Færsluflokkur: Bloggar
20.2.2025 | 07:08
Frumvarpið um bókun 35: Lykilatriði til umræðu
Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EES var það sagt vera í þeim tilgangi að fá aðgang að sameiginlegum markaði. Aðild okkar að EES var aldrei kynnt til sögunnar sem fyrsti þáttur í einhvers konar pólitískum samruna með öðrum Evrópuríkjum og síðar sambandsríki með yfirþjóðlegri stjórn.
Nú, 30 árum síðar er brýnt að við horfumst í augu við þá fullveldisskerðingu sem EES hefur í framkvæmd leitt yfir okkur. Ef Íslendingar vilja eiga síðasta orðið um hvaða lög gilda hér í þessu landi og forðast að festast í sífellt þéttara regluverki ESB (með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í formi hugsanlegra bótamála og erfiðari útgöngu ef / þegar að því kemur) má Alþingi ekki samþykkja frumvarpið sem hér um ræðir. Þar segir orðrétt:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. [Leturbr. AÞJ]
Feitletraða setningin í frumvarpstextanum er að mínum dómi villandi yfirbreiðsla og sjónhverfing. Ef Alþingi verður á annað borð búið að leiða í lög almenna forgangsreglu EES réttar gagnvart ósamrýmanlegum íslenskum rétti, þá sýnir reynslan, bæði ESB ríkjanna og nú reynsla Íslendinga í 30 ár, að 0% líkur eru á því að Alþingi muni setja lög sem fara í bága við EES réttinn, enda myndi slík lagasetning í ríki sem samþykkt hefur forgang EES réttar teljast jafngilda samningsbroti. Slík lagasetning myndi jafnframt vera til þess fallin að opna fyrir óteljandi skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu, þar sem byggt yrði á því að hlutaðeigandi hefðu haft réttmætar væntingar um forgang EES réttar samkvæmt skýrri meginreglu frumvarpsins. Alþingi á ekki að taka þátt í að setja hér lagareglur sem ætlað er það hlutverk að blekkja Íslendinga til að halda að fullveldi Íslands sé óskert þegar búið er að leiða í lög skýrt ákvæði um almennan forgang EES réttar. Alþingi, sem löggjafarþing, getur ekki leikið tveimur skjöldum gagnvart umbjóðendum sínum, þ.e. íslenskum kjósendum, með því að grafa undan löggjafarhlutverki sínu með því að viðurkenna forgang EES reglna en látast á sama tíma geta sett lög sem hagga forgangsreglunum sem stafa frá Brussel. Hér er komið að brennipunkti í íslenskri lagasetningu og íslenskri lögfræði. Viðurkenna þarf heiðarlega og afdráttarlaust hver staðan er. Hún er sú að þegar til kastanna kemur, þ.e. þegar íslenskur réttur stangast á við ESB rétt, þá er krafa ESB afdráttarlaus: Íslenskur réttur skal víkja, því eðli og inntak evrópuréttarins gerir a verkum að skrifstofuveldið í Brussel verður að vera í bílstjórasætinu og að Alþingi geti aldrei verið nema í farþegasætinu í þessu samhengi. Þetta bjagaða valdasamhengi, þessi innbyggða slagsíða, er lykillinn að því að skilja frumvarpið um bókun 35 og veika stöðu Alþingis í því samhengi, sem reynt er að breiða yfir með orðalagi frumvarpsins þótt ljóst sé að frumvarpið er lagt fram vegna þrýstings frá ESB og að sá þrýstingur er til kominn vegna þess að Alþingi leyfist í reynd ekki að beita fullveldisrétti sínum til lagasetningar sem færi í bága við EES rétt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.2.2025 | 09:00
Gallabuxur og sólstólar á sökkvandi skipi
Í lok janúarmánaðar 2024 lagði formaður Sjálfstæðisflokksins fram skýrslu vegna bókunar 35 við EES-samninginn, þar sem áhersla er lögð á að með frumvarpi um málið sé verið að ,,standa við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem gerðar voru fyrir 30 árum". Í skýrslunni eru færð fram rök fyrir því að tímabært sé og nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga samþykki frumvarp um þetta mál og lögleiði þá meginreglu að íslensk lög skuli víkja fyrir reglum ESB þegar þessar réttarreglur rekast á. Nýr utanríkisráðherra hefur aftur lagt fram slíka skýrslu og ný ríkisstjórn hyggst gera enn eina tilraun til að koma frumvarpinu í gegnum þingið. Hörð andstaða er við frumvarpið utan þings, sbr. m.a. grein Stefáns Más Stefánssonar prófessors emeritus í Morgunblaðinu í fyrradag, sjá mynd. Illa mannað Alþingi áttar sig ekki enn á skaðsemi frumvarpsins fyrir þingið, íslenskt lýðræði, réttarríkið og stjórnarskrána. Nei, á Alþingi í gær var rætt um gallabuxur (!) sem minnir á klassíska samlíkingu, þar sem skipverjar á Titanic endurröðuðu stólum á þilfarinu meðan skipið sökk.
Bakgrunnurinn
Aðild Íslands að EES samningnum hefur frá upphafi hvílt á þeirri grunnforsendu að samningurinn fylgdi reglum hefðbundins milliríkjasamstarfs. Um leið má segja að gagnaðili Íslands (ESB) hafi lagt áherslu á að tryggt væri að reglur EES-samningsins nytu forgangs fram yfir landsréttinn. Þar sem stjórnskipun Íslands byggir á tvíeðli þjóðaréttar en ekki eineðli og þar sem stjórnarskráin heimilar ekki framsal ríkisvalds úr landi hafa íslensk stjórnvöld ekki svigrúm til að samþykkja beina réttarverkun Evrópuréttar hérlendis og því forgangsréttur erlends réttar samræmist ekki skýrum stjórnarskrárákvæðum, sbr. sérstaklega 2. gr. stjskr. Þar sem ekki var unnt að samræma þessi ólíku sjónarmið og orða það í meginmáli EES samningnum sjálfs var farin sú leið að útfæra millileið, sem sett var í bókun 35. Með bókun 35 var m.ö.o. komið til móts við afstöðu Íslands og annarra EFTA ríkja en um leið reynt að tryggja réttarsamræmi. Með frumvarpi fyrrverandi utanríkisráðherra um bókun 35 var lagt til að Alþingi lögleiddi reglu um almennan forgang EES-reglna hérlendis. Slíkt ákvæði fæli í sér grundvallarbreytingu á íslenskum rétti: Himinn og haf er milli þess, annars vegar, að reyna með lögskýringu að skýra íslensk lög til samræmis við EES-rétt og hins vegar þess að líta alfarið fram hjá skýrum íslenskum lagaákvæðum sem mæla fyrir um annað en EES-reglur gera.
Lagaleg og stjórnskipuleg viðvörunarljós
Þrjátíu ára reynsla af EES-samningnum hefur sýnt að samningurinn er stöðugt að taka breytingum. Þetta birtist m.a. í nýjum reglum sem gefnar eru út á grundvelli hans og í því hvernig hann hefur þanið sig út yfir ný svið. Með hliðsjón af þessu má teljast óvíst hvernig EES-samningurinn mun þróast í framtíðinni. Dómstóll ESB hefur í framkvæmd gegnt leiðandi hlutverki við túlkun Evrópuréttarins. Sú dómaframkvæmd hefur knúið fram nánari samruna og lagalegar skuldbindingar aðildarríkjanna og stefnumörkunin færð úr höndum kjörinna fulltrúa yfir til dómara og embættismanna. Í ljósi þessarar sögu ætti almenn skírskotun frumvarps utanríkisráðherra um bókun 35 til skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum að hringja öllum viðvörunarbjöllum, því einmitt á grunni svo almennra stefnuyfirlýsinga hafa aðildarþjóðir ESB mátt sæta ófyrirsjáanlegum skerðingum á ríkisvaldi. Íslendingar hafa aldrei samþykkt að ganga í pólitískt samband með aðildarþjóðum ESB og ekki hafa verið færð sannfærandi rök fyrir því hvers vegna Alþingi ætti nú að veikja sjálft sig með því móti sem ráðgert er í frumvarpinu. Engin rök hafa verið færð fram fyrir því að nauðsynlegt sé nú að mæla fyrir um almennan forgang erlendra reglna í íslenskum lögum.
Ef EES stóð á ystu nöf 1993, þá keyrir frumvarp um bókun 35 nú fram af brúninni
Með orðalagi frumvarpsins um bókun 35 er verið að opna flóðgáttir erlends réttar inn í íslensk lög því EES rétturinn hefur sætt framsækinni (e. dynamic) túlkun og hefur þanist mun lengra en fyrirsjáanlegt mátti teljast í upphafi. Ljóst var talið árið 1993 að þátttaka Íslands í EES-samstarfinu gekk út á ystu nöf stjórnarskrárinnar, sem ekki geymir neitt ákvæði um framsal ríkisvalds. Til slíks framsals hefur aldrei verið pólitískur vilji hérlendis. Réttlætingin fyrir þátttöku Íslands í EES var sú að aðeins væri um að ræða valdframsal á vel afmörkuðum og takmörkuðum sviðum. Íslenskir dómstólar hafa umgengist bókun 35 út frá þessari grunnforsendu. Fyrir liggur, sbr. svar utanríkisráðherra á 150. löggjafarþingi (2019-2020) í þskj. 2146 113. mál, að þrýsting ESA á íslensk stjórnvöld vegna innleiðingar á bókun 35 megi alfarið rekja til síðari tíma dómaframkvæmdar hér á landi. Ljóst er að á þeim tíma sem liðinn er frá lögleiðingu EES-samningsins hafa stöðugt fleiri svið verið felld undir EES. Ísland gekk í EES til að taka þátt í efnahagslegu samstarfi, en ekki á þeim forsendum að við værum að ganga í einhvers konar stjórnmálabandalag, þar sem Alþingi ætti ekki lokaorðið um gildandi lög hér á landi.
Frumvarpið sem hér um ræðir myndi hafa í för með sér varhugaverð vatnaskil í íslenskri réttarsögu, veikja Alþingi stórlega, stórskaða íslenskt lýðræði, draga út réttaröryggi og fyrirsjáanleika laga, grafa undan réttmætum væntingum til íslenskrar löggjafar og opna dyrnar fyrir alls kyns síðari skaðabóta- og samningsbrotamál ef Alþingi reyndi síðar að verja hagsmuni íslenska ríkisins með sérlögum sem ættu að ganga gegn EES-rétti. Fyrir utan allt þetta skal áréttað, að alvarleiki málsins mælist í því að frumvarp utanríkisráðherra brýtur gegn stjórnarskrá lýðveldisins nr. 33/1944, sem þingmenn og ráðherrar hafa raunar unnið drengskaparheit að.
Hvorki frumvarpið um bókun 35 né skýrsla núverandi utanríkisráðherra um málið eru studd traustum rökum. Þvert á móti felst í þessu fullkomin uppgjöf gagnvart þrýstingi ESB. Þessi uppgjöf birtist í því að fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherrar hafa tekið málflutning ESA og gert að sínum. Í stað þess að verja hagsmuni Íslands gagnvart erlendu valdi er valin sú leið að ganga í þjónustu ESB gegn Íslandi. Slíkir ,,varðstöðumenn" eru verri engir.
Alvarleg álitamál
Frammi fyrir öllu framangreindu vakna alvarlegar spurningar. Hér er um að ræða mál sem gæti haft svo alvarlegar og langvarandi og ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenska hagsmuni, að skoða verður málið vel, ekki aðeins út frá lögfræðilegu sjónarhorni, heldur einnig í sögulegu, pólitísku, hagfræðilegu og efnahagslegu ljósi. Um hina sögulegu og lögfræðilegu hlið má m.a. lesa hér. Í því sem hér fer á eftir verður vikið að öðrum spurningum.
Hagtölur og hagþróun
Íslendingar eru tæplega 400.000. Íbúar ESB ríkjanna eru samtals yfir 400 milljónir. Þessi stærðarhlutföll kalla á að Íslendingar rifji upp þau fornu sannindi að konungsgarður er rúmur inngangs en þröngur brottfarar. Í því samhengi sem hér um ræður verður að leggja raunsætt mat á möguleika Íslendinga til að hafa áhrif á vettvangi ESB.
Hagvöxtur á Íslandi hefur verið stöðugur frá árinu 2011, að frátöldu Covid árinu 2020 sem markaði niðursveiflu um allan heim. Raunar virðist hagvöxtur hérlendis hafa verið meiri en í ESB og m.a.s. meiri en í sjálfu Þýskalandi og á ESB svæðinu er neikvæður. Evrópa, sem áður var auðugasta heimsálfan, er á efnahagslegri niðurleið í samanburði við Bandaríkin. Nýsköpun og frumkvæði eiga sér betra skjól annars staðar.
Raunpólitísk álitamál
Ríki Evrópu sem áður voru pólitísk stórveldi á hinu alþjóðlega sviði hafa stöðugt minni áhrif. Úkraínustríðið hefur undirstrikað það sem öllum mátti raunar vera áður ljóst, þ.e. að vegna þess hve veikburða herir Vestur-Evrópu eru, þá stendur NATO og fellur með hernaðarmætti Bandaríkjanna. Flókið og ofvaxið regluverk hamlar atvinnurekstri innan ESB, m.a. vegna þess að smá og meðalstór fyrirtæki eiga erfiðara með að uppfylla sífellt fleiri skilyrði og kröfur. Afleiðingin birtist m.a. í því hvernig blómlegur iðnaður eins og þýsk bílaframleiðsla er á fallanda fæti. Þjóðir Evrópu eru að eldast mjög hratt, sbr. opinbera tölfræði um lækkandi fæðingartíðni. Afleiðingar þeirrar þróunar birtast m.a. í álagi á lífeyriskerfin, heilbrigðiskerfin og atvinnulífið. Velferðarkerfin sem margar aðildarþjóðir ESB hafa byggt upp á síðustu áratugum munu ekki standast þetta álag, því breytt aldurssamsetning þýðir einfaldlega að ekki verður nægjanlega margt ungt og vinnandi fólk til að greiða heilsugæslu og lífeyri hinna eldri. Ef svarið við þessu á enn að vera stórfelldur innflutningur fólks frá öðrum löndum, þá verða menn að átta sig á að sú leið framkallar margvíslegar aðrar áskoranir sem óljóst er hvort / hvernig unnt er að vinna farsællega úr. Svarið getur ekki verið í því fólgið að hrúga fólki inn án aðlögunar og neita að viðurkenna áskoranirnar eða forðast að takast á við vandamálin þegar þau birtast. Á meginlandi Evrópu er mikil samfélagsleg gerjun að eiga sér stað og þegar þetta er ritað láta bændur mjög að sér kveða með mótmælum yfir sífellt hærri álögum, stöðugt fleiri vottorðum og erfiðara rekstrarumhverfi, sem ógnar landbúnaði innan ESB.
Reglugerðarverksmiðjan
Það eru þó ekki aðeins bændur sem finna fyrir stöðugt umfangsmeira regluverki og vaxandi eftirlitsbákni því vottorðin og stimplarnir sem hægja á öllu atvinnulífinu og þrengja að frelsi einstaklingsins. Þegar Bretar gengu inn í EB árið 1973 var regluverkið prentað á 2400 bls. en við útgöngu þeirra árið 2016 hafði það bólgnað upp í 94.000 bls. Þessi pappírs-stormur gerir lögin óaðgengilegri og réttarstöðu manna óskýrari. Þetta vissi James Madison, þriðji forseti Bandaríkjanna, sem varaði við því að lögin yrðu gerð of flókin og ítarleg, því ógagnsætt regluverk skerðir yfirsýn hins almenna manns og veikir réttarvitund manna.
Lýðræðishalli
Ofan á allt þetta hefur ESB legið undir stöðugri og réttmætri gagnrýni fyrir skort á lýðræðislegum stjórnarháttum. Í stað valddreifingar hafa stjórnarskrifstofur ESB verið gerðar miðlægar. Innan ESB má sjá merki um það að ákvörðunarvald um stefnumörkun sé lagt í hendur embættismanna, en stjórnmálamenn látnir um framkvæmdina / innleiðinguna og hinir síðarnefndu þannig í reynd gerðir að embættismönnum skrifstofuveldisins. Með hverju árinu sem líður verður almenningur ósáttari við áhrifaleysi sitt. Úrsögn Breta úr ESB, kosningasigur bændaflokksins í Hollandi, fjöldamótmæli bænda í Þýskalandi, Frakklandi og víðar, eru til marks um það að almenningur sé búinn að fá nóg af valdboðsstjórn og kalli nú eftir því að stjórnmálamenn hlusti á vilja fólksins og svari til ábyrgðar. Öfugt við yfirstéttina virðist almenningur ekki sannfærður um að lausnin við öllum heimsins vanda sé að hækka skatta, þenja út velferðarkerfið og veikja undirstöðuatvinnugreinar. Meðan stjórnmálamenn neita að hlusta og vantreysta kjósendum til að eiga síðasta orðið í stærstu málum, er ekki við öðru að búast en að spenna haldi áfram að hlaðast upp milli þeirra sem setja reglurnar og þeirra sem búa við reglurnar.
Samantekt
Frammi fyrir öllu ofangreindu er með ólíkindum að ráðherrum í ríkisstjórn (og þingmönnum) kjósi að vinna að því að Alþingi samþykki frumvarp um bókun 35 sem miðar að því að færa Ísland enn lengra undir áhrifavald ESB, þvert gegn ytri aðstæðum, gegn ákvæðum stjórnarskrár og gegn skýrum samningsvilja þeirra sem gerðu samninginn fyrir Íslands hönd. Eftir hverju hafa Íslendingar að sækjast innan ESB? Eiga nánari tengsl við hnignandi svæði að styrkja íslenskt hagkerfi? Á aukið áhrifavald miðstýrðs og ólýðræðislegt kerfi að styrkja íslenskt lýðræði? Á almennur forgangur EES réttar umfram íslensk lög að styrkja stöðu Alþingis? Í stað þess að færa Ísland nær ESB hefði verið gáfulegra að færa okkur fjær.
Lokaorð
Með hliðsjón af hagstærðum samningsríkja EES árið 1993 hefði mögulega mátt réttlæta að smáríkin færðu margvíslegar fórnir fyrir aðgang að innri markaði Evrópubandalagsins (EB) á þeim tíma. Eins og mál hafa þróast til dagsins í dag hefur samningsaðilinn farið í gegnum pólitíska stökkbreytingu og umbreyst yfir í Evrópusambandið (ESB) sem ber orðið ýmis einkenni sambandsríkis. Á sama tíma hafa efnahagslegir innviðir ESB veikst, hagþróun verið neikvæð, miðstýring aukist, allt með þeim afleiðingum að varhugavert hlýtur að teljast fyrir Ísland að tengja sig nánar við meginland Evrópu eins og nú háttar til. Tímasetning málsins er því óskiljanleg og áhugi þingmanna og ráðherra á því að keyra þetta í gegnum Alþingi er óútskýrður. Allt kallar þetta á mun nánari greiningu, skýringar og rökræður. Bregðist Alþingi skyldum sínum gagnvart stjórnarskrá Íslands, þá blasir við samkvæmt framangreindu að málið er af þeirri stærðargráðu og framtíðarhagsmunirnir svo miklir að forseta ber að leyfa almennum kjósendum að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæði.
Bloggar | Breytt 20.2.2025 kl. 07:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2025 | 09:04
Á tímamótum
Evrópskir "leiðtogar" sem sátu kindarlegir undir ræðu J.D. Vance um daginn voru skömmustulegir vegna þess að þau skildu strax að allir aðrir sáu að þau voru hugmyndafræðilega nakin. Allt fína talið þeirra um "frelsi" og "lýðræði" var fokið út í vindinn, því nú mega allir vita að frelsis- og lýðræðisást þeirra er fölsk og innantóm, sbr. það sem viðgengst í heimalöndum þeirra sjálfra, sbr. t.d. Þýskaland og Bretland. Hvernig á að vera hægt að skilja þessa öfugþróun, þar sem ríkisstjórnir þjóðríkjanna misvirða eigin stjórnarskrár í framkvæmd - og reyna jafnvel að setja lög sem grafa undan réttaröryggi borgaranna og veikja innlent löggjafarvald? Hvernig stendur á því að Evrópuríkin keppast við að flytja inn unga menn frá fjarlægum löndum og hýsa þá, fæða og klæða á kostnað skattgreiðenda sem njóta ekki sambærilegrar þjónustu? Hvernig stendur á því að engu virðist skipta hvaða flokkar eru kosnir, því allir framkvæma þessar sömu stefnur? Hvers vegna eru t.d. flestir Evrópuleiðtogar svona á móti friðarviðræðum og heimta meira stríð? Illa er fyrir okkur komið ef nota á stríð til að breiða yfir eitthvað sem þolir ekki dagsljósið.
Varla nokkur maður vill til þess hugsa að stríðsæsingarnar, ritskoðunin og sviksemin við eigin þjóðir hafi mögulega eitthvað með þær 4,7 trilljónir dollara sem virðast hafa runnið úr sjóðum Bandaríkjanna undir woke-stjórn Biden bandaríkjaforseta. Margt þyrfti að endurskoða í orðum og verkum síðustu ára ef í ljós kæmi að íslenskir fræðimenn, blaðamenn, fjölmiðlar, stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafi fengið greitt fyrir að halda tilteknum sjónarmiðum á lofti, en rægja önnur, snúa staðreyndum á hvolf, t.d. með því að segja í (í anda Orwells) að stríð sé friður, ánauð sé frelsi og að fáfræði sé styrkur. En vonandi sýndu Íslendingar meira siðferðilegt viðnám og seldu ekki sálu sína fyrir peninga sem áttu að vera órekjanlegir.
Ný Bandaríkjastjórn vinnur svo hratt að því að afhjúpa myrkraverk hinnar fyrri að vindáttin snýst nú leifturhratt. Afleiðingarnar eru þegar byrjaðar að koma fram, t.d. í því hvernig allt í einu má nú ræða opinberlega um hugsanlega skaðsemi "bóluefnanna góðu" gegn "veirunni skæðu". Hér er t.d. einn helsti málsvari lyfjasprautanna farinn að spyrja býsna alvarlegra spurninga.
Við stöndum á tímamótum. Mikil umskipti eru að eiga sér stað, jafnvel pólskipti í pólitík og frjálsri umræðu. Uppgjörið má ekki einkennast af reiði eða hefndarþorsta, heldur er þetta tækifæri til lærdóms. Vonandi lærum við öll okkar lexíur af því sem gerst hefur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2025 | 07:43
Við erum (hugsandi) menn en ekki alifuglar
Þessi frétt um froðukenndan málflutning hagsmunaaðila, stjórnmálamanna (og fréttamanna) kallar á við skoðum hlutina í samhengi.
Eftir gönguferð í góðu veðri í gær, þar sem litlir kassar (hús) í öllum gerðum blöstu við, átti ég samtal við dóttur mína um sjónvarpið, þar sem ég spáði því að hún gæti átt erfitt með að skýra út fyrir sínum börnum litlu kassana sem fólk notaði til að meðtaka sérhannaðan sýndarveruleika, "skemmtiefni" og misjafnlega gagnlegan fróðleik frá ríkisreknum og hagsmunadrifnum fréttastofum. Eftir örfá ár verða sjónvörp orðin að forngripum. Þegar "imbakassinn" hverfur sparast vonandi mikill tími og minna verður innbyrt af hræðsluáróðri og óhollri froðu.
Sjónvarpið er vissulega ekki alslæmt. Fyrir kemur að þar bregði fyrir nytsamlegu efni. Í gær kom upp í hendurnar á mér bók sem talsvert var hampað í sjónvarpi eftir fjármálahrunið 2008, m.a.s. af æðstu prestum pólitísks rétttrúnaðar þess tíma (í Silfri Egils Helgasonar). Bókin heitir "Confessions of an Economic Hit Man" eftir John Perkins.
Á þessu bloggi hefur a.m.k. tvisvar verið sagt frá því a Alþjóðabankinn hafi týnt 41 milljarði dollara í fyrra sem merktir voru "loftslagsbaráttu". Fólk sem er forritað til að trúa því sem kemur út úr litlu sjónvarpskössunum hefur ekki viljað trúa þessu, en hér er þetta samt sem áður svart á hvítu.
Hvernig tengist þetta bók J. Perkins? Jú, fremst í bókinni má finna eftirfarandi texta:
Economic hit men (EHM) are highly paid professionals who cheat countries around the globe out of trillions of dollars. They funnel money from the World Bank, the US Agency for International Development (USAID), and other foreign "aid" organizations into the coffers of huge coprorations and the pockets of a few wealthy families who control the planet´s natulal resources. Their tools include fraudulent financial reports, rigged elections, payoffs, extortion, sex and murder. They play a game as old as empire, but one that has taken on new and terrifying dimensions during this time of globalization.
I should know; I was an EHM.
Í niðurlagi bókarinnar hvetur Perkins lesandann til að lesa milli línanna í fréttum, gleypa ekki allt hrátt, trúa ekki öllu. Hann útskýrir að stærstu fréttamiðlar heims eru í eigu örfárra fyrirtækja og að fjölmiðlarnir séu hluti af hlutafélagavæddu stjórnkerfi, þar sem peningalegir hagsmunir örfárra ráði för með aðstoð fámennrar stéttar (e. elite) embættismanna, fréttamanna, stjórnmálamanna o.fl. sem stýrast m.a. af græðgi, ótta og eigingirni. Frammi fyrir þessu sé það skylda okkar að greina sannleikann undir yfirborðinu og afhjúpa hann í samtölum við vini og fjölskyldu: Láta orðið berast.
Í lokaorðum sínum segir Perkins að við þurfum ekkert minna en byltingu í nálgun okkar gagnvart menntun, þar sem við valdeflum okkur sjálf (og börnin okkar) og gefum okkur leyfi til að hugsa, efast og setja gott fordæmi með orðum okkar og athöfnum, minnug þess að forfeður okkar eru að horfa yfir öxlina á okkur og að framtíð barnanna okkar sé háð því að við látum samfélag okkar ekki verða græðgi, óhófi, neysluhyggju og eyðileggingu að bráð.
Og ef þér tókst að lesa svona langt, þá eru hér löngu tímabær verðlaun sem þú átt skilið að fá. Þetta er nýi tíminn. Hann er kominn á þröskuldinn.
P.S. Í framhaldi af umfjöllun minni í gær er vert að benda á viðtal Morgunblaðsins við Stefán Má Stefánsson prófessor, þar sem Stefán gerir einmitt það sem Perkins hvetur okkur til, þ.e. að miðla af greind, menntun, reynslu og þekkingu til að vara við og benda á staðreyndir.
![]() |
„Verra en það sem troðið var ofan í kokið á okkur“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.2.2025 | 12:13
Pólitískir fjandvinir sameinast um bókun 35, gegn hagsmunum kjósenda sinna. Af hverju?
Nú styttist óðum í formannskjör í Sjálfstæðisflokknum. Hvorug frambjóðendanna hafa lýst sig andvígar frumvarpinu um bókun 35 sem fráfarandi formaður og varaformaður hafa ítrekað reynt að koma í gegnum Alþingi og núverandi utanríkisráðherra hefur tekið óbreytt upp á sína arma. Þarna má sjá pólitíska andstæðinga (sem allir hafa á fyrri stigum lýst trúnaði við Sjálfstæðisstefnuna) sameinast um það að vinna í þágu ESB, gjaldfella íslensk lög og veikja stöðu Alþingis. Þeir sem vija halda tryggð við hina góðu og klassísku stefnu Sjálfstæðisflokksins verða að finna sér annan flokk, því ekki eru líkur á að formannskandídatarnir muni breyta um stefnu fráfarandi forystu í þessu mikilvæga efni. Frumvarpið hljóðar svo:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.
Óhætt er að fullyrða að lítill minnihluti alþingismanna les allar þær skuldbindingar sem fólgnar eru í þeim fjölda EES reglna sem innleiddar eru í massavís í íslensk lög á hverju ári. Þetta er í raun opinn krani og hefur verið í 30 ár, án þess að samningsbundnu neitunarvaldi Íslands hafi nokkru sinni verið beitt. Þetta er óvönduð færibandavinna, en ekki löggjafarstarf. Þetta afhjúpast í því hvernig innleiðingin fer fram, þ.e. með einfaldri þingsályktun, en ekki með hefðbundnu ferli löggjafar, þ.e. að undangengnum þremur umræðum. Þessi aðferð við innleiðingu reglna sem eiga að hafa hér lagagildi stenst í reynd ekki stjórnarskrá.
Með innleiðingu á reglum ESB í massavís hafa þingmenn innleitt og þannig samþykkt ótal skuldbindingar fyrir hönd íslenska ríkisins sem allar geta yfirtrompað almenn lög frá Alþingi verði frumvarpið um bókun 35 að lögum. Til að staðreyna þetta getur fólk farið inn á vef Alþingis og skoðað hvað þar er í gangi. Á 5 mínútum nú áðan valdi ég, af handahófi, reglugerð nr. 1228/2003 sem finna má hér.
Skuldbindingar sem verið var að samþykkja með þeirri innleiðingu, fyrir hönd íslenska ríkisins, eru þar "i lange baner". Þar dugar að renna yfir fyrstu blaðsíðurnar: Dæmi:
- Stuðla skal að sköpun raunverulegs innri markaðar á sviði raforku með því að auka viðskipti með raforku, sem eru sem stendur vanþróuu í samanburði við önnur svið efnahagslífsins.
- Ríki hindri ekki viðskipti með raforku yfir landamæri
- Auka samkeppn á innri markaðnum með raforku
Þetta litla dæmi sem áréttar ófarir Norðmanna vega sæstrengja til ESB er til áminningar um að þessi vangæsla íslenskra ráðamanna getur ekki endað nema með ósköpum.
Íslendingar hafa aldrei samþykkt - og Alþingi hefur aldrei formlega viðurkennt - að veita alþjóðlegum stofnunum vald til að binda hendur íslenskra yfirvalda. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu.
Í dag kl. 14 hefst í Valhöll málþing um "áform ríkisstjórnar Íslands í Evrópumálum". Þótt ég verði því miður fjarverandi hvet ég alla áhugasama til að mæta og taka þátt í umræðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2025 | 10:45
RÚV er risaeðla sem getur ekki lifað í frjálsu umhverfi hins nýja tíma
Ég tilheyri (ennþá) fámennum en ört vaxandi minnihlutahópi, sem kveikir aldrei - og þá meina ég aldrei nokkurn tímann - ótilneyddur á fréttatíma Rúv. Venjuleg nauðung, svo sem hótun um beint ofbeldi myndi ekki duga, enda er það lágmarksréttur hvers manns að mega verja sig. En nóg um það. Í gærkvöldi gerðist sem sagt þessi sjaldgæfi viðburður, að ég horfði á upphaf fréttatíma Rúv vegna þess að annar maður kveikti á þessu kl. (19) í gærkvöldi.
Á þessum fyrstu mínútum sannfærðist ég enn og aftur um þarfleysi Rúv í nútímasamfélagi og furðaði mig auk þess á fréttamatinu: Fyrsta frétt var um kjarabaráttu hreingerningarfólks á Íslandi, þar sem fréttastofan sjónvarpaði m.a. þeirri staðhæfingu að einhverjir í þeim hópi hefðu þurft að "pissa í fötu" við störf sín vegna álags. Vissulega dapurt ef rétt er, en ætti ekki að vera fyrsta frétt.
Aðalfréttin mætti afgangi, og þar huldi umfjöllun Rúv jafnmikið og hún upplýsti: Ráða mátti af "fréttaflutningi" Rúv að ræða varaforseta USA á öryggisráðsstefnu í München hefði verið léttvægt grín og m.a. snúist um Gretu Thunberg og Musk. Svo var ekki og það er tímabært að þjóðin sem byggir þessa eyju hér norður í hafi hætti að taka við gerilsneyddum upplýsingum frá fréttastofu Rúv. Ræða J.D. Vance var ekkert minna en sögulegur stórviðburður, sem markar skýr tímamót í varnarmálapólitík Evrópu á 21. öld. Flestir leiðtogar sátu þöglir undir ræðunni og áttuðu sig á því að þeir þurfa nú að endurhugsa alla sína nálgun og breyta um takt, strax í dag, ef þeir ætla ekki að líta út eins og steingerðar risaeðlur: Áframhaldandi ritskoðunartilburðir munu slá þau sjálf í andlitið; orðræða í stíl kommúnista um falsfréttir og rangar / misvísandi upplýsingar (e. misinformation) mun ekki veita neina vörn; klassískt frjálslyndi mun leysa af hólmi gervi-frjálslyndið sem (ókjörnir) leiðtogar ESB og ráðherrar á Íslandi hafa aðhyllst undir því yfirskini að þau séu að "vernda almenning" og "verja lýðræðið". Þetta er allt saman búið og nú þarf ESB í þokkabót að fara að taka ábyrgð á eigin vörnum, sem þýðir í stuttu máli að heimatilbúinn sósíalismi, þar sem peningum almennings er eytt í gæluverkefni stjórnmálamanna, getur ekki lengur viðgengist. Auk þess verða menn að taka ábyrgð á landamærum sínum. Þetta er hinn nýi veruleiki og þeir sem vilja kynnast honum ættu frekar að horfa beint á ræðuna sjálfir, en að móttaka hann í fitusprengdu og gerilsneyddu formi frá ríkisrekinni fréttastofu Rúv. Ræðuna má t.d. sjá hér - og áhugasömum er bent á að þegar Vance mælir fram lykilsetningu í anda Voltaire sem er í raun hornsteinn klassísks frjálslyndis, þá bregður utanríkisráðherra Íslands, Þorgerði Katrínu, fyrir á myndinni (sjá ca. 8.58-9.05), en þá gerist það "óvænta" að þessi helsti talsmaður "frjálslyndis" (lesist: gervi-frjálslyndis) á Íslandi finnur ekki hjá sér neinn vilja til að klappa. Myndskeiðið segir meira en mörg orð. Ræðan í heild segir meira en "frétt" Rúv í gær.
Í anda Cato hins gamla ætti ég að ljúka öllum pistlum á sömu setningu: "Að lokum legg ég til að RÚV (og ritskoðunarnefndin ... afsakið "fjölmiðlanefnd" verði lögð niður".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2025 | 07:32
Hvað hefur nýr Bandaríkjaforseti eiginlega gert?
Á Íslandi ríkir pólitískt hnignunarástand. Grafið hefur verið undan tiltrú á getu okkar til stjórna okkur sjálf og til að vera fullvalda þjóð. Þessi þróun, þar sem þjóðríkið hefur verið gert veikara með opnum landamærum og fjárvana lögreglu, og með þjónkun gagnvart ólýðræðislegu fjarlægu valdi, hefur orðið sífellt meira áberandi. Þessi öfugþróun er engin tilviljun, heldur afleiðing þess að við höfum setið uppi með atvinnustjórnmálamenn sem segja eitt en gera annað. Í framkvæmd birtist þetta í því að litlu skiptir hvaða flokkar sitja í stjórn, allir ganga erinda ESB, WEF o.fl., hvort sem þeir gera sér fulla grein fyrir því eða ekki.
En nú kveður við nýjan tón vestan hafs. Trump var kosinn af meirihluta þjóðarinnar vegna loforða sem hann gaf ... og virðist ætla að efna, sem hljómar ótrúlega í eyrum kjósenda sem vanir eru öðru. Eins og heyra má í ríkisreknum fjölmiðlum og í máli íslenskra þingmanna (núverandi og fyrrverandi) þá eru þetta hræðilegar fréttir.
Hvað hefur Donald Trump gert? Hann hefur bannað öllum körlum (sem hafa tekið lyf eða gengist undir skurðaðgerðir og vilja láta líta á sig sem konur) að keppa í kvennaíþróttum og stöðvað kynleiðréttingaraðgerðir á unglingum. Hann hefur boðið öllum bandarískum hermönnum, sem voru reknir fyrir að neita að taka mRNA-bóluefnin, aftur í herinn og það með fullri afturvirkri launagreiðslu. Hann hefur fyrirskipað að ríkisstarfsmenn hætti dyggðaskreytingu á borð við þetta eru fornöfnin mín í tölvupóstum stjórnvalda. Hann hefur hótað að hækka tolla og skipað nýja tegund fólks í opinber embætti, þ.e. fólk sem er annt um landið sitt, landamæragæslu og innlenda lagasetningu. Þetta hefur leitt til þess að skrúfað hefur verið fyrir straum ólöglegra innflytjenda á sama tíma og brottvísanir eru hafnar - á methraða. Hann hefur dregið Bandaríkin út úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Hann hefur hent kolefnishlutleysismarkmiðum út úm gluggann, sbr. Parísarsamkomulagið.
Hann hefur skrúfað fyrir stjórnlausa eyðslu á almannafé í rafbílakaup og í rafhleðslustöðvar. DEI (Diversity, Equity, Inclusion) er horfið úr bandarískri stjórnsýslu og hann hefur hótað að skera niður styrki til háskóla sem halda því áfram. Undir stjórn DT er byrjað að skera niður útbólgnar ríkisstofnanir. Flett hefur verið ofan af hræðilegri spillingu í útgjöldum USAID í gæluverkefni vinstrimanna, þar á meðal til að stýra dagskrárvaldi í meginstraumsmiðlum sem hafa nánast allir verið á fóðrum hjá USAID. Hann hefur látið ESB líta mjög illa út með því að boða friðarviðræður til að ljúka Úkraínustríðinu, því ESB (og íslenskir utanríkisráherrar) hafa ekkert gert annað en að kalla eftir meira blóði án þess að leggja fram neinar hugmyndir um hvernig binda megi enda á manndrápin. Trump boðar endurskipulagningu í Miðausturlöndum sem gætu gefið Palestínumönnum nýja von í nýju og betra umhverfi og Ísraelsmönnum von um frið. Síðast en ekki síst hefur hann gert RFK jr. að heilbrigðisráðherra sem mun varpa skæru kastljósi á spilltan lyfjaiðnað, matvælaiðnað og orkuiðnað í Bandaríkjunum.
Lítur þetta hræðilega út? Já, fyrir fyrri bandaríkjaforseta (Obama veitti engin andsvör þegar Rússar réðust inn á Krímskaga 2014 + Biden sem gerði ekkert til að koma í veg fyrir innrás Rússa árið 2022).
Jafnvel þótt yfir 90% Íslendinga sé í nöp við Trump, þá breytir það ekki því að hér eru runnir upp nýir tímar, þar sem íslenskum stjórnmálamönnum leyfist ekki lengur að sóa fjármunum í gæluverkefni en vanrækja innviði. Slíkt mun líta mjög illa út í samanburði við forysturíki Vesturlanda, þ.e. BNA. Allir þjngflokkar á Alþingi Íslands hafa brugðist í þessu samhengi með rangri forgangsröðun, sviknum loforðum og verkleysi.
Lýðræðisflokkurinn fékk örfáar vikur til að heyja kosningabaráttu sl. haust, gegn ofurefli ríkisrekinna flokka. Þetta var barátta Davíðs við Golíat: Barátta fyir því að verja landið og vekja fólkið, gera Ísland aftur að góðu landi til að búa í, þar sem staðinn er vörður um auðlindir landsins og hreina náttúru, unnið gegn vaxtaokri og skipulagðri glæpastarfsemi, talað gegn stríðsæsingu, hömlur settar á sóun almannafjár, loftinu hleypt úr útblásnu ríkisvaldi og unnið gegn ritskoðun. Jafnvel þótt við ofurefli sé að etja, þá er það samviskumál að finna leið til að halda baráttunni áfram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.2.2025 | 09:14
Nútíminn er "orvelskur"
Með hverjum deginum sem líður tekur samfélag okkar á sig "orvelskari" mynd, sbr. enska orðið Orwellian sem vísar til framtíðarsamfélags í anda George Orwells. Í ljósi aðstæðna hefðu Íslendingar meira gagn af því að kynna sér rit (viðvaranir) Orwells en að sækja auglýst námskeið fyrrum forsætisráðherra um "glæpasögur".
Ný sviðsmynd að teiknast upp: Trump og Pútín töluðu saman í síma í 90 mínútur í gær um framtíð Úkraínu, án þess að Úkraínuforseti væri með í því samtali, þótt Biden hafi ítrekað lýst því yfir annar háttur yrði hafður á. Aðspurður sagði Trump að forsætisráðherra Úkraínu væri ekki lengur með lýðræðislegt umboð. Með símtalinu er hann þó í raun að undirstrika að smáríki eru peð á taflborði stórveldanna, sem eru þrjú, sbr. Orwell: Oceania (BNA), Evrasía (Rússland) og Austasía (Kína). Nýr tími er runninn upp í stað eldri sviðsmyndarinnar, þar sem bandarískt skattfé var m.a. notað til að fjármagna samtök ríkustu hagsmunaaðila / stórfyrirtækja / auðmanna (e. stakeholders) sem miða að því að koma á miðstýrðu, fjarlægu og ólýðræðislegu valdi.
Stóra myndin er kannski ekki vel sýnileg ennþá á Íslandi, þar sem ríkisfjölmiðillinn brýtur hlutleysisskyldur sínar daglega og reynir að sameina þjóðina í illvilja gegn sumum en ekki öðrum. Illa er komið fyrir þjóð sem hefur týnt Guði en reynir að sameinast í reiði, heift og illvilja. Pólitískur óstöðugleiki hérlendis þrýstir stjórnmálamönnum sífellt lengra inn í heimatilbúinn hliðarveruleika, þar sem stjórnmálaflokkar misnota löggjafarvaldið til að skammta sér fé úr vösum almennings og gæta hagsmuna hvers annars ef framkvæmdin reynist gölluð, því enginn flokkur þolir leiðréttingu á kerfinu. Í hliðarveruleika íslenskra stjórnmála ræða eru kynjamál efst á dagskrá (kynferði ráðherra í ríkisstjórn, kynjamerkingar á klósettum, kynleiðréttingar, kynhneigð, hvort kynin eru 37 eða 73), en ekki um spillinguna sem vellur upp úr öllum pottum þegar lokið er tekið af þeim. Ríkisreknir fjölmiðlar taka þátt í að ýta undir veruleikafirringuna í von um að styrkjakerfi þeirra verið látið óáreitt og blaðamenn taka jafnvel einnig þátt í leiknum í von um að fá góða stöðu sem upplýsingafulltrúar hjá einhverjum af flokkunum. Hér eru þó ekki allir fjölmiðlar og blaðamenn samsekir, því einstaka maður sker sig úr og leitar sannleikans. Ytri aðstæður gera slíkum mönnum þó erfitt fyrir, sbr. það fréttir af því hvernig ESB bar 132 milljónir Evra á fjölmiðla í aðdraganda kosninga til þings ESB og hvernig USAID notaði skattfé almennings til að fjármagna nær alla meginstraumsmiðla (MSM) sem fjölmiðlanefnd í speki sinni vill að við tökum mest mark á (stórir og rótgrónir fjölmiðlar).
Á námskeiðinu um Orwell, sem Katrín Jakobsdóttir er ekki að fara að kenna, væri líka full ástæða til að ræða um hellislíkingu Platóns, því hún dregur fram hvernig hópur fólks (heil þjóð?) getur orðið föst í hlekkjum fáfræði og farið að líta á skuggamyndir sem raunveruleika í stað þess að nota eigin augu og eigin hyggjuvit til að horfa á veruleikann eins og hann birtist í raun og veru.
Hvorki íslensk þjóð, né þingmenn, né ný ríkisstjórn getur lengur leyft sér að nota ímyndanir sem áttavita og ganga um með bundið fyrir augun. ESB er peð á taflborði stórveldanna og mun ekki veita Íslandi efnahagslegt né hernaðarlegt skjól á þeim tímum sem nú fara í hönd, hvað svo sem forsætisráðherra segir.
Ísland á að vera málsvari friðar og sátta, land þar sem raunsætt mat er lagt á stöðu landsins og vernd umhverfisins. Landfræðileg staða okkar er bæði veikleiki og styrkur. Við getum átt friðsamleg og vinsamleg samskipti við aðra og notað okkar veiku rödd til að stilla til friðar fremur en að gerast gjammandi smáhundur í bandi stærri ríkja. Ísland er og verður vonandi "eilífðar smáblómið" sem sungið er um, því allir menn og m.a.s. stórveldin veigra sér við að traðka slík blóm í svaðið.
![]() |
Styrkjamálið til saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.2.2025 | 15:23
Úthygli, athyglisbrestur og vanþekking sem rýra virðingu Alþingis
Mögulega er í þessari frétt að finna lýsingu á einhvers konar lágpunkti umræðu í þingsal Alþingis. Fyrsta þingmál nýrrar ríkisstjórnar miðar að því að veikja Alþingi og færa Ísland enn frekar undir vald ESB, sbr. frumvarp um bókun 35. Þingmaður Sjálfstæðisflokks horfir fram hjá þessum kjarna, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt niður kyndilinn sem honum var ætlað að bera, þ.e. að verja sjálfstæði Íslands og fullveldisrétt okkar. Það má sjá af því hvernig XD hefur oftar en einu sinni reynt að koma þessu frumvarpi í gegnum þingið. Ráðherra Flokks fólksins tekur til máls en heldur augljóslega engum þræði og klikkir svo út með tómri þvælu um ESB og "eitt sett af reglum". Hefur þetta fólk ekki lesið EES samninginn sjálfan? Vita þau ekki að neitunarvald Íslands var forsenda fyrir aðild okkar að EES árið 1993? Er samgönguráðherrann búinn að gleyma því að við sömdum aldrei við ESB og að samningsaðili Íslands hefur í raun stökkbreyst á þeim tíma sem liðinn er frá gerð EES samningsins? Í ofanálag birtast nú fréttir af því að þingmenn fái ekki sjá né ræða innihald bréfa sem Guðlaugur Þór, þáverandi utanríkisráðherra, sendi ESA árið 2020 þar sem hann andmælti Bókun 35 fyrir hönd Íslands. Hversu djúpt þarf Alþingi að sökkva í niðurlægingu áður en almenningur missir þolinmæðina?
![]() |
Bryndís: Er þetta samstaðan? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2025 | 00:33
Pólitískt upplausnarástand
Efni þessarar fréttar segir okkur að það er ekki allt með felldu í íslenskri pólitík. Ný þriggja flokka ríkisstjórn leysir af hólmi aðra þriggja flokka stjórn og tekur samstundis við að ljúka þeim þingmálum sem fyrri stjórn hafði ætlað að gera. Ég (og félagar mínir í XL) höfðum bent á að stjórnmálaflokkarnir væru allir samvaxnir, á pyngjunni, því þeir hafa notað löggjafarvaldið til að setja reglur sem gera flokkana að ríkisstofnunum, svo framkvæma fulltrúar þessara sömu flokka lögin með því að borga út þessar (ca. 1000) milljónir á ári. Ef vafaatrið koma upp (t.d. um hvort útgreiðslur til flokka hafi verið lögmætar / skilyrði laga hafi verið uppfyllt), þá taka fulltrúar þessa sama marghöfða skrímslis að sér að úrskurða um málið. Allt vald er þá í raun á einni hendi, löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald. Þetta heitir spilling á góðri íslensku. Vestrænar stjórnarskrár, sérstaklega ákvæði um valddreifingu, áttu að verja okkur fyrir einmitt svona misbeitingu á valdi.
Það sem verra er, áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ljúka málum fyrri stjórnar (m.ö.o. pólitískra andstæðinga sinna) gefur til kynna að Íslandi sé mögulega alls ekki stjórnað frá Austurvelli, heldur allt annars staðar frá. Í nýlegu viðtali sagði Liz Truss að þarna væru að verki skuggaöfl. Í Bandaríkjunum tala æðstu ráðamenn daglega um djúpríkið (deep state) sem þurfi að uppræta, en þar er vísað til samgróninga milli ríkisvaldsins / fjárveitingarvaldsins og þeirra sem eru á ríkisspenanum. En á Íslandi er ekkert slíkt í gangi, er það? Hver sem ýjar að slíku þar er að dreifa samsæriskenningum, enda er vel farið með fé íslenska ríkisins (lesist: almannafé) á Íslandi, ekki satt? Hvergi er verið að sóa þeim peningum, nei nei, ekkert að sjá hér.
Nú ætlar ný ríkisstjórn að koma í gegn frumvarpi um bókun 35, sem hugnast mun ESB sérlega vel, því ESB vill að komið sé á lagalegri einingu (þ. Gleichschaltung) á öllu EES svæðinu og kann því illa að smáþjóð norður í ballarhafi sé með einhverja fyrirvara, hvað þá beiti samningsbundnu synjunarvaldi.
Ný ríkisstjórn sýnist einbeitt í því að halda áfram að ganga erinda ESB og NATO í öllu því sem lýtur að stríðsrekstri.
Ný ríkisstjórn virðist sömuleiðis vera ákveðin í því að leyfa alþjóðlegum gróðafyrirtækjum að nota Ísland og hafið í kringum landið sem ruslakistu með niðurdælingu á alls konar efnum sem gætu borist í grunnvatn og lífríkið að öðru leyti.
Fyrir hvern eru stjórnvöld að vinna? Er nema von að spurt sé? Íslensk stjórnmál eru að leysast upp fyrir framan augun á okkur. Þau eru að breytast úr því að vera harmleikur í það að vera skrípaleikur, þar sem enginn tekur ábyrgð, þar sem alvarleg mál eru leyst upp í grín, þar sem gerður er öfugsnúningur á gríni og alvöru.
Ég minni hér aftur á örlög Úkraínu á 20. öld: Úkraína var sjálfstætt ríki í mjög skamman tíma áður en Sovétríkin í raun innlimuðu Úkraínu. Þetta var gert á svo lymskulegan hátt að fæstir gerðu sér grein því sem gerst hafði: Þingið var enn til staðar, en ákvörðunarvaldið í öllu sem máli skiptir hafði verið flutt til Kreml. Ríkisstofnanir voru enn að störfum en voru í raun aðeins orðnar afgreiðslustofnanir fyrir erlent vald. Skattlagning var aukin en peningarnir runnu ekki til að bæta þjónustu við skattgreiðendur í Úkraínu, heldur til að fóðra Sovétið. Örlög Úkraínu eru víti til að varast.
Hvert er verið að stefna með Ísland? Stendur íslenska ríkið á sterkum og sjálfstæðum fótum? Eru íslenskir embættismenn að verja íslenska hagsmuni eða erlenda ... eða jafnvel bara sína eigin hagsmuni? Svari nú hver fyrir sig. Stóra áhyggjuefnið er þetta: Hver mun koma Íslandi til varnar og framtíðarkynslóðum Íslendinga ef ríkisvaldið á Íslandi er nú að mestu leyti mannað fólki sem er valdhlýðið, spyr engra spurninga, framkvæmir hugsunarlaust það sem þeim er skipað að gera? Hvar á sjálfstæð hugsun heima í kerfi sem týnir yfir 150 hælisleitendum; sem leyfir eldra fólki og öryrkjum ekki að vinna og lifa sómasamlegu lífi; sem notar fjármuni fátæks fólks á Íslandi til að þenja út sjóði erlendis sem gera ríkt fólk ennþá ríkara?
Á Íslandi ríkir pólitískt upplausnarástand, ekki bara í Reykjavíkurborg, heldur einnig í landsmálunum. Ef stjórnmálin verða ekki endurnýjuð frá grunni með nýju fólki og afturhvarfi til grundvallargilda, þá getum við fljótlega afskrifað sjálfstætt íslenskt lýðveldi, því miður.
![]() |
Stefán Vagn: Kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)