4.2.2023 | 10:20
Upplýsingaóreiða í boði lyfjarisa
Með góðfúslegu leyfi birti ég hér í heild nýtt samtal okkar Sölva Tryggvasonar, þar sem við ræðum m.a. um pólitískan rétttrúnað. Eitt af því sem ég nefni þarna eru bólusetningar barna v/kórónuveirunnar. Ég segi eitthvað á þá leið að það hafi kunni að hafa verið læknisfræðileg/lyfjafræðileg mistök að sprauta ungt og heilsuhraust fólk með þessum lyfjum, en að í tilviki barna væri nær að tala um læknisfræðilegt / lyfjafræðilegt misferli. Ef menn telja þetta stór orð má til hliðsjónar benda á nýbirta niðurstöðu áfrýjunarnefndar í Bretlandi þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að forstjóri Pfizer hafi látið frá sér fara villandi og rangar upplýsingar um réttmæti þess að sprauta 5-11 ára börn með umræddum efnum. Nánar taldi kærunefndin að forstjórinn hefði brotið siðareglur með því að hvetja fyrirvaralaust til þess að börn á þessum aldri yrðu sprautuð. Forstjórinn hafði fylgt þessu eftir með því að segja ávinninginn slíkan að það væri enginn vafi á réttmæti lyfjagjafarinnar. Forstjórinn nefndi hvergi mögulega áhættu sem þessu gæti fylgt eða hugsanlegar aukaverkanir, né setti fram sjónarmið sem hefðu gert almenningi betur kleift að meta kosti / galla og taka þannig betur upplýsta ákvörðun.
Hér liggur sem sagt fyrir skýrt dæmi um dreifingu rangra / misvísandi upplýsinga (e. misinformation), en kannski úr óvæntri átt. Eða var nokkurs staðar gert ráð fyrir því sl. ár að lyfjarisarnir eða opinber yfirvöld væru að dreifa slíkum upplýsingum? Í samtali okkar Sölva segi ég frá því hvernig Fjölmiðlanefnd sigaði erlendu ritskoðunarfyrirtæki á íslenskan almenning. Hvernig mun sagan dæma íslenskar ríkisstofnanir sem brugðust aðhalds- og eftirlitshlutverki sínu í meðvirkni með yfirvöldum og alþjóðlegum stórfyrirtækjum? Íslenskir skattborgarar, sem halda þessum ríkisstofnunum gangandi með skattgreiðslum, hljóta í náinni framtíð að kalla eftir úttekt á því hvernig embættismenn ríkisins brugðust skyldum sínum, settu kíkinn fyrir blinda augað og unnu jafnvel gegn þeim verndarhagsmunum sem þeim er að lögum falið að annast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2023 | 10:15
Hversu nærri þér viltu hleypa valdhöfum?
Á Sprengisandi sl. sunnudag og aftur í Dagmálum Morgunblaðsins í gær var ég spurður hvort málfrelsið væri í raunverulegri hættu. Býður þessi tækniöld ekki upp á óteljandi leiðir til tjáningar?
Tæknilega hafa menn vissulega ýmsa kosti til að velja úr. Tæknihliðin má þó ekki villa okkur sýn. Í framkvæmd er unnið gegn málfrelsinu, bæði af hálfu ,,litla bróður" og ,,stóra bróður" sem báðir vilja stýra því hvað megi segja. Litli bróðir (einkafyrirtæki o.fl.) hefta málfrelsi starfsmanna sinna. Fjölmiðlar eru háðari ríkinu en áður. Merki má sjá um að óháð blaðamennska sé að víkja fyrir einhvers konar aktífisma. Stóri bróðir (ríkisstofnanir, ESB) kalla eftir ritskoðun undir merkjum öryggis. Ef hættumerkin eru ekki orðin alveg skýr í hugum fólks, sbr. þingsályktunartillögu forsætisráðherra um hatursorðræðu, má benda á þessa tillögu framkvæmdastjórnar ESB síðan í maí 2022, sjá https://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=COM%3A2022%3A209%3AFIN&qid=1652451192472 þar sem lagt er til að netfyrirtækjum sé heimilt að leita í öllum einkasamskiptum, skilaboðoum, tölvupóstum o.fl. í leit að grunsamlegu efni.
Jafnvel þótt gengið sé út frá að við séum öll sammála um mikilvægi þess að stemma stigu við útbreiðslu á ógeðfelldu / ógeðslegu efni, þá má ekki einblína á hættuna, ekki verða óttanum að bráð. Við umræðu um tillögur sem miða að því að koma á miðstýrðu eftirliti sem eyðir út mörkum einkalífs þá verða menn að skoða fórnarkostnaðinn og leggja yfirvegað mat á kosti og galla. Veruleikinn er ekki svarthvítur þegar draga á línu milli einkalífs fólks og valdsviðs ríkisins. Hér eru engar töfralausnir í boði, en reynslan sýnir að það er ekki til farsældar fallið að eftirláta ríkinu allt vald til að skera úr um hvað sé leyfilegt í samskiptum fólks.
Dagmál 2. febrúar 2023 - Málfrelsið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2023 | 08:35
Sjálfstæðisflokkurinn má ekki jaðarsetja sín eigin grunngildi
Félag Sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) var stofnað til að standa vörð um þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn er reistur á. Nafn flokksins og uppruni er til áminningar um nauðsyn þess að samfélag okkar hafi lýðræðislega stjórn á örlögum sínum. Um of langt skeið hefur þessi lýðræðisþráður trosnað undan ágangi yfirþjóðlegs valds, sérfræðingastjórnar og tækniveldis. Myndbirtingin er m.a. sú að vald hefur í of miklum mæli verið afhent fólki sem Íslendingar hafa ekki kosið. Slík þróun ber með sér háska, því sagan sýnir að valdhafar þurfa að svara til ábyrgðar gagnvart borgurunum ef ekki á illa að fara. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna hefur aukið á þennan vanda.
Á síðari árum hefur verið þrengt mjög að frelsinu, bæði hérlendis og erlendis. Smám saman eru völdin að færast frá fólkinu sjálfu (og kjörnum fulltrúum þeirra) til sérfræðinga, tæknimanna, erlendra stofnana o.fl. Valdboðsstjórn er að leysa lýðræðið af hólmi. Tækniveldi er að verða til á meðan lýðveldið hverfur í skuggann. Í stað pólitískrar rökræðu og stefnumótunar á þeim grunni gefa valdamenn út fyrirskipanir og auka eftirlit með þeim afleiðingum að borgaralegt frelsi eyðist smám saman. Valdboðsstjórn býður heim hættu á harðstjórn þeirra sem fara með mikil völd og peninga. Í stað þess að áhersla sé lögð á að halda valdinu í skefjum má nú víða sjá merki þess að valdhafar freisti þess að halda almenningi í skefjum.
FSF er vettvangur lýðræðislegrar umræðu þar sem rætt er um leiðir til að sporna við valdboði, skrifræði og stjórnlyndi. Það gerum við í anda klassísks frjálslyndis og á grunni þeirra gilda sem reynst hafa best. Ef Íslendingar standa ekki vörð um eigin hagsmuni gerir það enginn. Sú hagsmunagæsla verður að byggjast upp innan frá, á grunni klassískrar menntunar og gagnrýninnar hugsunar. Í þessum tilgangi ber okkur að hjálpa samborgurum okkar til að finna tilgang sinn og hlutverk, þannig við við getum verið þátttakendur í frjálsu samfélagi en ekki valdlausir áhorfendur. Fámennisstjórn og fyrirskipanir eru eitur í beinum sannra Sjálfstæðismanna.
Til að flokkurinn geti verið sú breiðfylking sem honum er ætlað að vera þarf hinn almenni flokksmaður að hafa rödd og áhrif. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki rísa undir þeirri ábyrgð sem á honum hvílir fyrr en hann slítur sig úr kæfandi faðmlagi við flokka sem stefna í aðra átt. Tími er kominn til þess að Sjálfstæðisflokkurinn marki sér stöðu þar sem honum er ætlað að standa, þ.e. að verja einstaklingsfrelsið gagnvart hvers kyns valdaásælni, verja fullveldi þjóðarinnar, mannlíf og atvinnulíf með því að tryggja valddreifingu, tjáningarfrelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Við eigum ekki að sætta okkur við að alþjóðlegar stofnanir grípi um stjórnartaumana hér á landi. Æðsta vald í málefnum Íslands á að vera í höndum kjörinna fulltrúa Íslendinga. Ákvarðanir um málefni íslensku þjóðarinnar á ekki að taka í fjarlægum borgum. Stöðva þarf stjórnlausa útþenslu ríkisins, ríkisvalds og ríkisstofnana, fækka opinberum störfum og draga úr skattheimtu. Verja á hagsmuni skattgreiðenda með því að krefjast ráðdeildar í ríkisrekstri og strangs aðhalds við ráðstöfun fjármuna úr ríkissjóði.
Ég hvet alla sem vilja leggja okkur lið í þessari baráttu að gerast virkir meðlimir í FSF og vinna þar með okkur að framgangi Sjálfstæðisstefnunnar.
Arnar Þór Jónsson, formaður Félags Sjálfstæðismanna um fullveldismál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)