Ef ég þori ekki að vera ég sjálfur, hver mun taka það hlutverk að sér í minn stað?

Hjarta íslensks mannlífs slær ennþá í sundlaugunum. Þar tekur ókunnugt fólk tal saman, auk þess sem óhjákvæmilegt er að heyra hvað aðrir eru að tala um. Eldri karlar hittast þarna í hópum. Unglingsstrákar koma og fara saman í hópum. Samstaðan meðal unglinganna er aðdáunarverð, þar þurfa allir að vera með og allir samstíga. Svo langt gengur þessi hegðun að í gærkvöldi tók einn að sér það hlutverk að banka á klósettdyrnar hjá vini sínum til að reka á eftir honum svo allir félagarnir gætu verið samferða út. Þessu var tekið ljúfmannlega og viðkomandi kom brosandi fram og fór laufléttur út með vinum sínum, ekki öskrandi, ekki með mótþróa, sem sagt án þess að kalla þyrfti til sundlaugarverði og lögreglu. Mér varð hugsað til þingmanns Pírata, sem þyrfti að eiga svona góða vini og temja sér svona létta lund.  

Hjarðhegðun er eðlileg á unglingsárum og örugglega hluti af þroskaferli sérhvers manns. Slík hegðun getur hins vegar skapað margháttaðan vanda á fullorðinsárum, bæði fyrir mann sjálfan og samfélagið. Þegar verst lætur birtist þetta í því sem á fræðimáli er kallað félagsleg æskileikabreyta, þ.e. tilhneigingu til að svara spurningum / velja sér skoðanir út frá því sem talið er félagslega viðurkennt á hverjum tíma. Svörin / skoðanirnar gefa þá falska mynd af manninum sjálfum. 

Hér vaknar klassíkar spurningar: Ef ég þori ekki að vera ég sjálfur, hver mun taka það hlutverk að sér í minn stað? Ef ég lifi ekki mínu eigin lífi, á mínum eigin forsendum, hvað er ég þá? Ef ég þori ekki að vera ég sjálfur núna - hvenær ætla ég að vera það?kjánaprik 2

Er islenskt samfélag þjakað af hjarðhegðun? Þekkir þú sjálfan þig? Þekkirðu samferðamenn þína eða eru þau að svara þér út frá því sem þau telja vera ,,félagslega viðurkennt" út frá því sem þau sjá í sjónvarpinu? Ef þú ert að leika hlutverk ... og þau líka ... er líf þitt þá eitt allsherjar leikrit, þar sem enginn sýnir sitt rétta andlit? Þorir þú að taka niður grímuna, sýna öðrum hver þú ert í raun, hvaða viðhorf þú sjálfur hefur, hver lífssýn þín er, tala um það sem þú sjálfur trúir? Læturðu óttann við álit annarra ráða för í þinu eigin lífi? Óttast þú þitt eigið frelsi?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Veit ég hver ég er?

Veit ég hvaðan ég kom?

Veit ég á hvaða leið ég er út úr þessum heimi?

Albert Einstein var eitt sinn að ferðast frá Princeton í lest, þegar lestarvörður kom eftir ganginum og gataði farmiða farþeganna. Er hann kom til Einsteins teygði Einstein sig í vestisvasann. Hann fann ekki farmiðann sinn svo hann athugaði buxnavasana. Miðinn var ekki þar heldur. Hann leitaði í skjalatöskunni sinni en fann hann ekki. Síðan leit hann í sætið við hliðina á sér en farmiðann fann hann ekki.

Lestarvörðurinn sagði: Dr. Einstein, ég veit hver þú ert. Við vitum öll hver þú ert. Þú hefur örugglega keypt farmiða. Einstein kinkaði kolli þakklátur. Lestarvörðurinn hélt áfram og gataði farmiða farþeganna. Þegar hann var tilbúinn að fara í næsta vagn snéri hann sér við og sá hinn mikla eðlisfræðing skríðandi á gólfinu í áframhaldandi leit að farmiðanum sínum.

Lestarvörðurinn hljóp til baka og sagði: Dr. Einstein, hafðu engar áhyggjur, ég veit hver þú ert. Þetta er ekkert vandamál. Þú þarft ekki miðann. Ég er viss um að þú hefur keypt miða.

Einstein leit á hann og sagði: Ungi maður, ég veit líka hver ég er. Það sem ég veit ekki er hvert ég er að fara, ég gæti séð það á lestarmiðanum.

En ég fyrirverð mig eigi því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um að hann er þess megnugur að varðveita það sem mér er trúað fyrir þar til dagurinn kemur. (1. Tím. 1:12).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 28.11.2023 kl. 23:46

2 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Kærar þakkir fyrir þetta dýrmæta innlegg þitt Guðmundur Örn.

Arnar Þór Jónsson, 30.11.2023 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband