lengur að vera hann sjálfur. Vandi stjórnmálamannanna er að þeir eru að leika hlutverk og halda að þau séu hlutverkið (gríman). Vandi íslenska ríkisins er að ráðamenn þess eru tregir til að horfast í augu við þá staðreynd að við erum örþjóð, sem eigum ekki að gelta grimmilega á alþjóðavettvangi og getum ekki hýst ótakmarkaðan fjölda flóttamanna. 

Það jákvæða sem ég tók með mér af fundinum var að þótt tillaga mín hafi verið hressilega útvötnuð í málefnanefnd komst ein mikilvæg setning hennar þar í gegn og inn í stjórnmálaályktun fundarins, þ.e. að Sjálfstæðisflokkurinn muni standa vörð um fullveldi Íslands. Þetta er eina setningin í rúmlega 3ja blaðsíðna ályktun þar sem orðið fullveldi er nefnt. Ég ætla að leyfa mér að líta á þetta sem mikilvæga áminningu til flokksforystunnar og þingflokksins í aðdraganda þess að Alþingi taki aftur til starfa. Í því ljósi ætla ég líka að leyfa mér að trúa því sem ég heyrði frá fólki eftir að formlegum umræðum lauk, þ.e. að frumvarp um bókun 35 verði ekki lagt fram að nýju á haustþinginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband