EUSSR?

Á meðan unnið er hörðum höndum að framsali ríkisvalds úr landi til að greiða götuna fyrir framsali á auðlindum Íslands til útlanda, ræða alþingismenn í tæplega 5 klukkustundir um plasttappa. Hvað skýrir þessa áframhaldandi niðurlægingu Alþingis? Hér eru tvær vangaveltur mínar á sunnudagsmorgni: eussr

1. Breski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn C. Northcote Parkinson hélt því fram, í gríni og alvöru, að sá tími sem varið er í umfjöllun um mál á stjórnarfundum sé í öfugu hlutfalli við vandann sem við er að fást. Sem dæmi nefndi hann að ákvörðun um hvort byggja ætti kjarnaofn gæti tekið nokkrar mínútur, en sömu menn gætu svo rætt í hálftíma um hönnun reiðhjólaskýlis og kostnað slíkrar byggingar. Munurinn er sá að menn vita hvað reiðhjólaskýli er (og plasttappar) og treysta sér í umræðu um það sem þeir skilja.

2. Nýtt stjórnarfar er orðið til á Íslandi þar sem allar ákvarðanir sem verulegu máli skipta eru teknar erlendis. Íslenskir ráðamenn vilja hafa ráðamenn ESB yfir sér, jafnvel þótt stjórnarfarið í Brussel beri óþægilegt svipmót ráðstjórnarríkjanna sálugu: 

  • ESB líkist Svovétinu í því hvernig ólýðræðislegt skrifstofuveldi ákvarðar stefnur án almennrar umræðu og án lýðræðislegrar ábyrgðar. Dæmi: Framkvæmdastjórn ESB lýtur litlu sem engu lýðræðislegu aðhaldi. 
  • Andmæli gegn rétttrúnaði ESB eru ekki umborin. Fjórfrelsið skal blíva og er óhagganleg kredda, sem yfirtrompar í framkvæmd jafnvel stjórnarskrárákvæði aðildarríkja. 
  • Miðstýrð efnahagsstjórn ESB líkist áætlunarbúskap Sovétríkjanna. Rétt eins og í Sovét hefur þetta leitt til óskilvirkni og efnahagslegra niðursveiflna.  
  • Fullveldi aðildarþjóða er verulega skert með hagfræðilegum og pólitískum samruna. 
  • Lýðræðislegur vilji almennings er vanvirtur, sbr. það hvernig ESB hefur horft fram hjá niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna og endurtekið kosningar þar til "rétt" niðurstaða fæst. Mögulega þýðir þetta að halda þurfi margar þjóðaratkvæðagreiðslur um ESB-aðild Íslands.
  • Sovétríkin framfylgdu hugmyndafræði Marx og Leníns af mikilli hörku. Samruni aðildarríkja er með sama hætti nokkurs konar rétttrúnaðarkredda hjá ESB. 
  • Í Sovétinu voru efasemdamen stimplaðir sem "óvinir framfara". Efasemdamenn um evrópusamruna eru stimplaðir sem vitleysingar eða öfgamenn.

Í tilviki Sovétríkjanna hrundu þau vegna innri veikleika. Þrátt fyrir augljósa innri veikleika ætlar núverandi ríkisstjórn að draga Ísland um borð í þetta sökkvandi skip. 


Allt fyrir samansúrrað pólitískt og peningalegt vald

Mesta niðurlægingartímabil í Íslandssögunni eru sennilega 17. og 18. aldirnar, þar sem örsnauður og varnarlaus almúgi dró fram lífið í þrældómi, kulda og vosbúð, þar sem bændur og embættismenn ráðskuðust með daglegt líf fólks, á sama tíma og Alþingi var lítið annað en innantóm skel, þar sem löggjafarstarf fólst í að innleiða tilskipanir erlends konungsvalds samhliða því að kveða upp harða dóma yfir smælingjum sem í neyð sinni höfðu tekið snæri eða fiskroð sér til lífsbjargar. Um þetta má lesa í alþingisbókum sem til eru á prenti og víða aðgengilegar.

Niðurlæging Sovét-"lýðveldanna" á 20. öld birtist daglega í lyginni um að þau væru sjálfstæð og lýðræðisleg, því þjóðþing þeirra voru innantómar skeljar og öll raunveruleg völd voru í höndum kommúnistaflokksins sem var undir stjórn Moskvu. Ef leiðtogar þessara þjóða sýndu óhlýðni, sbr. t.d. Ungverjaland 1956 og Tékkóslóvakía 1968, gripu Sovétríkin til hernaðaríhlutunar.

Þjóðþingin, eins og Volkskammer í Austur-Þýskalandi eða Sejm í Póllandi, settu vissulega lög, en þau voru öll ákveðin af valdaflokknum, sem hélt um alla þræði og gætti þess að engir utanaðkomandi óþægilegir menn kæmust nærri þessu valdi. Umræður voru táknrænar og andstöðuatkvæði höfðu engin raunveruleg áhrif. Þessi ríki gátu státað af fallegum stjórnarskrárákvæðum um lýðræði og mannréttindi, en í raun voru öll völd í höndum lokaðrar flokks-klíku, sem hafði meiri áhuga á að verja eigin hagsmuni en hagsmuni almennings. Dómstólar voru ekki sjálfstæðir og voru notaðir til að þagga niður í stjórnarandstæðingum. Ritskoðun var algjör og fjölmiðlar voru notaðir sem áróðurstæki. Saga þjóðanna var endurskrifuð til að samræmast hugmyndum valdhafa og eyða þjóðlegum hefðum sem gengu gegn ríkjandi hugmyndafræðilegri kreddu. Í stuttu máli höfðu þessi ríki ásýnd sjálfstæðra ríkja með sínar eigin ríkisstjórnir, en í reynd voru þær aðeins leppstjórnir, framlenging á valdinu í Moskvu. 

Allt framangreint kemur upp í hugann þegar skoðuð er mynd af embættismönnunum í sameiginlegu EES nefndinni sem fyrr í þessari viku hittust til að "segja JÁ" (aldrei "NEI") við þykkum bunka af regluverki frá valdinu í Brussel, en samtals voru í bunkanum 79 reglugerðir og tilskipanir frá ESB. Í framhaldinu verða sumar þeirra sendar Alþingi til samþykktar, formsins vegna, en aðrar þurfa engan gúmmístimpil þaðan. Hvert er þá hlutverk Alþingis í þessu ferli? Getur það neitað að samþykkja? Í leit að svörum er nærtækast að rifja upp hvað sagt var þegar þriðji orkupakkinn barst Alþingi til samþykktar árið 2019: Þá var sagt "útilokað" að Íslendingar gætu fengið undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans. Í viðtali við Rúv bætti fræðimaður í Evrópurétti við: „Það er náttúrulega nú þegar búið að semja á vettvangi sameiginlegu EES nefndarinnar um upptöku löggjafarinnar í EES-samninginn og við fengum ákveðnar undanþágur“ [...]] "Það myndi því ekki skila neinu að senda málið aftur þangað." Þarna er verið að lýsa mulningsvél, en ekki sjálfstæðu, lýðræðislegu lagasetningarferli.

Mikilvægt er að rifja þetta upp núna þegar Alþingi hyggst samþykkja frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35, sem gerir varnir Íslands enn veikari en áður og mun auðvelda umbyltingu raforkumarkaðar hérlendis með stórfelldi hækkun raforkuverðs til heimila og fyrirtækja, en þegar munu vera komnar fram 36 eða 37 umsóknir um vindorkugarða víðsvegar um landið og allir þessir garðar nema 2 munu verða í eigu erlendra aðila. Í þessu ljósi er mögulega hægt að ímynda sér hvaðan þrýstingurinn kemur á alþingismenn að samþykkja frumvarpið sem allra fyrst.

Ásýnd Íslands mun breytast hratt þegar farið verður að "teppaleggja" landið með vindorkugörðum. Fjárfestar og erlend stórfyrirtæki munu hagnast en lífskjör almennings skerðast, "þökk" sé kjörnum þingfulltrúum þessa sama almennings. 

 

 


Hafa ráðherrar fengið umboð til að stofna hlutleysisstöðu Íslands í hættu?

Eftir hamagang síðustu mánaða er ég að koma mér á beinu brautina aftur. Umframorku og tíma má verja með ýmsum hætti, t.d. með að taka upp þráðinn í fundahaldi, greinaskrifum og þáttagerð. Þegar samfélagið (og allur hinn vestræni heimur) virðist vera að fara af hjörunum og þegar daglegar fréttir endurspegla sífellt meiri firringu, þá er það borgaraleg skylda fólks að halda uppi málefnalegri gagnrýni og leyfa rödd sinni að hljóma, þvi sagan sýnir að nánast um leið og slíkar gagnrýnisraddir þagna er voðinn vís. Saga 20. aldar er til marks um að valdagírugir ráðamenn sækja í sig veðrið þegar almenningur hættir að beina gagnrýnu kastljósi að athöfnum valdhafa.   

Út frá þessu flutti ég 45 mínútna pistil í Brotkastinu í gær, þar sem ég m.a. hvet Íslendinga til að skoða framgöngu ráðherra í lagalegu og siðferðilegu ljósi, spyrja málefnalegra spurninga og veita aðhald, því svo virðist sem stjórnarfarið hér sé farið að þjóna einhverju allt öðru en fólkinu sem hér býr, nánar tiltekið erlendum stofnunum, formlegum (og óformlegum) hernaðarbandalögum og erlendum kreddum. Á meðan ráðherrar leggja aðaláherslu á að sinna þessu og sýnast góðar í útlöndum morkna innviðir Íslands. 

Ég skrifa þetta og tala til að hvetja Íslendinga til að vakna úr rotinu, skoða hvert verið er að stefna með landið okkar og taka virkari þátt í þjóðfélagsumræðunni (og pólitík), því atvinnustjórnmálamönnum er ekki lengur treystandi fyrir stýrinu.

 


Úreltar kreddur íslenskra (ó)ráðamanna

Nk. mánudag, 17. mars, hefur mér verið boðið á fund utanríkismálanefndar Alþingis til að gera grein fyrir umsögn minni um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35. Umsögnina í heild má lesa hér.

Þótt heimsmyndin breytist nú hratt og atburðarásin bendi til að þjóðríki, sérstaklega örríki eins og Ísland, þurfi að leggja meiri áherslu á styrkingu innviða, matvælaöryggis, eigin orkuframleiðslu og vinsamleg samskipti við nágrannaþjóðir fremur en þátttöku í stríðsrekstri, þá geri ég ekki ráð fyrir öðru en að ég muni á ofangreindum fundi tala fyrir daufum eyrum ráðherra og þingmanna sem nánast allir hafa kokgleypt úreltar kreddur, nánar tiltekið um það að Íslendingar verði að leyfa alþjóðlegum stofnunum og ráðandi hugmyndafræði hvers tíma að ráða för, í stað þess að miða stefnumörkun við það sem best hefur reynst í tímans rás, efla íslenskan efnahag og hlúa að landsmönnum áður en farið er að senda milljarða úr landi í svarthol sem enginn sér til botns í. 

Birgir Steingrímsson formaður "Orkunnar okkar" fjallar um einn þátt þessa vanda í Morgunblaðsgrein í dag, þar sem hann leggur áherslu á að aðild að orkupökkum ESB sé að skaða íslenska hagsmuni. Þar segir m.a.: "Orkupakkar ESB hafa eingöngu orðið til skaða fyrir íslenskan almenning og munu hægt og rólega draga úr getu landsins til að byggja upp samfélag sem hefur verið eitt það besta í heimi þegar forræðið á helstu auðlind landsins færist úr landi. Afleiðingarnar eru ófyrirsjáanlegar."

Meirihluti alþingismanna hefur stutt óráðamenn síðustu ríkisstjórnar og núverandi í því að stuðla að óstjórn í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, grafa undan Alþingi, veikja landamæraeftirlit (samhliða því að auka eftirlit með almennum borgurum!), hefta orkuframleiðslu, hvetja alla í lyfjasprautur sem gerðu sennilega meira ógagn en gagn, gefa til kynna að til séu fleiri en 2 kyn o.s.frv. Meðan ráðamenn þessarar þjóðar kjósa að hafa áttavitann kolrangt stilltan mun Ísland sogast nær þeirri hættulegu straumröst ófriðar og blindrar kreddu sem nú ógnar framtíðarhagsmunum lands og þjóðar. 

 

 

 


Hvæsandi tígrisdýr í gær, mjálmandi kettir í dag?

Venjulegt fólk, almenningur í Úkraínu, Rússlandi, ESB og USA vill fá að lifa í friði. En af einhverjum ástæðum virðast stjórnmálamennirnir vilja stríð. Herskáir kven-utanríkisráðherrar litla Íslands hafa skipað sér þar í framstu röð ásamt leiðtogum ESB, Bretlands o.fl. Sl. þrjú ár, meðan Úkraínu-stríðið hefur framkallað mörg hundruð þúsund manndráp og daglegan harmleik, hafa þessir "leiðtogar" ekkert gert til að bera klæði á vopnin. Fyrr í þessari viku var ESB komið svo langt í stríðsæsingum að Ursula von der Leyen boðaði virkjun neyðarheimildar 122. gr. stofnsáttmála ESB til að sneiða fram hjá öllu lýðræðislegu aðhaldi og setja vopnavæðingu ESB í forgang með 800 milljörðum Evra sem enginn veit hvaðan á að taka. Í sögulegu samhengi ættu öll viðvörunarljós að blikka þegar ráðamenn lýsa yfir neyðarástandi, því slíkt ástand hefur iðulega verið notað til að réttlæta það að stjórnvöld taki stjórnskipulega varnagla úr sambandi. En vika er sannarlega langur tími í pólitík, sérstaklega þegar sjá má stjórnmálamenn breyta um stefnu á nokkrum klukkustundum eftir að ríkisstjórn Úkraínu hefur samþykkt vopnahlé. Kaja Kallas mjálmar nú eins og lítill kettlingur og talar um frið en þessi sama kona hvæsti (brosandi) um allsherjarstríð fyrir aðeins örfáum dögum.

"Leiðtogar" ESB, Bretlands (og Íslands) líta ekki vel út núna eftir allt hernaðartal sitt síðustu ár og vonandi er enn hægt að afstýra þriðju heimsstyrjöldinni. Sjálfur er ég farinn að hallast að því að mesta ógæfa friðsamra borgara sé sú að hafa afhent dómgreindarlausu fólki valdataumana. 

 

 


Snúum af rangri braut

Daglegar fréttir sannfæra mig um að lengra verði ekki náð í öfugsnúningi. En svo rennur upp nýr dagur þar sem öfugmælin ná nýjum hæðum (réttara sagt: lægðum). Það nýjasta eru "siðferðilegar sprengjur" sem breskir þingmenn hvetja til að keyptar verði undir merkjum ESG (Environmental, social, governmental). Já, nú skal sprengt og drepið í nafni góðs siðferðis, allt stimplað með umhverfisvænum ESG stimpli.

Hvernig fetar fólk sig áfram í heimi þar sem öllu er snúið á hvolf? Þar sem friður er sagður vera verri en stríð, þar sem þjóðarleiðtogar vilja vopnaskak en ekki friðarviðræður og þar sem lýðræði gengur út á að innleiða stefnu sem enginn fékk að kjósa um, þar sem við eigum að fagna fjölbreytileikanum í öllu nema því hvernig við hugsum, þar sem útskúfa má fólki í nafni umburðarlyndis, þar sem fréttir eru áróður, þar sem jafnrétti er best iðkað með því að annað kynið sé skipað í allar valdastöður ríkisins, þar sem okkur er sagt að góð heilsa sé háð því að við fáum sem flestar sprautur og bóluefnin eru svo góð að þau koma ekki í veg fyrir smit, þar sem fullveldi snýst um að framfylgja ákvörðunum erlendra stofnana, þar sem menntun snýst um innrætingu en upplýsandi fræðsla og gagnrýnin hugsun mæta afgangi. Upptalningin gæti verið mun lengri.

Í hinni helgu bók segir að upphaf visku sé að óttast Drottinn. Íslenskt samfélag óttast Drottinn en sá ótti er byggður á öfugum forsendum eins og allt annað, því óttinn snýst um að ekki megi nefna nafn Guðs, því þá sé viðkomandi "skrýtinn". Mögulega er þessi ótti þó rökréttur því í hjarta sínu þekkja allir mun á góðu og illu, kunna að bera kennsl á ósannindi, vita að kynin eru ekki fleiri en tvö, vita að við eigum ekki að ljúga, stela og svíkja. En þegar menn hafa of lengi kallað hið illa gott og hið góða illt, og gert ljósið að myrkri og myrkrið að ljósi, þá vilja menn ekki heyra minnst á Guð. Það er skiljanlegt, en ekki góð afstaða til framtíðar. 

Úr smábarnabókunum munum við eftir Emmu öfugsnúnu og Láka, en þau höfðu þó vit á því að snúa af rangri braut og inn á betri veg. 

 


Höfum við ekkert lært?

Ríkissjóður Íslands er tómur þrátt fyrir stöðugt hækkandi skatta. Sjúklingar sofa á göngum Landspítalans, biðlistar lengjast stöðugt o.s.frv. en það skiptir engu máli því nú ætlar ríkisstjórnin að fjármagna stríðsrekstur úr tappalausum fjárhirslum sínum, þrátt fyrir að Íslendingar hafi engan her, jafnvel þótt Úkraína sé ekki í Nató og þrátt fyrir að Íslendingar hafi aldrei fengið að kjósa um hervæðingarfyrirætlun stjórnvalda. 

Með aðstoð fjölmiðla hafa fyrri og núverandi ríkisstjórn Íslands náð að tromma upp áður óþekkta hernaðarhyggju meðal almennra borgara, því nú á að búa til "varnarbandalag Evrópu". Límið í samstöðunni er heift og drifkraftur aðgerða er hatur á sameiginlegum óvini. Umræðan og viðmótið sem hún birtir er farin að minna á landslagið eins og það var þegar stjórnvöld smöluðu ungum sem öldnum í "Dauðadalshöllina" til að þiggja "sprauturnar góðu" gegn "veirunni skæðu". Þá var hysterían slík að hver sem leyfði sér að efast eða hvetja fólk til að flýta sér hægt mátti sætta sig við að vera kallaður öfgamaður, álhattur, samsæringur, óvinur alþýðunnar o.s.frv.

Með sama hætti er hver sem nú leyfir sér að tala máli friðar eða segir að fulltrúar Íslands eigi að tala máli sátta en ekki stríðs, sá hinn sami má vænta þess að vera kallaður "kvislingur" eða eitthvað þaðan af verra. 

Já, ráðamenn boða nú stríð í nafni friðar, rétt eins og ráðamenn hafa alltaf gert, m.a. í Jerúsalem árið 65 e.Kr. þegar leiðtogar Gyðinga vildu innleiða himnaríki á jörð með stríði gegn Rómverjum, en uppskáru helvíti. Staðan í Jerúsalem var þá sú að ríkið stóð á brauðfótum: Háir skattar voru borgurunum stöðugt þungbærari, embættismenn urðu stöðugt spilltari, atvinnuleysi hafði aukist. Upp spruttu menn sem heimtuðu gjald af almenningi til að tryggja öryggi þeirra. Pólitískur og samfélagslegur órói fór vaxandi. Selótar, sem voru pólitískir og trúarlegir ofstækismenn, hvöttu mjög til þess að Ísraelsmenn færu í (vonlaust) stríð við Rómverja. Hver sem ekki vildi fylgja stríðsæsingamönnum mátti vænta þess að vera beittur ofbeldi. Upphafið að endalokunum varð í hafnarborginni Sesaríu, þáverandi höfuðborg skattlandsins Júdeu, þegar skattlandsstjórinn Gessius Florus espaði almenning til uppþota í þeirri von að ólætin yrðu svo mikil að yfirmenn hans í Róm myndu ekki taka eftir fyrri misgjörðum Florusar í embætti. Fréttir af uppþotum í Sesaríu urðu neistinn sem kveikti í púðurtunnunni og Gyðingar hófu að ráðast á virki Rómverja, ræna þá og drepa. Jafnvel Samverjar, sem áttu litið sem ekkert sameiginlegt með Selótum, tóku þátt í ófriðnum. Viðbrögð Rómverska herveldisins urðu í stuttu máli þau að senda her til þessa svæðis í hinni fornu Palestínu til að stráfella Gyðinga. Frammi fyrir ógninni af rómverska hernum tvíefldust foríngjar Selóta, þótt þeir vissu að aðeins væri tímaspursmál hvenær héröð þeirra yrðu kramin undir hæl Rómverja. Til að efla samstöðu heimafólks létu þeir fangelsa og eignasvipta alla sem sýndu hernaðinum ekki stuðning. Þeir sem lýstu beinni andstöðu við hervæðinguna voru teknir af lífi. Þetta ástand stóð alllengi því árás Rómverjanna var lengi á leiðinni, en þegar hún loks kom þá stóð ekki steinn yfir steini. Endalokin urðu þau að m.a.s. musteri Gyðinga í Jerúsalem var jafnað við jörðu árið 70 e.Kr. 

siege-of-jerusalem-ad-70_new_cp


Hver er hinn raunverulegi óvinur?

Frammi fyrir óvissu og stríðsógn virðist ríkisstjórn Íslands ætla að halla sér í átt til ESB samhliða því að tala af óvirðingu um Bandaríkin. Talsmenn ESB hafa gefið það út að nú eigi að verja hundruðum milljarða evra í vopnakaup og gefið í skyn að þar með stígi ESB fram á völlinn sem stórveldi (e. superpower). 

Fyrirætlanir þessar þurfa að skoðast í raunhæfu ljósi: ESB hefur framið efnahagslegan sjálfsskaða síðustu ár, m.a. vegna "grænnar" þráhyggju, og fyrir vikið orðið háð öðrum ríkjum um orku. Evrópsk stjórnmál hafa litast af annarri og ekki síður skaðlegri þráhyggju, þ.e. woke-isma, sem hefur gert lagaumhverfið flóknara, íþyngt stjórnsýslu og ruglað dómaframkvæmd (því nú eiga sumir að vera jafnari en aðrir fyrir lögunum). Báðar þessar þráhyggjur hafa grafið undan iðnaðarframleiðslu í ESB með þeim afleiðingum að efnahagurinn hefur verið á stöðugri niðurleið. ESB framleiðir sjálft engin verðmæti, en hefur framkallað ofvöxt skrifstofuveldis um allt meginlandið sem leitt hefur til aukins skrifræðis og minni skilvirkni. Ofvöxtur í regluverki hefur leitt til minna gagnsæis og þar með dregið úr fyrirsjáanleika laga og réttaröryggi. Leynt og ljóst hefur ESB grafið undan fullveldi aðildarríkjanna og sýnt metnað til að verða sambandsríki að Bandarískri fyrirmynd. Stöðugur áróður í þessa veru hefur grafið undan þjóðarstolti og föðurlandsást. Því er óljóst hvar ESB ætlar að finna hermenn til að marsera með öll dýru vopnin þegar þau verða tilbúin, því vandfundinn er sá maður (utan mögulega Viðreisnar og Samfylkingar) sem elskar ESB svo mikið að hann vilji fórna lífi sínu fyrir stjörnufána þess.  

En nútíminn er orðinn svo klikkaður að við virðumst þurfa að skilja "Orwellísku" til að átta okkur á málflutningi ráðamanna sem fullyrða að stríð sé friður og að hatur sé ást. Nú eiga allir að sameinast í hatri á forseta Bandaríkjanna sem framdi þann "glæp", fyrstur þjóðarleiðtoga frá því stríðið hófst, að kalla eftir friðarviðræðum og stríðslokum. 

Frá upphafi stríðsins hafa hundruðir þúsunda verið drepnir og í því samhengi má alls ekki nefna að ESB hefur á sama tíma greitt Rússlandi meira en 170 milljarða Evra fyrir gas og olíu. 

Frammi fyrir öllu þessu ráðlegg ég Íslendingum að slökkva á "fréttum" Rúv og annarra stöðva sem boða hatur í garð sumra en ekki annarra. Í þögninni getum við svo spurt okkur: "Hver er hinn raunverulegi óvinur?" Betur fer á því að hver og einn svari þeirri spurningu fyrir sig en láti ekki sérfræðinga ríkisstyrktra fjölmiðla stýra för. 

 

 


Endar þetta með því að fé til vopnakaupa verður sótt í lífeyrissjóði landsmanna?

Rúv er meinvarp í þjóðarlíkamanum. Ef staðfest verður að starfsmenn þar hafi átt þátt í símhlerun verður verður að loka stofnuninni því engin þjóð verður krafin um að fjármagna ríkisstofnun sem er ógnvaldur við fólkið í landinu. Það gladdi mig að sjá Snorra Másson gera málefni RÚV að umfjöllunarefni i fyrradag og ég var 100% sammála honum um mikilvægi þess að leggja niður fjölmiðlanefnd enda bergmálaði Snorri mín orð um Cato hinn gamla sem rituð voru á þessu bloggi fyrir nokkrum dögum. Öllum er frjálst að nota efni þessa bloggs og gera orð mín að sínum í þágu góðs málstaðar. 

Ríkisrekinn fjölmiðill er tímaskekkja í landi sem kallast vill frjálst. RÚV hefur árum saman verið í herkví tiltölulega fámenns hóps starfsmanna þar sem telja sig ekki bara hafa höndlað sannleikann, heldur telja sig bera einhvers konar heilaga skyldu til að boða þann sannleika dag og nótt, án auðmýktar, án hógværðar og án þess að leiðrétta sig þegar í ljós kemur að þau hafi farið með rangt mál. Dagskrárgerðarmenn Rúv eru sérlegir áhugamenn um "samsæriskenningar". Ég hvet þau - og alla lesendur - til að spyrja gervigreindina um samsæriskenningar sem reynst hafa réttar. Listinn er svo langur að ég hélt að gervigreindin ætlaði aldrei að hætta. Á slíkum lista er margt fróðlegt að sjá, sem við hér á Fróni, sem lifað höfum á einhæfu fréttafóðri um áratugaskeið, vitum ekkert um. Þannig kom mér á óvart að sjá gervigreindina greina frá því að tilteknar kenningar hefðu reynst á rökum reistar. Hver sem er getur leitað eftir lykilorðum á borð við MK ultra (CIA mind control), Operation Nortwoods, NSA mass surveillance (afhjúpanir Edward Snowden). Þá eru ótaldar fréttir Rúv af uppruna Covid 19, en fréttastofan vildi ríghalda í að veiran hefði komið frá leðurblökumarkaði en ekki rannsóknarstofu í Wuhan; um það hvernig Rúv (með aðstoð fjölmiðlanefndar sem leitaði aðstoðar Fésbókar sem vann með leyniþjónustu BNA) tók þátt í að berja niður efasemdir og heilbrigða gagnrýni (ritskoðunarstefna); hvernig gagnsemi bóluefna var ýkt og fegruð en náttúrulegt ónæmi talað niður; um víðtækan, fjölþættan og langvarandi skaða af samfélagslokunum; um skaðsemi bóluefna gegn covid 19; um það hverjir högnuðust mest á covid-hysteríunni. 

Og núna þegar m.a.s. gervigreindin viðurkennir að ríkisstyrktir fréttamiðlar hafi margvíslega afvegaleitt okkur síðustu árin, þá er kannski best fyrir Rúv og aðra (falsfrétta)miðla að svara engri gagnrýni og / eða beina athyglinni annað, svo sem að "nauðsyn" þess að hefja stríðsrekstur fyrir almannafé. Tómir ríkissjóðir geta að vísu ekki staðið undir vopnakaupum fyrir hundruðir milljarða evra, en það er aukaatriði virðist vera. Hér verður settur fram sá spádómur að ef stríðsæsingarnar halda áfram og íslenska ríkið verður áfram gert ábyrgt fyrir kaupum á fleiri vopnum eins og (ó)ráðamenn okkar virðast staðráðnir í, þá muni þetta enda með því að vopnaframleiðendur fái aðgang að lífeyrissjóðum Íslendinga, því annað er ekki til reiðu hér.

 

 


mbl.is Minnisblöðum ber illa saman við orð ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðferðispróf í rauntíma?

"Tíminn vill ei tengja sig við mig" orti Jónas Hallgrímsson í glímu sinni við að reyna að skilja allt bullið og ruglið sem þessi jarðneska tilvist birtir okkur á degi hverjum. Ljóðlína Jónasar mun hafa verið samin árið 1845 í Danmörku. Hvað ætli hann hefði sagt um forsætisráðherra Dana nú á tímum sem segir frið vera hættulegri en stríð og talar eins og brjálæðingur - og eins og reyndar nánast allir aðrir vestrænir þjóðarleiðtogar - þegar hún kallar eftir því að Evrópa, þ.m.t. Þjóðverjar, vopnvæðist fyrir hundruðir milljarða punda, evra og danskra króna og segi Rússlandi stríð á hendur. Hafa menn ekkert lært af mannkynssögunni? Hvernig geta stjórnvöld hélendis og í Evrópu, sem geta ekki bætt holótta vegi eða veitt viðunandi heilbrigðisþjónustu, réttlætt fjáraustur í stríðstól?  not for the poor

Sem einn mesti snillingur sem Ísland hefur alið, þá skildi Jónas örugglega að brjálæðislegar / heimskulegar (brjálæðislega heimskulegar?) ræður verða ekki skildar á vitsmunalegum forsendum. Í öllum sínum breyskleika og veikleika átti Jónas sterka trú sem var honum haldreipi á dimmustu augnablikum ævinnar. Sem kristinn maður vissi hann því að veröldin freistar með völdum og peningum ("Allt þetta mun ég gefa þér ..." sjá Matt. 4:9) og að valdamenn þessa fallna heims hafa flestir líklegast fallið á prófinu nú þegar. Eða hvernig á annars að skilja málflutning þeirra sem miðar að því að halda fólki í stöðugum ótta og flytja völd og peninga til fámennrar klíku sem stendur í skjóli valdsins? auður

Getur verið að nú sé í raun verið að leggja fyrir okkur siðferðispróf? Til að standast slíkt próf þarf hver og einn að vega og meta hvað viðkomandi telur rétt að gera. Mannkynið hefur vissulega frjálsan vilja, en því má ekki gleyma að til eru lögmál sem ríkja ofar lögum manna. Ef við ætlum að lifa í friði og spekt á plánetunni Jörð hljótum við að vilja forgangsraða þessum lögum rétt og muna hvað kennt hefur verið um miskunn, fyrirgefningu, góðvild, umhyggju, frið og kærleika. Þá sleppum við um leið við að færa sláturfórnir, hefna okkar, fara í stríð, brenna og drepa.

Þetta er hin eilífa barátta mannsins við sjálfan sig og þennan heim. Þetta jarðneska líf er eitt samfellt siðferðispróf þar sem við höfum daglegt val um hvort við ætlum að velja gott eða illt; hvort við ætlum að hlýða fyrirskipunum manna eða lögum þeirrar samvisku sem talar til okkar allra - ef við gefum henni gaum?Stanley M

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband