Allt í plati?

Síðustu tvo daga hef ég varað hér við því að Alþingi sé umbreytt í leikhús og að réttarríkið sé gengisfellt þannig að ekkert standi eftir annað en skel sem gefur valdníðslu stjórnvalda einhvers konar lögmætisblæ, líkt og gert var í Þýskalandi á 4. áratug síðustu aldar, í Sovétríkjunum og víðar þar sem ráðamenn beittum lögum gegn almenningi en ekki þeim til varnar. 

Nú er komið að kjarna málsins: Ef Alþingi er orðið að leikhúsi og réttarríkið að leikmynd, þá er það væntanlega vegna þess að fólkið á sviðinu lítur á sig sem leikara, sem eru m.ö.o haldnir þeirri ranghugmynd að þau séu hlutverkið sitt og ekkert umfram það. 

Að lokinni vel heppnuðu málþingi í Reykholti í júnímánuði var andakt í kirkjunni. Þar sagði ég frá þeirri einkennilegu, en óþægilegu upplifun að hafa þá nýlega verið viðstaddur hátíðlega athöfn ásamt mörgum samferðamönnum mínum í lífi og starfi til margra ára. Í stuttri hugvekju vísaði ég til þess þegar ég gekk um og sá allt þetta fína fólk í sínu fínasta pússi og með sitt fínasta bros, þá rann upp fyrir mér að ég veit ekkert um þau, annað en hvaða hlutverki þau gegna. Þrátt fyrir að hafa unnið með sumum þessara einstaklinga, verið í skóla með sumum, spilað fótbolta með sumum, verið nágranni sumra og bekkjarforeldri með öðrum, þá veit ég ekki hver þau eru í raun: Ekki hvaða lífsskoðanir þau hafa, hverju þau trúa í hjarta sínu, hvað þeim sjálfum finnst. Starfið er gríma, titillinn er gríma, fötin eru gríma, en hið sanna sjálf er hvergi til sýnis.

Gengur þú með grímu í lífi og starfi? Hver ert þú á bak við grímuna? Hver þekkir þig í raun ef þú tekur hana aldrei niður? Þekkir þú sjálfan þig? Lífið er of stutt til að þykjast vera einhver annar en þú ert. Sá sem ekki þekkir sjálfan sig veit ekki hvernig hann getur lifað góðu lífi. Sá sem ekki þekkir sjálfan sig leggur ekki rétt mat á eigin styrk, veit ekki hvaða umhverfi hentar honum best eða hvar hann getur blómstrað. Því minna sem menn hugsa um þetta, því auðveldara er að hneppa þá í þrældóm. Sjálfstæð hugsun er forsenda frelsis, en þeir sem láta aðra hugsa fyrir sig eru dæmdir til litlausrar hjarðtilveru á leiksviði sem aðrir smíða í kringum þá og til að þylja þar upp setningar sem aðrir hafa samið. Hver getur hugsað sér þátttöku í slíkum leiðindum og slíku ófrelsi? Veldu þínar eigin hugsanir. Tjáðu hug þinn óttalaust. Það er þitt sanna hlutverk. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband