Það er ekki okkar að dæma

Í frönsku byltingunni rann slíkt æði á fólk að aftökur urðu daglegt brauð og liður í einhvers konar samfélagslegri ,,hreinsun". Hámarki (lesist: lágpunkti) var náð í tíð ,,Ógnarstjórnarinnar" 1793-1795 undir forystu Robespierre. Eftir að hann tók sæti í ,,Nefnd um almannaöryggi" í apríl 1793 krafðist hann algjörrar samstöðu. Í því skyni beitti hann mótmælendur margvíslegum hótunum, m.a. um hækkað matarverð og um beint ofbeldi. Í ræðu og riti réttlætti hann harðstjórn og alræðistilburði stjórnvalda og réðist gegn þeim sem voguðu sér að setja fram gagnrýni. Ýmsir herskáir hópar stukku á vagninn með Robespierre og kröfðust róttækari aðgerða, upprætingu kristinnar trúar og aðgerðum gegn þeim sem söfnuðu mat. Bændur urðu sérlega illa fyrir barðinu á þessum aðgerðum, sérstaklega eftir að stjórnvöld fyrirskipuðu að eignum þeirra skildi skipt milli fátækra. Framganga Robespierre í nafni byltingarinnar aflaði honum geysilegra vinsælda og hvar sem hann fór fékk hann standandi lófaklapp. En dramb er falli næst. Eftir að Byltingardómstóllinn hafði verið settur á fót til að fordæma alla andstæðinga stjórnarinnar fór andstaða við Robespierre vaxandi. Síðustu ræðu hans í áðurgreindri nefnd um almannaöryggi var fyrst tekið með lófaklappi, svo með þögn, en áður en yfir lauk snerist meirihlutinn gegn honum. Í júlí 1794 var hann handtekinn af hermönnum þingsins, leiddur fyrir dóm ásamt 21 fylgismanni sínum, þar sem þeir voru dæmdir og svo hálshöggnir við mikil fagnaðarlæti múgsins á Byltingartorginu (nú Place de Concorde) í París. 

Á Íslandi á 21. öld malar hakkavélin hvern einasta dag og stöðugt nýjum mönnum er stillt upp til aftöku. Kosturinn við Net-hakkavélina er sá að í hana má setja ekki bara lifandi menn, heldur einnig framliðna. Nú er búið að stilla þar upp manni sem í margra huga hefur nánast verið í helgra manna tölu, sr. Friðriki Friðrikssyni. Hér sem annars staðar reynir nú á þær grunnreglur sem réttarfar okkar, trú og menningararfur hvíla á. 

Dugar nafnlaus frásögn eins manns til að sakfella mann sem hefur verið látinn í áratugi og getur ekki varið sjálfan sig? Öldum saman hefur vestrænt réttarfar gengið út frá því að allir séu saklausir þar til sekt er sönnuð. Í nútímanum birist þetta í skýrum ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. MSE. Í 2. Mósebók segir: ,,Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli." 

Þegar múgurinn kallar eftir blóði stíga fram byltingarforingjar sem vilja að fordæmi Robespierre dauðhreinsa samfélagið í nafni almannaöryggis. Þetta sama fólk má vera minnugt þess að nú, eins og fyrr, er byltingin líkleg til að éta börnin sín. 

Dómharka er engin dyggð. Án þess að gera lítið úr tilfinningalegri upplifun annarra megum við varast að hrapa að ályktunum og stökkva á vagn þeirra sem lengst vilja ganga í einhvers konar samfélagslegri tiltekt. Fortíðinni verður ekki breytt. Við eigum að læra af sögunni, ekki þurrka hana út. Nær væri að huga að framtíðinni, þ.e. hvernig framtíð við viljum sjá og hvernig við viljum koma fram hvert við annað, af virðingu og kærleika. Það er því miður ekki það sem birtist á Netinu. Við getum gert betur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband