Færsluflokkur: Bloggar
14.11.2023 | 09:19
Alþýðuheimspeki til ánægju og upprifjunar
Íslendingar mættu að ósekju hafa vakandi auga með því hvernig handhafar ríkisvalds nota hverja einustu ,,krísu" til að færa mörk hins opinbera stöðugt lengra inn á svið einkalífs. Þróunin er sú sama í nágrannaríkjum okkar austan hafs og vestan. Í stað þess að rikið standi vörð um persónufrelsi fólks tekur það smám saman á sig mynd eftirlits- og lögregluríkis.
Af þessu tilefni vil ég deila með lesendum nokkrum völdum gullkornum úr smiðju Guðmundar Sigurðar Jóhannssonar (1958-2018), ættfræðings og verkamanns, sem eiga brýnt erindi við þann hluta þjóðarinnar sem kýs að láta aðra hugsa fyrir sig:
- "Góðir lesendur! Snemma tók ég afstöðu [...] á móti fanatík, snobbi og smáborgarahætti, en þessar þrjár ódyggðir fylgjast æði oft að."
- "Fjöldi fólks lítur á [viðfangsefnið] frá einni og aðeins einni hlið, hinni einlitu, blindu, sauðþrjóskulegu og heimskulegu hlið fanatíkurinnar. Mörgum manninum hefur verið legið á hálsi fyrir að þjóna guðinum Bakkusi. Mín skoðun er sú að að sé engu betra að láta guð þann, er Fanatíkus er nefndur, tröllríða sér; sumir hafa reyndar kvenkennt þetta fyrirbrigði og nefnt fanatík, og eru flestir þenkjandi menn sammála um það, að hvolpur undan henni væri hvimleiður og illa í húsum hafandi. Hver maður hefur sínar skoðanir, og það er ekki nema rétt, að sá hinn sami berjist fyrir þeim, en það er þó sjálfsögð lágmarkskrafa, að menn geti rætt málin á breiðum grundvelli og litið á þau frá fleiri en einni hlið. Þetta er fanatíkusum ómögulegt, því þeir eru allir einsýnir."
- "Þessi hópur menntamanna samanstendur af afturhaldssömum og stöðnuðum einstaklingum, flestum nokkuð öldnum að árum. Þeir hafa goldið menntun sína því verði að fyllast öfugsnúnu ofurdrambi yfir henni, loka sig inni í sinni eigin skel og verða að nátttröllum í hinni öru þróun síðari ára."
- "Því miður eru þeir margir, sem trúa, að [hér má setja inn heiti ríkisstofnunar að eigin vali, innsk. AÞJ] sé hávísindaleg, óhlutdræg stofnun, sem hægt sé að byggja allt sitt traust á. Því miður er svo ekki, það meðhöndlar vísindalega vitneskju á áróðursfullan og hlutdrægan hátt, vinsar úr og birtir almenningi oftast aðeins það, sem er í samræmi við hinn fyrirfram ákveðna ,,sannleika" þeirra, sem haldnir eru fanatík. Þessu hrekklausa fólki rita ég þessa grein til vinsamlegrar ábendingar."
- "[...] en þar kom nú loks, að vilji meirihlutans náði fram að ganga þrátt fyrir að fámennur öfgahópur afturhaldssamra sérviskuþursa reri að því öllum árum að ,,haft yrði vit fyrir" almenningi í þessum efnum hér eftir sem hingað til."
- "Það má teljast dæmafár hroki og ósvífni af fólki, sem á að heita heilvita að telja sig þess umkomið ,,að hafa vit fyrir" fullorðnum lögráða meðbróður sínum í þeim sökum hvaða neysluvörur hann lætur inn fyrir sínar varir."
- "Er það mála sannast, að flestir þeir menn, sem hvað áfjáðastir eru í að ,,hafa vit fyrir" öðrum eru lítt eða ekki aflögufærir um vit. [...] Þessir menn eru sem sagt haldnir þeim kynjum að geta aldrei látið sér nægja að rækta sinn eigin garð í friði við annað fólk -- heldur virðist lífsfylling þeirra vera fólgin í að ráðskast með líf annarra. [...] Orðið valfrelsi skilja þessir menn ekki, jafnvel þótt þeir lesi það á prenti, og i tímans rás hafa þeir markvisst unnið að því að innræta fólki sektarkennd fyrir þær sakir einar, að það skuli hafa vogað sér að hafa aðrar skoðanir og breytni [...] en þeir sjálfir. [...] Það er vinsamleg ábending mín til þeirra hvort ekki sé nú orðið tímabært fyrir þá að reyna að átta sig ofurlítið á breyttum og þroskaðri hugsunarhætti fólksins í landinu og láta af bróðurgæslukomplexum og brunnbyrgingaþrugli [...]."
Heimild: Víman gefur lífinu lit (útg. á kostnað höfundar Sauðárkróki 1996)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2023 | 09:26
Vita ,,sérfræðingar ríkisins" alltaf betur en þú?
Varúð, eftirfarandi athugasemdir kunna að hafa að geyma sjónarmið sem stjórnlyndir Íslendingar vilja ekki að heyrist.
Opinberir talsmenn barnfóstru-ríkisins eru aftur mættir í fjölmiðla til að upplýsa okkur um leyfilega háttsemi. Talsmenn öryggis, sem í kófinu vildu loka okkur inni til að verja okkur fyrir ,,veirunni skæðu", hafa nú ákveðið að loka Grindvíkinga úti til að verja þá fyrir jarðhræringum. Vandinn er sá að, rétt eins og í kófinu, virðast sérfræðingar ríkisins ekki vita vel hvað þeir eru að gera og ekki hafa skýrari dómgreind en flestir Grindvíkingar sem yfirgáfu heimabyggð sína skömmu eftir að þeir voru fullvissaðir um að það þyrftu þeir ekki að gera, sbr. nánar hér á eftir.
Rétt eins og í kófinu er keyrt áfram með tilskipunum sem bera yfirbragð geðþótta fremur en yfirvegunar. Rétt eins og í kófinu spila fjölmiðlar með og skipa sér í klapplið stjórnvalda í stað þess að spyrja gagnrýnna spurninga, veita aðhald og kalla eftir meðalhófi.
Af handahófi um meðvirkni fjölmiðla má benda á að visir.is virðist hafa eytt út pínlegri frétt sem birtist 10.11. sl. þar sem Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, sagði að það væri ,,engin ástæða fyrir Grindvíkinga að fara úr bænum". Ummælin má sjá í meðfylgjandi skjáskoti og einnig í þessari frétt hér, en upprunalega fréttin virðist hafa verið sett í ,,minnisholu" í anda 1984.
Fyrir þá sem voru enn í einhverjum vafa um stöðuna 10.11. sl. þá tók Víðir af allan vafa síðar þennan dag og sagði kl. 18.43 að það væri ,,ekkert eldgos að byrja". Mér er tjáð að fæstir Grindvíkingar hafi tekið mark á þessu og notað sína eigin dómgreind, en þeir sem á fyrri stigum höfðu vanið sig á að ,,hlýða Víði" vöknuðu upp við vondan draum síðar um kvöldið, nánar tiltekið kl. 23.01, þegar neyðarstigi var lýst yfir og gefin út sú yfirlýsing að Grindavík yrði rýmd.
Ef einhverjir aðrir en sérfræðingar ríkisvaldsins hefðu gefið út svona misvísandi yfirlýsingar hefði það verið kennt við ,,upplýsingaóreiðu". Nú sakna landsmenn þess væntanlega að fjölmiðlanefnd hafi ekki stigið fram til að greina þessa framvindu með gleraugum falsfrétta, upplýsingafölsunar (e. disinformation) og rangra upplýsinga (e. misinformation). En við slíku er þó líklegast ekki að búast, því eins og Winston Smith í 1984 vita starfsmenn Fjölmiðlanefndar það sem meirihluti almennings verður raunar líka að fara að skilja, að talsmenn ríkisins hafa aldrei rangt fyrir sér (!).
Eru þetta stjórnarhættir sem Íslendingar vilja búa við í hvert sinn sem eitthvað gerist? Erum við að stefna inn í framtíð þar sem dómgreind Víðis Reynissonar og félaga á að yfirtrompa dómgreind hins almenna manns? Á sjálfsábyrgðin sér engan tilvistarrétt lengur? Áður en menn svara þessum spurningum er rétt að menn íhugi að þegar menn afsala sér sjálfsábyrgð í hendur valdhafa fylgir frelsið óhjákvæmilega með.
Frelsið er of dýru verði keypt til að það sé selt ódýrt eða gefið í blindni.
Hleypa íbúum vonandi heim til að sækja nauðsynjar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.11.2023 | 10:57
Gamaldags stjórnarfar í nýjum búningi
Þegar talað er við eldra fólk, sem man tímana tvenna, þá er iðulega rifjað upp hvernig íslenska ríkið ráðskaðist með daglegt líf landsmanna með skömmtunarseðlum, leyfisveitingum (til vildarvina), innflutningshöftum o.fl. Forræðishyggja lifði góðu lífi í skjóli innlends embættisveldis.
Með auknu frelsi í viðskiptum losnaði um heljartök ríkisvædds pólitísks valds. Ég vil ekki gera lítið úr þætti EES í því samhengi. Að því sögðu verður ekki horft fram hjá því að gagnaðili okkar í EES hefur stökkbreyst í átt til sambamdsríkis sem sÿnir æ meiri ráðstjórnartilburði með valdaásælni, valdboði, miðstýringu, útþenslustefnu, inngripum, álögum og ólýðræðislegu stjórnarfari.
Í stað þess að auka viðskiptafrelsi er nú lögð áhersla á helsi: Íslenskir embættismenn og kjörnir fulltrúar okkar leggja nú kapp á að innleiða gamaldags forsjárhyggjukerfi þar sem erlent miðstýringarvald á að koma í stað hins innlenda, sem áður var lýst. Að gömlum sið skal okkur nú gert að lúta fyrirskipunum frá Brussel um margvisleg höft, s.s. um eldsneytisnotkun, rafmagnsnotknun, kjötneyslu, búrekstur, orðaval o.fl.
Í samanburði var þá gamla kerfið skömminni skárra því við gátum þó talað við valdamennina og kosið þá burt ef með þurfti. Í nýja kerfinu eru Íslendingum ekki ætlaðir neinir slíkir möguleikar til lýðræðislegs aðhalds.
Þessa nýju haftastefnu verður að stöðva ef ekki á illa að fara.
Bloggar | Breytt 13.11.2023 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2023 | 09:37
Innri og ytri ógnir við sjálfstæði Íslands (Fyrri og seinni hluti)
Í vikunni hefur Morgunblaðið birt tvær greinar sem líta má á sem eina samhangandi heild. Umfjöllunarefnið er það sem kalla má innri og ytri ógnir við sjálfstæði Íslands.
Í seinni greininni er efnið dregið saman með eftirfarandi orðum:
Við stöndum frammi fyrir ríkisvaldi sem er um það bil að verða stjórnlaust, þar sem allar þrjár greinar ríkisvaldsins hafa teygt sig of langt. Þetta veldur slagsíðu sem mun leiða til stjórnarfarslegs hruns ef ekki verður gripið í taumana. Þetta valdafyllerí verður að stöðva og það getur enginn gert nema almenningur í þessu landi sem verður að beina geislum dagsljóss að illkynja samgróningum milli stjórnmála og hagsmunaafla; kasta af sér þrúgandi oki valdhafa sem ganga stöðugt lengra í frelsisskerðingum með útþenslu regluverks, aukinni skattlagningu, fleiri eftirlitsmyndavélum, forvirkum hlerunum o.fl. Þetta verður ekki gert utan frá, þ.e. með því að kvarta í útvarpsþáttum, á fésbókinni eða í afmælisveislum. Nei, þetta verður aðeins gert innan úr hinum pólitíska heimi, nánar tiltekið með því að skynsamt og ábyrgt fólk stígi inn á hinn pólitíska vettvang og hreinsi burt þá myglu sem of lengi hefur grafið þar um sig í loftleysi og myrkri. Hvatning til verka Hlutverk almennings/kjósenda/ íslenskrar þjóðar er annað og meira en að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti og fjármagna ríkisbáknið þess á milli með skattgreiðslum. Hlutverk okkar er að halda ríkinu í skefjum. Ríkinu er ætlað að þjóna borgurunum, en ekki öfugt. Til að þetta takist þurfa menn að virða stjórnarskrána, en ekki misvirða hana. Það er kominn tími til að við, almennir borgarar þessa lands, tökum höndum saman og sýnum í orði og verki að okkur er sannarlega annt um íslenskt lýðræði, lýðveldið okkar, sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og þann dýrmæta sjálfsákvörðunarrétt sem frelsi okkar og mannréttindi grundvallast á.
(Smellið á myndirnar til að stækka og lesa)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.11.2023 | 08:56
Hvorki fugl né fiskur
Samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu er nú kominn ,,vindhani" á kirkjuturninn á Bessastöðum, 25 árum eftir að krossinn var fjarlægður þaðan. Af ljósmyndum að dæma stendur þó vindhaninn ekki vel undir nafni, því hann ber ekkert slíkt svipmót. Hin djúpa táknmynd vindhanans er því ósýnileg á kirkjuturninum.
Á göngu um Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum veitti ég eftirtekt skreytingum á kirkjuturnum þar og kynnti mér í framhaldi táknfræðina að baki. Eftirfarandi línur eru ritaðar eftir minni en hvetja vonandi einhverja til að kafa nánar í þessi fræði.
Kúlan á turnunum (e. orb) táknar hið veraldlega vald, sem samkvæmt kristindómnum lýtur æðra valdi. Á kirkjuturnum er þetta táknað með því að kúlan er fyrir neðan kross eða hana. Hani er táknmynd sannleikans. Mynd hans skírskotar til þess hvernig Pétur afneitaði Kristi þrisvar áður en haninn gól. Þannig er haninn táknmynd hugrekkis, þ.e. þess sem snýr gegn vindum samtímans og talar gegn straumnum. Haninn sér ljósið á undan öðrum og vekur fólk sem enn sefur í myrkrinu. Á tímum allsherjarblekkinga, þar sem öllu er snúið á hvolf, hið illa kallað gott og hið góða illt, myrkur er gert að ljósi og ljós að myrkri, þá er skreytingin á kirkjuturni Bessastaða í raun kannski lýsandi fyrir menningarástand þjóðar, sem er u.þ.b. að missa sjónar á föstum lagalegum, sögulegum, trúarlegum og siðferðilegum kennileitum, ráfar um i villu, er ólæs á táknmyndir og dæmisögur og hefur því m.a. bitið í sig þá ranghugmynd að vindhaninn sé táknmynd vingulsháttar, þ.e. þess sem sveiflast með almenningsálitinu á hverjum tíma.
Í kristinni táknfræði er haninn táknmynd hugrekkis og fiskurinn táknmynd Krists, sbr. skammstöfunina PX á grísku sem samsvarar KR á latnesku.
Skreytingin á Bessastaðakirkju er því miður hvorki fugl né fiskur. Hún gefur til kynna að ekkert standi ofar veraldlegu valdi. Í sögulegu samhengi má slíkt heita hættuleg ranghugmynd sem gefið hefur valdhöfum frítt spil til að umbreyta lögum í valdbeitingartæki. Verstu alræðisríki 20. aldar voru guðlaus ríki, sem gerðu pólitíska hugmyndafræði að trúarbrögðum og gerðu leiðtoga sína að átrúnaðargoðum almennings. Í stuttu máli er allt rangt við þessa turnskreytingu, m.a.s. ártalið, því eins og fram kemur í yfirlýsingu forsetans í gær var byggingarárið ekki 1823 heldur 1796. Í fyllingu tímans verður þetta vonandi allt fært til betri vegar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.11.2023 | 13:41
Járn brýnir járn, maður brýnir mann.
Sem unglingur las ég bandaríska stjórnskipunarsögu í Denver Lutheran High School hjá minnisstæðum kennara, Dr. Lyle Schaefer. Rúmlega 30 árum síðar gafst mér tækifæri til að fara á söguslóðir og sjá hvar höfundar stjórnarskrárinnar lögðu grunninn að þeirri hugsun sem mótað hefur vestræna stjórnskipun allar götur síðan. Í þessari sögu liggja þræðir sem mótað hafa hugsun mína og skrif til þessa dags, þar á meðal um nauðsyn þess að staðinn sé þéttur vörður um tjáningarfrelsið sem er undirstaða alls annars frelsis.
Tjáningarfrelsið var umræðuefnið í þessu viðtali í Bítinu í gærmorgun.
Enginn maður, enginn flokkur, engin ríkisstjórn hefur leyfi til að taka frá okkur þennan kjarna mennskunnar, þ.e. hugsun okkar og tjáningu. Með allt framangreint í huga skrifaði ég tvær greinar á heimleiðinni, sem eru í raun ein samhangandi heild. Sú fyrri birtist í Morgunblaðinu í gær (smellið til að stækka / lesa). Sú seinni birtist væntanlega á morgun eða um helgina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.11.2023 | 12:36
Hinn almenni borgari veit sínu viti
Með hverjum deginum færist ég nær þeirri niðurstöðu að almenningur hafi næmari skilning á undirstöðum stjórnmálanna en atvinnustjórnmálamennirnir og fræðimennirnir. Eða hvernig er annars hægt að skilja þá háskalegu og varhugaverðu vegferð sem ,,sérfræðingarnir" (embættismenn, þingmenn, ráðherrar) hafa beint stjórnmálunum á með því að leggja drög að valdframsali til erlendra stofnana og óþekktra embættismanna, sbr. frumvarp um bókun 35 og frumvarp til nýrra sóttvarnalaga þar sem til stendur að framselja íslenskt ríkisvald í hendur ESB annars vegar og WHO hins vegar. Þetta eru ekki aðeins háskalegar fyrirætlanir heldur eru þær samdar í algjöru umboðsleysi, enda heimilar stjórnarskrá lýðveldisins ekki slíkt valdaframsal.
Frammi fyrir þessu ber að minna háttvirta þingmenn og hæstvirta ráðherra á að þetta vald sem nú stendur til að framselja tilheyrir ekki ráðamönnum heldur þjóðinni sjálfri.
Frjálst og sjálfstætt lýðveldi var stofnað 1944 til að verja hagsmuni borgaranna. Slík hagsmunagæsla verður að vera í höndum manna sem svara til ábyrgðar gagnvart almenningi.
Stjórn ríkisins hvílir á stjórnarskrá lýðveldisins og lýtur þeim lögmálum sem þar má finna. Stjórn Íslands á m.ö.o. ekki að ráðast af geðþótta valdhafa.
Til að verja borgarana fyrir misbeitingu ríkisvalds skiptir stjórnarskráin valdinu í þrjá hluta: Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Sveitarfélög fara einnig með sjálfstætt vald á tilteknum sviðum. Hinn sanni valdhafi er þó á hverjum tíma hinn almenni borgari, sem hefur frelsi til orða og athafna, en axlar um leið ábyrgð á þessu frelsi sínu. Valdhafar starfa í umboði borgarans, en ekki öfugt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.11.2023 | 11:13
Undirstöður sem hvorki eldgos né brennuvargar geta eyðilagt
Áhugamenn um stjórnmál og samfélagsrýni gætu haft áhuga á að lesa yfir meðfylgjandi texta sem sagt er að fundist hafi meðal niðurrifsmanna í Þýskalandi árið 1919. New York Times birti grein um skjalið árið 1970 og færði rök fyrir að það væri mögulega falsað, en 53 árum síðar er ekki annað að sjá en að niðurrifsöflin hafi staðfastlega unnið á grunni þess, bæði fyrr og síðar, m.a. með því að færa athygli almennings frá athöfnum stjórnvalda en beina þess í stað sjónum fólks að smælki og aukaatriðum.
Við lifum í samfélagi sem verðlaunar menn fyrir að segja ósatt en refsar þeim sem leitast við að segja satt. Við lifum á tímum þar sem engu er hlíft og ekkert er heilagt. En frammi fyrir ljótleika og lygi, frammi fyrir þeim sem vilja bera eld að öllu því sem borið hefur uppi siðmenningu Vesturlanda, má minna á að allt það sem telja má gott, satt og fagurt, stendur á stoðum sem eru óhagganlegar. Þetta eru stoðir sem standa af sér alla jarðskjálfta, eldgos, brennuvarga og hryðjuverkamenn. Þessar stoðir eru hinar klassísku dyggðir sem birtast um leið og óhreinindunum er sópað frá og rykið dustað af þeim, öllum til skoðunar og eftirbreytni. Þær eru viska, hófsemi, hugrekki, réttlæti, trú, von og kærleikur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2023 | 09:33
Traust byggir á því að menn svari til ábyrgðar
Til grundvallar öllu okkar daglega lífi liggur sú grundvallarforsenda að við getum borið traust til annars fólks, til fagstétta og til þeirra stofnana sem kostaðar eru úr okkar eigin vasa. Á þessum grunni tökum við okkur far með ókunnum leigubílstjóra, pöntum mat á nýjum veitingastað og greiðum skatta í trausti þess að þeir fjármunir verði nýttir á ábyrgan hátt.
Næstsíðasta orðið í fyrri setningu er hornsteinn trausts: Ábyrgð. Í heilbrigðu samfélagi svara menn til ábyrgðar fyrir orð sín og verk. Vaxandi vantraust til ríkisstofnana, sem mælt hefur verið reglulega í mörg ár, kann að skýrast (að hluta til) af því að við höfum búið til stjórnkerfi þar sem menn fara með vald án ábyrgðar. Mögulega varpar þetta ljósi á það hvernig grundvallarstofnanir ríkisins virðast, á síðustu árum, hafa snúist frá því að verja grunngildi samfélagsins yfir í að ráðast að þeim. Sérstaklega er hér verið að vísa til áranna 2020 til dags dato. Hinn Vestræni heimur virðist vera að umbreytast, án skýringa og án umræðu, úr því að vera yfirlýst vígi lýðræðis, mannréttinda og velsæmis yfir í að vegsama stjórnlyndi, ofríki, siðleysi, stríð, útilokun, hatur og sjálftöku.
íslenskt samfélag - og hinn vestræni heimur - þarf að endurvekja siðfræðilega umræðu um ábyrgð fagstétta, ábyrgð valdamanna og samfélagslegt traust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2023 | 12:10
Járnhlekkirnir færast nær og nær
Sagt er að þegar spænsku landvinningamennirnir komu til mið- og suður-Ameríku á 16. öld hafi heimamenn látið eins og þeir sæju ekki skipin þar sem þau lágu upp við landsteinana. Úr skipunum hafi Spánverjar fylgst með heimafólki spássera um án þess að svo mikið sem líta í átt til þessara furðuverka sem skipin sannarlega hlutu að vera í þeirra augum. Fyrst þegar léttabátum var skotið í land með vopnuðum mönnum hafi fólk veitt þeim beina eftirtekt, en án nokkurrar skipulagðrar varnar.
Vísbendingar eru um að nútímamenn séu í sambærilegri afneitun gagnvart þeirri uggvænlegu þróun sem greina má á sviði alþjóðastjórnmála og innlendrar lagasetningar. Í kófinu fengum við forsmekkinn að því sem koma skal í formi aðgangsstýringa, rafræns eftirlits, eftirlits- og þvingunaraðgerðum lögreglu, skerðingum á því sem þó átti að heita stjórnarskrárvarin mannréttindi (svo sem funda-, ferða og atvinnufrelsi). Ef fólk ímyndar sér enn að þetta hafi verið einangrað tilfelli sem ekki verði endurtekið, þá mæli ég með að þeir hinir sömu kynni sér þau lagafrumvörp sem nú eru í pípunum og finna má á samráðsgáttinni:
- Frumvarp til sóttvarnalaga sem hefur að geyma ráðagerðir um meiriháttar stjórnvaldsinngrip og skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti, m.a.s. um eigin líkama
- Frumvarp til breytinga á lögreglulögum sem mælir fyrir um auknar heimildir lögreglu til inngripa, m.a. um forvirkar eftirlitsheimildir án skýrra takmarkana.
Að auki ber að vekja athygli á fleiri viðvörunarljósum:
- Seðlabanki Íslands heldur áfram vinnu sinni á sviði rafeyris, en sérhvert skref í þá átt ætti að vekja umræður um persónufrelsi og þá valdbeitingarmöguleika sem rafeyrir opnar stjórnvöldum
- Rafræn auðkenning og rafræn skilríki ættu sömuleiðis að vera sjálfstæð ástæða til umræðu um hvar mennskan á sér skjól í stafrænum heimi.
- Áherslur ríkisstofnana og stjórnmálaflokka sem sóttar eru til Sameinuðu Þjóðanna og svonefndrar Agenda 2023, sem sveitarfélög og embættismenn virðast starfa grímulaust eftir, sbr. t.d. barmmerkið sem skartað er á mynd sem fylgir þessari frétt hér.
- Sóttvarnareglur WHO sem nú eru í farvatninu og veita WHO nánast einræðisvald yfir öllum aðildarþjóðum þegar næsti heimsfaraldur brestur á, með því að ákvarðanir WHO verða bindandi (ekki ráðgefandi) án þess að þjóðríkin hafi synjunarheimild eða vald til að kalla eftir endurskoðun.
Stjórnvöld færa járnhlekkina sífellt nær og það glamrar stöðugt hærra í þeim. En eins og frumbyggjarnir forðum neitar stærstur hluti almennings að líta upp og horfast í augu við stöðuna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)