13.4.2024 | 10:06
Undiraldan vex
Með hverjum deginum sem líður tengja fleiri við málflutning minn. Á ferð um landið finn ég sterka undiröldu sem bíður þess að brjótast upp á yfirborðið. Ég trúi því að þetta undirliggjandi þjóðfélagsafl muni fleyta mér langt í kosningunum. Úr Morgunblaðinu í dag má tilnefna tvær greinar sem tengjast beint þeim áherslum sem framboð mitt grundvallast á.
Leiðari Morgunblaðsins í dag hefst svona:
Áhyggjur af stöðu lýðræðisins hafa farið vaxandi í hinum frjálsa heimi undanfarin ár. Einræðisríkjum vex ásmegin, en pópúlisminn ágerist. Í Evrópusambandinu verður lýðræðishallinn sífellt brattari, og hvarvetna í þróuðum lýðræðisríkjum þar er Ísland ekki undanskilið trompar regluverkið bæði lýðræðið og einstaklingsfrelsið í síauknum mæli.
Þar ræðir um valdahnupl ókjörinna og ábyrgðarlausra embættismanna, lagatækna og hagsmunaafla, sem frekar færist í aukana en hitt. Sem aftur mun reynast vatn á myllu pópúlískra afla, en milli þeirra og möppudýranna kremst vestrænt, frjálslynt lýðræði.
Nýjasta dæmið um það hvernig ólýðræðislegar stofnanir hrifsa til sín völd frá almenningi er frá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) í Strassborg, sem í fyrri viku kvað upp dóm, sem í senn færir út kvíar dómstólsins og setur lýðræðið í annað sæti.
Í sama blað dagsins í dag skrifar Meyvant Þórólfsson, fyrrverandi háskólakennari, ágæta grein um forsetaframbjóðendur hinnar líðandi stundar. Mér þykir vænt um stuðninginn sem hann lýsir yfir við framboð mitt og er einnig hugsi yfir því sem hann nefnir um mögulegan þátt fjölmila í skoðanamyndandi fréttaflutningi. Grein Meyvants verðskuldar ekki annað en að vera birt í heild sinni og ég leyfi mér að láta hana fylgja hér:
Af vindhönum og forsetaefnum
Liðin eru 80 ár frá því að Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti þjóðhöfðingi frumbyggja þessa örríkis. Hann hlaut aldrei mótframboð og var því sjálfkjörinn forseti til dauðadags. Mótframbjóðendur Ásgeirs Ásgeirssonar árið 1952 voru tveir og Kristjáns Eldjárns árið 1968 einn. Hvorugur hlaut mótframboð í embætti. Sjálfhverfusóttin, sem nú geisar meðal frumbyggjanna, var sem sagt óþekkt fram eftir öldinni sem leið. Mótframbjóðendur næstu forseta voru jafnan þrír en núverandi forseta átta. Allir fengu þeir mótframboð í embætti. Nú er liðið hátt á aðra öld og sjálfhverfusóttin orðin að faraldri. Mótframbjóðendur sjöunda forseta lýðveldisins virðast nú á áttunda tug þótt framboðsfrestur sé enn drjúgur.
Hvað veldur?
Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan heiður að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni?
Trú á eigin getu? Íslendingar eru vissulega meðal hamingjusömustu þjóða heims samanber skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar. Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm. Spilling hefur einatt leikið okkur grátt. Jónas heitinn Kristjánsson tók svo til orða að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur.
Eða hugsa sumir þetta kannski sem grín? Höfuðborgin mun seint hjarna við eftir sirkus Besta flokksins fyrir áratug, gjörning sem var stundum rosalega skemmtilegur og fyndinn eins og meðhjálpari sirkusstjórans komst að orði. Bent hefur verið á tyrkneskan málshátt í því sambandi, verðan umhugsunar: Það að trúður flytjist í höll gerir hann ekki að kóngi, en höllina hins vegar að sirkus.
Eða er það vindhaninn á Bessastaðakirkju? Þegar Bessastaðir urðu að bústað forseta var gamli vindhaninn fjarlægður af turni kirkjunnar og kross settur í staðinn af virðingu við hina lútersku þjóðkirkju, enda þjóðhöfðinginn höfuð hennar. Á tveggja alda afmæli turnsins var krossinn fjarlægður og nýr vindhani settur upp til að geta séð hvernig vindar blása hér á Álftanesi eins og núverandi forseti komst að orði, en hann stendur utan trúfélaga eins og kunnugt er. Upplifa einhverjir hinna nýju frambjóðenda sig kannski eins og Pétur postula forðum, þegar hann afneitaði Jesú hyggjast þeir sum sé láta á það reyna hvort vindhaninn á turni Bessastaðakirkju taki upp á því að góla, eins og haninn í sögunni um Pétur, ef þeir stökkva á Siðmenntarvagninn og afneita Jesú og þjóðkirkjunni?
Eða áskorun til að mæta átakamálum?
Fyrsti forseti íslenska lýðveldisins fylgdi málum eftir af kyrrlátri festu og hógværð og var laginn við að laða til einingar andstæð sjónarmið, eins og Hermann Jónasson komst að orði. Þrátt fyrir hógværð og hæglæti hikaði Sveinn Björnsson sjaldan við að skipta sér af stjórnmálum með beinum eða óbeinum hætti. Hann kom hreint til dyranna í deilunni um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og einnig þegar synja þurfti beiðni um þingrof.
Átakamálin voru mörg í þá daga; þau eru enn fleiri nú og erfiðari. Forsetaefnið sem á endanum verður kosið er þess vegna ekki öfundsvert. Framar öllu skyldi það forðast þá glýju í augum að verða óumdeilt sameiningartákn, er ferðist um í svartri bifreið með blaktandi fána og sitji tedrykkjur þess á milli með erlendum þjóðhöfðingjum eða setji popphátíð í páskabyl norður við heimskautsbaug.
Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar í húfi
Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar. Hann er staðfastur og laus við hégómlegar hugargælur samanber orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur. Og hann sækist síst af öllu eftir sviðsljósinu svo notuð séu hans orð.
Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi. Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikst í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði. Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB og fleiri alþjóðlegra stofnana. Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur sem stafa af bókun 35 og síðast en ekki síst þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér að ástæðulaust sé að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigst til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá fyndnasta föstudagssófa veraldar, og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents. Miðvikudagskvöldið 3. apríl tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem sterka frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin að RÚV segi henni hverjir komi til greina sem forsetaefni?
Höfundur er háskólakennari á eftirlaunum.
Athugasemdir
rÚV setur niður við svona ummæli:
Miðvikudagskvöldið 3. apríl tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau REYKVÍKIGURINN Gnarr, Höllu Tómasdóttur og GAYPRIDE-Baldur
sem „sterka“ frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. ----------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Eru það svona gaypride-trúðar sem að íslenska þjóðin vil á Bessastaði?
https://www.visir.is/g/2010958179210/jon-gnarr-maetti-i-dragi-a-opnunarhatid-gay-pride
---------------------------------------------------------------------------------
Eða svona erlendar yfirtökur?
https://kristinthormar.blog.is/blog/kristinthormar/entry/2301037/
Dominus Sanctus., 13.4.2024 kl. 10:37
Við, Íslensk þjóð, erum í slæmri stöðu í dag vegna synda okkar gegn Guði. Við höfum leiðst út af Veginum og fjarlægst Guð, gengið til liðs við Tíðaranda húmanismans.
Við höfum fallið fyrir borð, af okkar fögru þjóðarskútu, og steypst á kaf í haf Djúpríkisins og erum að drukkna í þeim fúla polli. Myrkur umlykur okkur.
Okkur má líkja við Jónas spámann, sem eftir að hafa óhlýðnast Guði, var varpað í hafið og gleyptur af stórfiski. Í maga hans dó Jónas næstum því.
Eins og Jónas gerði iðrun í maga fisksins og grátbað Guð um hjálp og fékk svar, þá er sterk vaxandi undiralda iðrunar í hjörtum okkar sem er að brjótast fram og hrópar til Guðs um lausn úr glötunardjúpinu.
Svarar Guð okkur?
Já Hann svarar ætíð iðrandi syndara.
Nú þegar margir þekktir fulltrúar Djúpríkisins bjóða sig fram í Embætti Forseta Íslands, hefur Guð sjálfur sent einn.
Aðeins einn maður er í framboði, sem hefur þann spámannlega anda sem getur dregið okkur upp úr glötunardjúpinu, en við verðum þá að velja hann. Í því felst iðrunin.
Hann heitir Arnar Þór Jónsson
Guðmundur Örn Ragnarsson, 13.4.2024 kl. 19:54
Ég er alveg hjartanlega sammála mínum ágæta skólabróður og samstúdent Meyvant Þórólfssyni og get tekið undir allt, sem hann segir. Þetta er orðið alveg fáránlegt hreint, hvað eru komnir margir frambjóðendur, sem halda sig eiga eitthvað erindi á Bessastaði, að sé nú ekki minnst á þetta mjög svo hlutdræga ríkisútvarp, sem svo á að heita, og hvernig það beitir sér með einum á móti öðrum, og ætlast til þess að kjósendur kjósi það, sem þeir vilja sjá á Bessastöðum, heimta það eiginlega. Fyrr má nú rota en dauðrota. Þetta með Gnarrinn er nú alveg út í hött. Ég skil nú bara ekkert í því, að honum skuli hafa dottið þetta í hug. Ég segi nú eins og einn góður maður sagði í fésbókarfærslu um daginn: Er atvinnuleysið orðið svona gífurlega mikið á Íslandi: meira en sextíu í forsetaframboði. Fyrr má nú gagn gera. Ég segi bara, að það sé engu líkara en helmingur þjóðarinnar sé kominn í forsetaframboð og annar hver embættismaður, eins og þeir hafi ekki nóg að gera í sínum störfum, nema þeim leiðist orðið þessi storf sín svona mikið. Nei, þetta gengur engan veginn lengur. Og svo er það Ástþór, sem býður sig fram æ oní æ - í hverjum einustu forsetakosningum. Ég botna nú bara ekkert í honum né því, að hann skuli geta komist upp með slíkt. Nei, það þarf að fara að skapa einhverja lagaumgerð utan um forsetakosningarnar. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Þegar Kata fór svo að bjóða sig fram. Ég hef lesið, að það veki mikla athygli erlendis og stórfurðu ekki síst, að manneskjan skuli hafa farið að tilkynna framboð ö sitjandi sem forsætisráðherra og segja ekki af sér áður. Það skilur enginn slíkt athæfi, sem er ekki von. Ég get ekki séð Kötu fyrir mér á BEssastöðum. Hún var góð þar sem hún var, og átti að vera þar. Ég skil ekkert í henni.Hvað sem þetta ríkisútvarp er að akitera fyrir því fólki, sem þeir vilja sjá á Bessastöðum, þá fær enginn mig til þess að fara eftir því, enda hef ég alltaf gengið mínar eigin götur og læt engan segja mér, hvað ég á að kjósa hverju sinni, - kýs bara það, sem mér sýnist og hef alltaf gert. Ég er þinn stuðningsmaður, Arnar Þór, og vil sjá þig á Bessastöðum. Þar ert þú réttur maður á réttum stað. Gangi þér sem allra best.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2024 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.