Messa í loftslagskirkjunni

Í gær, 18.10., var messað í loftslagskirkjunni í Reykjavík. Af fréttum að dæma var þetta innblásin hallelúja-samkoma sanntrúaðra á þau vísindi að heimurinn stefni fram af hengiflugi niður til heljar. Ekki er að sjá að þessi trúarbrögð leyfi kirkjudeild mótmælenda, a.m.k. virðist rödd þeirra aldrei heyrast á samkomum. Predikunarstóllinn stendur opinn innvígðum vísindaklerkum og sanntrúuðum stjórnmálamönnum. En óttist ekki, æðsti prestur (formaður vísindanefndar) boðar að bjargræðið sé í nánd: Leiðin ,,til lausnar" er sögð sú ,,núm­er eitt að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Ann­ars þarf að aðlag­ast og síðan að þola af­leiðing­arn­ar. Til að tryggja að áskor­an­ir vegna lofts­lags­breyt­inga verði ekki meiri þarf t.d. inn­grip frá stjórn­völd­um."

Inngrip frá stjórnvöldum er lykilsetningin hér. Stjórnvöld vilja nú sem sagt stjórna loftslaginu. Við slíku má kannski búast frá fólki sem vill stýra því hvernig við ferðumst milli staða, hvað við borðum í kvöldmat og hvaða orð við notum. 

Allt framanritað er viðvörun til lesenda. Alræðisríki einkennast af stjórnarfari þar sem yfirvöld vilja hafa alla stjórn á framleiðsluháttum og eignum, auk þess að stýra öllu upplýsingaflæði, viðhafa strangt eftirlit, takmarka tjáningarfrelsi, stjórna allri menntun o.s.frv.

Í alræðisríkjum er allt réttlætt með skírskotun til heildarhags (e. common good), allt er leyfilegt í þágu samfélagsins / heildarinnar. Í slíku samfélagi er einstaklingsmiðuð nálgun ekki vel séð: Einstaklingurinn er eigingjarn og honum ber að skera niður / spara / sýna aðhald / herða sultarólina / breyta lífsháttum sínum. Af því leiðir t.d. að fólk má ekki eiga stóra bíla / stór hús, ekki keyra of mikið. Til að halda fólki í skefjum leggja alræðisríki stöðugt meiri hömlur á einstaklingsfrelsið, safna stöðugt meiri upplýsingum og gera sífellt fleiri athafnir (og yfirlýsingar) refsiverðar. Í slíkum ríkjum eru andmæli illa séð og að lokum alveg bönnuð, en hlýðið og meðfærilegt fólk safnar stjörnum í kladda stjórnvalda. Okkar helsta / eina von um hjálpræði eru þá ,,leiðtogar" okkar, sem lofa raunar paradís ef við aðeins erum góð og hlýðin. Í paradís framtíðarinnar munum við ferðast um í borgarlínum, án einkabíls og hjóla um stræti Reykjavíkur á stuttbuxum í góðu veðri. 

Um allan hinn vestræna heim (og mögulega víðar) er verið að færa stjórnarfarið í þessa átt. Þetta mætti kalla valdarán sérfræðinga, embættismanna og alþjóðastofnanna, með aðstoð ógagnrýninna innlendra stjórnmálamanna sem eins og börn afsala sér völdum í hendur þessara ,,vina" sinna. Líkja má þessu við hljóðláta byltingu án blóðsúthellinga, sem er framkvæmd með þungum straumi þéttskrifaðra lagareglna, sem sendar eru í pósti og okkur er ætlað að samþykkja án umræðu, þótt reglurnar valdi því að efnahagurinn dragist saman og fyrirtækin eigi stöðugt erfiðara með að troða marvaðann í regluverksþykkninu. 

Andóf gegn þessari þróun snýst ekki um hægri og vinstri pólitík, heldur um það að verja frelsi okkar gegn þessu kæfandi valdboði. Frjálshuga fólk á að sameinast gegn stjórnlyndum sérfræðingum og stjórnmálamönnum. Að öðrum kosti verður stjórnarfarið fyrirtækjaræði að bráð, þar sem lýðræðið verður að blekkingu, kosningar að leikriti og mannréttindi að sjónhverfingu.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Að hafa tekist að sannfæra fólk um að borga meira í skatta til að laga veðrið er einhvers konar stórsigur í áróðuri. Bæði hugmyndin og framkvæmdin.

En á meðan veðrið heldur sínu striki missir venjulegt fólk bílinn sinn og þarf að velja á milli að kynda eða borða.

Geir Ágústsson, 19.10.2023 kl. 10:48

2 identicon

Þó ljótt sé að segja og sorglegt, Þá vorkenni ég hverju einasta barni sem fæðist inn í þessa brjálæðu veröld eins og hún er að verða.

Helgi Óskarsson (IP-tala skráð) 19.10.2023 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband