31.7.2023 | 09:21
Gildin þarf að verja
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala mikið um sjálfstæðisstefnuna, en framfylgja henni ekki í verki. Alvarlegasta dæmið er frumvarpið um bókun 35. Að mínum dómi hafa þau ekkert umboð sinna kjósenda til að leggja í þá vegferð, því enginn getur þjónað tveimur herrum. Ef haldið er áfram á sömu braut þá er flokkurinn orðinn skrumskæling af því sem honum er ætlað að vera, þ.e. útvörður borgaralegra gilda, klassísks frjálslyndis og hófstillts íhalds. Það er ekkert frjálslynt við flokk sem vill þagga niður umræðu um sín kjarnagildi. Það er ekkert íhaldssamt við flokk sem ver ekki menningarlegar hefðir og lýðræðislegar undirstöður. Mögulega er staðan orðin sú að menn þurfa að ræða alvarlega hvort Sjálfstæðisflokkurinn í núverandi mynd sé orðinn gervi-hægriflokkur, sem vængstífir raunverulega hægri pólitík með því að láta kjósa sig á fölskum forsendum og framfylgja alls ekki því sem honum er ætlað að standa vörð um og gera. Menn geta ekki falið sig endalaust á bak við að stjórnarsamstarfið feli í sér ,,málamiðlanir", því kjósendur kæra sig ekki um prinsipplaus stjórnmál. Það er versta útgáfa stjórnmálastarfs, þar sem menn þjóna eigin hagsmunum og kjósa með málum þvert gegn samvisku sinni og sannfæringu. Þegar svo er komið eiga menn að sjá sóma sinn í að taka pokann og finna sér annað að gera. Þetta fólk þarf að átta sig á að þau starfa ekki í lokuðum heimi, heldur eiga að vera í þjónustu almennings. Stjórnmálin eiga að þjóna almenningi ekki stjórnmálamönnum sjálfum, ekki embættismannakerfinu, ekki ESB, ekki alþjóðastofnunum. Sjálfstæðisflokkur sem ætlar að svíkja sín eigin grunngildi er ekki heilög kýr. Innantóma skurn þarf enginn að verja, en gildin þarf að standa vörð um. Það er óheiðarlegt að ætlast til þess að fólk kjósi flokk út á gildi sem forystumenn flokksins ætla ekki að framfylgja. Flokkurinn er í brotsjó og þá verða menn að halda fast um stýrið og rétta skipið af áður en illa fer. Ég ætla, ásamt öðrum, að halda 4 fundi í ágúst í þeim tilgangi að hvetja alla sanna Sjálfstæðismenn að láta þetta til sín taka og hjálpa til við að ná flokknum á réttan hugmyndafræðilegan kjöl. Ef forystan ætlar ekki að hlusta, þá þarf óhjákvæmilega að endurmeta stöðuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2023 | 00:25
Guð blessi Ísland
Íslensk alþýðuheimspeki hefur fágað ýmsa gullmola sem bera með sér djúpa visku, þar á meðal þennan málshátt: Betra er að maðurinn prýði embættið en embættið manninn. Að baki býr áhersla á að heilsteypt fólk veljist til ábyrgðarstarfa. Reynsla síðustu ára hefur sveigt mig óþægilega nærri þeirri ályktun að einn helsti vandi okkar nú á tímum sé í því fólginn að margar helstu stöður séu nú skipaðar ,,pappakössum", þ.e. tækifærissinnuðum framapoturum, sem eru svo innantómir og prinsipplausir að þeir belgja sig út með því að láta eins og þeir séu starfið sitt. Maðurinn í embættinu verður aukapersóna, innantómur, sviplaus, skoðanalaus, en um leið geðþekkur viðhlæjandi þeirra sem fara með völdin á hverjum tíma. Ekki má vanmeta þann einstaklingsbundna og samfélagslega harmleik sem slík gervimennska elur af sér, því við erum sköpuð til að vera frjáls og sjálfstæð, en ekki til að fela okkar sanna sjálf undir mælikeri annarra.
Maðurinn er annað og meira en það embætti eða starf sem hann gegnir. Þegar þetta gleymist skolast margt annað til í lífi fólks. Innri áttavitinn er ekki látinn ráða för heldur ytri fyrirmæli. Lífið fer þá að snúast um að þóknast öðrum til að koma sér í mjúkinn, hækka í tign o.s.frv. Þetta leiðir af sér að fólk svíkur sjálft sig, bregst æðstu gildum sínum og selur sálu sína fyrir veraldlegan framgang. (Sjá til samanburðar og áminningar Lúk. 4:5-8).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2023 | 09:25
Verið hrædd, verið mjög hrædd
Elstu ,,stjórnvitringar" sem sögur fara af vissu að auðveldara er að stjórna óttaslegnu fólki en þeim sem búa yfir innri staðfestu. Hér verða ekki talin upp öll þau ógnvænlegu fyrirbæri sem áttu að vera löngu búin að eyða öllu lífi á plánetunni, allt frá nornum til halastjarna. Hér verður látið við það sitja að minna á, að áður en covid-sturluninni lauk hafði brostið á allsherjarstríð í Úkraínu sem Vesturlönd ,,yrðu að sigra" hvað sem það kostaði, því allt annað markaði endalok vestræns frelsis og lýðræðis. Og nú eigum við að vera dauðhrædd við sumarhita sem allt eru að drepa. Heimspressan hefur verið yfirfull af skelfilegum myndum frá Rhodos, enda stendur eyjan í ljósum logum, ekki satt? Fyrir þá sem hafa allt sitt vit frá ,,stórum og rótgrónum fjölmiðlum" sem Fjölmiðlanefnd (lesist: Ritskoðunarnefnd) telur besta mælikvarða góðs fréttaflutnings, þá er hér ábending um það hvernig þessir fjölmiðlar skekkja, bjaga og aflaga raunveruleikann til að fæla almenning til hlýðni og undirgefni. Svissneska vikublaðið Die Weltwoche birti í gær, 27.7., þessa upptöku svissnesks ferðamanns sem sýnir allt aðra mynd en heimspressan hefur haldið að okkur. Með eigin augum horfir hann á heildarmyndina og kveður upp sinn úrskurð: ,,Laut den Medien brennt ganz Rhodos...Wahnsinn der Scheiß, den sie uns erzählen."
Áhugasömum er ennfremur bent á að lesa umfjöllun Dailý Sceptic um málið. (Varúð: Athugasemdir með fréttinni kunna að vera óritskoðaðar og ekki í samræmi við tilmæli Fjölmiðlanefndar. Lesendur verða að beita eigin hyggjuviti, dómgreind og skynsemi til að verða ekki ,,upplýsingaóreiðu" að bráð).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2023 | 09:38
Undiraldan færist nær yfirborðinu
Í gær, 26.7., vitnuðu Staksteinar Morgunblaðsins til bloggfærslu minnar um bókun 35 og afleiðingar frumvarps utanríkisráðherra um það efni. Af þessu tilefni vil ég láta koma fram, að tilvitnað orðalag um ,,nýmæli og tvímæli" er upprunnið frá góðvini mínum og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Tómasi Inga Olrich. Líkt margir aðrir sannir Sjálfstæðismenn er Tómas Ingi gagnrýninn á fyrrnefnt frumvarp og telur að flokkurinn verði að rétta stefnuna ef ekki á illa að fara. Tómas Ingi man þá tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn stóð undir nafni og starfaði í anda sinnar góðu stefnu. Í samtali við mig sagðist hann ekki vilja trúa öðru en að ná megi flokknum á réttan kjöl. Saga hans og hugmyndafræðilegur styrkur eigi að verða flokksmönnum næg hvatning til dáða í þeim efnum. Ég læt þetta koma fram hér með góðfúslegu leyfi Tómasar Inga, sem er alls ekki feiminn við að tjá þessar skoðanir sínar og vinnur nú að ritun bókar þar sem þetta og margt annað verður reifað frá hans skýra sjónarhóli við Festarklett í Eyjafirði. En Tómas Ingi er ekki einn um gagnrýni sína, því á síðustu dögum hafa fleiri mætir menn brýnt Sjálfstæðisflokkinn til að huga að rótum sínum í stað þess að höggva í þær. Má í því samhengi benda á þessa brýningu Jóns Steinars Gunnlaugssonar, viðvörunarorð Brynjars Níelssonar í gær, og nýlega áminningu frá Heiðari Guðjónssyni um þá ábyrgð sem hvílir á herðum flokksforystunnar.
Sá sem þetta ritar getur staðfest að þung undiralda er meðal þeirra sem aðhyllast borgaraleg gildi. Sem eitt dæmi leyfi ég mér að birta tölvupóst sem barst í gær og endurspeglar hugsun margra annarra. Þetta birtist hér óbreytt með góðfúslegu leyfi sendandans sem kýs þó nafnleynd (enn um sinn).
,,Þeir hafa hækkað beina skatta (fjármagnstekjuskattur úr 20 í 22%) og stefna að annarri skattahækkun um áramót (skattar á fyrirtæki úr 20 í 21%).
Þeir hafa hækkað alla óbeina skatta, gjöld og álögur og bætt við grænum sköttum.
Þeir hafa brotið öll loforð t.d. varðandi aukningu á kvóta til strandveiða og þora ekki að segja nokkurn skapaðan hlut við Svandísi Svavarsdóttur eftir að hún, bersýnilega án allra lagaheimilda, bannaði hvalveiðar.
Þeir hafa látið fullkomna kyrrstöðu í orkumálum sér í léttu rúmi liggja. Orkuskortur yfirvofandi og enginn stendur í lappirnar.
Þeir hafa ekki staðið í lappirnar í útlendingamálum heldur létu duga að samþykkja ný lög sem taka engan veginn á vandamálinu. Embættismenn stjórna þessum málum í raun og veru.
Þeir eru að leggja fram frumvarp sem er stórskaðlegt, bókun 35. Enn frekara framsal á valdi til Brussel.
Þeir segja ekkert við framlagningu Willums á nýju frumvarpi til sóttvarnarlaga. Framsal á valdi til erlendra auðkýfinga.
Innviðir eru að grotna niður en á sama tíma standa þeir fyrir því að tvö ráðuneyti eru flutt í dýrasta skrifstofuhúsnæði á landinu, fyrr og síðar.
Landsbankinn, í eigu þjóðarinnar, byggði dýrustu höfuðstöðvar sem sögur fara af og á vonlausum stað.
Þeir eru að byggja nýjar skrifstofur fyrir þingið, þar sem ekkert er til sparað. Sjálfumgleðin alls ráðandi.
Ekkert gert í því að lagfæra innviði fyrir ferðamennsku. Ekkert gert í því að setja gjöld á ferðamenn, hvort sem þá sem koma með flugi eða setja alvöru gjöld á skemmtiferðaskip sem
Koma hingað og skilja ekkert eftir sig nema mengun og gjald til rútufyrirtækja sem aka þessum skipbrotsmönnum á ókeypis ferðamannastaði s.s. Gullfoss.
Það er ekkert að frétta. Öll ljós kveikt en enginn heima.
Samfélagið og stjórnmálaflokkar þar með taldir eru hættir að þora að fylgja sinni stefnu og sannfæringu af ótta við viðbrögð brjálæðinganna sem virðast fara með öll völd þar sem hæst í þeim heyrist.
Það gleymist að þetta er bara hávær minnihluti og að hin hjóði meirihluti er búinn að fá sig fullsaddann af þessu ástandi."
Svo mörg voru þau orð. Menn vonandi nota sumarið til að ná áttum og rétta kúrsinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2023 | 09:13
Huldumaður tjáir skýra hugsun
Huldumaðurinn Kári gæti hafa tileinkað sér orð eftir Thomas Sowell að ekki sé unnt að segja allan sannleikann nema annað hvort handan grafar eða handan nafns (sjá mynd). Í nýrri ritgerð Kára má finna eftirfarandi lýsingar sem vert er að vekja athygli á. Þótt undirritaður (AÞJ) hefði sjálfsagt viðhaft annað (og mildara) orðalag er mögulega sannleikskjarni þarna sem gæti ýtt við staðnaðri pólitískri umræðu:
,,Margir upplifa (og það réttilega!) fullkomið stjórnleysi í málefnum flóttamanna, í fjármálalífinu og á sviði orkumála. Engu er líkara en að íslensk stjórnvöld séu í bandi erlendra stofnana sem gefa stjórnvöldum skipanir. Þar má nefna Evrópusambandið, stofnanir Sameinuðu þjóðanna, s.s. Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, auk dauðlega fólksins sem kemur saman í Davos. Vitleysan og stjórnleysi Íslands verða ekki skýrð öðruvísi en þannig að fólk fylgi skipunum erlendis frá. Veruleikafirringin er slík að fólki getur ekki verið sjálfrátt. Með breyttu þjóðskipulagi, frá lýðræði yfir í þjófræði, er ljóst að kosningar til Alþingis snúast að mestu leyti um það hvaða þjófar, eða fulltrúar þjófa, komast til valda. Vitanlega eru alltaf undantekningar, þvert á alla stjórnmálaflokka en meginlínurnar eru skýrar. Markaðsvæðing og rán á eigum almennings eru aldrei langt undan. Margir líta svo á að starf ráðherra sé að vera einskonar áhrifavaldur - síbrosandi og með fíflalæti í fjölmiðlum. Þau sem mest brosa hafa oft orðið þjóðinni til ævarandi skammar með blaðri sínu. Að hafa stefnu og þekkingu á t.a.m. alþjóðamálum skiptir hins vegar engu máli. Að auglýsa eigin persónu er það sem allt snýst um. Útlitið skiptir öllu máli en innihaldið engu. Þannig fólk þjónar þjófræðinu vel: það hefur engar skoðanir, þokukennda framtíðarsýn, mjög skerta dómgreind og takmarkað vit. Þessi blanda hefur orðið ofan á í íslenskum stjórnmálum og er boðin aftur og aftur, oft á nýjum belgjum. Því verður að teljast ólíklegt að Samfylking á nýjum belgjum valdi straumhvörfum eftir næstu kosningar. Eitruð peð og lík í lestinni raða sér oft á lista stjórnmálaflokka. Pólitísk nálykt fælir marga frá því að kjósa suma stjórnmálaflokka. Á meðan sama fólk er upptekið af eigin útliti og brosir í myndavélar, vinnur það skipulega að framsali íslensks fullveldis til erlendra stofnana, hvort heldur er til Evrópusambandsins eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar [WHO]. Einhverjr láta blekkjast en aðrir fá fullkomna skömm á þessum vesaldómi íslenskra ráðamanna. Alþingi Íslendinga er í raun og veru mesta uppspretta ofbeldis og ofríkis á Íslandi - gegn almenningi - en að sama skapi er sýnd ómæld undirlægja gagnvart erlendu valdi. Á þingi er þjóðin, og þegnar hennar, beitt skefjalausu ofbeldi í stóru og smáu. Fámennisklíkan, með sína dyggu fulltrúa á þingi, valtar yfir þjóðarviljann oft og ítrekað sem er vitanlega ein mynd ofbeldis. Hefur þjóðin t.a.m. verið spurð hvaða stefnu hún vilji reka í málefnum flóttamanna, orkumálum (auðlindamálum), heilbrigðismálum og alþjóðamálum? Í hvers umboði starfar Alþingi og þeir sem þar sitja? Hvað ræður því hvaða hagsmunir verða ofan á við atkvæðagreiðslur eða hvort málin koma yfirleitt til kasta Alþingis? Ef einhver heldur að til forystu í stjórnmálum veljist fólk yfirleitt vegna hæfni og jafnvel greindar, þá er það mikill misskilningur. Fólk velst fyrst og fremst í stjórnmál sökum þess að það er ófyrirleitnara en almennt gerist, frekara og yfirgangssamara. Valdalíkur þjóðfélaga samanstanda af slíku fólki. Þar nægir að nefna Evrópusambandið. Margt þetta fólk virkar þó kurteist á yfirborðinu, en frekja og yfirgangur eru aldrei langt undan. Innganga Íslands í Evrópusambandið mun af augljósum ástæðum ekki leysa vandann sem þarna er lýst. Það sem gerist er einfaldlega það að valdaklíkan á Íslandi binst valdaklíku Evrópu sterkari böndum, með neikvæðum afleiðingum fyrir almenning á Íslandi. Það er af og frá að almenningur muni hagnast á því. Þegar allt kemur til alls snýst þetta samstarf um það hvernig valdaklíkur stjórnmála og efnahagsmála ráða ráðum sínum. Þegar íslenskur ráðherra brosir í erlendar myndavélar er það til þess að styrkja samstöðuna inn á við - samstöðu innan valdaklíkunnar í stærra samhengi. Það er síðan annað mál að alltaf er til fólk sem (brosir) og hlær á röngum stað í leikritinu, eins og Halldór Laxness benti á í viðtali fyrir margt löngu".
[Leturbr. AÞJ]
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2023 | 09:52
Fangabúðir hugans
Þorsteinn Siglaugsson birti grein í Mogganum í gær sem endar á þessum orðum:
Þetta er alræði almenningsálitsins, alræði umburðarleysisins þar sem sérhvert frávik, brandari, illkvittnisleg athugasemd, ögrandi fullyrðing verður að ófyrirgefanlegum glæp. Þar sem einstaklingseinkennin, efinn og hugsunin, sem þrátt fyrir allt áttu sér athvarf í andófsritum, neðanjarðarleikhúsum, bröndurunum um yfirvöldin á tímum Stalínismans hljóta að láta endanlega undan, í samfélögum sem eru að sögn hin frjálsustu og lýðræðislegustu í sögunni en einkennast æ meir af dauðhreinsun á grunni andlegra lýðheilsusjónarmiða.
Lesendur eru hvattir til að íhuga þessi orð vandlega í ljósi þess hvernig vestræn þjóðfélög færast sífellt nær stjórnarfari sem best verður lýst sem ,,mildilegu alræði". Þetta ástand hefur læðst að okkur eins og þoka og hefur vaxið hægt og hljótt meðan almenningur situr feitur, dofinn og aðgerðalaus yfir ruslfæði, skemmtifroðu og opinberum áróðri. Stríðsvélarnar mala og soga til sín skattfé, sem einnig er nýtt til að belgja út skrifstofuveldi sem svarar ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart almenningi. Í slíku stjórnskipulagi umbreytast þjóðþingin í áhrifalaus málfundafélög en valdið er afhent fjarlægum, ólýðræðislegum og yfirþjóðlegum stofnunum, sbr. t.d. frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 og frumvarp heilbrigðisráðherra til nýrra sóttvarnalaga. Í þessu umhverfi má skapa aðstæður þar sem unnt er að taka stjórnarskrárákvæði úr sambandi með vísan til ,,fordæmalauss" hættuástands. Fjölmiðlasamsteypur með aðstoð yfirvalda stýra því sem við megum sjá og heyra, í því skyni að koma skilaboðum áleiðis, ýta undir ótta, viðhalda aga og úthrópa þá sem voga sér að spyrja gagnrýninna spurninga. Með þessu móti er leitast við að tryggja að allir gangi í takt, hugsi eins, tali út frá sama handriti og afhendi stjórnvöldum frelsi sitt og réttindi í skiptum fyrir falskt öryggi, þar sem líf einstaklingsins skiptir engu máli nema að því leyti sem hann telst gagnast valdhöfum.
Frammi fyrir þessari þróun þurfa allir frjálshuga menn að stíga niður fæti. Til þess má nýta ramma frjálslyndrar og lýðræðislegrar stjórnskipunar, meðan hún er enn við lýði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2023 | 09:42
Nýmæli og tvímæli
Frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 felur í sér bæði nýmæli og tvímæli.
Nýmælin birtast í fyrri hluta fyrri setningarinnar, þ.e. þessum orðum hér: ,,Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar". Þetta felur í sér þá nýjung að erlend löggjöf skuli almennt ganga framar íslenskum rétti. Höfundur þekkir engin dæmi um að löggjafarþing í frjálsu landi hafi gengisfellt sjálft sig með þessum hætti án undangenginna kosninga um slíkt. Alþingi hefur ekkert lýðræðislegt umboð til að grafa með þessum hætti undan meginstoð lýðveldisins, sem er íslenskt löggjafarvald.
Tvímælin birtast í seinni hluta sömu setningar, þ.e. eftirfarandi orðum: ,,[...] nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað". Í þessu felst að Íslendingar væru ofurseldir stöðugri réttaróvissu um hver væru gildandi lög í landinu og gætu ekki treyst því sem stendur í íslensku lagasafni. Þjóð sem er þannig týnd í þokunni og veit ekki hvaða reglur gilda er auðveldari í taumi en sú sem veit hver réttur hennar er. Hér er verið að opna stjórnarfarslega ormagryfju. Til framtíðar er slíkt til þess fallið að stórskaða íslenskt stjórnarfar og íslenskt lýðræði með fordæmalausum hætti.
E.S. Frammi fyrir þessum fórnarkostnaði er rétt að menn spyrji sig hver ávinningurinn er af þessari fyrirhuguðu þjónkun og undirgefni við ESB. Í leit að svörum er nærtækast að líta til reynslu Breta sem kusu að endurheimta fullveldi sitt með Brexit. Þvert gegn heimsendaspám úrtölumanna liggur nú fyrir, skv. Daily Telegraph í dag, að útflutningur Breta til ESB hefur aukist frá 2019, ekki minnkað. Útflutningur til ESB nemur nú 52% af heildarútflutningi Breta og hefur hækkað úr 50% frá 2019. Lesa má í fréttinni upprifjun á því að fimmtungur breskra framleiðenda hygðist segja upp starfsfólki vegna Brexit og að útganga Breta myndi stórskaða bresk fyrirtæki. Þessar spár hafa ekki ræst. Breskur iðnaður hefur aðlagast breyttum markaðsaðstæðum, þrátt fyrir áskoranir í formi vaxtahækkanna o.fl.
ESB er aðeins brot af heimsmarkaði og Íslendingar hafa mörg tromp á hendi til gjaldeyrisöflunar. Í því ljósi er sérkennilegt að íslenskir þingmenn vogi sér að grafa undan sjálfstæði okkar og fullveldi til að þóknast skrifstofubákninu í Brussel og tryggja einsleitni við ESB rétt án skýrs lýðræðislegs umboðs. Óvarkárari menn en ég gætu notað stór orð um slíkt athæfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2023 | 10:08
Sverð andans
,,Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt. Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð". (Efesusbréfið 6:12-17)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2023 | 10:14
Uppstokkun mennskunni til varnar
Í heimi þar sem allt snýr öðru vísi en áður hafa pólitískar línur riðlast. Flokkar fylgja ekki lengur sinni eigin stefnuskrá. Hugsjónir eru til skrauts og þátttakendur í stjórnmálum leika hlutverk stjórnmálamanna. Ég nefni þetta hér því þegar ég las grein Ögmundar Jónassonar í sunnudagsblaði Moggans (23.7.2023) langaði mig til að standa upp og klappa. Eftir lesturinn velti ég fyrir mér hvernig beri að skilja þá pólitísku gerjun sem nú er að eiga sér stað. Getur verið að átakafletirnir snúist nú ekki um sósíalisma / kapítalisma, heldur um hina nýju samfélagsgerð sem alþjóðastofnanir, alþjóðleg stórfyrirtæki og alþjóðlega þenkjandi stjórnmálamenn birta okkur daglega? Í fyrrnefndri grein Ögmundar er að finna varnaðarorð gegn þessari þróun í átt til framtíðar þar sem réttindi einstaklinganna eru einskis virði. Lýsing Ögmundar skírskotar til þess sem ég hef nefnt samtakaríkið (e. corporate state) sem í sögulegu samhengi er stórkostlega varhugavert fyrirbæri og undanfari fasisma.
Áður en við göngum þessum nýja veruleika á hönd þurfum að við að átta okkur á hvað er í húfi: Í samtakaríkinu sameinast ríkisvald, peningavald og stjórnmálin með þeim afleiðingum að almannahagur er látinn mæta afgangi. Í slíku fyrirkomulagi fjármagna hagsmunaaðilar eftirlitsstofnanir, vígbúnað, matvælaframleiðslu, fjölmiðla o.fl. og nota vald sitt til að lækka öryggiskröfur, flytja áróður, forða framleiðendum frá bótaábyrgð o.fl. en fá um leið greiðan aðgang að fjárhirslum ríkisins.
Í slíku umhverfi þurfa menn úr ólíkum flokkum að byggja brýr, búa til nýjan samtalsvettvang og efla samtakamátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2023 | 09:33
Þekktu andstæðing þinn
Í ljósi yfirlýsts vilja sumra íslenskra stjórnmálamanna, jafnvel sumra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, til að færa Ísland í síauknum mæli undir áhrifavald ESB, hef ég hvatt til þess að menn kynni sér tilurðarsögu og markmið ESB. Þá sögu hef ég m.a. rakið í þessu minnisblaði til utanríkismálanefndar Alþingis. Auk þess má hér, hér, hér, hér og hér lesa aðvörunarorð mín gegn því að Íslendingar grafi með þessum hætti, að óþörfu, undan fullveldi sínu, veiki Alþingi og höggvi á lýðræðislega rót þeirra laga sem okkur er ætlað að búa við.
Kínverski hershöfðinginn Sun Tzu sagði nauðsynlegt að þekkja andstæðing sinn. ESB sjálft býður fólki í gestastofu (European Parliament´s Visitor Centre) þar sem m.a. má finna þessa tilvitnun til þess að fullveldi sé rót alls hins illa en að það mein megi ,,lækna" með því að setja löndin undir eina alríkisstjórn (sjá mynd). Vandinn er sá að samhliða veikingu á fullveldi aðildarríkjanna hefur risið upp miðstýrt og ólýðræðislegt skrifræðisbákn sem nú má teljast vera orðið sjálfstæð ógn við frelsi manna og þjóða. Sjaldgæfa en hreinskilna lýsingu á gervilýðræðinu sem þarna er stundað má heyra í þessari ræðu pólska þingmannsins Legutko, þar sem hann flytur það sem hann kallar ,,hinn bitra sannleika" á tveimur mínútum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)