Færsluflokkur: Bloggar

Pólitísk reikningsskil munu eyða fallvöltum vinsældum

Íslendingar sem beita gagnrýninni hugsun hljóta að spyrja sig daglega hvaða hagsmunum kjörnir fulltrúar okkar eru í reynd að þjóna. Ríkisvaldið getur ekki rekið pósthús sómasamlega, en vill þó öllu ráða, m.a. hvaða orð við notum og hvernig við ferðumst. Smám saman þrengja handhafar ríkisvalds sér stöðugt lengra inn á svið einkalífs okkar um leið og þau seilast dýpra í vasa okkar til að fjármagna eigin ofvöxt. 

Stjórnmálaflokkarnir gefa út loforðalista fyrir hverjar kosningar en sameinast svo um að svíkja kjósendur sína næstu fjögur árin. Erfitt er að sjá hvað greinir flokkana að í framkvæmd. Í þessu ljósi má undrast mælingu nýrrar könnunar Maskínu um traust til ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, þar sem forsætisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra verma 1. og 3. sætið.  

Flestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja að fólk fái að taka ábyrgð á sér sjálft. Þessir kjósendur eru íhaldssamir í þeim skilningi að þeir vilja fara gætilega í breytingar og frjálslyndir i þeim skilningi að þau vilja að ríkið virði frelsi okkar til orðs og athafna en misvirði einstaklinginn ekki með því að fara með hann eins og hluta af ópersónulegum hópi sem megi smala í hjarðir og reka áfram með óttastjórnun, þvingunaraðgerðum og valdboði. Þessum kjósendum hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins margvíslega brugðist á síðustu árum. Alvarlegasta tilvikið var stuðningur þingflokksins við frumvarp þáverandi utanríkisráðherra um bókun 35, sem þjónaði hagsmunum ESB fremur en Íslands

Kjósendur VG eru margir hverjir íhaldssamir á sinn hátt, en leggja áherslu á að við tökum sameiginlega ábyrgð á þeim sem verst standa, og að hinir efnameiri greiði meira í sameiginlega sjóði en þeir efnaminni. 

Á milli þessara tveggja póla ætti að vera hægt að eiga siðrænt, vitsmunalegt, pólitískt samtal. Hafi það verið hægt í upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs virðist sá þráður vera um það bil að slitna. Ein skýringin er mögulega sú að forsætisráðherra hefur meiri áhuga á að sinna öðru en innanríkispólitík, enda hefur hún skuldbundið sig til að ganga erinda WHO, sem sendiherra þeirrar stofnunar enda þótt WHO hafi sjálfstæða útþenslu- og valdastefnu sem miðar leynt og ljóst að því að þrengja að þjóðríkjunum, auk þess sem meira en 75% rekstrarfjár WHO er skilyrt fjármagn (e. with strings attached). Að forsætisráðherra Íslands skuli hafa tekið að sér að ganga erinda slíkrar stofnunar ber vott um alvarlegan dómgreindarbrest.

Öllum má vera orðið ljóst að við búum við falskt lýðræði, innantóma skel, þar sem fulltrúar okkar þjóna öðrum hagsmunum en þeirra sem landið byggja. Eru Íslendingar svo þýlyndir að þeir sætti sig við svona stjórnarfar?

 


Andlegt vítamín

Kæru lesendur.

Í þessu skammdegismyrkri þurfum við að eiga innra með okkur von og styrk til að brjótast í gegnum myrkrið eins og frækornin sem nú bíða í jörðu eftir að brjótast fram í vor og taka á móti næringu himins í formi regns og sólarljóss. 

Að því sögðu leyfi ég mér að deila hér texta sem elskuleg eiginkona mín, Hrafnhildur Sigurðardóttir, skrifaði í morgun og deildi á síðu sem heitir Viska ljóssins, en innihaldið á erindi við okkur öll: sól

Nú grúfir myrkrið yfir öllu og minnir okkur óneitanlega á hversu mikilvægt er að leyfa því ekki að ná yfirhöndinni. Til að létta lundina kveikjum við á kertum, kúrum okkur undir teppum og hlúum vel að okkur. Hafðu það að takmarki þínu að umvefja fólkið þitt hlýju og ljósi, líkt og teppið og kertið gerir. Margir eiga um sárt að binda og þá er gott að gefa sér stund í næði til að hleypa ljósi Guðs í hjartað og sjá síðan fyrir sér hvernig ljósið streymir frá hjartanu til allra þeirra sem í kringum þig eru, sérstaklega þeirra sem standa höllum fæti.
Hugarorkan fer hraðar en allt og ratar á réttan stað. Hugarorkan er eitt sterkasta afl veraldar og því skaltu alltaf dvelja við jákvæðar og uppbyggjandi hugsanir. Allt sem þú hugsar um getur orðið að veruleika. Sjáðu það fyrst fyrir þér í huga þínum, finndu tilfinninguna í hjarta þínu og leyfðu síðan tilfinningunni að streyma um allan líkamann. Sjáðu fyrir þér þann veruleika sem þú óskar þér. Sjáðu fyrir þér bestu mögulegu útkomu eins og sú útkoma sé núþegar orðin að veruleika. Dragðu framtíðina til þín með hugaraflinu. Í því tilliti er gott að fara með jákvæðar staðhæfingar sem byrja á orðunum „Ég er“, til dæmis eins og þessar:
Ég er frjáls
Ég er farvegur ljóssins
Ég er fegurð Guðs holdi klædd/ur
Ég er elskað barn Guðs
Ég er heilbrigð/ur og hraust/ur
Ég er friðsæl sál
Ég er leiðtogi lífs míns
Það er vel hægt að snúa þessum setningum á annan aðila með því að byrja setningarnar á „Þú ert“ og sjá um leið fyrir sér viðkomandi eflast og styrkjast.
Njóttu þess að hleypa ljósinu betur að þér og áður en þú veist af verður myrkrið horfið úr hugum og hjörtum.
Megi Guð vera með þér í dag og vertu meðvituð/meðvitaður um að þú ert farvegur ljóssins, farvegur Guðs.

Orwell og nútíminn

Íslenskir og erlendir stjórnmálamenn dásama lýðræðið í orði kveðnu en undir þeirra stjórn verður stjórnarfarið þó sífellt ólýðræðislegra, m.a. með afhendingu á valdi til erlendra stofnana. Lýðræðisleg ábyrgð er sömuleiðis orðið einhvers konar skrautyrði sem erfitt er að greina í framkvæmd. Forsætisráðherra Íslands, sem mjög er umhugað um mannréttindi, fundaði í gær með kollega sínum sem hefur innleitt ritskoðun, bannað stjórnmálaflokka og ítrekað frestað kosningum, allt í nafni neyðarástands, en forsætisráðherra Íslands verður sömuleiðis tíðrætt um það hugtak í ýmsu samhengi. 

Bók Orwells, 1984, er ekki upplífgandi lestur, en hún eykur mögulega skilning okkar á samtímanum, öfugt við glæpasögurnar sem haldið er stíft að íslenskum lesendum fyrir hátíð helguð er ljósi og friði.  

Á tímum valdboðs og stjórnlyndis er full ástæða til að minna á að mannréttindi eru meðfædd, mönnunum ásköpuð og verða ekki frá okkur tekin af stjórnmálamönnum sem veifa neyðarflaggi.

mbl141223

Meðfylgjandi grein, sem birt er í Morgunblaðinu í dag, er skrifuð með þetta í huga. 


Upplýsingaóreiða í boði stjórnvalda

Sem almennir kjósendur höfum við það hlutverk að greina á milli misvísandi upplýsinga og ákveða hverju við kjósum að trúa. Hér eru tvö dæmi:

1. Í Morgunblaðinu í gær fullyrti Katrín Jakobsdóttir, sendiherra WHO, sem telur sig hafa vald til að skammta orku og mannréttindi, að ,,stærsta áskorun okkar kynslóðar" væru ,,loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á mannréttindi". Á sama stað má í dag lesa grein eftir Helga Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, þar sem fram kemur að ,,skoðun á tímaröðum á veðurstofugögnum síðustu 200-300 ár sýnir að ekki er grundvöllur fyrir yfirlýsingum á borð við hamfarahlýnun allrar plánetunnar." 

2. Í þessari nýju grein á Daily Sceptic, er fjallað um regluverkið sem nú er í smíðum hjá WHO og komist að sömu niðurstöðu og lesa má í minnisblaði sem undirritaður afhenti heilbrigðisráðherra og svo öllum þingmönnum í síðustu viku, þ.e. að reglurnar feli í sér framsal á fullveldisrétti. Í greininni er leitað svara við því hvers vegna framkvæmdastjóri WHO og stjórnmálamenn víða um heim kjósa að afneita þessu. Vita þeir ekki betur eða eru þeir vísvitandi að villa um fyrir almenningi? Frammi fyrir staðreyndum málsins telja höfundar að umræðan þurfi nú að beinast að því hvers vegna lýðræðisríki ættu að framselja fullveldi sitt í hendur stofnunar sem er (1) fjármögnuð að verulegu leyti af einkaaðilum og skuldbundin er til að fylgja fyrirmælum risafyrirtækja og sjálfskipaðra mannvina og (2) stjórnað er að hluta af aðildarríkjum sem í reynd eru alræðisríki og lúta engu lýðræðislegu aðhaldi. 

Höfundar greinarinnar spyrja svo lykilspurningar: Ef ríkisstjórnir eru vísvitandi að framselja fullveldi sitt án vitundar og án samþykkis ríkisborgara sinna, á grundvelli falskra yfirlýsinga ráðherra og WHO, þá teljist samhengið grafalvarlegt og þýði í reynd að leiðtogar þjóðríkjanna séu beinlínis að vinna gegn hagsmunum landa sinna og þjóða, í þágu ytri hagsmuna. Slíkt athæfi (lesist: landráð) varðar víðast hvar þungum viðurlögum. 


Skömmtunarstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Allir hugsandi menn verða að fletta Morgunblaðinu í dag. Þar er tvennt sem vekur sérstaka athygli:

  1. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands og „sendiherra velsældarverkefnis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar“ (WHO), er höfundur greinar sem birtist í Morgunblaðinu 11. desember undir yfirskriftinni „Baráttan fyrir mannréttindum í 75 ár“. Í greininni flaggar forsætisráðherra tveimur fánum, þ.e. annars vegar mannréttindaflaggi og hins vegar neyðarflaggi. Lesendur eru hvattir til að veita því athygli hvernig síðara flagginu er veifað með vísan til alls sem miður fer til að mála upp þá mynd að við búum í reynd við viðvarandi neyðarástand sem réttlæti stöðugt víðtækari aðgerðir yfirvalda. Almenningur þarf að vera á varðbergi gagnvart því að stjórnvöld noti slíkar yfirlýsingar eins og sauðargæru til að dulbúa valdbeitingarúlfinn sem Katrín Jakobsdóttir og aðrir valdboðssinnar vilja sleppa lausum gagnvart almenningi, m.a. undir merkjum yfirþjóðlegra stofnana. 
  2. Á forsíðu er sagt frá fyrirætlunum yfirvalda (lesist: fyrirætlunum Skömmtunarstjórnar Katrínar Jakobsdóttur) um það að nýta sér eigið framtaksleysi til að réttlæta orkuskömmtun og valdbeitingu með vísan til heimatilbúins hættuástands. Reynslan sýnir að meðan kjósendur sitja þegjandi hjá mun framkoma stjórnvalda ekki breytast til batnaðar. Það er kominn tími til að íslenskur almenningur rísi á fætur og láti í sér heyra.

Um þetta mun ég skrifa lengri grein og birta síðar í vikunni. 


Í heild

Kæru lesendur.

Með góðfúslegu leyfi Sölva Tryggvasonar deili ég hér samtali okkar í heild

Góðar stundir.

https://www.youtube.com/watch?v=6YlfxCBOuxg

 


Hugvekja til Íslendinga

Ef Íslendingar ætla að vera frjáls þjóð í frjálsu landi þurfa þeir að taka ábyrgð á sínu eigin frelsi. Í því felst að við sýnum vilja og getu til að stjórna okkur sjálf, án þess að sýna dónaskap, yfirgang, fyrirlitningu, ókurteisi; án ofbeldis og án þess að niðurlægja sjálf okkur og aðra. Leiðin í þessa átt beinist ekki að því að banna fólki að tjá sig, banna efasemdir, gagnrýni eða ágreining. Sú leið hefur ítrekað verið reynd í alræðisríkjum og sú vegferð hefur aldrei endað vel. Nei, til að þjóð geti ráðið sér sjálf þarf hún að geta sýnt gagnkvæma virðingu og iðkað friðsamlega stjórnarhætti. Þrátt fyrir allt sem á gengur, þrátt fyrir áföll og mótlæti, þrátt fyrir vonbrigði með skoðanakannanir og fall á prófum verðum við að trúa því að við getum stjórnað okkur sjálf án þess að eyðileggja þau réttindi og það frelsi sem fyrri kynslóðir færðu okkur í arf. 

Íslenska lýðveldið er hugdjörf tilraun smáþjóðar til að fá að ráða sér sjálf. En lýðveldið viðheldur sér ekki sjálft. Til að það lifi þurfum við að þekkja stjórnkerfið og vera tilbúin að taka þátt í starfrækslu þess. Að þessu leyti er niðurstaða nýjustu PISA könnunarinnar áfall, því heilbrigt lýðveldi byggist á góðri undirstöðumenntun borgaranna. Einræðisríki og harðstjórnir þurfa ekki á menntuðum þegnum að halda. Til að lýðveldið okkar geti lifað þarf hver einasta kynslóð að hafa skilning á stjórnskipun landsins og þem hugsjónum sem lýðveldið var stofnsett til að verja. Það er m.ö.o. ekki nóg að þekkja réttindi okkar. Við þurfum að þekkja reglurnar sem ætlað er að verja þessi réttindi okkar.  

Stjórnarskrá lýðveldisins byggir á því að vald ríkisins sé takmarkað og að því sé dreift á fleiri hendur en færri. Þessu er ætlað að þjóna þeim tilgangi að verja réttindi okkar, frelsi okkar og möguleika okkar til að stjórna okkur sjálf. Þess vegna má valdið ekki safnast á of fáar hendur. Ef við missum sjónar á þessari undirstöðu, hvernig ætlum við þá að rækja borgaralegar skyldur okkar og hvað verður þá um lýðræðislega ábyrgð valdhafa? 

Ef menn vilja ímynda sér að við lifum nú í annars konar heimi en fyrri kynslóðir, þar sem við þurfum ekki lengur að verja framangreind dýrmæti; ef menn ímynda sér að þeir séu ,,heimsborgarar" í þeim skilningi að þeir treysti alþjóðlegum stofnunum til að stýra öllum okkar málum, þá þurfum við um leið að ræða hvað slikt afskiptaleysi af landsmálum felur í sér og hvort réttlætanlegt sé að vera hirðulaus um stjórn landsins okkar. Hvert ætlar ,,heimsborgarinn" að snúa sér þegar réttindi hans og frelsi verða tekin af honum? Hver á þá að koma honum til varnar? Hvert ætlar ,,heimsborgarinn" að snúa sér þegar búið er að svipta hann málfrelsi, fundafrelsi og ferðafrelsi?

Mannkynssagan segir okkur að valdið er ekki vel geymt í höndum fjarlægra valdhafa, sem svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart borgurunum, sem vilja ekki heyra gagnrýni, sem umbera engar efasemdir. Ef skynsamt og velviljað fólk nennir ekki að taka þátt í stjórn landsins, þá mun það hlutverk lenda í annarra höndum.  

,,Ef þjóð býst við því að hún geti verið fávís og frjáls ... þá væntir hún þess sem aldrei var og aldrei verður" Thomas Jefferson


Á krossgötum

Í lýðfrjálsu samfélagi stafar ríkisvaldið frá þjóðinni og ríkið er þjónn fólksins. Tilgangur ríkisins er ekki að úthluta réttindum heldur að vernda þau og tryggja. Meðfylgjandi grein, sem birt er í Morgunblaðinu í dag, er rituð til að undirstrika þetta. mbl091223

Þar segir m.a.:

Við búum í raun orðið við einhvers konar stofnanaræði, þar sem stórum og smáum ákvörðunum er útvistað til skrifstofumanna í Brussel, Dúbaí og víðar, sem starfa undir áhrifum þrýstihópa, undir merkjum alþjóðlegra stofnana sem ekki bera hag Íslands sérstaklega fyrir brjósti. Yfir vötnum stjórnmálanna svífur nú stöðugt ágengari andi sameignarstefnu, sem leyfir að hagsmunum einstaklinga og þjóða sé fórnað til að „bæta hag heildarinnar“ (e. the greater good). Saga 20. aldar sýnir skýrlega hvílíkar hörmungar slík stefna getur leitt yfir einstaklinga og þjóðir. Með hverju árinu sem líður er verið að festa lýðveldið okkar í stöðugt þéttara neti alþjóðlegra sáttmála og alþjóðaskuldbindinga, sem í framkvæmd valda því að valdið verður stöðugt fjarlægara hinum almenna kjósanda. Þráðurinn milli valdsins og almennings er að slitna. Þetta er að gerast fyrir tilstilli ESB og SÞ, sem þvert gegn sögulegum, menningarlegum, trúarlegum og lagalegum hefðum byggja á því að valdið komi ofan frá og niður, m.ö.o. ekki að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni eins og lagt hefur verið til grundvallar í íslenskum stjórnskipunarrétti alla lýðveldissöguna og mótaði raunar afstöðu Íslandinga á þjóðveldisöld og sennilega lengst af í réttarsögu Íslands.


Siðareglur blaðamanna og ,,óvinsælar skoðanir"

Siðareglur Blaðamannafélags Íslands byggja á þeim grunni að upplýsingum sé miðlað ,,á sanngjarnan og heiðarlegan hátt." Þessar kröfur geta skolast til þegar verið er að semja fyrirsagnir til að fá ,,smelli", sbr. umfjöllun Smartlands mbl.is og á visir.ir í gær um viðtal Sölva Tryggvasonar við mig. Blaðamenn á framangreindum miðlum mega eiga það að þau kunna að búa til krassandi fyrirsagnir, en fyrrgreindar kröfur siðareglnanna mega ekki gleymast. Í viðtalinu kom skýrt fram að ég kalli EBS ekki ,,pabba", heldur JG sem ættleiddi mig og gekk mér í föður stað. Svona ,,smáatriði" skipta máli þegar verið er að slá upp fyrirsögnum um einkalíf fólks. Með sama hætti er misvísandi að tala um ,,síðustu orð" þegar samhengið segir skýrlega allt annað. 

Þótt framangreind vinnubrögð hafi vissulega stungið í augun réttlæta þau ekki lengri umfjöllun. Hitt er meira umhugsunarefni, hvort það sé rétt lýsing að ég hafi ,,vakið athygli fyrir að viðra óvinsælar skoðanir". Ætli það sé óvinsælt að vilja verja lýðræðislega stjórnarhætti? Er óvinsælt að gagnrýna taumlausa innleiðingu Alþingis á erlendu regluverki? Er illa séð að menn leggi áherslu á valddreifingu í stað valdasamþjöppunar? Vilja Íslendingar ekki heyra á það minnst að þeir borgi of háa skatta eða að valdamenn bruðli með skattpeninga okkar? Getur verið að flestir Íslendingar séu þá hæstánægðir með að fjármunum okkar sé varið í stríðsrekstur erlendis, skemmtiferðir embættismanna og fokdýrar skrautveislur í Hörpu? Er óvinsælt að minna á að vald ríkisins stafar frá þjóðinni og að handhafar ríkisvalds starfi því í umboði okkar? Er illa séð að minna á þá staðreynd að stofnanir ríkisins voru settar á fót til að þjóna almenningi, en ekki öfugt? Getur verið að Íslendingar vilji ekki heyra á það minnst að við eigum ráðstöfunarrétt yfir eigin líkama? Hvers virði er sá réttur ef við ráðum því ekki sjálf hverju við látum sprauta okkur með? Eru Íslendingar svo hrifnir af opinberu eftirliti að ekki megi gagnrýna stöðugt vaxandi gagnasöfnun um okkur? Er óvinsælt að spyrja hvort Íslendingar séu svo ofurseldir óttanum að þeir séu tilbúnir til að afsala sér borgaralegu frelsi í hendur valdamanna í skiptum fyrir falskt öryggi? Eru kjósendur ánægðir með það að stjórnmálaflokkarnir vinni þvert gegn stefnuskrám sínum, vanvirði skuldbindingar sínar og svíki kosningaloforð?

Meðal hverra eru slíkar skoðanir ,,óvínsælar"? Eru þær kannski fyrst og fremst óvinsælar meðal þeirra sem hafa mesta hagsmuni af því að viðhalda ríkjandi ástandi, þ.e. meðal þeirra sem sitja dýpst í valdakerfinu og hafa hag af því að ekkert breytist? Spurningar og skoðanir af framangrendum toga eru vissulega varla mjög vinsælar meðal atvinnustjórnmálamanna sem finnst þægilegt að láta aðra taka ákvarðanir fyrir sig. Þær eru líka vafalaust óvinsælar meðal blaðamanna sem vilja vera á opinberum styrkjum, meðal starfsmanna stjórnmálaflokka og ríkisstofnana sem fitna á opinberu framfæri, meðal sérfræðinga sem ríkið hefur valið að borga (meðan þeir hafa ,,réttar" skoðanir). EN: Getur verið að þessar skoðanir séu ekkert svo óvinsælar meðal almennings / kjósenda / venjulegs, vinnandi almúga sem er þreyttur á því að vinna rúmlega hálft árið fyrir hið opinbera og hefur fengið nóg af ,,beturvitum" sem vilja hafa vit fyrir okkur og segja okkur hvaða skoðanir séu leyfilegar / réttar / vinsælar? Getur verið að ,,Jón á bolnum" sé búinn að sjá í gegnum það hvernig fjölmiðlar vinna grímulaust að því að hafa áhrif á skoðanamótun (í þágu valdhafa)? Það er tímabært að fólk fari að tala út frá eigin brjósti og hætti að ritskoða sjálft sig út frá því sem okkur er sagt að sé ,,óvinsælt". Samviska okkar, kæri lesandi, skiptir á endanum meira máli en stundarvinsældir. 

Á næstu dögum mun ég taka hér til skoðunar nokkur atriði sem valdamenn (með stuðningi ríkisstyrktra fjölmiðla) vilja að Íslendingar hirði ekki um. Þar mun ég fyrst taka til skoðunar grundvallarhugtakið lýðveldi

 


Spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin ...

Hér er nýtt samtal okkar Sölva Tryggasonar, sem ég vona að sem flestir gefi sér tíma til að hlusta á, því þetta er umræða sem skiptir máli, þ.e. um leit okkar að ljósi og sannleika í glímunni við myrkrið og illskuna sem reynt er að troða inn í tilveru okkar á alla kanta.

https://www.youtube.com/watch?v=3aVVoZRZYK0 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband