Hvað skortir íslensku þjóðina mest?

Sigurbjörn EinarssonEinu sinni efndi íslenskt tímarit til verðlaunasamkeppni um svar við spurningunni: Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Hvert er svarið? Ekki snjallasta heldur sannasta svarið?

Einhvern tíma sagði maður með karlmannlegu en hógværu stolti: „Vér eigum menn.“ Hann var að svara útlendum gesti sínum, sem spurði: Hvað eigið þið í þessu fátæka landi? Vér eigum menn, var svarið. Það land er auðugt, sem á menn. Jónas kvað fyrir meira en 100 árum:

… eyjan hvíta / átt hefur sonu fremri vonum.

Og land Jónasar var ríkt í örbirgð sinni. Það átti menningu, af því það átti menn í kotum og kytrum, í basli og armóði. Slíkt land er ekki fátækt, sem á það fólk, karla og konur, sem með réttu ber þessa einkunn, einstaklinga, sem eru sannir menn í huldum smámunum og berum vanda, fólk, sem á manndóm, heilindi, samvisku. Og það land er ekki ríkt, sem er fátækt að slíkum mönnum, þótt fjölmennt væri og fésælt. Sú þjóð er ekki að vaxa og ekki að auðgast, þó hún vaxi að höfðatölu og auratali, sem rýrnar að manndómi, tapar á vettvangi trúmennsku, bindindissemi, grandvarleiks, ábyrgðarvitundar, samviskusemi. Sú þjóð er ekki að dafna sem gerist hirðulaus um hugarfar sitt, sinnulaus um sál sína. Sú kynslóð er ekki upplýst, sem afrækir uppbyggingu hins innra manns, hversu fjölfróð sem hún kynni að vera. Slík lýðmenntun og landsmenning, sem hefur annað í fyrirrúmi en það, sem miðar að innri vexti og þroska einstaklinganna, horfir ekki fram, heldur aftur, hversu glæst sem hún kann að vera á ysta borði. Það fólk er ekki á leið inn í jarðneskt sæluríki, sem hættir að líta til himins, hversu mjög sem hagir vænkast, þægindi aukast, öryggi vex. Það eru meiri líkur á að slík kynslóð sé á leið ofan í þá jörð sem hún prettar um himininn, niður í dýflissu af einhverju tagi, svarthols sinnar eigin jarðhyggju, sinnar eigin tækni, í tröllahelli, sem gín að baki hillinganna, ef hún lýkur þá ekki ferli sínum í ófæru þeirrar styrjaldar, sem guðvana girnd, vitfirrtir vítisórar og djöflatrú æsir á hendur henni.

[…] Hvað skortir íslensku þjóðina mest? Þú veist það svo vel. Það er meira af heilskyggni, fleiri slíkir menn. Viltu ekki að þínum hluta bæta úr þeim skorti?

Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (Skálholtsútgáfan 2006) 275-278.


Forsetinn, málfrelsið og lífæð lýðræðisins

Ísland er á hraðri leið undir áhrifavald ESB. Sú vegferð nýtur stuðnings flestra þingflokka á Alþingi Íslendinga. Sú afstaða þingmanna afhjúpaðist á fundi með utanríkismálanefnd 9. maí 2023.[1] Með framlagningu frumvarps um bókun 35 er stefnan mörkuð, en frumvarpið miðar að því að lögfesta, sem almenna meginreglu, að íslensk lög skuli víkja fyrir reglum ESB ef árekstur verður.

Hvað þýðir þetta fyrir Íslendinga? Svar: Samhliða því að stöðugt fleiri málaflokkar eru felldir undir EES samninginn mun ákvörðunarvald í stórum málaflokkum flytjast frá Alþingi til ESB, eins og þegar liggur fyrir á sviði orkumála. Þetta mun hafa þau áhrif að við missum ekki aðeins frá okkur lögin, heldur einnig völdin. Í framkvæmd mun þetta auka hættu á að Íslendingar missi úr sínum höndum eignarhald og yfirráð yfir landinu, vatninu, rafmagninu og sjávarútveginum. Í stuttu máli þýðir þetta að við munum missa frá okkur frelsið og sjálfsákvörðunarréttinn.

Íslendingar verða að átta sig á að í ráðherraráði ESB ráða stærstu ríkin för og stöðugt fækkar þeim málaflokkum þar sem enn er krafist einróma samþykkis aðildarríkjanna. Þannig er t.d. ekki gert ráð fyrir að ríki geti beitt neitunarvaldi á sviði orkumála eða sjávarútvegs. Með afhendingu íslensks ríkisvalds til fjarlægra stofnana er grafið undan sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga.

Þegar þráðurinn milli valdsins og borgaranna hefur verið rofinn með þessum hætti erum við á háskalegri leið, þar sem burðarstoðir lýðræðisins falla: Í stað þess að viðurkennt sé að valdið stafi frá þjóðinni og að ríkið sé þjónn fólksins er lagt til grundvallar að valdið komi frá ríkinu og að fólkið þjóni ríkinu.

Frammi fyrir þessu verður að minna á, í aðdraganda forsetakosninganna, að tilgangur ríkisvalds er ekki að veita réttindi, heldur að tryggja þau og verja. Hvert og eitt mannsbarn, hver og einn Íslendingur, er dýrmætur, mikilvægur og einstakur. Því þarf rödd hvers og eins að fá að heyrast. Til að raddirnar hljómi, svo að valdhafar heyri, þurfum við að hafa hugrekki til að mynda okkur sjálfstæða skoðun og tala út frá eigin brjósti. Slík tjáning og slíkt samtal er frumforsenda þess að þráðurinn slitni ekki milli valds og borgara. Í þessu samhengi er málfrelsið í raun lífæð lýðræðisins, sem hvorki má stífla né rjúfa.   

Sem verndari stjórnarskrárinnar og íslensks lýðræðis hefur forseti lýðveldisins það hlutverk að tala kjark og þor í þjóðina þannig að hún rísi upp, taki ábyrgð á tilveru sinni og finni styrk til að standa gegn ofríkistilburðum innlendra valdamanna, erlendra ríkja og fjarlægs stofnanavalds.

 

[1] Sjá nánar umsögn sem kynnt var á fundinum:  https://www.althingi.is/pdf/erindi_mals/?lthing=153&malnr=890

 


Rödd fólksins í landinu

Á þessu stigi er ferð okkar um landið í raun undirbúnings- og könnunarleiðangur til að heyra hvað fólkinu í landinu liggur á hjarta. Í þessari viku fórum við norður í land, um Borgarnes, til Sauðárkróks, um uppsveitir Skagafjarðar, til Húsavíkur og um Mývatnssveit, um Ásbyrgi, til Kópaskers og Þórshafnar. Bændur og iðnrekendur voru heimsóttir víðs vegar á þessari leið. Þegar öllum þessum samtölum er púslað saman birtist rauður þráður:
 
Íslendingar hafa áhyggjur af þróun landsmála, þar sem óstjórn ríkir í stórum málum samhliða kæfandi ofstjórn á öðrum sviðum. Valdamenn eiga ekki að þjóna eigin hag, heldur fólkinu í landinu. Stjórnmálamenn eiga ekki að víkja sér undan ábyrgð með því að láta embættismenn taka ákvarðanir. Íslendingar kæra sig ekki um stjórnarfar þar sem embættismenn eru settir í hlutverk stjórnmálamanna og stjórnmálamenn koma fram eins og embættismenn. Verktakar, bændur, kjötiðnaðarmenn, útgerðarmenn o.fl. sitja undir sífellt þyngra regluverki, eftirliti, skýrsluskilum, sköttum og gjöldum. Reglurnar eru samdar af fólki sem skortir innsýn í veruleika vinnandi fólks og skilur ekki rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Ofstjórn í bland við óstjórn er görótt uppskrift og óheilnæm.Þórshöfn
[Myndin er frá Þórshöfn, þar sem allt er með myndarbrag og bæjarstæðið fallegt].

Hvað getum við lært af sögunni?

Í Reykjavíkurbréfi Moggans (10.3.2024) er m.a. fjallað um rómverska ræðusnillinginn Cicero (106-43 f.Kr.). Eftirfarandi línur eru skrifaðar af því tilefni.
Í rómverska lýðveldinu, sem stóð í nær 5 aldir, bjuggu borgararnir við réttarvernd sem ekki hafði áður þekkst. Óskrifuð stjórnarskrá lýðveldisins mælti fyrir um mótvægi og aðhald, dreifingu ríkisvalds, synjunarvald æðstu embættismanna, afmörkuð kjörtímabil, réttláta málsmeðferð, reglulegar kosningar o.fl. Allt var þetta styrkt með áherslu á gott og farsælt líf, þar sem hinar grísku höfuðdyggðir stóðu í forgrunni (hugrekki, viska, hófsemi, réttlæti).Cicero
Cicero lifði hnignunartíma Rómaveldis, þar sem spilling og valdafíkn höfðu grafið um sig í stjórnkerfinu og þar sem ytri ásýnd lýðveldisins var að molna, ekki aðeins vegna sundrungar innanlands, heldur einnig vegna stríðsrekstrar á fjarlægum slóðum og vegna þess að stöðugt fleiri sóttu framfærslu sína til ríkisins. Stjórnmálamenn mærðu lýðveldið í orðum en grófu undan því í verki með því að hagnýta sér pólitísk tengsl í þeim tilgangi að seilast sjálfir til auðs og valda. Embættismenn sem höfðu það hlutverk að standa vörð um lýðveldið urðu spillingu að bráð og létu múta sér með greiðslum úr opinberum sjóðum. Í þessu umhverfi, þar sem ofbeldisverk urðu sífellt tíðari og stjórnmálin stöðugt hatrammari, urðu Rómverjar sinnulausir um frelsi sitt, lýðveldið og stjórnmálin.
Óhjákvæmilega sogaðist Cicero inn í pólitísk átök samtíma síns. Að lokum neyddist hann til að velja milli Sesars og annars leiðtoga að nafni Pompey. Cicero tók stöðu með Pompey þar sem hann taldi lýðveldinu stafa minni hætta af honum. En Sesar hafði sigur úr býtum og kúgaði svo þingmenn til að skipa hann keisara til lífstíðar. Mánuði síðar var Sesar myrtur í þinginu af lýðveldissinnum. Markús Antoníus reyndi að taka við af Sesari sem einræðisherra en Cicero lagðist þvert gegn því í 14 kynngimögnuðum ræðum, þar sem hann sagðist hvorki ætla að svíkja lýðveldið, né skjálfa af ótta frammi fyrir harðstjórum. ´
Andstaðan kostaði það að Cicero var útnefndur „óvinur ríkisins“. Þegar leigumorðingi ríkisins vitjaði hans krafðist Cicero þess eins að drápið yrði „sómasamlegt“.
Með andláti Ciceros var síðustu hindrun harðstjórnar rutt úr vegi. Hið 500 ára lýðveldi leið undir lok. Á rústum þess reis keisaralegt alræðisríki. Valdhafar hafa komið og farið síðan, en nafn Ciceros hefur lifað í rúmlega 2000 ár - og lifir enn, því hann hörfaði ekki undan hótunum né harðstjórum, heldur hélt á lofti þeim kyndli sem enn logar: Frumskylda ríkisvalds er að verja frelsi einstaklinganna og eignarétt þeirra. Þótt hugsjónirnar hafi kostað hann lífið, þá veitir hugrekki hans innblástur enn í dag. [Heimild: Real Heroes, Lawrence W. Reed,2016]

Við vatnaskil hljóta menn að ganga í lýðræðisátt, fremur en að stefna í átt að valdboði og skrifræði.

Stöðug útþensla EES réttar, sem saminn er af fjarlægum embættismönnum, er farin að kalla fram alvarlegar lýðræðislegar spurningar.
Lagasetning á að bæta hag þeirra sem eiga að búa við lögin, ekki þeirra sem semja lagareglurnar. Lög frá Alþingi eiga að bæta íslenska hagsmuni, ekki hagsmuni ESB.
Ísland gekk í EES til að taka þátt í efnahagslegu samstarfi en ekki á þeim forsendum að við værum að ganga í einhvers konar stjórnmálabandalag, þar sem erlend yfirvöld eigi síðasta orðið á sífellt fleiri sviðum um hvaða lög gildi hér.
Hvers vegna vilja íslenskir stjórnmálamenn veikja stöðu Alþingis?
Hvernig sjá þeir fyrir sér að leiðrétta EES reglur sem eru Íslandi óhagstæðar?
Hvernig á Alþingi að færa slíkar reglur til betri vegar án þess að kalla skaðabótaskyldu yfir Ísland?
Hver er staða íslensks almennings í slíku valdakerfi?
Í alvöru lýðræði svara valdhafar til ábyrgðar gagnvart borgurunum og þar geta kjósendur kosið nýja valdhafa í stað þeirra sem bregðast. Við viljum ekki lúta fjarlægu, ólýðræðislegu valdi sem krefst þess að eiga hér síðasta orðið um þær reglur sem við búum við. Um þetta fjalla ég nánar í Morgunblaðinu í dag. [Smellið til að stækka / lesa].
mbl240224

Lög á ekki að setja í tilraunaskyni

Birgir Þórarinsson var sennilega eini stjórnarþingmaðurinn, auk mín, sem greiddi atkvæði gegn nýjum lögum um leigubílaakstur í árslok 2022. Meirihluti þingmanna samþykkti frumvarpið þrátt fyrir blikkandi viðvörunarljós, því vitað var að reynslan í nágrannalöndum okkar gaf tilefni til fyllstu varfærni. Við atkvæðagreiðsluna sagði ég m.a. að það væri ,,engin dyggð í því fyrir löggjafarþing að buna út lögum að nauðsynjalausu og mér sýnist að það sé einmitt að gerast hér. Verið er að setja hér lög með hálfum huga því að þingið er nýbúið að samþykkja hér áðan að hefja skuli endurskoðun þessara laga eigi síðar en 1. janúar 2025."

Tæpri viku síðar fjallaði ég um málið í eftirfarandi Morgunblaðsgrein, sem enn á brýnt erindi við lesendur:   

Sýndarmennska elur af sér gervisamfélag. Gervisamfélag leiðir fram gervistjórnmál.

Við lifum á öld eftirlíkingarinnar. Öld uppgerðar. Öld sýndarmennsku. Við eigum fáa sanna vini í raunheimum en þúsundir „vina“ í netheimum. Samfélagsmiðlar eru andfélagslegur vettvangur, sem málsvarar lýðræðis hafa á síðustu árum notað til að grafa undan málfrelsi.

Menntastofnanir vanrækja gagnrýna hugsun. Þeir sem mest flagga eigin góðmennsku vilja að ríkið axli ábyrgð á allri góðvildinni. Skattfé er sólundað í nafni umhyggju. Undir merkjum manngæsku er velferðarkerfið smám saman sligað, þar til það að lokum mun hrynja undan eigin þunga. Undir yfirskini trúleysis gera menn vísindin að átrúnaði og fræðimenn að prestum. Uggvænleg reynsla síðustu ára bendir til að frelsisákvæði í stjórnarskrá og lögum séu í reynd marklaus, samanber það hvernig stjórnvöldum leyfðist að kippa borgaralegum réttindum úr sambandi að vild.

Gervisamfélag elur af sér gervistjórnmál, þar sem almannatenglar hanna skoðanir og stjórnmálamenn fylgja skoðanakönnunum. Hagsmunaaðilar stýra fjölmiðlum og þyrla upp ryki sem yfirskyggir upplýsingarhlutverkið. Í heimi gervistjórnmálanna skrifa aðstoðarmenn ræður og greinar fyrir þá sem leika hlutverk þingmanna og ráðherra. Sérfræðingar móta lagafrumvörp. Þingmenn greiða atkvæði eftir flokkslínum og forðast þannig persónulega ábyrgð. Íslenska ríkið er á stöðugu (en duldu) undanhaldi innan EES. Lagasetning Alþingis líkist í auknum mæli leikriti. Á bak við tjöldin fer fram hægfara – og ólýðræðisleg – aðlögun Íslands að ESB.

Þeir sem efast um framangreinda lýsingu mega íhuga eftirfarandi dæmi:

Í nafni lýðræðislegra stjórnarhátta innleiða Íslendingar erlendar reglur umræðulaust . Í nafni alþjóðasamvinnu eru Íslendingar þvingaðir til að breyta löggjöf sinni. Frammi fyrir hótun ESA um málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum „ákveður“ íslenska ríkið að breyta lögum sínum, nú síðast lögum um leigubifreiðaakstur. Undir oki slíks utanaðkomandi helsis er málið kynnt í þinginu sem „frelsismál“ . Til að draga úr óbragðinu samþykkti meirihluti alþingismanna lögin 16.12. 2022 með því fororði að þau „skuli sæta endurskoðun“ eigi síðar en 1.1. 2025 „með tilliti til reynslu“ af lagabreytingunum.

Samantekt

Lög á ekki að setja að nauðsynjalausu og alls ekki að illa athuguðu máli. Hafi löggjafinn sjálfur efasemdir um réttmæti eða gagnsemi lagafrumvarps mæla öll varfærnissjónarmið gegn lögfestingu þess. Af síðastnefndum ástæðum greiddi ég atkvæði gegn lögfestingu frumvarps um leigubifreiðaakstur. Ég er ekki andvígur því að lagareglur um þetta efni séu teknar til endurskoðunar, en hefði viljað að sú endurskoðun færi þá fram að betur athuguðu máli, án utanaðkomandi þrýstings og án pínlegra afbötunarákvæða um endurskoðun þeirra reglna sem verið er að setja. Lagasetning er of alvarlegt inngrip í daglegt líf almennings til að unnt sé að réttlæta að henni sé beitt í einhvers konar tilraunaskyni.

 

[1] Áður birt í Morgunblaðinu 22. desember 2022.

 

 


mbl.is Vill endurskoðun leigubifreiðalaga strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hr. Karl Sigurbjörnsson biskup (1947-2024) - In memoriam

Í gær, 12. febrúar 2024, barst sú harmafregn að Herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefði kvatt þessa jarðvist. Karl hefur verið okkur hjónunum nálægur í dagsins önn í gegnum bók hans Dag í senn, eitt andartak í einu (útg. 2007) sem hefur að geyma hugleiðingar á vegi trúarlífsins fyrir hvern dag ársins. Í formála segir Karl m.a.: 

Öll mín hugsun er borin uppi af undrun yfir fegurð lífsins og elsku Guðs sem umvefur lífið allt, allar gátur, alla gleði, alla sorg. Mér er framar öllu umhugað um að deila því með þér í hugleiðingum þessum.

Eins og margir fleiri átti ég því láni að fagna að eiga vin í hr. Karli sem sendi mér hvatningar- og blessunarorð, bæði í andstreymi og meðbyr. Allt var það í anda þess sem hann skrifar í fyrrnefndri bók: 

Að blessa og gleðja himin og jörð, land og fólk og lífið allt. Það er lífsverkefnið. Tilgangur lífsins. (112)

Til minningar um Karl - og honum til heiðurs - endurbirtist hér viðtal sem ég átti við hann fyrir nokkrum árum og birt var í fréttablaði Frímúrarareglunnar á Íslandi, þar sem m.a. rætt var um tengsl lifs og trúar, kirkju og kristni, laga og samfélags. Á sinn ljúfmannlega hátt dregur hann hér saman margt af því sem kalla mætti grundvallaratriði í mannlegri tilvist. 

Karl Sigurbjörnsson

Þín bíður gleði, fögnuður og friður heima, í hlýjum faðmi kærleikans. (141)

---

Sem lögfræðingur staldra ég iðulega við ádeilu Krists á farísea og lögvitringa. Ber ekki að skilja þau orð sem áminningu um mikilvægi þess að menn hyggi að anda laganna, samhliða bókstafnum, en láti ekki þrönga bókstafshyggju leiða sig á villigötur? Var lögmálið annars ekki í upphafi gefið mönnum sem voru farnir að tilbiðja gullkálfinn? Slíkir menn þurftu vafalaust á reglum að halda, en þegar menn ætla svo að fara að tilbiðja lögmálið sjálft má færa rök fyrir því að tímabært sé að veita þeim nýja áminningu. Sem leikmaður hef ég litið á boðskap Krists sem nauðsynlegt, lífgefandi, mótvægi við ósveigjanleika lögmálshyggjunnar. Í samræmi við það hef ég litið svo á að hlutverk laganna sé ekki síst í því fólgið virða og vernda frelsi borgaranna gagnvart hvers kyns ytri ásælni og þvingunartilburðum. Með hliðsjón af stjórnskipunarsögu Vesturlanda hef ég talið að aðalsmerki lýðfrjálsra samfélaga birtist einmitt í viðleitni til að feta hinn þrönga veg milli þess að lúta lögum og virða frelsi manna til innra lífs, hugsunar og tjáningar, þar sem frelsi og ábyrgð togast eilíflega á. Því hnykkti mér óþægilega við þegar haft var eftir samskiptastjóra Biskupsstofu 4. september sl. að Kristur hafi „sífellt“ lagt „lögmálið til hliðar“ og einblínt á kærleikann, mannvirðingu og einingu allra í andanum. Í því skyni að öðlast skarpari sýn á þessi efni leitaði ég til herra Karls Sigurbjörnssonar biskups.

Lögin geta ekki gert mann góðan

Hvernig myndir þú lýsa afstöðu Krists gagnvart lögmálshyggjunni, þ.e. að allar reglur séu ávallt ófrávíkjanlegar?

Kristur tók afstöðu gegn hreinni lögmálshyggju. Í því samhengi má ekki gleyma því að Faríserarnir voru meðal bestu manna samfélagsins. Þeir vildu vel, en voru uppteknir af því að lög og reglur mótuðu líf manna í smáatriðum og vörðuðu veg mannlífsins með ótal boðum og bönnum. Kristur afhjúpar vægðarlaust þá skinhelgi og hroka sem oft er fylgifiskur lögmálshyggjunnar og bendir iðulega á útlendinga og annarrar trúar fólk sem fyrirmynd, fólk sem þekkti ekki forskriftir lögmálsins en bregst samt við af sjálfsprottinni samlíðan og umhyggju. Það þótti mörgum óþolandi þá og jafnvel enn, af því að menn vilja gjarna hafa skýrar reglur og hreinar línur að styðjast við. Í Fjallræðunni dregur Jesús fram ýmis boðorð Lögmálsins í Gamla testamentinu, og hnykkir á þeim. „Þér hafið heyrt að sagt var... En ég segi yður...!“ Þar beinir hann sjónum að hugarfari og hjarta, samvisku manna. Þarna er minnt á að það snýst ekki um blinda hlýðni við forskriftir heldur kærleika, umhyggju, hugarfar kærleikans. Kristur segist vera kominn til að uppfylla lögmálið og kvaðir þess, löghlýðinn gyðingur allt til dauða. Boðskapur hans er boðskapur náðar og vonar.

Við höfum val

Grundvallarþáttur í trúnni sem Biblían boðar er að lífið er gjöf Guðs og tilveran er lögmálsbundin heild – sbr. viðlagið í 1. Mós.1: „Guð sá að það var gott...“ – þannig úr garði gert að það þjónar markmiðum kærleika hans. Lífið, sem Guð skapaði, er gott. Hver hlekkur lífskeðjunnar hefur sitt hlutverk og sess og þar ríkir dýrmætt jafnvægi og regla. En svo er þetta með manninn, manneskjuna. Um sköpun mannsins er sagt að „Guð skapaði manninn í sinni mynd. Hann skapaði þau karl og konu og Guð blessaði þau.“ Þar segir ekki: „Guð sá að það var gott.“ Mér finnst það merkilegt. Mér finnst þetta vísa til frelsis mannsins. Við höfum val, getum valið hið góða. Í því er tign mannsins fólgin, tign og ábyrgð. Jesús leggur áherslu á að draga megi Boðorðin tíu saman í tvíþætta kærleiksboðið, sem er reyndar líka í trúarjátningu gyðinga: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum... og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Guð og náunginn. Guð setti lögmálið mannsins vegna, í þágu lífs og gæfu manns og heims. Það er sett lífinu til varnar, þessu lífi sem er svo auðsært og brothætt. Leiðsögureglan sem Jesús gefur okkur er Gullna reglan: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra.“ Dæmisögur Jesús og fjallræðan, og fordæmi Jesús sjálfs, sýna okkur megináherslur hans hvað varðar breytni manna. Á öllum tímum hafa kristnir menn samt hneigst til lögmálshyggju. Frægt dæmi er Calvin (1509-1564), sem sjálfur var lögfræðingur og vildi skipuleggja allt í smáatriðum og skapa þannig gott samfélag. Reynslan sýnir að lögmálshyggja endar í harðstjórn.

Þannig að lögin ein megna ekki að skapa gott samfélag eða hvað?

Hinir fornu Rómverjar sögðu um þetta „Pessima res publica, plurimae leges“, sem þýðir: „Þeim mun verra er samfélagið sem lögin eru fleiri.“ Þannig er það gömul reynsla og ný að við búum ekki til gott samfélag með lögum og reglum eingöngu.

Lögin geta ekki skyldað manninn til að vera góðan

En hvað má þá kallast gott samfélag í kristnum skilningi?

Frjálst samfélag sem er grundvallað á réttlæti. En þá erum við ekki aðeins að tala um frelsi frá einhverju heldur einnig frelsi til þess að gera það sem er gott og satt. Allir eru sammála um að frelsið sé meðal æðstu gæða, en skilja það gjarna einvörðungu sem frelsi frá einhverju. Það er arfur frá upplýsingunni, frönsku byltingunni fyrst og fremst. Kristin siðfræði er kærleikssiðfræði. Ekki siðfræði réttinda einvörðungu, eins og nú er helst haldið á lofti, heldur siðfræði tækifæra, frumkvæðis og ábyrgðar til þjónustu, umhyggju og kærleika. Það er hið nýja sem Jesús kemur með inn í vitund mannkyns og snýst allt um frumkvæði og um tengsl og samskipti. Maðurinn er aldrei einn, þú ert alltaf skuldbundinn öðrum. Við erum sköpuð í Guðs mynd og jöfn fyrir augliti hans. Réttlæti er það sem er í samræmi við vilja Guðs.

Og hvernig birtist þetta í framkvæmd?

Móðirin auðsýnir barni sínu umhyggju og ást, ekki af því það á það skilið, heldur af því að kærleikurinn, umhyggjan og lögmál lífsins krefst þess, lögmálið sem Guð hefur lagt mönnunum í brjóst, eins og Páll postuli segir. Lögin geta ekki gert mann góðan, geta ekki skyldað manninn til að vera góður. Þau geta stikað út leiðirnar fyrir réttlátt líf og hið góða samfélag en þau geta ekki breytt manneskjunni.

En nú lifum við á tímum þar sem löggjöfin teygir sig sífellt lengra inn í okkar daglega líf. Sífellt færri svið eru lögunum undanþegin. Allar okkar athafnir frá morgni til kvölds falla undir hinn langa arm laganna. Hvar getum við sagt að draga beri mörk slíkrar ásælni?

Samviskufrelsið er grundvallarfrelsið. Ríkisvaldinu er nú beitt til að saksækja fólk sem hefur bannaðar skoðanir. Þetta hefur verið kallað fasismi. En nú er áherslan lögð á það að þetta sé til verndar þeim veiku í sam­félaginu. Hinn göfugi tilgangur helgi meðalið. En valdhafinn getur ekki lögbundið hjarta manns og samvisku.

Samt er það svo að sífellt er verið að setja fleiri – og nákvæmari reglur – sem þrengja að frelsi manna. Hvað segir kristin guðfræði nánar um þetta?

Guð hefur gefið okkur reglur (boðorðin) en líka frelsi. Þarna á milli er alltaf dýnamík / spenna. Lúther sá þetta sem rauðan þráð í gegnum alla ritninguna, sem túlkunarlykil, þ.e. lögmálið annars vegar og fagnaðarerindið hins vegar.

... og sú slóð getur reynst vandrötuð eða hvað? Má segja að þarna liggi hinn rétti vegur, sem liggur inn um þrönga hliðið sem okkur er ætlað að ganga um?

Já. Biblían geymir samt sögur af alls konar fólki sem mistekst á þessari vegferð. Þar er reyndar fátt um glansmyndir, manneskjan er sýnd í afar raunsæju ljósi. En Guð reisir við þann sem fellur. Það kallast fyrirgefning syndanna.

Maðurinn er alltaf frjáls til að taka afstöðu

Ég las einhvers staðar að Elísabet I. Englandsdrottning hefði sagt að hún vildi ekki gægjast inn í sálir manna. Með því átti hún við það að hver og einn maður hefði frelsi til að leggja sinn eigin skilning í trúarlega texta og fyrirmæli valdhafanna. Eftir því sem auðveldara verður að safna upplýsingum um fólk leitar sú spurning oft á hugann hvort nú séu runnir upp þeir tímar að menn geti lagst á slíkar gægjur. Hvar stendur samviskufrelsið þegar svo er komið?

Elísabet drottning var að þessu leyti sammála Lúther og fleiri guðfræðingum kristninnar sem eru raunsæir á þau mörk sem veraldlegum valdhöfum ber að virða: Enginn þekkir það sem í manninum býr nema Guð einn. Þess vegna er ekki hægt að lögbinda samvisku fólks. Lögunum kemur ekki við hvort þú ert góður eða ekki. Lögin skipta sér ekki af því hvort þú gerir skyldu þína af nauðung eða af gleði, en þau marka leiðir og setja mörk til að vernda lífið og samfélagið. Og gagnvart þeim eiga allir að vera jafnir. Maðurinn er alltaf frjáls til að taka afstöðu með hinu góða eða á móti. Í eðli manneskjunnar býr frelsið, það birtist t.d. í sögunni um aldingarðinn. Guð segir við manninn: „Þetta skaltu láta vera“ en reisir ekki girðingu í kringum bannsvæðið. Manneskjunni er treyst. Hlutverk okkar er að velja. Svo kemur freistarinn sem sáir efasemdum og tortryggni. En maðurinn veit þó innst inni hvað honum er fyrir bestu.

Má draga ályktanir af þessu um hver séu mörk laganna?

Já. Samviskufrelsið er grundvöllur frelsis og mannréttinda. Mannhelgi er fallegt orð og dýrmætur veruleiki.

En er ekki hin hliðin á sama peningi sú að menn haldi að það eitt að fylgja lögum geri mann réttlátan?

Fjallræðan er uppgjör við þennan hugsunarhátt. Maður stendur sína plikt en hvað segir hugarfarið? Sagan um miskunnsama Samverjann varpar ljósi á þetta. Samverjinn brást ekki við náunganum út frá reglum heldur af sjálfssprottinni samlíðan og umhyggju.

Hvað með dómhörkuna sem fylgir í kjölfar slíkrar hugsunar?

Dómharkan er í hæsta gengi nú, og allskyns vandlætingarsemi og móralismi sömuleiðis. Einu sinni var mikið fundið að því að það væri svo mikið talað um syndina í kirkjunni. En þá var verið að leggja áherslu á þetta: Alveg sama hver þú ert og hvað þú ert góð manneskja, þá ertu ekki nóg án tengsla við Guð. Þú þarf að horfast í augu við það að þú stenst aldrei mál hins góða, fagra og fullkomna. Að þú átt allt undir náð og miskunn Guðs. Enginn getur dæmt aðra nema hann viti sig sjálfan undir dómi hins réttláta, sanna, hreina. Því er hættulegt að setja sjálfan sig í dómarasæti yfir öðrum.

Guðsríki verður aldrei komið á með ofbeldi

Hvernig getur kirkjan verið mótvægi við þetta?

Með því að vera kirkja.

Hvernig skýrirðu það nánar?

Kirkjan hefur í okkar samtíð ekkert kennivald né stuðning af valdhöfum veraldarinnar. En hvað gerir hún best? Og hvar er hennar vettvangur? Sagan sýnir að kirkjunni farnast aldrei vel þegar hún reiðir sig á valdið. Hlutverk kirkjunnar er að höfða til samviskunnar með það eina sem hún hefur fram að færa, sem er Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn. Mótsstaðurinn er þar sem Kristur mælir sér mót við manneskjuna: Við guðsþjónustu, við skírn, altarisgöngu, giftingar o.s.frv. og svo í daglegri þjónustu við náungann, í þeim sem hann kallar sín minnstu systkin. Kirkjan getur tekið alls konar stefnumál upp á arma sína og aflað sér vinsælda en ef Guð er ekki í myndinni þá er hún klæðalaus eins keisarinn í sögu H.C. Andersen ... og allir sjá það. Nema hinn sjálfumglaði. Menn eiga samt svo erfitt með að læra þessa lexíu. Kristur talar í þessu samhengi um muninn á þeim sem byggja hús sitt á bjargi eða sandi. En hann undirstrikar að bjargið er orð Krists. Kirkjan hefur ekki annað mikilvægara hlutverk en að koma boðskap Jesú Krists á framfæri, krossi Krists og upprisu.

Birtir saga kristindómsins ekki einmitt mikilvægi þessa kjarna í hnotskurn? Er það ekki verðugt viðfangsefni kristinnar kirkju að virða frelsi mannsins til sjálfstæðrar ákvörðunartöku og minna á nauðsyn þess að maður sem vill njóta frelsis þurfi að geta veitt öðrum sambærilegt frelsi?

Guðsríki verður aldrei komið á fót með ofbeldi, því ekki er unnt að lögbinda samvisku fólks eins og ég nefndi áðan. Hvorki dómarinn, presturinn né biskupinn mega ímynda sér að hafa höndlað allan sannleikann.

Sérstaklega ekki á þeim „póstmódernísku“ tímum sem við höfum lifað síðustu ár, þar sem markvisst er unnið að því að brjóta niður allt kennivald. En það þýðir þó ekki að varpa beri sannleiksleitinni fyrir róða, er það?

Sannleiksleitin er mikilvæg. „Ég er sannleikurinn,“ segir Kristur. „Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“ „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munið þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Það er ekki sannleikur sem maður getur reiknað sig fram til, skilgreint, afmarkað, sett í kerfi, heldur persónulegt lífsafl sem ummyndar hið innra. Kristur svarar ekki með formúlum heldur með því að kalla manninn til fylgdar við sig á vegi kærleikans til Guðs og náungans. Þessi kynslóð hefur verið svo upptekin af því að afbyggja allt kennivald og kannski alla ábyrgð. En manneskjan getur ekki lifað án ramma. Við sjáum það á því að barnið þarf styrka arma umhyggjunnar. Án þeirra verður barnið öryggislaust og fer að efast um að það sé elskað. Getur verið að sjálfsmyndarkrísur ungs fólks stafi af þessu? Barninu er fyrir bestu að fá að vera barn. Og orðið barn merkir „það sem er borið.“ Barnið hefur samvisku eins og allir aðrir og hún þarf að fá næringu og þroskast í samfélaginu, og það þarf að fá tækifæri til að taka ábyrgð á sjálfu sér, þ.m.t. að fá tækifæri til að horfast í augu við eigin misgjörðir og mistök. Sagan sýnir að menn eru ekki fyrr búnir að rífa niður öll viðmið og mörk en að byrjað er að kalla eftir nýjum girðingum fólki til varnar og tækifæri skapast fyrir valdagíruga ofríkismenn. Stjórnleysi verður þannig tæki harðstjórnarinnar. Manneskjan leitar alltaf eftir „authoriteti“, einhverju til að marka brautina og er auðginnt. Vandlætingin er háskaleg braut og reiðin er hættulegt afl. Réttlát reiði getur verið nauðsynleg, en getur ekki verið grundvöllur til að byggja á. Ótal dæmi staðfesta það í sögu og samtíð.

Og þótt Kristur hafi boðað samhjálp og náungakærleika, þá falla menn aftur og aftur í gryfju ofureinföldunar Karls Marx, þ.e. að allt í samfélagi manna beri að skoða út frá baráttu á milli fólks, stétta og þjóða?

Samfélagi manna væri betur lýst út frá tengslum en baráttu. Sjáðu hvað það er merkilegt að mannsbarnið er lagt á brjóst og móðirin leitar augnsambands við það. Barnið þrífst ekki án þessara tengsla, án þess að vera séð augum umhyggju og ástar. En svo kemur að því að það þarf að standa á eigin fótum sem ábyrg manneskja í mannlegu samfélagi. Manneskjan er félagsvera. Þú ert til og þroskast sem einstaklingur af því að það er horft á þig. Barn sem ekki er séð verður öryggislaust. Litla barnið segir „sjáðu mig“, það er partur af þroska barnsins. Ég tel að einstrengingsleg áhersla á réttindi einstaklingsins án skírskotunar til samfélagsins hafi orðið til þess að ábyrgð og skyldur hafa horfið í skuggann.

Við þurfum heilbrigða trú og ekki síður heilbrigðan efa

En hvað með eina kennivaldið sem nú er hampað, þótt það tali sjaldnast einum skýrum rómi, þ.e. kennivald náttúruvísindanna?

Náttúruvísindin eru í sömu hættu að þessu leyti og kirkjan, þ.e. óheppilegt er að þau stígi út á svið stjórnmálanna og valdsins.

Sjáum við þessa hættu raungerast í því að náttúruvísindin snúast gegn sjálfum sér, t.d. með því að bannað er að ræða, rannsaka eða jafnvel hugsa um tiltekin atriði þar sem það gæti hróflað við hinum viðteknu sannindum?

Mögulega, já. Þetta var vandi miðaldakirkjunnar sem vildi hafa alla þræði í sínum höndum. Ég ber virðingu fyrir náttúruvísindunum, en trúi ekki á þau. Ég treysti góðu fólki, visku og þekkingu sem beitt er í þágu hins góða. En ég er einatt efasemdamaður þegar kemur að stórum full­yrðingum um mátt og megin mannsins og mannlegra kerfa og almannasamsinni. Nú er það notað sem sönnun einhverrar fullyrðingar að 99% vísindamanna segi þetta eða hitt. En, bíddu við, töldu ekki 99% lærðra manna á miðöldum að Giordano Bruno hefði rangt fyrir sér? Rétttrúnaðurinn veður uppi, nú ekki síður en þá.

Má út frá þessu álykta sem svo að maðurinn geti ekki lifað án trúar í einhverri mynd?

Við þurfum heilbrigða trú og ekki síður heilbrigðan efa. Það sem mestu varðar er að leggja rækt við hið góða. Fylla hjartað af góðum hugsunum. Þess vegna hefur alltaf verið litið þannig á að grundvallaratriðið í mótun góðs samfélags sé ekki bara góð lög og góðir stjórnendur, heldur að hafa sýn til hins góða.

Hvernig mótast slík sýn og hvernig er henni viðhaldið?

Með hefðinni og siðunum, sögunum, söngvunum, helgidómunum, sem bregða upp mynd hins góða samfélags, framtíðarsýninni. Í hinu kristna samfélagi er það krossinn og upprisan, náðin og vonin.

Hvert er svar kirkjunnar við því niðurbroti sem við höfum hér rætt?

Menn eru uppteknir af því að brjóta niður siðinn og stæra sig af því að afbyggja tákn og hefðir. Trú er fremur siður og samhengi en skoðanir á svonefndum andlegum efnum. Trú er framar öllu að sameinast á grunni við ákveðna iðkun og sögur, hefðir og siði sem halda manni við efnið, halda manni við hið góða. Hin kristna samfélagsmótun er að halda fram mynd og boðskap Jesús Krists. Að boða Krist sem stendur á jörðu og opnar faðminn og segir „komið til mín“ (hvort sem þið eigið það skilið eða ekki). Krossinn er greyptur í jörðina og rís mót himni og faðmar allan heiminn, alla menn, fortíð og framtíð.

Gegnir þá trúin ekki mikilvægu hlutverki í því uppbyggingarstarfi sem þarf að fara fram í kjölfar alls þessa niðurbrots?

Jú. Ef menn hafa engan sameiginlegan grunn til að standa á, getur ekkert samfélag staðið til lengdar. Kringlan og Smáralind duga ekki til. Trúhneigð manneskjunnar er ólæknandi og leitar sér alltaf að farvegi. Oft því miður óheilnæmum, sannarlega. En leiðréttingarforritið er innbyggt í hinn kristna sið, fagnaðarerindi Jesús Krists.

En nú lifum við auðvitað í „plúralísku“ samfélagi, þar sem ólíkum trúarbrögðum og lífsskoðunum ægir saman. Hvað getum við gert til að halda saman slíku samfélagi?

Umburðarlyndi er mikilvæg dyggð. En umburðarlyndið eitt, eins og það er skilgreint nú, jafngildir nánast afskiptaleysi og dansar á línu afstæðishyggju, og er þá ekkert nema virðingarleysi. Umburðarlyndi afskiptaleysisins byggist á ótta. Við þurfum umburðarlyndi sem byggir á þeim andlega grundvelli sem segir að við viljum ekki þola ákveðnar hugmyndir, svo sem kvenhatur og að við eigum að þora að segja það. Við þurfum líka auðmýkt gagnvart því að aðrir geti haft rétt fyrir sér. Við þurfum líka þolinmæði og kærleika sem rekur út óttann. Óþolinmæðin ræður einatt ferðinni, bráðlæti og hroki gagnvart öðrum. Hrokinn og hræðslan haldast einatt í hendur.

Hver stjórnar þá ferðinni þegar tíðarandinn er þessi sem þú lýsir?

Mannskepnan þarf að finna öryggi, þolir ekki öryggisleysi. Barnið þarf reglur, athygli, rými til að leika sér og þroskast á líkama og sál í samskiptum við aðra. Óttinn fylgir manninum eins og skuggi, en trúin er ljós sem bægir honum burt. Einhver sagði: „Ég óttast ekkert nema Guð og þá menn sem óttast hann ekki“. Trúin segir okkur að óttast ekki heldur að treysta Guði. Guðsótti er lotning fyrir Guði, uppsprettu alls hins góða, og virðing fyrir náunganum og fyrir lífinu, helgi lífsins.

Kennivaldi fylgir ábyrgð

Þannig að við þurfum þá eftir allt saman kennivald?

Kennivaldið er ekki eitthvað sem maður tekur sér heldur nokkuð sem manni er trúað fyrir í þágu samfélagsins. Þegar kennivald er tekið niður þá skapast hættan á því að menn taki sér vald yfir sálum annarra. Mælikvarða hins góða, sanna og rétta getur aldrei verið að finna í viðhorfskönnunum. Dómari kveður upp dóma í nafni lýðveldisins og dæmir ekki af geðþótta. Eins er þetta með kirkjuna og hennar þjóna. Kennivaldi fylgir ábyrgð. Þetta tvennt þarf að haldast í hendur. Réttlætið, lögmál lífsins, siðgæði, samviska, sem býr í barmi sérhverrar manneskju, það þarf alltaf að hafa kennivald á bak við sig. Það er ekki eitthvað sem er háð geðþótta manns. Þegar þú sem dómari höfðar til réttlætis eða samvisku ertu að höfða til einhvers sem er þér æðra og getur jafnvel verið í andstöðu við almennt samsinni.

Má segja að trúin standi í innsta kjarna mennskunnar? Og að maðurinn lifi í dýnamíkinni milli þess sem við ræddum áðan, þ.e. milli þeirra krafna sem lögmálið setur og þess svigrúms sem náðin veitir?

Já, en taktu eftir að það er einmitt að þessum kjarna mennskunnar sem alræðisstjórnarfar ræðst gjarna, trúnni, hjónabandinu, fjölskyldunni o.s.frv. Það er t.d. gert með því að gera skoðanir, einstaklinga og lífsviðhorf hlægileg. Það er gert með samtalsstöðvun, með því að svipta þau viðhorf lögmæti sem reist eru á trú, hefðum og jafnvel reynslu. Guðsmyndin er orðin býsna dauf, óræð og útþynnt og mannskilningurinn þar með. Unnt er að tala um manninn sem „frumuklasa“ í kennslustund í líffræði en ekki þegar þú horfir í augun á ungbarni.

Tortrygginn á samsæriskenningar

Slíkt er væntanlega gert í einhverjum tilgangi? Hvaða öfl standa þar að baki?

Ég er tortrygginn á allar samsæriskenningar, djúpríkið og þess háttar. En máttarvöld þessa heims birtast í margvíslegum myndum, og manneskjan einatt auðginnt.

Hvernig stendur kristin kirkja þetta af sér?

Ef kirkjan heldur sig við aðalatriðin, þ.e. ef hún heldur sig við guðsþjónustuna, sakramentin, uppfræðslu í kristindóminum o.s.frv., þá lifir hún af. Ef hún hins vegar reynir að aðlaga sig hverjum einasta goluþyt þá lifir hún ekki af. Með sama hætti má segja að réttarkerfið getur ekki virkað til lengdar ef það höfðar bara til almenningsálits og skoðanakannana. Þá er enginn öruggur. Þá erum við ekki lengur jöfn fyrir lögunum. En fyrir Guði erum við öll jöfn, öll eilífs gildis og dýrmæt fyrir augum Guðs eins og við erum. Þessi guðsmynd og mannskilningur er grundvöllur þess besta sem okkar lýðræðisog velferðarsamfélag hefur fram að færa.

Hvernig er best að halda slíkri áminningu á lofti?

Við byggjum mannlegt samfélag á því að höfða til heilbrigðrar samvisku og skynsemi manna. Uppeldi á að miða að því og það gerist í þessum margslungna vefnaði heimilis, fjölskyldu, vina og skóla. Trúaruppeldi miðar að því að styrkja heilbrigða samvisku og heilbrigt siðvit, að þekkja muninn á réttu og röngu og velja hið rétta; þekkja muninn á góðu og illu og elska hið góða. Það er ekki hægt að ala barn upp í gildatómarúmi. Frelsi er ekki sólóklifur án björgunarlínu heldur miklu fremur einskonar hópíþrótt og krefst þjálfunar og góðrar aðstöðu og heilbrigðs liðsanda.

Og hvernig mælirðu með að við færum þennan arf áfram til næstu kynslóða?

Til dæmis með því að kenna börnunum sögurnar og söngvana sem tengjast hefðum og hátíðum. Það er þetta sem með einhverjum hætti markar þessar meginlínur, þessa stefnu sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Maðurinn hefur frjálsan vilja

Í öllu þessu felst að við erum andlegar verur ekki satt, ekki bara bein og sinar, hormón og gen. Ég held að Sir Roger Scruton heimspekingur (1944-2020) hafi verið að vísa til einmitt þessarar andlegu víddar mannsins þegar hann sagði: „Vísindin vita ekki hvað maðurinn er“.

Já, við erum andlegar verur, sköpuð í Guðs mynd. Í þeim mannskilningi eru líka fólgin fræ jafnréttishugsunarinnar. Það er vart að finna í öðrum trúarbrögðum. Þannig er byltingarafl innbyggt í kristindóminn. Sjáðu bara jólaguðspjallið og lofsöng Maríu. Þarna er leiðréttingarforrit, sem réttir kúrsinn, því við getum alltaf höfðað til samvisku manna. Það gerum við með því að minna á að maðurinn hefur frjálsan vilja og hefur á þeim grundvelli alltaf val. Við höfum ótal dæmi um að menn hafi risið upp gegn örlögum sínum. Ein árátta nútímans er að smætta manninn og gera hann að dýri, en við megum aldrei missa sjónar á göfgi mannsins og því að maðurinn er skapaður í Guðs mynd. Guð metur mannlífið það mikils að Guð varð maður í mannsbarni og valdalausum manni, Jesú. Hið makalausa við kristindóminn er þessi mannskilningur. Innbyggt í kristindóminn er virðing fyrir manneskjunni, ást á lífinu og jörðinni og raunsæi á manneðlið. Við geymum bæði gott og illt en eigum að þekkja muninn á réttu og röngu og velja hið rétta. En við eigum allt undir náð Guðs.

[Ljósmynd: Guðmundur Viðarsson]


Bætt umræða, betri samskipti

Allir áhugamenn um málfrelsi og lýðræði ættu að kynna sér sögu Speakers´ Corner í Hyde Park í London. Þar fóru áður fram aftökur og samkvæmt opinberri tölfræði voru meira en fimmtíu þúsund manns hengdir í gálgunum sem þarna stóðu á árunum 1196 til 1783. Allir þeir sem dæmdir voru til dauða áttu rétt á að mæla fram eina hinstu ræðu. Sumir játuðu en aðrir notuðu tækifærið til að lýsa yfir sakleysi sínu eða til að gagnrýna yfirvöld. Þarna var vinsæll samkomustaður borgarbúa um aldir en vegna óláta voru aftökurnar um síðir færðar inn fyrir fangelsismúrana í Newgate. Áfram var þó haldið með ræðuhöld og mótmæli í Hyde Park og sá andi lifir þar enn í dag. 

En hvað með Ísland? Förum við vel með okkar eigið málfrelsi? Virðum við málfrelsi annarra? Verjum við það eða reynum við að skerða það? Á samfélagsmiðlum má því miður víða finna umræðuþræði sem endurspegla ómenningu, neikvæðni og niðurrif. Málfrelsið og hinn frjálsi umræðuvettvangur er æðasláttur lýðræðisins. Ástæða er hins vegar til þess að minna marga umræðuþátttakendur á að fara með gát. Ekkert æðakerfi þolir stöðuga innspýtingu á óhreinindum og aðgát skal höfð í nærveru sálar.  

Áður en við óhreinkum okkar eigin vefsíður eða annarra með óvönduðu orðavali mættum við spyrja okkur hvort við myndum segja þetta upphátt við þann sem um er rætt. Í Hyde Park stíga menn upp á kassann, brýna raustina, láta móðan mása um alls kyns hugðarefni og bregðast við mögulegum mótbárum viðstaddra. Þar stendur fólk augliti til auglitis í orðræðu og skoðanaskiptum. Í netheimum er nálægðin engin og sú fjarlægð er gjarnan skjól þeirra sem hafa hæst og reiða hæst til höggs, stundum jafnvel í skjóli nafnleysis. Við það þurfum við e.t.v. að sætta okkur í anda málfrelsis en standa um leið eins öflugan vörð um vandaða umræðuhefð og nokkur kostur er á.

Með allt þetta í huga skrifaði ég þessa grein sem birtist á Krossgötum í gær, en á þessu sviði getur forseti lýðveldisins gegnt leiðandi hlutverki sem gæslumaður lýðræðis og réttarfars. Forseti er í einstakri stöðu til að tendra kyndil málfrelsis og hvetja Íslendinga til að standa vörð um þann loga. 

 

 


Sjálfstætt fólk, sjálfstæð þjóð

Meginástæða þess að ég gef kost á mér til að gegna embætti forseta Íslands er sú að ég tel ógnir steðja að okkar dýrmæta lýðveldi. Þessar hættur leyna á sér og eru misjafnlega sýnilegar fólki; bæði eftir því sem það hefur upplifað sjálft og líka eftir því sem það vill sjá og heyra. Ég veit að það getur stundum verið þægilegt að líta undan og e.t.v. gerum við það flest í æ ríkara mæli eftir því sem við þurfum stöðugt að meðtaka fleiri fréttir og nýjan fróðleik í gegnum allar þær leiðir sem fjölmiðlar og netheimar nútímans nýta til að ná til okkar.

Ógnirnar sem steðja að íslensku lýðræði felast að mínu viti í því að fulltrúalýðræðið er að fjarlægjast hinn upphaflega tilgang sinn. Við höfum um langa hríð skipað okkur í ólíkar fylkingar og greitt ólíkum stjórnmálaflokkum atkvæði til þess að tryggja áherslumálum okkar brautargengi. Valdið hefur komið frá fólkinu. Gjarnan mótar stór hópur stefnuna, t.d. á flokksþingum, sem setur svo fulltrúa sína til verka á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Þannig höfum við í senn hvatt fólk til sjálfstæðrar ákvarðanatöku og þátttöku á sviði stjórnmálanna. Við höfum laðað fram heilbrigð skoðanaskipti innan flokkanna og á milli þeirra og staðið vörð um sjálfstæði þjóðarinnar og sameiginleg hagsmunamál hennar. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Eða hvað? Getur verið að feðranna frægð sé „fallin í gleymsku og dá“ eins og Jónas Hallgrímsson gerði svo eftirminnilega að yrkisefni sínu í ljóðinu um Ísland farsældafrón.

Það var heimssögulegur atburður þegar Íslendingar stofnuðu Alþingi á Þingvöllum árið 930. Alþingi var í senn löggjafarþing og æðsti dómstóll þjóðarinnar allt þar til við samþykktum Gamla sáttmála og gengum Noregskonungi á hönd. Um leið seldum við erlendu valdi sjálfstæði okkar og endurheimtum það ekki fyrr en í áföngum meira en sex hundruð árum síðar. Sagan má aldrei endurtaka sig en blikur eru því miður á lofti. Eina vörnin er fólgin í virku lýðræði þar sem hver og einn fær tækifæri til þess að taka þátt og leggja sitt af mörkum.

Lýðræði er nefnilega ekki áhorfendasport. Það byggist ekki upp á því að nokkrir útvaldir mæti til leiks og heyi keppnina á eigin forsendum. Þvert á móti. Keppendur eru valdir af grasrótinni og fá ekki einungis fyrirmælin um erindi sitt frá stuðningsfólkinu heldur einnig aðhaldið í gegnum samtal þar sem allir geta tjáð sig og hafa sama aðgang að ræðustólnum. Þannig eru grundvallaratriði lýðræðisins. Um þau vil ég standa vörð og ég tel ekki veita af því að hvatning og aðhald í þeim efnum komi frá eina embættismanni þjóðarinnar sem kosinn er beinni og milliliðalausri lýðræðislegri kosningu – forsetanum. Sérstaklega þegar sú staða virðist blasa við að stór hluti stjórnmálamanna sé smám saman að missa sjónar á aðalatriðunum í hlutverki sínu og skyldum gagnvart umbjóðendum sínum og lýðræðinu.

Rót lýðræðisins er hjá almenningi, ekki hjá stjórnmálaflokkunum sjálfum, stórfyrirtækjum sem seilast til áhrifa, fræðimönnum sem tala í krafti sérþekkingar, embættismönnum eða alþjóðlegum stofnunum. Í stað þess að stjórnað sé með reglum sem eiga sér lýðræðislega rót í samfélagi sjálfstæðra einstaklinga færist ákvarðanatakan yfir til flokka sem í framkvæmd sýna viðleitni í þá átt að stýra með valdboði og leggja áherslu á hlýðni við yfirvald fremur en sjálfræði einstaklingsins og þátttöku hans í stjórn sinna mála. Undir merkjum fagmennsku setja þrýstihóparnir gjarnan fram stefnuskrár sem klæddar eru í búning almannahagsmuna en þjóna í reynd þröngum sérhagsmunum.

Á hinu alþjóðlega sviði eru sumir þessara þrýstihópa svo stórir, valdamiklir og fjársterkir að smáríki eins og Ísland mega sín lítils í leiknum. Undan þrýstingi á slíkum vettvangi, t.d. meðal embættismanna ESB, meðal auðjöfra í Davos eða fulltrúa (ólýðræðislegra) stórvelda á vettvangi SÞ, mega fulltrúar Íslands ekki kikna. Þeirra hlutverk er ekki að starfa í þágu sérhagsmuna víða um heim heldur að verja stjórnarskrá lýðveldisins og standa vörð um þjóðarhag á breiðum faglegum, efnahagslegum og þjóðhagslegum grunni.

Ég hef áhyggjur af því að þjóðkjörnir stjórnmálamenn og ekki síst ráðamenn íslenskrar þjóðar, séu að fjarlægjast lýðræðislegar skyldur sínar og í sumum tilfellum, kannski óafvitandi, að þróast yfir í það að verða einhverskonar embættismenn sem ganga erinda alls kyns þrýstihópa og lúta jafnvel erlendu valdi þannig að gengið sé á stjórnarskrárvarin réttindi fólksins í landinu. Í slíkum tilfellum tel ég að forseti Íslands eigi að nýta sér þann rétt sem hann hefur til þess að vísa málum beint til þjóðarinnar. Það er að mínu viti stærsta verkefni embættis forseta Íslands að næra, eins og frekast er unnt, sjálfstæða ákvarðanatöku einstaklinganna í heilbrigðu lýðræðisríki og standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar í farsælu samstarfi við aðrar þjóðir.

[Grein þessi birtist fyrst á visir.is 26. janúar 2024].


Auður okkar er í einstaklingunum

Á síðustu árum hefur átt sér stað alvarleg umpólun í stjórnarfari okkar. Hægt en bítandi höfum við séð (og heyrt) alþingismenn og ráðherra umbreytast úr því að vera fulltrúar kjósenda yfir í að vera fulltrúar fjarlægs erlends valds. Hinn rauði þráður í svörum þeirra er sá að okkur beri að innleiða tilgreindar reglur, takast á herðar tilgreindar skyldur, með vísan til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist á alþjóðavettvangi. Ekki er spurt hvar ytri mörk þessara skuldbindinga er að finna, hvort Íslendingar hafi mögulega nú þegar gert meira (t.d. á sviði loftslagsmála) en flestar aðrar þjóðir, hvort reglurnar skaði hagsmuni Íslands, hvort skuldbindingarnar eigi rætur að rekja til raunverulegs samstarfs eða einhliða ákvarðana áhrifamestu þjóða / stofnana.

Samhliða þessu blasir við greinileg stjórnskipuleg afturför: Í stað þess að ráðamenn sinni því hlutverki að verja umbjóðendur sína fyrir óhóflegri valdbeitingu af hálfu ríkis / stórfyrirtækja / þrýstihópa, sitja þeir nú á lokuðum fundum í fjarlægum löndum með fjármagnseigendum, yfirmönnum alþjóðlegra stofnana og valdamiklum sérfræðingum þar sem rætt er um nauðsyn þess að halda almúganum í skefjum, m.a. með því að koma böndum á tjáningu þeirra, stýra neyslumynstri o.fl. 

Hér blasir í raun við nýr veruleiki sem takast þarf á við á réttum forsendum því aðstæður hafa breyst. Þegar kjörnir fulltrúar gerast handgengnir fjarlægu valdi og aðhyllast valdboð í orði og verki, þegar þeir vinna að framkvæmd reglna sem koma ofan frá og niður fremur en í þágu lýðræðis, þar sem reglurnar koma úr grasrótinni og upp, þá eru þeir í reynd orðnir embættismenn fjarlægs valds fremur en kjörnir fulltrúar okkar. Í þessu birtist ekki þjóðhollusta, heldur óhollusta við kjósendur. Þegar fulltrúalýðræðið bregst með þessum hætti, þá geymir stjórnarskráin öryggisventil um virkjun beins lýðræðis, sbr. 26. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hinn raunverulegi valdhafi, þ.e. kjósendur, á síðasta orðið. Þessi öryggisloki tryggir að  alþýða manna er ekki svipt valdi, heldur fær tækifæri til að eiga þátt í mótun nútíðar og framtíðar, eiga rödd og greiða atkvæði.

Ég hef boðið mig fram til embættis forseta Íslands því ég vil leiða lýðræðisvakningu hér á landi til að  að valdefla einstaklinginn og standa vörð um réttindi hans. Einmitt í fólkinu og sjálfstæði þess til orða og athafna eru auðæfi okkar fólgin. Ég vil leggja mitt af mörkum til að verja samfélagsgerð sem leyfir efasemdir, leyfir fólki að tjá hugsanir sínar, þolir málefnalega gagnrýni og umber andmæli. Í frjálsu samfélagi leyfist hverjum og einum að spyrja spurninga og fá fram ólík svör og sjónarmið.

[Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. janúar 2024]

mbl200124


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband