Færsluflokkur: Bloggar

Sigling þjóðarskútunnar á ekki að vera í höndum áttavillts fólks

Allir sem hér búa - og allir sem hingað flytja - vilja búa í góðu þjóðfélagi. Slíkt samfélag verður ekki til af sjálfu sér, því þetta er samvinnuverkefni. Um borð í þjóðarskútunni eru fá, ef nokkur, farþegasæti í boði. Frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar hefur það verið grunnstef að allir taki ábyrgð á sjálfum sér og nærumhverfi sínu. Um það má lesa í Hávamálum, hvernig allir geti orðið að liði í þessu samhengi, þrátt fyrir fötlun eða veikleika.

Áhyggjur mínar af stöðu Alþingis og íslensks lýðræðis hafa aukist eftir því sem ég kynnist stjórnmálunum betur. Þar eru stundaðar endalausar málamiðlanir, án sjáanlegrar stefnufestu. Íslensk stjórnmál eru iðkuð í einhvers konar tilbúnu tómarúmi, í prinsippleysi, þar sem flestir stjórnmálamenn virðast hafa mestan áhuga á hagsmunagæslu fyrir eigin flokk og sínum eigin pólitíska frama. Fulltrúalýðræðið er að bregðast okkur.  

Við stöndum frammi fyrir þríþættum vanda: 

1. Ríkisvaldið er að renna saman við hið fjárhagslega vald og þar vísa ég sérstaklega til alþjóðlegs ofurfjármagns.

2. Stjórnmálaflokkar á íslandi eru að renna saman í eitt marghöfða skrímsli, þar sem engu skiptir hvað er kosið, því alltaf er framfylgt sömu stefnu.

3. Stjórnmálaflokkarnir hafa verið höggnir af sinni lýðræðislegu rót og þurfa ekki lengur á neinu grasrótastarfi að halda. Flokkarnir lúta forsjá og forystu flokkseigenda sem ekki hafa sig þó endilega mikið í frammi. VG eru orðnir hvatamenn ófriðar, Samfylkingin hefur ekki staðið vörð um hagsmuni hins almenna launamanns, Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist vonum sinna kjósenda með því að þenja út ríkisvald, hækka skatta og þrengja að borgaralegu frelsi. Um Framsóknarflokkinn þarf ekki að tala sérstaklega, enda hefur hann aldrei staðið fyrir nein prinsipp. 

Um þetta og margt fleira fjalla ég í þessu nýja viðtali og vona að sem flestir hlusti. Islendingar geta ekki lengur leyft sér að sýna áhugaleysi og sofandahátt, því hér er mikið í húfi. Þegar siglt er um úfið haf er ábyrgðarlaust að leyfa áhugalausu og áttavilltu fólki að stýra för.  


Ögurstundin nálgast

Í Morgunblaðsgrein sinni 27.12. sl. undirstrikaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að

við Íslendingar höfum byggt upp öflugt orkukerfi sem er einstakt í heiminum, með sína 100% endurnýjanlegu orku. 

Í allri umræðu um ,,viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir" hefðu Íslendingar átt að verja hagsmuni sína með vísan til þessa merka uppbyggingarstarfs og hafna þátttöku í þessu kerfi.

Hagsmunagæsla Íslands í Brussel virðist því miður vera í molum og sendimenn okkar þar samþykkja allt sem þar streymir í gegn. Um þetta mál og kæruleysislega meðferð þess má nánar lesa á vef Alþingis, sjá hér, og eins og þar sést kaus stærstur hluti alþingismanna að reisa engin andmæli gegn innleiðingu þessa kerfis, enda þótt það muni fyrirsjáanlega veikja samkeppnisstöðu Íslands út á við og  hækka verð á innlendum vörum, auk þess að hækka flugfargjöld með tilheyrandi skaða fyrir ferðaþjónustu og hærri útgjöldum fyrir Íslendinga, því flugið er í raun okkar eini samgöngumáti til annarra landa, öfugt við meginlandsþjóðir sem geta ferðast með lestum.

Þetta nýja regluverk mun - að óþörfu - fækka flugum til og frá Íslandi, en heildarfjöldi flugferða á svæðinu mun varla minnka, því flugið mun færast héðan til Bretlandseyja. Minna framboð á flugsætum frá Íslandi mun leiða til hærra verðs. Íslendingar áttu að hafna öllum kolefnisskatti með vísan til þess að við höfum virkjað fallvörn og framleiðum hér ál með 12x minni mengun en gert er í Kína. Til hvers var Alþingi þá að samþykkja þátttöku í þessu? Öllum má vera ljóst, að þótt málið líti sakleysislega úth þá mun það hafa mjög neikvæð áhrif á okkar hag til frambúðar.

Íslendingar eiga að njóta fyrri verka

Íslendingar kynda nánast öll hús með jarðvarma. Við erum áratugum á undan öðrum og eigum ekki að þurfa að gera neitt meir fyrr en aðrar þjóðir eru komnar á par við okkur. Íslendingar eru með um 1% af álframleiðslu í heiminum og færa mætti rök fyrir að við stöndum allra þjóða fremst á því sviði gagnvart umhverfisvernd. Íslendingar bera enga ábyrgð á CO2 í andrúmslofti og eiga að nálgast alla reglusetningu á þeirri grunnforsendu. Það er þó ekki gert því þingmenn okkar og ráðherrar eru orðnir að einhvers konar ,,grúppíum" alþjóðlegs valds.

Af hverju að sækja lög til útlanda? Við getum sótt margt gott og fallegt til útlanda, svo sem góða siði og matarvenjur. Pizzan kom til Íslands án þess að Ítalirnir kæmu allir með, hamborgarinn líka. Við eigum að velja og hafna, taka upp það besta en hafna öðru. Slík stefna miðar ekki að því að fara með landið aftur til miðalda, heldur er þetta aðeins heilbrigð skynsemi og sjálfsögð hagsmunagæsla.

Þegar völd tapast úr landi fylgir auðurinn með

 

Fyrir aðgæsluleysi kjörinna fulltrúa okkar / embættismanna erum við að missa frá okkur vald í smáum skrefum. Við þessu þarf að bregðast því þegar við missum frá okkur völd, þá missum við líka frá okkur auð. Mannkynssagan færir okkur sönnun á samhenginu þarna á milli. 

Nýjasta myndbirting þessa valdaafsals birtist í áðurnefndri grein Harðar Arnarsonar, þar sem orðrétt segir: 

Landsvirkjun bar lengi vel ábyrgð á raforkuöryggi almennings. Það fyrirkomulag var afnumið fyrir tuttugu árum þegar evrópskar raforkutilskipanir voru innleiddar á Íslandi.

Í þessu felst að með innleiðingu orkupakka ESB hafa Íslendingar bundið eigin hendur. Raforka er orðin að vöru sem á að flæða frjálst. Þótt Alþingi hafi sjálft samþykkt þessar innleiðingar, nú síðast þriðja orkupakkann þvert gegn öllum viðvörunum, þá virðast þingmenn ekki enn skilja hversu þrönga stöðu þeir hafa komið sjálfum sér og þjóðinni allri í, því nú dettur þeim í hug að setja neyðarlög til að bregðast við þeirri viðvörun forstjóra Landsvirkujunar í títtnefndri grein, að: 

Ef ekkert verður að gert getur sú raforka sem ætluð er heimilum og smærri fyrirtækjum þurrkast upp.

Að mínu mati er í hæsta máta vafasamt að Alþingi geti sett slík lög eftir að hafa skotið sig í báða fætur með innleiðingu orkupakka ESB. Ef menn eru enn í einhverjum vafa um samspil íslensks réttar og þeirra tilskipana ESB sem hér eiga við, þá má benda á nýlegan dóm Landsréttar 20.10. sl. í máli nr. 191/2023, sem hefur að geyma fróðlegar lögskýringar um þetta, þar sem m.a. er fjallað um þá skyldu að skýra beri íslenskan rétt í samræmi við ákvæði umræddra tilskipana. 

Samantekt

Raforkukerfið, sem byggt var upp á Íslandi undir því yfirskini að það ætti að þjóna íslenskum almenningi, síðari kynslóðum og íslenskum fyrirtækjum, á nú samkvæmt framangreindu að þjóna stórnotendum fyrst og fremst. Þetta er mögulega ein myndbirting þess að í Brussel starfa nú tugþúsundir ,,lobbýista" í þágu stórfyrirtækja, en enginn gætir hagsmuna almúgans, alþýðunnar, hinna vinnandi stétta, öryrkjanna, smárra og meðalstórra fyrirtækja, fjölskyldna o.s.frv. Þar hafa kjörnir fulltrúar ítrekað brugðist okkur, nú nýverið bæði á sviði orkuöryggis og erlendrar gjaldtöku á kransæðar íslensks hagkerfis, þ.e. skipaflutninga og flug til Íslands. 

Lokaorð

Frammi fyrir öllu þessu blasir við mjög alvarleg staða. Ef Íslendingar eru ekki menn til þess að stjórna sér sjálfir, ef við höfum ekki dug í okkur til að rísa undir ábyrgð á okkar eigin landi og okkar eigin framtíð, ef við höfum ekki döngun í okkur til að taka ábyrgð á stjórn okkar eigin mála, þá dæmum við okkur til þeirra örlaga að þurfa að sitja undir því að aðrir taki að sér stjórn landsins. Ögurstundin nálgast.


Hvaða mynd blasir hér við?

Þegar við nálgumst árslok 2023 er vel við hæfi að íhuga það sem gerst hefur, skoða stóru myndina og hvernig tengja megi punktana saman, jafnvel þótt okkur sé sagt að þeir séu ótengdir: 

Í hvað fara allir milljarðarnir sem Íslendingar og aðrar þjóðir hafa sent til Úkraínu? Hverjir ætla að hagnast á enduruppbyggingu landsins? Hverjir ætla að gína yfir frjósömu ræktarlandi þar þegar stríðinu lýkur? Frammi fyrir þeim svartilraunum sem komið hafa fram og lesa má um t.d. hér, er verið að nota alþýðu manna í Úkraínu sem fallbyssufóður í stríðinu og síðan sem gólfmottur að hildarleiknum loknum. Úkraínustríðið hefur nefnilega ekki aðeins valdið dauða, örkumlun, sundrun fjölskyldna, hungri og fátækt, nei stærstu vogunarsjóðir heims hafa hagnast um milljarða á hækkuðu matvælaverði í kjölfar stríðsins. Hvað með stærstu fyrirtæki heims, skyldu þau ekki hafa tapað (eins og allir aðrir) á því að efnahagskerfi heimsins var stöðvað með valdboði stjórnvalda vegna Covid-19? Ef marka má þetta yfirlit hér, þá verður ekki annað séð en að stærstu lyfjafyrirtækin hafi blómstrað, sem og hergagnaframleiðendur og bankar. Á sama tíma er metfjölgun í gjaldþrotun lítilla fyrirtækja og milljónir fjölskyldna misstu framfærslu sína. Segir Ríkisútvarpið fréttir af þessu fólki? Eða hefur sú fréttastofa eins og reyndar allar stærstu fréttastofur heimsins horft fram hjá þeim skaða sem sóttvarnaaðgerðir ullu um allan heim? Hefur Ríkisútvarpið sett peningaprentun stjórnvalda í samhengi við verðbólgubálið sem nú logar um allan heim og étur upp eignir millistéttarinnar en belgir út og fitar fjármálafyrirtækin? Setja fréttastofur aukna fátækt á Vesturlöndum í eitthvert samhengi við aðgerðir stjórnvalda, sem á sama tíma ganga sífellt lengra í álagningu skatta og gjalda?

En aftur að fyrri spurningu: Hver hagnast? Jú, svo virðist sem örfáir milljarðamæringar hafi hagnast vel í þessu manngerða umróti, sbr. m.a. þessa skýrslu hér um hagnað stærstu matvælafyrirtækja heims og þessa frétt hér um methagnað tæplega 100 stærstu hlutafélaga í Bandaríkjunum á árinu 2021. Er hugsanlegt að þessi hagnaður sé kreistur fram með því að traðka á lágstéttinni og blóðmjólka millistéttina? Í leit að svörum við því hverjir kunna að hafa grætt á öllu þessu, þá er athyglisvert að sjá að auður efnuðustu manna heims  virðist hafa aukist um 3,9 trilljónir bandaríkjadala  frá 18. mars til 31. desember 2020 og að 10 ríkustu menn heims auðguðust um 540 milljarða dollara á sama tíma.  

Eru einhverjar líkur á að fjallað verði um svona málefni í fréttaannál RÚV um áramótin?

 

 


Tímalaust innsæi

Benjamín Franklin (1706-1790) var rithöfundur, vísindamaður, uppfinningamaður, stjórnmálamaður, sendiherra, prentari, útgefandi og pólitískur heimspekingur. Eftirfarandi tilvitnanir eru úr ágripi af ævisögu hans og standast vel tímans tönn:

  • Viskan lokar aldrei dyrum sínum
  • Bjór er lifandi sönnun þess að Guð elskar okkur og vill að við séum hamingjusöm
  • Ef þú vilt ekki gleymast um leið og þú ert dauður og grafinn, skrifaðu þá eitthvað sem er þess virði að lesa eða gerðu eitthvað sem er þess virði að skrifa um
  • Ekkert er til sem heitir gott stríð eða vondur friður
  • Besta predikunin er gott fordæmi
  • Án stöðugs vaxtar og framfara, hafa orð eins og umbætur, afrek og árangur enga merkingu
  • Við fæðumst öll fávís, en það kostar mikla vinnu að vitkast ekki
  • Vegna þess að hóffjöðrina vantaði tapaðist skeifan; vegna þess að skeifuna vantaði tapaðist hesturinn; vegna þess að hestinn vantaði týndist knapinn; hann var handsamaður og drepinn af óvininum, allt vegna þess að hann hirti ekki um eina hóffjöður sem vantaði.
  • Menntaður þöngulhaus er verri en fávís þöngulhaus
  • Hann var svo menntaður að hann gat sagt ,,hestur" á 9 tungumálum, en svo fávís að hann keypti sér kú til að ferðast á. 
  • Til hvers að vita hvað allt heitir, ef þú skilur ekki eðli þess sem þú þylur upp?
  • Stolt sem nærist á hégóma, notar fyrirlitningu til vökvunar.
  • Starfaðu eins og þú munir lifa í hundrað ár. Farðu með bænirnar eins og þú munir deyja á morgun. 
  • Ef tíminn er verðmætastur af öllu, þá hlýtur tímasóun að vera versta eyðslusemin.
  • Iðni og þrautseigja sigra allt.
  • Ekkert er hættulegra heilsunni en að hugsa of vel um hana. 
  • Óttastu að gera illt, og þú þarft ekki að óttast neitt annað. 
  • Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. 
  • Sá sem leggst niður með hundum, mun standa upp með flóm. 
  • Vitrir menn þurfa enga ráðgjöf, kjánar vilja ekki þiggja hana. 
  • Þeir sem samþykkja að gefa frá sér grundvallarfrelsi fyrir tímabundið öryggi, verðskulda hvorki frelsi né öryggi. 

Við erum öll jöfn fyrir Guði

Almenningur um víða veröld stendur agndofa og ráðþrota gagnvart brjálæðinu, blóðsúthellingunum og hatrinu sem grasserar fyrir botni Miðjarðarhafs. Manndráp eru framin í nafni trúar og hefndarmorð sömuleiðis. Hvernig má það vera að fólk sem játar abrahamísk trúarbrögð og viðurkenni bæði Móses og Jesús skuli brjóta svona gegn hvert öðru og brjóta um leið þau boðorð sem allir þekkja, sem leggja bann við því að við fremjum morð og leggja bann við því að við misnotum nafn Guðs í vondum tilgangi. 

Í jólapredikun sinní Vídalínskirkju í gær gerði séra Matthildur Bjarnadóttir, greinarmun á góðri og vondri guðfræði. Séra Matthildur hefur allt sem prýða þarf góðan prest og hún hitti naglann á höfuðið þegar hún lagði áherslu á að Guð elskar alla menn og dregur þá ekki í dilka. Það er vond guðfræði sem færir mönnum þau skilaboð að Guð hafi velþóknun á sumum en ekki öðrum. Það er vond guðfræði sem heldur þeirri hugmynd að mönnum að þeir séu betri en aðrir. Við erum öll jöfn fyrir Guði. Viðurkenning á þessu liggur til grundvallar vestrænum lögum og endurspeglast í réttarfarsreglum og mannréttindaskrám. 

Ég hef enga patentlausn á þeim flókna vanda sem blasir við í Ísrael, en hvetja verður til þess að góðir, víðsýnir og velviljaðir guðfræðingar, allra trúarbragða leggi sitt af mörkum með samtali og sáttaviðleitni. Guð skapaði alla menn og vill að við sýnum hvert öðru virðingu og kærleika. Það hlýtur að vera guðfræði sem allir geta sameinast um. 

Í þessum anda ritaði ég meðfylgjandi grein, sem birt var í fréttablaði Frímúrarareglunnar á Íslandi, 3. tbl. 19. árg., desember 2023.washington

Guð elskar alla menn og heyrir allar bænir

Í frímúrarahúsinu í Fíladelfíu getur að líta veglega styttu af George Washington (1732-1799), sem sýnir þennan fyrsta forseta Bandaríkjanna á bæn. Styttan skírskotar til frægrar sögu úr frelsisstríði Bandaríkjanna sem tengd er Valley Forge, þar sem frelsisherinn hafði vetursetu 1777-1778. Valley Forge varð síðar að þjóðgarði til minningar um fórnir og þolgæði þeirra sem börðust fyrir því að Bandaríkin yrðu frjáls og fullvalda. Í þjóðgarðinum er samstöðumætti fólks gert hátt undir höfði, það er þeim krafti sem leysist úr læðingi þegar fólk sameinast andspænis erfiðleikum og andstreymi. Í ævisögu George Washington eftir Önnu C. Reed (útg. 1842) er sagt frá þeim þrengingum, kulda og hungri, sem hermenn Washingtons áttu við að etja þennan vetur. Anna Reed segir frá því að íbúum svæðisins hafi verið fullkunnugt um bágar aðstæður hermanna og verið órólegir þess vegna. Einn daginn hafi almennur borgari verið á göngu nálægt búðum hersins þegar hann heyrði lágmælta rödd. Milli trjánna greindi hann æðsta yfirmann hersins, George Washington, á bæn. Til að trufla hershöfðingjann ekki gekk maðurinn hljóðlega á brott, en þegar heim var komið sagði hann fjölskyldu sinni frá því að frelsisherinn myndi sigra, því herforinginn treysti ekki aðeins á sinn eigin styrk, heldur leitaði styrks til Guðs sem allar bænir heyrir og hefur gefið mönnum eftirfarandi loforð:

Ákalla mig á degi neyðarinnar og ég mun frelsa þig og þú skalt vegsama mig.

Í ævisögunni segir Reed einnig frá konu sem bjó í Valley Forge sem greindi frá því, eftir að herinn var farinn, að Washington hefði daglega yfirgefið herbúðirnar til að biðjast fyrir í einrúmi. Margir gleyma Guði þegar vel gengur en leita hjálpar hans þegar á móti blæs. Þannig var því ekki háttað í tilviki Washingtons sem var stöðugur í trúnni, þolgóður í mótlæti og auðmjúkur í meðlæti. Þegar hann á gamals aldri var spurður hvað hefði valdið því að hann var alls staðar valinn til ábyrgðar og trúnaðarstarfa, þá á Washington að hafa svarað að hann hefði ávallt lagt sig fram um að sýna öðru fólki fyllstu kurteisi. Það gerði hann í anda hins tvöfalda kærleiksboðorðs. Eftir að stríðinu lauk gegndi Washington lykilhlutverki sem maður sátta og friðar á mótunarárum hins nýja lýðveldis.

Með ósk um gleðileg jól og frið í hjörtum. 

 


Skýrir valkostir í birtu þessara jóla - og allra hina fyrri

Í aðdraganda jóla erum við nánast þvinguð til að horfast í augu við okkur sjálf. Á jólum verður tíminn ekki lengur láréttur (í gær - í dag - á morgun) heldur lóðréttur í þeim skilningi að aðfangadagur þessa árs rennur saman við sama dag fyrri ára. Við verðum aftur börn, endurupplifum gamla reynslu, gleymdar tilfinningar, skynjum tilvist okkar á annan hátt en venjulega. Við erum hlekkur í langri keðju sem tengir okkur við reynslu fyrri kynslóða og minnir okkur á ábyrgðina sem við berum gagnvart síðari kynslóðum. Við megum ekki vera veikasti hlekkurinn, þar sem samhengið rofnar.

Við værum ekki hér ef fyrri kynslóðir hefðu ekki hætt lífi sínu, stritað, byggt upp og lagt grunninn að því sem við höfum í dag. En verðmætin eru ekki aðeins það sem áþreifanlegt er. Hinn sönnu verðmæti eru óáþreifanleg og þau eru ekki af þessum heimi, því lífi okkar lifum við ekki aðeins í láréttu tilliti, þar sem menn reyna að meta virði sitt og velgengni í samanburði við aðra menn, heldur einnig í lóðréttu tilliti, þar sem mælikvarðinn er alvarlegri, þ.e. mælikvarði góðs og ills. Þegar við fetum okkur út úr skammdegismyrkrinu er gott að spyrja sig hvernig orð okkar og athafnir eru metnar á síðarnefnda mælikvarðann, þar sem prófsteinarnir eru þessir: Er þetta gott, er þetta fagurt, er þetta satt? 

Hinn vestræni heimur ársins 2023 er uppfullur af blekkingum, sjónhverfingum, afstæðishyggju og ósannindum. Þessi heimur vill færa okkur þau skilaboð að ekkert sé til annað en það sem er áþreifanlegt og mælanlegt; að efnishyggjan sé það eina sem veitir okkur hald í ólgusjó lífsins. 

Jólin eru áminning um aðra sýn á líf okkar. Í helgi jólanna leysist efnið upp í frumeindir og ef djúpt er skoðað þá skynjum við annan heim að baki. Frammi fyrir þessu getum við samt sem áður valið að leika hlutverk Pílatusar og láta eins og við þekkjum ekki sannleikann þótt hann standi holdi klæddur fyrir framan okkur. En við höfum líka alltaf val um að leggja niður varnir okkar, reyna ekki að belgja okkur út með veraldlegu valdi, peningum og hégóma, heldur játa það sem satt er og verja það sem telja má heilagt, saklaust og hreint. Ef það þýðir að við þurfum að taka afstöðu gegn ráðandi öflum, þá verður svo að vera, því á mælikvarða eilífðarinnar eldist afstæðishyggja og hugleysi ekki vel: 

Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“
Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“
Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“ 

(Jóh. 18:37-38)


Börnin okkar verðskulda betri menntun

Fyrr í þessum mánuði var öllu starfsfólki Menntamálastofnunar sagt upp m.a. með vísan til þess að 40% fimmtán ára nem­enda á Íslandi búi ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi, að því er kom fram í niður­stöðum PISA-könn­un­ar­inn­ar 2022 sem voru birt­ar 5. des­em­ber sl. Þetta er vel að merkja sama starfsfólkið og bar ábyrgð á útgáfu þessa rits hér, ,,Kyn, kynlíf og allt hitt", fyrir börn á yngsta og miðstigi grunnskólans. 

Í dag er auglýst á heilli opnu í Mogganum eftir nýju starfsfólki til að fylla ,,skarðið" sem fyrri starfsmenn skilja eftir sig. Binda verður vonir við að nýir starfsmenn geti breytt grunnskólakerfinu úr þrotabúi í starfhæft menntakerfi. menntun

Hér eru nokkrir punktar til íhugunar fyrir nýtt starfsfólk stofnunarinnar og alla aðra sem koma nærri menntamálum hérlendis, þ.m.t. foreldra: 

  • Skólar eiga að efla ímyndunarafl barna, ekki þrengja að því
  • Nota á sömu grunnstef og mannkynið nýtti sér áður en hið prússneska skólakerfi var tekið upp: Gefa börnum frið, einrúm, frjálst val í samræmi við áhuga, börn fái að læra með því að prófa sig áfram, leita að lausnum, umgangast sem flesta og fá leiðbeiningar frá þeim sem hafa reynslu í viðkomandi fagi, vera laus undan eftirliti og fá að vera sínir eigin kennarar. 
  • Leggja ekki falskar forsendur til grundvallar skólastarfi eins og að börn eigi erfitt með að læra að lesa eða vilji ekki læra. 
  • Veita börnum tíma og frelsi .... og sýna þeim virðingu. 
  • Miða að einföldun. Kenna færri fög og einbeita sér að því sem mestu skiptir, þ.e. að börn læri að lesa, reikna, skrifa, tjá sig.
  • Hætta að skipa börnum fyrir, leysa þau úr viðjum rúðustrikaðrar stundaskrár. Skólar eiga ekki að starfa eins og fangelsi: Markmið skólastarfs er ekki að ala upp þræla heldur frjálsa borgara. Í þeim anda á að virkja áhuga nemenda, hvetja þau til sjálfstæðrar hugsunar.  
  • Hjálpa þeim í þeirra / okkar mannlegu leit að tilgangi, heildarskilningi, ljósi, sannleika.

Ef skólarnir verða ekki betrumbættir munum við súpa seyðið af því, t.d. með því að við missum frá okkur borgaralegt frelsi, því fólk sem hefur verið mótað að prússneskum sið skólakerfisins og æft frá barnæsku í að hlýða og að fylgja því sem sérfræðingar segja í stað þess að hugsa sjálft, er líklegra til að verða viðskila við eigin dómgreind, missa tengsl við sína eigin samvisku og finna aldrei neina sjálfstæða sannfæringu. 

Við eigum sem samfélag að útskrifa fólk sem getur staðið á eigin fótum og þarf ekki á stuðningi annarra þátta ,,kerfisins" að halda. Við eigum að gefa börnum okkar einföld skilaboð: Að ást okkar til þeirra sé ekki háð góðum einkunum, að kærleikur okkar til þeirra sé óskilyrtur, að þau séu dýrmæt og elskuð hvað sem á gengur í skólanum og félagslífi. Við eigum hjálpa börnum okkar að hafa trú á sjálfum sér. Fólk með jákvæða sjálfsmynd og heilbrigt sjálfstraust þarf ekki á samþykki / velþóknun annarra að halda, því styrkur þeirra kemur innan frá og brotnar ekki við minnsta andstreymi. Slíkir sterkir einstalingar hafa kraft og þor til að standa utan við hópinn ef með þarf og velja sér sína eigin leið, án þess að þurfa að fela sig í hjörðinni.

Við eigum að kenna börnum okkar að þau eigi ekki að fela sig. Þau séu einstök og dýrmæt, þau hafi sína eigin rödd og að sú rödd verði að heyrast.  

 

 


Dagsbirta frjálsrar umræðu mun koma sér illa fyrir þá sem starfa í þögn og myrkri

Íslendingar verða, ég endurtek verða, að fara að líta upp og skilja hvað er að gerast. Undir merkjum alþjóðlegra stofnana er unnið að því að skerða íslenskt ríkisvald, rýra efnahag Íslendinga og framselja sjálfsákvörðunarrétt okkar sem einstaklinga og sem þjóðar. Þetta er gert með beinum og óbeinum atbeina kjörinna fulltrúa okkar og framkvæmt af embættismönnum sem eru á launaskrá hjá íslenskum skattgreiðendum. Alvarleiki þessarar þróunar, sem kalla mætti atlögu að þjóðaröryggi, er slíkur að Íslendingum leyfist ekki lengur að horfa fram hjá því sem hér er að gerast.

Fullveldi er mögulega ógagnsætt orð, en allir geta skilið kjarna þess, sem er sjálfsákvörðunarrétturinn. Sjálfsákvörðunarrétturinn liggur til grundvallar öllum almennum mannréttindum, þ.e. til tjáningar, trúar, funda, ferða o.s.frv. Enginn heilvita maður myndi afsala sér þessum rétti í hendur fjarlægra stofnana. Hvers vegna ættu Íslendingar að vilja styðja slíkt framsal og skerða þar með möguleika sína á að móta eigin nútíð og framtíð? Sagan sýnir skýrlega að þjóðir sem missa frá sér þennan rétt glata ekki aðeins völdum úr landi, heldur einnig auði. 

Þetta er nú að raungerast í beinni útsendingu, sbr. nú síðast þessa umræðu á Alþingi 16.12. sl. um viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, þar sem meirihluti Alþingis samþykkti, þegjandi, að skerða samkeppnishæfni Íslands og gera allan innflutning til landsins dýrari. Þessi nýju lög munu því ekki aðeins leiða til hækkaðs verðlags, heldur einnig auka verðbólguþrýsting.

En þetta er ekki það eina. Þann 30.11. sl. sendi ég öllum þingmönnum minnisblað um regluverk WHO sem nú er í undirbúningi. Afrit var sent öllum helstu fjölmiðlum hérlendis. Í dag, 20 dögum síðar, vil ég vekja athygli lesenda á því að þessari sendingu minni hefur verið svarað með þögninni einni.

Hvernig ber að túlka þessa þögn kjörinna fulltrúa Íslendinga um mál sem varða fullveldi þjóðarinnar og afskipti erlendra stofnana af innanríkismálum, friðhelgi fólks og sjálfsákvörðunarrétti okkar sem einstaklinga og sem þjóðar? Eru þessir kjörnu fulltrúar okkar farnir að vinna gegn okkur? Hafa þeir snúist í hollustu sinni? Ef svo er, þá er tímabært að kjósendur minni á hverjir eru hinir raunverulegu valdhafar, því ríkisvaldið stafar frá þjóðinni og kjörnir fulltrúar hafa engin önnur völd en þau sem við höfum afhent þeim tímabundið. 

Góðu fréttirnar eru þær, að í Bretlandi og víðar eru sjáanleg merki um straumhvörf. Í breska þinginu fór fram merkileg umræða um WHO í síðustu viku, þar sem sjá má að Andrew Bridgen stendur ekki lengur einn, heldur hafa fleiri þingmenn fundið hjá sér kjark, sem mögulega stafar af auknum skilningi, til þess að rísa á fætur, spyrja gagnrýninna spurninga, lýsa efasemdum, andmæla og koma lýðræðinu, fullveldinu og sjálfsákvörðunarréttinum til varnar. 

Úr því að þessi jákvæða þróun er hafin er erfitt að sjá að hún verði stöðvuð. Þingmenn sem vinna gegn eigin þjóð, sem með þögn sinni vega að þjóðaröryggi, sem með athafnaleysi grafa undan efnahag fósturjarðarinnar, munu líta illa út þegar reikningsskilin verða. 


Hver hefur eftirlit með snúningshurðum eftirlitsstofnana?

Hér er lýsing sem Íslendingar ættu að kannast vel við: Í kjölfar bankahrunsins 2008 var skrifuð hér mikil skýrsla af hálfu Rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem því var meðal annars lýst hvernig veltihurðar milli fjármálafyrirtækja og eftirlitsstofnana ríkisins urðu til þess að veikja síðarnefndu stofnanirnar því skapaður var freistnivandi fyrir ríkisstarfsmenn sem fólst í því að þeir eygðu möguleika á betur launuðu starfi innan fjármálageirans. 

Hafi menn ímyndað sér að slíkur vandi væri bundinn við eitt afmarkað svið eftirlitsiðnaðarins, þá mæli ég með því að þeir hinir sömu horfi / hlusti á þetta viðtal mitt við Mary Holland, forseta Children´s Health Defense, þar sem hún lýsir því m.a. hvernig eftirlitsstofnanir í Bandaríkjunum hafi í reynd verið yfirteknar af eigendum stórfyrirtækja. Nánar lýsir hún þessu svo að ástandið sé sérstaklega varhugavert á sviði heilbrigðis- og lyfjaeftirlits. Í viðtalinu er orðum nánar vikið að því hvernig lýðræðislegir stjórnarhættir hafa hopað fyrir skuggaöflum og hverjum eftirlitsstofnanir ríkisvaldsins þjóna í reynd, um skuggastjórnendur sem vilja vinna vinna myrkraverk sín utan kastljóssins og um það hverjum stjórnmálamenn okkar eru eiginlega að þjóna.  

Samtalið endar á jákvæðum nótum, því við trúum því að óheilindi, fals, lygi, valdboð og harðstjórn muni alltaf lúta í lægra haldi fyrir því sem er satt, fagurt og gott. En til að ljósið geti hrakið myrkrið á brott þurfum við opna og frjálsa umræðu. 


Rödd hjartans, rödd mennsku, rödd friðar og sátta, það er þín rödd. Notaðu hana.

Við Íslendingar, og sennilega allt mannkynið, þurfum að finna innri styrk til að þora að lifa innan frá og út, en ekki utan frá og inn. Í þessu felst nánar að hafa innri áttavita sem er virkur, áttavita sem gerir okkur kleift að greina rétt frá röngu, sannleika frá blekkingum, frelsi frá helsi. Í þessu felst að heyra þá rödd sem bærist í hjarta okkar, þá rödd sem segir okkur hver sé rétta leiðin, sem liggur til lífsins, en villast ekki inn á brautir sem leiða til glötunar. 

Þessa braut fetum við ekki ef við útilokum rödd samviskunnar, látum aðra um að hugsa fyrir okkur, bergmálum skoðanir annarra og lifum samkvæmt því sem aðrir fyrirskipa okkur. Ein frumforsendan fyrir því að þetta sé hægt í nútímasamfélagi er sú að við hættum að gleypa við froðunni sem fréttaveitur stærstu fjölmiðla heims og afþreyingariðnaðurinn sturta yfir okkur daglega. 

Þessi nýlega könnun bendir til þess að Bandaríkjamenn séu að vakna til endurnýjaðrar vitundar um gildi þess að loka fyrir ruslmiðlana og leita annarra leiða til að staðsetja sig í tilverunni, enda benda niðurstöður könnunarinnar til þess að traust þeirra á stóru fjölmiðlunum sé í frjálsu falli. Á sama tíma mælir íslenska Fjölmiðlanefndin með því að við trúum helst engu nema það komi frá stórum og rótgrónum fjölmiðlum

Hér er samantekt sem hjálpar mögulega einhverjum til að sjá atburði síðustu missera í skýrara ljósi. Ef þetta vekur einhvern til umhugsunar, þá er það vel. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband