Færsluflokkur: Bloggar
25.11.2023 | 11:13
Hefur þú enn blinda trú á ,,hinu opinbera"?
Í Morgunblaðinu í dag fjallar Björn Bjarnason um nýjan sáttmála WHO og kemst að þeirri niðurstöðu að sáttmálinn muni ekki ógna fullveldi aðildarríkja, geri ríkjum ekki skylt að grípa til neinna sérstakra aðgerða eða ákvarðana að undirlagi WHO og að ráðið hafi ekki yfirþjóðlegt vald. Allt þetta segir Björn í niðurlagi greinar sinnar þrátt fyrir að viðurkenna nokkrum línum ofar að ,,enginn endanlegur texti að nýjum farsóttarsáttmála ligg[i] fyrir." Á sama tíma les ég annars staðar að ríkisstjórn Nýja-Sjálands, brennd af ofríki hinnar ,,frjálslyndu" Ardern á covid-tímanum, hafi í gær hafnað fyrirhuguðum breytingum WHO á því sviði sem hér um ræðir og áskilið sér allan rétt í því samhengi. Eftir því sem fleiri þjóðir taka þessa afstöðu mun andvaraleysi íslenskra yfirvalda (og blint traust manna eins og BB) líta verr út.
Að þessu sögðu er ég sammála Birni um það að undarlegt sé ,,að enginn opinber, innlendur aðili hafi tekið saman greinargerð um efni sáttmálans til opinberrar kynningar og umræðna hér." Ég er líka sammála honum um það að skortur á vönduðum upplýsingum magni upp margvíslegar ranghugmyndir um efnið.
Öfugt við Björn er ég ekki viss um að best sé að ,,opinber, innlendur aðili" sé best til þess fallinn að greina stöðuna. Ástæðan er sú að ég hef ekki lengur sömu tröllatrú á ,,hinu opinbera" og Björn Bjarnason. Öfugt við hann hef ég raunar heldur ekki sömu blindu trúna á miðstýrðu valdi og hann virðist hafa. Grein BB í dag bendir til að hann leggi algjöran trúnað á það sem fram kemur í opinberum kynningum WHO. Slík trú á miðstýrt vald á meira skylt við einveldisstjórn og trúarhita en gagnrýna, vísindalega hugsun og lýðræði.
Hið opinbera hefur brugðist almenningi margvíslega á liðnum árum með ofríki, yfirgangi og skefjalausri valdbeitingu, m.a. með því að kalla sjálfsagðar efasemdir ,,samsæriskenningar". Um hið síðastnefnda nægir að nefna grímuskyldu, fjarlægðarmörk, bólusetningar barna, um náttúrulegt ónæmi o.fl., en í öllum þessum tilvikum hafa fyrri staðhæfingar ,,hins opinbera" verið hraktar með vísindalegum rökum.
Hollusta Björns Bjarnasonar o.fl. við miðstýrða útgáfu ,,hins opinbera" af ,,sannleikanum" minnir óþægilega á andmælendur Galileos sem neituðu að lesa eða rökræða um gagnrökin og lögðu allt sitt traust á ,,opinbera" embættismenn, sérfræðinga ,,hins opinbera" og nú niðurstöður spilltra lyfjarisa, sem náð hafa hreðjataki á ,,frjálsum" fjölmiðlum og stjórnsýslustofnunum "hins opinbera".
E.S. Þegar ég kveð þessa jarðvist mun ég vafalaust íhuga alvarlega hvernig ég kom mér í þá óöfundsverðu stöðu að vera í hlutverki hrópandans í eyðimörkinni, í andófi við samferðamenn sem halda um valdatauma og stýra framgangi manna í embætti og stöður, en úr því að BB lýsir eftir því að unnin verði greinargerð um efni hins nýja WHO sáttmála, þá get ég boðið mig fram í það verkefni. Áhugamenn um slíkt gætu sýnt stuðning sinn í verki með því að leggja inn á reikning lögmannsstofu minnar upphæð að eigin vali:
0133-26-004413
621021-1170
Þeir sem vilja leggja málstaðnum lið með þessum hætti munu fá undirritað afrit greinargerðarinnar í pósti ásamt reikningi til staðfestingar.
Bloggar | Breytt 27.11.2023 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2023 | 09:16
Prinsipplaus stjórnmál, bremsulaust vald
Ágætur samherji minn, sem stundum vill þó vera fjandvinur minn, sendi mér þau skilaboð í gær að honum þætti ég hafa ,,ákaflega þröngan og allt að því kjánalegan skilning á eðli flokkastjórnmála". Svar mitt var á þá leið að ef það ef telst ,,þröngur" og ,,allt að því kjánalegur" skilningur á stjórnmálum að halda að menn eigi að framfylgja þeim stefnumálum sem þeir hafa gefið sig út fyrir að aðhyllast ... og ef upp er runninn sá tími að flokkastjórnmál í ,,víðum skilningi" gefi mönnum heimild til að víkja frá grunnstefnumálum síns flokks og kasta öllu í hrærivélarskál til að baka klessuköku undir merkjum ,,nútímalegra stjórnmála", þá kalla ég það óheilindi, fals og svik við kjósendur. Stjórnmál sem leyfa slíkt eru þá ekki annað en sviðsetning, þar sem menn leika hlutverk til að ganga í augu kjósenda, skjóta hvern annan með púðurskotum og heyja gervi-stríð, en hlæja svo saman á bak við tjöldin og rækta þar sameiginlega hagsmuni með því að belgja út lífeyrisréttindi, setja menn í nefndir og ráð, skipa í sendiherrastöður o.fl. Kannski er þessi "víði" skilningur betur í takt við raunveruleikann, en hann er óþolandi í augum allra þeirra sem hafa séð ljótleikann á bak við tjöldin - og þeim fer ört fjölgandi. Hinn víði skilningur mun verða kallaður sínu rétta nafni áður en langt um líður.
Hinn ,,víði skilningur" hefur leitt íslensk stjórnmál út á glapstigu, þar sem prinsipp skipta ekki lengur máli, þar sem hækkun skatta er samþykkt án umræðu og án andmæla, þar sem ríkið belgist út með hverjum deginum sem líður, þar sem ríkisstarfsmönnum fjölgar en þjónustan versnar, þar sem almenningur og smærri fyrirtæki eru skattpínd, en stórfyrirtæki beita lobbýisma og lagaklækjum til skattasniðgöngu, þar sem stjórnvöld reisa varnarmúra (jafnvel í bókstaflegum skilningi) utan um stórfyrirtæki fyrir almannafé, veita grindvískum fyrirtækjum rúmar heimildir til að bjarga eignum sínum en skammta venjulegu fólki 5 mínútur undir eftirliti til að vitja um eignir sínar og heimili.
Allt framangreint má kalla ávextina af verkum núverandi vinstri stjórnar: Við þekkjum tré af ávextinum og mennina af verkum þeirra. Þegar kemur að næstu kosningum munu Íslendingar hafa val um marga vinstri flokka sem aðhyllast valdboð og stjórnlyndi. Með sama hætti munu Íslendingar geta valið milli framboðslista þar sem menn eru sammála um að jörðin sé að soðna, að karlar geti breytt sér í konur og að framtíðarhagsmunir íslensku þjóðarinnar séu best geymdir í höndum umboðslausra embættismanna í erlendum borgum. Hver sem vogar sér að efast um framangreint og vill beita gagnrýninni hugsun, verja frjálsa tjáningu, hver sem leggur til að settar verði bremsur á handhafa ríkisvalds, hver sem vill ekki að lyfjafyrirtæki stjórni því hvaða lyf við tökum, hver sem leyfir sér að halda að daglegt líf í landinu gangi betur ef almenningur ræður sinni för fremur en að lúta sérfræðingastjórn, slíkur maður er úthrópaður með öllum þeim illyrðum sem ,,einflokkurinn", fjölmiðlamenn og alþjóðlegir valdboðssinnar treysta sér til að klína á hann.
Kæru Íslendingar, næst þegar frambjóðendur mæta okkur með gylliboðum og útprentuðum stefnuskrám, þá ættum við að staldra við, spyrja og íhuga hvað við erum í reynd að kjósa, því það er að líkindum eitthvað allt annað en lofað er. Ég get því ekki annað en ítrekað þá lýsingu að þetta séu óheilindi, fals og svik við kjósendur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.11.2023 | 10:57
Stjórnmálaflokkarnir þurfa fleiri gagnrýnisraddir, ekki færri
Í þessari frétt á Vísi furðar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sig á því að ,,varaþingmaður sækist eftir því sérstaklega að taka sæti á þingi fyrir flokk sem hann hefur sagt opinberlega að muni leggja sitt að mörkum til að útrýma þeim flokki. En hann verður að eiga það við sjálfan sig.
Hér kýs þingflokksformaðurinn að slíta orð mín úr samhengi, en samhengið má heyra hér. Í tilvísuðu viðtali í sagðist ég hafa áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn væri í tilvistarkreppu og hefði með hægum skrefum breyst í eitthvað annað en honum er ætlað að vera. Ég vísaði til þess að Sjálfstæðisfokkurinn hefði mikilvægu, sögulegu, menningarlegu og lagalegu hlutverki að gegna sem forysta flokksins hefði hörfað undan í seinni tíð. Rifja þurfi upp hverjar skuldbindingar Sjálfstæðismanna eru við fortíð, samtíð og framtíð. Læra þurfi af biturri reynslu fyrri kynslóða sem bjuggu hér við undirokun, kúgun og arðrán. Ég sagði að við ættum ekki að selja Ísland í hendurnar á erlendu valdi eða erlendum stórfyrirtækjum sem telja sig ekki hafa neinar skuldbindingar við land og þjóð og hirða ekki um velferð fólksins sem hér býr.
Við eigum ekki að skattleggja fólk í drep eins og búið er að gera, við eigum ekki að þenja ríkið út eins og búið er að gera, við eigum að draga úr þessu eftirlitsbulli. Við eigum að ráða okkar eigin för. Við eigum ekki að afsaka okkur með því að segja að við séum skuldbundin af því að gera hitt og þetta.
Sjálfstæðisflokkurinn á að standa undir nafni sem Sjálfstæðisflokkur. Það er að segja stjórnmálahreyfing sem að ver hér það dýrmætasta, sem er frelsi okkar sem einstaklinga og sjálfstæði okkar sem þjóðar og sjálfsákvörðunarrétt okkar þannig að við séum þjóð á meðal þjóða, en að við séum ekki tuskuð til og séum ekki eins og strengjabrúður í bandi erlendra valdhafa sem Íslendingar hafa ekki veitt lýðræðislegt umboð: Þetta er skrifræðisbákn sem þenur sig út með hverjum deginum sem líður, íþyngir hér íslensku atvinnulífi, er farið að skattleggja okkur í þokkabót. Ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn snarhætti allri þjónkun við þetta fyrirbæri og fari þess í stað að þjóna hér íslenskum almenningi. Þetta væri það sem hann á að gera. Ef hann gerir það ekki þá skal ég, leggja mitt af mörkum til þess að útrýma Sjálfstæðisflokknum ef þess þarf.
Við þessi orð bætti ég að ,,fram að því ætla ég að vinna innan Sjálfstæðisflokksins svo það komi líka fram", því best væri að Sjálfstæðisflokkurinn stæði undir nafni og verji þau gildi sem honum er ætlað að verja en sé ekki bara notaður sem pólitískur stökkpallur fyrir fólk sem trúir ekki á hugsjónir Sjálfstæðisstefnunnar og vill beina flokknum inn á brautir sem honum var aldrei ætlað að vera á, t.d. með því að vinna að framsali íslensks ríkisvalds úr landi og m.a. lagasetningarvald til Brussel.
Gagnrýni mín á Sjálfstæðisflokkinn á fullan rétt á sér, því miður, því flokkurinn hefur villst af leið. Sambærilega gagnrýni ætti að setja fram á hina þingflokkana, sem allir eru villuráfandi og þjóna sjálfum sér fremur en almenningi. Þannig fæ ég t.d. ekki séð að Framsóknarflokkurinn sé sannur og góður málsvari bænda, sem lepja nú dauðann úr skel. Samfylkingin hefur ekki verið málsvari vinnandi stétta, heldur fyrst og fremst háskólaborgara og opinberra starfsmanna. VG hefur ekki verið málsvari friðar. Píratar hafa umbreyst í mesta kerfis- og formhyggjuflokk Íslands. Upptalningin gæti verið lengri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2023 | 11:41
Lítum okkur nær
Í ágætri Morgunblaðsgrein sinni í dag fjallar Óli Björn Kárason um pólitíska arfleifð John F. Kennedy og spyr: ,,Hvar eru arftakarnir?" ,,Hvar eru arftakar Kennedys, Reagans og Lincolns? Hvar eru stjórnmálamennirnir sem berjast fyrir hugsjónum? Hvar eru stjórnmálamennirnir sem hafna smánun, slaufun, árásargirni og lýðhyggju? Hvar eru kjósendur sem vilja forseta með skýra framtíðarsýn sem sameinar í stað þess að sundra? Hvers vegna á 340 milljóna þjóð ekki aðra og betri valkosti en Joe Biden og Donald Trump?"
Því er til að svara að bandarískan þjóðin hefur betri valkost: Robert F. Kennedy yngri, sem er í framboði til embættis forseta þar í landi og heldur á lofti hugsjónum föður síns, RFK eldri, og föðurbróður. RFK er ærlegur maður sem hefur sýnt mikið pólitískt hugrekki í baráttu sinni gegn því sem ÓBK lýsir sem ,,vélvæddum stjórnmálum" [...] sem stjórnað er ,,af atvinnustjórnmálamönnum og almannatenglum." Orð í þessum anda skrifaði ég beint eftir RFK á fundi með honum fyrr í þessum mánuði, sjá mynd.
Þegar hlustað er á ræður John F. Kennedy, þá enduróma þar hugsjónir hinnar klassísku sjálfstæðisstefnu um að maðurinn sé fæddur til að vera ,,frjáls og sjálfstæður" (e. free and independent), um lýðræðislega stjórnarhætti, um lága skatta, um baráttuna gegn alræðisöflum, um samvinnu frjálsra þjóða á jafnræðisgrunni o.s.frv. Í forsetaframboði sínu hefur RFK fylgt samvisku sinni í baráttu við hergagnaiðnaðinn og lyfjaiðnaðinn sem hafa náð kverkataki á stjórnarstofnunum og fjölmiðlum í Bandaríkjunum. Þessa staðfestu sína hefur RFK goldið því verði að hafa verið gerður útlægur úr flokki föður síns og föðurbróður, enda lýsir ÓBK því rétt í grein sinni að Demókrataflokkurinn er orðinn ,,þjakaður af pólitískri rétthugsun og sósíalisma."
En ef horft er á framgöngu þingflokks Sjálfstæðisflokksins nú, væri þá ósanngjarnt að segja að hann sé einnig þjakaður af pólitískri rétthugsun og sósíalisma? Hefur flokkurinn staðið nægilega dyggan vörð um lýðræðislega stjórnarhætti hér á landi eða hvaða sögu segir stuðningur þingflokksins við frumvarp um bókun 35 sem lagt var fram á síðasta þingi? Hefur flokkurinn staðið gegn skattahækkunum? Hefur hann staðið nægilega dyggan vörð um tjáningarfrelsið? Hefur hann verið málsvari frjálslyndis í baráttunni gegn hin ágengu stjórnlyndisöfl sem sækja að okkur bæði innanlands og erlendis frá? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn áhuga á að fá til liðs við sig fólk sem vill berjast fyrir hugsjónum þessa flokks ... eða eru slíkir menn of óþægilegir fyrir atvinnustjórnmálamennina og almannatenglana sem stjórna flokknum? Hafa kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komið til varnar þeim sem hafna smánun, slaufun, árásargirni og lýðhyggju?
Kannski hef ég verið of leiðinlegur / of hvass við kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í gagngjald hef ég fengið þau skilaboð að mér verði aldrei hleypt aftur inn á Alþingi sem varamanni. Slík útilokun er léttvæg þegar hún er lögð á á vogarskálar samvisku, sannfæringar og innri heilinda. En að því sögðu óska ég Sjálfstæðisflokknum alls góðs og bind enn vonir við að allt það góða fólk sem þar er finni hjá sér styrk til að rísa undir merkjum flokksins og vera ,,arftakar Kennedys, Reagans og Lincolns".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2023 | 21:52
Hjarðhugsun og sjálfsritskoðun eru hættulegri en frjáls skoðanaskipti
Einar S. Hálfdánarson skrifar þessa beittu grein í Morgunblaðið í dag. Við Einar erum ekki alltaf sammála, en ég fagna hverri grein sem hann skrifar, því Einar talar hreint út, kemur hreint fram, lætur ekki aðra hugsa fyrir sig og fer ekki í felur með sjálfan sig, enda þarf hann þess ekki.
Grein Einars beinir kastljósinu að því hvernig Háskóli Íslands, eins og margir aðrir háskólar í hinum vestræna heimi, hefur orðið gróðrarstía pólitískrar rétthugsunar og hjarðhugsunar, þar sem fólk sem samkvæmt ráðningarsamningi þiggur laun fyrir að hugsa, kýs að hugsa ekki, heldur bergmála skoðanir hvers annars. Þessi hugsanaleti fer saman við útbreidda andstöðu fræðimanna við frjálsa tjáningu. Sjálfur hef ég lýst háskólaumhverfinu sem ,,mónó-menningu" þar sem aðeins ein skoðun er samþykkt á hverjum tíma og kaffistofumenningin miðar að því að kæfa önnur sjónarmið. Í menningarátökum nútímans er fyrirfram líklegt að akademískir starfsmenn háskóla hafi óhagganlegar og einsleitar skoðanir. Yfirlýsing þessara rúmlega 300 starfsmanna HÍ veitir óþægilega innsýn í heim fólks sem á að kenna nemendum gagnrýna hugsun en iðkar sjálft ekki slíka hugsun, því heimsmynd þeirra er svarthvít og ofureinfölduð. Efasemdir eru ekki vel þokkaðar í þessum heimi, því fílabeinsturn fræðanna er ekki nógu stöðugur til að þola ágjöf í formi spurninga og gagnrýni.
Ef menn efast um framangreinda lýsingu mína á bergmálshellum háskólanna, þá hvet ég lesendur til að kanna þetta sjálf. Ein besta leiðin er að spyrja hvaða háskólamann sem er um manninn sem talar hér. Nafn hans virðist ekki mega nefna á nafn í fræðisetrum nútímans, kannski af sömu ástæðu og þeirri að ekki má nefna snöru í hengds manns húsi. Sókrates lýsti sjálfum sér sem ,,broddflugu" í Aþenu. JP er slík broddfluga.
Íslendingar sem læðast með veggjum og þora ekki að tjá hug sinn hefðu gott af að hlusta í þessar ca. 7 mínútur, því þarna er réttilega á það bent að sjálfsritskoðun og ótti við eigin hugsanir getur reynst okkur öllum dýrkeyptari til lengdar en frjáls tjáning. Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2023 | 18:25
Þá og nú.
Í Vestmannaeyjagosinu 1973 vaknaði fólk við að það var farið að gjósa í eynni, en allir voru rólegir og lögreglan rak ekki fólk út af heimilum sínum með offorsi á 95 sekúndum eins og gerðist í Grindavík árið 2023. Þegar amma var vakin með fréttum af gosinu, spurði hún hvort hún gæti ekki samt fengið að sofa aðeins lengur. Síðar um nóttina bakaði hún pönnukökur og fólk drakk kaffi í rólegheitum áður en gengið var niður að höfn. Þá höfðum við engan Víði og enga sérfræðinga sem vildu stjórna með kristalskúlur sem áttavita. 1973 leyfðist fólki að sýna æðruleysi í verki, mátti taka ábyrgð á sjálfu sér og pólitískar ákvarðanir voru í höndum stjórnmálamanna, ekki sérfræðinga á fagsviði þar sem tíminn er svo óræð stærð að þúsund ár geta verið sem einn dagur.
Ég hlakka til þess dags þegar Íslendingar fara að andmæla sjálfvitum á vegum Almannavarna, sem vilja ráða því hvenær fólk fær að vitja um eignir sínar og hvernig við megum nýta híbýli okkar. Áður en langt um liður munu Íslendingar horfa raunsæjum augum á geðveikina sem tók völdin hérlendis árið 2021. Einhvern tímann munu menn geta hlegið að ruglinu og óvitrænni hjarðhegðun eins og þegar almenningur hamstraði klósettpappír í stað nauðsynja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
18.11.2023 | 10:13
Andmælendur stígi fram og tjái sig
Í tveggja manna tali lýsa flokks-forystu-hollir Sjálfstæðismenn því að þeir séu ósammála mér um flest. Þessi samtöl eiga sér stað að mér fjarstöddum, en ómurinn berst mér frá móttakendum skilaboðanna, sem fá engar skýringar á því hvar þessi skoðanamunur liggur. Þetta er samskiptamáti 21. aldar, þar sem óheilindi, tvískinnungur og fagurgali þykja vel til framapots fallin. Á slíkum tímum veigra metnaðargjarnir menn sér ekki við að tala þvert gegn sannfæringu sinni og brjóta gegn sannfæringu sinni og samvisku. Á slíkum tímum læðist heiðarlegt, grandvart og friðsamt fólk með veggjum til að halda starfi sínu og til að forðast athygli.
Sjálfstæðisflokkurinn er sagður vera breiðfylking fólks með sömu lífssýn. En þegar menn segjast vera ósammála mér um flest væri æskilegt að viðkomandi gætu hert sig upp í að lýsa því beint í mín eyru eða á opinberum vettvangi í stað þess að tala í hálfkveðnum vísum á bak við þann sem um er rætt.
Hvað sameinar Sjálfstæðismenn nú á tímum og um hvað er deilt? Menn væru í betri stöðu til að svara því ef landsfundur, flokksráðsfundur og aðrir almennir fundir væru nýttir sem vettvangur opinna skoðanaskipta. Frá því hefur verið horfið og þessi í stað tekin upp einhvers konar sovésk ,,fundaraðferð" þar sem almennir flokksmenn mega láta sér lynda að hlusta á meðan flokksforystan og flokksgæðingar tala á stóra sviðinu. Sem dæmi hef ég lýst síðasta flokksráðsfundi sem leiksýningu, þar sem allt var gert til að koma í veg fyrir að ég og aðrir fundarmenn fengjum að ávarpa fundinn og tjá sýn sem hugsanlega teldist víkja frá þeirri línu sem forystan hefði áður markað.
Að öllu þessu sögðu og með hnífasettin í bakinu er ég þakklátur þeim sem hafa komið beint framan að mér og gagnrýnt - oftast málefnalega - þau sjónarmið sem ég hef fært fram. Í svipinn dettur mér reyndar ekki annar í hug en Kristinn Hugason. Sem dæmi um það hversu heilnæm og hressandi hreinskilin skoðanaskipti eru, þá kann ég sífellt betur að meta Kristinn Hugason.
Ég rita þessar línur á laugardagsmorgni eftir að hafa í gær átt samskipti við yfirlýstan Sjálfstæðismann á fésbókarvegg mínum í gær, en sá ágæti maður hampar ,,Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna" og telur þau samrýmanleg stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Því er ég ósammála. Ég veit ekki til þess að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi veitt umboð sitt til þess að sveitarstjórnarmenn, þingmenn eða ráðherrar láti ,,Heimsmarkmið SÞ" yfirtrompa Sjálfstæðisstefnuna. Með því er verið að veita undirstofnunum og embættismönnum SÞ mikið stefnumótunar- og túlkunarvald, á kostnað lýðræðislegs aðhalds og valddreifingar, en stjórnarfarið þess í stað fært í átt til stjórnlyndis og valdboðs, án umræðu. Ef allir stjórnmálaflokkar á Íslandi og öll sveitarfélög eru farin að vinna að þessum markmiðum þá er það staðfesting á því að kosningar hérlendis séu í raun nokkurs konar leikrit, þar sem engu skiptir hvaða listi fær flest atkvæði, því stefnan hefur þegar verið mörkuð og henni verður ekki haggað hverjir svo sem kunna að setjast í bæjarstjórn / ríkisstjórn að kosningum loknum.
Málflutningur minn sl. ár miðar að því að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að Íslendingar standi vörð um sjálfstæði landsins og fullveldi þess. Í því felst nánar að við verjum hér lýðræðislega stjórnarhætti og sjálfsákvörðunarrétt sérhvers manns, höfnum þróun í átt til eftirlits- og lögregluríkis, stöndum gegn útþenslu ríkisins og höfnum valdaásælni erlendra stofnana, erlendra ríkja og yfirþjóðlegs valds. Í þessu felst að við verjum okkar eigin stjórnarskrá, sem er brjóstvörn lýðfrelsis hérlendis. Við núverandi aðstæður er sérlega brýnt að menn komi tjáningarfrelsinu til varnar, enda er það kjarni alls annars frelsis. Ég hvet þá sem treysta sér til að andmæla þessu til að stíga fram með þær skoðanir og verja þær í samtali við mig, fremur en að ástunda pískur og baknag á bak við luktar dyr. (Öllum er frjálst að rita athugasemdir hér að neðan).
E.S. Lesendum til yndisauka fylgir hér texti Páls J. Árdals með lagi Bergþóru Árnadóttur, en lag og texta má finna á hljómplötunni "Eintaki", sem kom út árið 1977, þ.e. fyrir 46 árum síðan.
Bergþóra Árnadóttir - Ráðið - YouTube
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,
og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,
en þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.
Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.
Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.
Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
17.11.2023 | 08:45
Verðtilboð á legsteinum ... eða bætt heilsa og nýtt líf með hollu og góðu gildismati?
Suma daga vakna ég og játa fyrir sjálfum mér að ég skil ekki umheiminn. Þannig leið mér eftir að hafa flett fyrstu 18 bls. Moggans í dag, þar sem m.a. má sjá:
- hvernig stjórnvöld sem þjást af loftslagskvíða og hatast við einkabílinn hafa ákveðið að senda 20.000 díselknúna vörubíla inn á jarðskjálftasvæði þar sem almennir borgarar mega ekki vera til að reisa varnargarða gegn eldgosi sem ekki er víst að verði á okkar æviskeiði, ekki er vitað hvar kemur upp og ekki er vitað hvert mun renna
- hvernig ríkið og sveitarfélög stunda það að vanmeta stofnkostnað við gæluverkefni, svo sem samgöngusáttmála, og halda rekstrarkostnaði í óvissu til að hægt sé að hleypa verkefninu af stokkunum og fjármagna restina með því að seilast í almannafé (sjá forystugrein blaðsins)
- hvernig pólitískur áttaviti fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins hefur sveiflast frá því að tala gegn skattlagningu yfir í að mæra "vitræna skattlagningu" og kalla í lok greinarinnar eftir að fólk greiði sem hæsta skatta, sýnilega í þeirri trú að ríkið kunni betur með fjármuni okkar að fara en við sjálf.
Á þessum stað gerði ég hlé á lestrinum og íhugaði að senda Sjálfstæðisflokknum ábendingu um það að það væri útsala á legsteinum í Graníthöllinni.
En svo fletti ég yfir á bls. 19 og fann þar mögulega bestu blaðagrein ársins, sem ber yfirskriftina ,,Samkvæmt sáttmála óttans" eftir Viðar Guðjohnsen ,,lyfjafræðing og sjálfstæðismann". Þessa grein þurfa allir að lesa (smellið til að stækka).
E.S. Morgunblaðinu eru færðar þakkir fyrir að vera opinn vettvangur frjálsrar umræðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2023 | 09:41
Fréttaflutningur til sölu!
Öllum sem fylgjast með ,,fréttaflutningi" RÚV má vera fyllilega ljóst að þar er ekki gætt hlutleysis. Öll þáttagerð og framsetning ber vott um hugmyndafræðilega og pólitíska slagsíðu, sem er ekkert gamanmál í ljósi þeirrar hlutleysisskyldu sem stofnunin ber.
Þeir sem fylgjast með erlendum fréttaveitum hafa árum saman getað séð bein og augljós áhrif tveggja breskra fréttaveitna á RÚV, þ.e. BBC og Guardian. Til að allrar sanngirni sé gætt vill síðuhafi geta þess að áhrif síðastnefndra tveggja fjölmiðla birtast einnig daglega á vefútgáfu Morgunblaðsins, mbl.is, sem ekki virðist lúta sama ritstjórnaraga og blaðið sjálft og notar, af óútskýrðum ástæðum, Guardian ítrekað sem aðalheimild, fremur en blöð / fréttaveitur sem aðhyllast borgaraleg gildi.
Ritstjórar, fréttastjórar, blaðamenn og dagskrárgerðarmenn á íslenskum miðlum sem allt of lengi hafa gleypt hrátt það sem kemur frá BBC og Guardian ættu að staldra við og kynna sér vandlega þessa risafrétt, sem birt er á Daily Sceptic í dag um himinháa peningastyrki Bill Gates til fjölmiðla, þar sem BBC og Guardian fá skammarverðlaunin sem hæstu styrkþegar. Fréttin byggir á ítarlegri skýrslu frá Pile sem sjá má hér og ber heitið "Clean Air", Dirty Money, Filthy Politics.
Í ljósi samræmds og einhliða fréttaflutnings síðustu ára, m.a. að mRNA lyfin séu örugg og árangursrík (e. safe and effective); að Covid-19 hafi verið stórhættuleg drepsótt; um réttmæti þess að sprauta börn með lyfjum sem tefldu heilsu þeirra í meiri hættu en C19; um orsakir loftslagsbreytinga; að jörðin sjóði; um einhliða frásagnir af stríðsatökum, þá geta lesendur vonandi séð fréttaflutning RÚV í skýrara ljósi. Þegar hulunni er svipt frá því hvernig einn auðmaður eins og BG getur með peningum keypt sér áhrif yfir helstu fréttaveitum í þeim tilgangi að hafa áhrif á skoðanamyndun almennings, t.d. með því að breiða út hræðsluáróður, rægja andstæðinga og birta einhliða umfjöllun um mikilvægustu mál, þá ætti almenningur að lesa fréttir þaðan með varúðargleraugum og leita sér upplýsinga víðar til að geta betur greint heildarmynd þess sem um er að ræða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2023 | 10:49
Á WHO að stjórna lífi okkar?
Á meðan athygli almennings beinist öll að jarðhræringum á Reykjanesi hlaðast óveðursský upp við sjóndeildarhringinn, sem enginn veitir athygli. Þegar rætt er við alþingismenn og ráðherra um þær rúmlega 300 breytingar sem verið er að gera á alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni og nýjum faraldurssáttmála WHO kemur í ljós að fáir þeirra hafa kynnt sér málið. Slíkt athugunarleysi er alvarlegt þegar haft er í huga hvílíkt valdainngrip verið er að opna hér fyrir. Í reynd er WHO að seilast til ákvörðunarvalds yfir heilbrigðismálum allra þjóða. Þetta ákvörðunarvald á að virkjast þegar nýr faraldur brestur á í líkingu við Covid-19. Við þær aðstæður á WHO að fá vald til að mæla fyrir um útgöngubann, lokun skóla, veitingastaða, fyrirtækja o.fl. Einnig á WHO að geta fyrirskipað að beita megi þvingunaraðgerðum til að framfylgja vilja valdhafa, hvort sem það snýr að skyldu til að þiggja lyfjasprautur, skyldu til að ganga með grímu o.fl.
Í farvatninu eru breytingar sem í raun munu kippa úr sambandi þeirri vernd sem borgararnir telja sig njóta gagnvart stjórnvöldum á grunni gildandi stjórnarskráa. Verið er að afhenda ríkisvald til alþjóðlegrar stofnunar án þess að mælt sé fyrir um endurskoðunarrétt, málskot, valddreifingu eða aðra vernd borgaranna. Allt er þetta réttlætt með skírskotun til ,,öryggissjónarmiða", þ.e. verið sé að gera þetta til að vernda borgarana. Á þeim grunni er sem sagt talið réttlætanlegt að skerða þau réttindi sem til skamms tíma töldust stjórnarskrárvarin.
Á alþjóðlegum fundum virðast þjóðarleiðtogar og embættismanna alþjóðlegra stofnana nú oftar koma saman til að kyssast og knúsast en að skiptast á skoðunum og verja ólíka hagsmuni. Í opinberum yfirlýsingum um framangreint mál liggur greinilega mikið á og áðurnefndar breytingar virðist þurfa að keyra í gegn á ljóshraða til að allir geti verið ,,öruggir".
Íslenskir þingmenn hafa verið áhugalausir um þessi mál, sbr. grútmáttlausa umræðu um nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra til sóttvarnalaga, sem lagt var fram á síðasta þingi og hefur að geyma tugi tilvísana til alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar. Í ljósi umfangs þessa máls er þögn þingheims með öllu óásættanleg. Um er að ræða breytingar sem myndu í framkvæmd fela í sér röskun á stjórnarskrá okkar og raska ennfremur því valdajafnvægi sem ríkja þarf í samskiptum borgaranna við handhafa opinbers valds. Hér er borgaralegt frelsi í húfi, ekkert minna.
Í fréttum er fullyrt að þjóðir muni í reynd ekki glata neinu af fullveldi sínu, en á sama tíma er verið að færa WHO óheyrilegt vald sem óljóst er hvernig farið verður með í framkvæmd. Um er að ræða völd sem beita má þegar ógn er talin steðja að almannaöryggi, en vandinn er sá að skilgreiningarvaldið er sett í hendur sömu stofnunar sem fær neyðarvaldið í sínar hendur. Slíkt fyrirkomulag er ekki góð hugmynd, því enginn á að vera dómari í eigin sök.
Stjórnarskrár voru settar af góðri ástæðu og á grunni biturrar reynslu, þ.e. til að koma böndum á valdbeitingu og verja borgarana fyrir ofríki stjórnvalda. Með þessu nýja fyrirkomulagi er verið að flytja valdið á hærra stig, þar sem menn búa ekki lengur við þær hömlur sem stjórnarskrárnar setja. Hömlulaust vald hefur í mannkynssögunni verið samheiti yfir valdamisnotkun.
Ég skora á heilbrigðisráðherra og aðra sem hugsanlega vilja styðja innleiðingu þessa nýja fyrirkomulags heilbrigðismála að sýna fram á hvaða ákvæði þessa nýja alþjóðlega regluverks eru gerð til að verja okkur fyrir slíkri misnotkun. Á fyrirhuguðum fundi mínum með heilbrigðisráðherra, sem væntanlega verður boðaður innan skamms, vænti ég þess að ráðherrann muni, e.a. með aðstoð starfsmanna ráðuneytisins, leggja fram tilvísanir sem sýna að framangreindar breytingar á alþjóðlegum reglum muni í engu raska grundvelli stjórnarskrár okkar um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, fullveldi Íslands, valddreifingu, réttarríkið, virka mannréttindavernd og tjáningarfrelsi.
Í dag, 15. nóvember 2023, er vika liðin síðan ritari ráðherra tilkynnti að mér yrði sent fundarboð á næstu dögum. Lesendur verða upplýstir um framgang málsins.
E.S. Fundarboð frá ráðherra hefur nú verið móttekið, kl. 14.30 15.11.23 vegna fundar 30.11. nk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)