Færsluflokkur: Bloggar

Það sem ekki er byggt á traustum grunni mun hrynja

Hér er upptaka af samtali mínu við Mark Crispin Miller, prófessor við New York háskólann (NYU). Upptakan er perla sem ég hef ekki viljað henda fyrir svín og því hef ég beðið í rúmlega 1 ár með að birta hana, en nú finn ég að vindarnir eru að snúast og að fólk sé nú loks móttækilegra fyrir frjálsri umræðu um atriði á borð við þau sem hér greinir:   

Síðustu ár höfum við búið við stöðugan áróður, þar sem 5 fjölþjóðleg risafyrirtæki stýra 90% af því sem við sjáum og heyrum í fjölmiðlum. Á sama tíma hafa vísindin umbreyst í kreddu sem ekki má draga í efa. Grafið hefur verið undan lýðræðislegum stjórnarháttum með skerðingum á málfrelsi og með stöðugt meiri inngripum yfirþjóðlegra stofnanna í innri málefni manna og þjóða. Í rúmlega 200 ár hefur stjórnarfar á Vesturlöndum beinst í þá átt að veita mönnum frelsi til að efast og verja svigrúm borgaranna til að tjá efasemdir sínar. Undir forystu vinstri manna hefur þessu verið snúið á hvolf og lögð áhersla á að alls ekki megi efast um hina opinberu frásögn (e. official narrative). Til að berja niður umræðu hafa efasemdamenn verið stimplaðir sem ,,samsæriskenningasmiðir". Sprautulyf gegn Covid-19 voru sett á stall og þau mátti ekki gagnrýna, að viðlagðri útskúfun úr fagstéttum lækna, blaðamanna, stjórnmálamanna, lögfræðinga o.fl. Fórnarkostnaðurinn mælist í skaða á faglegum heilindum og samfélagslegu trausti til þessara stétta. Áróðursvélar möluðu allan sólarhringinn með það aðalmarkmið að koma i veg fyrir rökrænt samtal. Skilaboðin voru einföld: Treystið og hlýðið! Samfélagsmiðlar voru notaðir sem hátalarar og almenningur útvarpaði áróðrinum hugsunarlaust til annarra. Í heimi þar sem ekki má efast um áróður getur lýðræði ekki þrifist. En þótt sagan sýni að lygar og ósannindi geti sigrað margar fyrstu orrusturnar þá er sagan líka til marks um að þegar lygarnar verða of stórar, illskan of greinileg og fórnarkostnaðurinn of mikill þá getur enginn mannlegur máttur komið í veg fyrir að ósannindin afhjúpist í dagsljósinu. Sannleikurinn mun sigra og menn munu hrinda af sér þeirri valdaránstilraun sem nú er yfirvofandi. Eins og í Sovétríkjunum sálugu mun allt hrynja sem stendur á ótraustum grunni - og þegar það gerist þá mun það gerast hratt. Þetta er meðal þess sem fram kemur í samtali okkar Mark Crispin Miller. Þarna er ýmislegt sagt sem hvorki ég né hlustendur þurfum að vera sammála, en þetta er frjálst samtal sem enginn skaðast af því að heyra.    

 


Hugrakkur þingmaður mælir fram viðvörunarorð

Ef lesendur þekkja ekki nú þegar nafn enska þingmannsins Andrew Bridgen þá ættu þeir að leggja það á minnið, því hann er maður sem þorir að standa með eigin sannfæringu, kiknar ekki undan hópþrýstingi og lætur ekki stjórnast af útilokunartilburðum kollega sinna á enska þinginu.

Í síðustu viku hélt hann merka ræðu í þinghúsinu til varnar þingræðinu, sjálfsákvörðunarréttinum og fullveldinu. Inntak ræðunnar eru aðvörunarorð vegna nýrra og breyttra reglna WHO. Ég hvet alla þá 62 alþingismenn íslendinga, sem ekki gáfu sér tíma til að sitja Zoom-fund minn um þessi mál í síðustu viku, til að hlusta á ræðu Bridgen. Fyrir þá sem telja tíma sínum betur varið í annað, svo sem að ferðast yfir landið til að klippa á borða, þá hvet ég menn til að lesa a.m.k. eftirfarandi málsgreinar úr niðurlagi ræðunnar, sem undirstrika að hér eru engin gamanmál á ferð: 

Lýðræðið sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut alla ævi er nú í hættu, 
en því er ekki ógnað af innrásarherjum sem koma frá fjandsamlegum þjóðum.
Nei, lýðræði okkar er ógnað vegna sýnilegrar spillingar og rotnunar ríkisstofnana okkar,
sem leyfa þessari valdatöku að gerast. Þingmenn í þessum sal ættu aldrei að gleyma því að við
erum þjónar fólksins, ekki húsbændur þess, og þjónar ættu aldrei að svíkja húsbændur sína. Að mínu mati, hver sá sem styður þessar aðgerðir WHO
— ég neita að kalla eitt þeirra samkomulag, vegna þess að ég hef ekki samþykkt það,
og ekki heldur íbúar Norðvestur-Leicestershire; Reyndar held ég að meirihluti kjósenda minna
myndi aldrei samþykkja þennan gerning – og hver þingmaður sem myndi framselja þessi völd til
jafn tortryggilegrar stofnunar og WHO á ekki skilið sæti í þessum sal eða á öðru lýðræðislegu
löggafarþingi annars staðar í heiminum. Að lokum, að jafnvel íhuga að afhenda slíkt vald til stofnana af þessu tagi, sem snerta ekki bara
lýðræðisréttindi heldur mannréttindi hvers einasta karls, konu og barns í landi okkar,
án þjóðaratkvæðagreiðslu væri ávísun á stórslys. Menn hafa sagt að þetta myndi leiða til
einhverskonar alheimsstjórnar. Reyndar er það heldur verra;
það verður alheims einræði (e. one world dictatorship). Að skrifa undir þennan sáttmála og
binda okkur við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina án nokkurrar umræðu um hann, án atkvæðagreiðslu
um hann og án þess að leita álits almennings myndi láta ESB líta út fyrir að vera lýðræðisparadís
í samanburði.


Ríkisreknir stjórnmálaflokkar hirða meir um völd en prinsipp

Síðustu daga hef ég farið víða um land til að ræða við Sjálfstæðismenn um stefnu okkar ágæta flokks. Í sameiningu höfum við leitað svara við þeirri spurningu hvort leiðin sé rétt vörðuð. Í gær var fundað um þessi mál bæði í Hveragerði og á Hvanneyri. Þetta var góður dagur. Sérstaklega var fundurinn í Hveragerði vel heppnaður, þar sem fjölmenni mætti og umræður voru mjög líflegar um þann grunn sem Sjálfstæðisflokknum er ætlað að standa á og verja.

Þegar heim var komið opnaði ég tölvuna og las færslu frá ágætum félaga mínum þess efnis að hann væri búinn að segja sig úr VG. Færslan hefst með orðunum "Prinsipplaus flokkur yfirgefinn". Við þennan lestur rifjaðist upp lýsing Dave Allen á manni sem þreifar eftir svörtum ketti í myrkvuðu herbergi. Á einhverjum tímapunkti þarf að taka þá spurningu til alvarlegrar umræðu hvort starf íslenskra stjórnmálaflokka snúist í reynd um hugsjónir þeirra eða hvort það snýst fyrst og fremst um allt annað, þ.e. að ná völdum og verja þau, manna feitar stöður í nefndum, ráðum og sjóðum, tryggja hagsmuni flokksgæðinga og standa dyggan vörð um kerfið sjálft, sem fjármagnar tilveru flokkanna. Um þetta verður ekki rætt án þess að horfast í augu við að stjórnmálaflokkarnir eru orðnir að ríkisstofnunum og að þeir hafa allir sína ,,embættismenn" á ríkislaunum, sem vilja halda sinni stöðu. Þingmenn úr fleiri en einum flokki hafa tjáð mér í tveggja manna tali að þeir séu sammála ýmsu því sem ég hef sagt, en tekið fram um leið að það gætu þeir aldrei tjáð opinberlega því þá yrðu þau útilokuð í þingflokki sínum. Slíkt má ekki henda fólk sem lítur á þingsetu sem starfsferil.

Ef það er svo að hugsjónir og ,,prinsipp" stjórnmálaflokkanna eru aðeins upp á punt þá er nauðsynlegt að kjósendur átti sig á þeirri tálmynd, því margt yrði skiljanlegra þegar þeirri hulu hefur verið svipt frá sjónum kjósenda. Þá væri hægt að skilja hvers vegna VG tekur ekki einarða afstöðu gegn stríðsrekstri, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram frumvarp um bókun 35, hvers vegna Framsóknarflokkurinn tekur ekki stígur ekki fast til jarðar til varnar íslenskum landbúnaði, hvers vegna Samfylkingu er meira umhugað um háskólamenn en hinar vinnandi stéttir, hvers vegna Píratar eru mesti kerfis-varnarflokkur á Alþingi o.s.frv. 

En þetta eru bara hugleiðingar skrifaðar í eins manns hljóði á sunnudagsmorgni. Ef einhver móðgast þá verður svo að vera. 


(Ó)stjórnmál ársins 2023

Þegar fylgst er með fréttum af ófriði, valkvæðri blindu og öfugri forgangsröðun koma eftirfarandi orð George Bernard Shaw upp í hugann: ,,Því lengur sem ég lifi, þeim mun sannfærðari verð ég um að þessi hnöttur er notaður af öðrum plánetum sem geðveikrahæli." 

Dæmi:

  • Í vikunni barst neyðarkall frá ungum bændum. Landbúnaður er undirstöðuatvinnugrein og forsenda þess að unnt sé að tala um matvælaöryggi og sjálfbærni íslenskrar þjóðar. Frammi fyrir vanda landbúnaðar mátti heyra stjórnmálamenn tala um mikilvægi aðhalds, ráðdeildar og sparnaðar og að ekki megi hleypa verðbólgunni lengra.
  • Fólk úr sömu flokkum og þeir sem þannig tala virðist þó enn vera að gæla við áætlanir um 300 milljarða (?) borgarlínu. Sömu stjórnvöld keyptu dýrasta skrifstofuhúsnæði landsins undir utanríkisráðuneytið fyrir 6 milljarða og byggja rúmlega 6000 fermetra skrifstofuhúsnæði fyrir Alþingi. Sömu stjórnvöld stunduðu stjórnlausa peningaprentun í kófinu og ýttu þar með undir verðbólguna sem nú er glímt við. Sömu stjórnvöld setja meira en 15 milljarða til hælisleitenda. Lesendur gæta bætt við þennan lista ýmsum öðrum málaflokkum þar sem fjármunir leka stjórnlaust úr ríkiskassanum.
  • Sem betur fer hafa Sjálfstæðismenn verið að vakna til lífsins um að vitleysan og óráðsían hafi gengið of langt og vonandi tekst þeim að leiðrétta stefnuna á síðari hluta kjörtímabilsins og hafa betri hemil á marxistunum sem þeir hafa valið sem sína nánustu samstarfsmenn í ríkisstjórn.

 

 


Það er ekki okkar að dæma

Í frönsku byltingunni rann slíkt æði á fólk að aftökur urðu daglegt brauð og liður í einhvers konar samfélagslegri ,,hreinsun". Hámarki (lesist: lágpunkti) var náð í tíð ,,Ógnarstjórnarinnar" 1793-1795 undir forystu Robespierre. Eftir að hann tók sæti í ,,Nefnd um almannaöryggi" í apríl 1793 krafðist hann algjörrar samstöðu. Í því skyni beitti hann mótmælendur margvíslegum hótunum, m.a. um hækkað matarverð og um beint ofbeldi. Í ræðu og riti réttlætti hann harðstjórn og alræðistilburði stjórnvalda og réðist gegn þeim sem voguðu sér að setja fram gagnrýni. Ýmsir herskáir hópar stukku á vagninn með Robespierre og kröfðust róttækari aðgerða, upprætingu kristinnar trúar og aðgerðum gegn þeim sem söfnuðu mat. Bændur urðu sérlega illa fyrir barðinu á þessum aðgerðum, sérstaklega eftir að stjórnvöld fyrirskipuðu að eignum þeirra skildi skipt milli fátækra. Framganga Robespierre í nafni byltingarinnar aflaði honum geysilegra vinsælda og hvar sem hann fór fékk hann standandi lófaklapp. En dramb er falli næst. Eftir að Byltingardómstóllinn hafði verið settur á fót til að fordæma alla andstæðinga stjórnarinnar fór andstaða við Robespierre vaxandi. Síðustu ræðu hans í áðurgreindri nefnd um almannaöryggi var fyrst tekið með lófaklappi, svo með þögn, en áður en yfir lauk snerist meirihlutinn gegn honum. Í júlí 1794 var hann handtekinn af hermönnum þingsins, leiddur fyrir dóm ásamt 21 fylgismanni sínum, þar sem þeir voru dæmdir og svo hálshöggnir við mikil fagnaðarlæti múgsins á Byltingartorginu (nú Place de Concorde) í París. 

Á Íslandi á 21. öld malar hakkavélin hvern einasta dag og stöðugt nýjum mönnum er stillt upp til aftöku. Kosturinn við Net-hakkavélina er sá að í hana má setja ekki bara lifandi menn, heldur einnig framliðna. Nú er búið að stilla þar upp manni sem í margra huga hefur nánast verið í helgra manna tölu, sr. Friðriki Friðrikssyni. Hér sem annars staðar reynir nú á þær grunnreglur sem réttarfar okkar, trú og menningararfur hvíla á. 

Dugar nafnlaus frásögn eins manns til að sakfella mann sem hefur verið látinn í áratugi og getur ekki varið sjálfan sig? Öldum saman hefur vestrænt réttarfar gengið út frá því að allir séu saklausir þar til sekt er sönnuð. Í nútímanum birist þetta í skýrum ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. MSE. Í 2. Mósebók segir: ,,Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli." 

Þegar múgurinn kallar eftir blóði stíga fram byltingarforingjar sem vilja að fordæmi Robespierre dauðhreinsa samfélagið í nafni almannaöryggis. Þetta sama fólk má vera minnugt þess að nú, eins og fyrr, er byltingin líkleg til að éta börnin sín. 

Dómharka er engin dyggð. Án þess að gera lítið úr tilfinningalegri upplifun annarra megum við varast að hrapa að ályktunum og stökkva á vagn þeirra sem lengst vilja ganga í einhvers konar samfélagslegri tiltekt. Fortíðinni verður ekki breytt. Við eigum að læra af sögunni, ekki þurrka hana út. Nær væri að huga að framtíðinni, þ.e. hvernig framtíð við viljum sjá og hvernig við viljum koma fram hvert við annað, af virðingu og kærleika. Það er því miður ekki það sem birtist á Netinu. Við getum gert betur. 


Er fókusinn á réttum stað?

Samkvæmt dagskrá Alþingis munu í dag fara fram umræður í þingsal um niðurgreiðslur nikótínlyfja o.fl. Á sama tíma halda fundarmenn á vettvangi WHO áfram að breyta og uppfæra svonefndan faraldurssáttmála WHO (e. Pandemic treaty), sem virðist eiga að búa til nýtt alþjóðlegt stjórnkerfi, þar sem vald verður afhent embættismönnum sem svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart kjósendum. Ein alvarlegasta hlið þessa máls eru áætlanir um stóraukið eftirlit og upplýsingasöfnun. Annað áhyggjuefni er rúmt svigrúm stjórnenda WHO til að lýsa yfir að faraldur sé brostinn á. Slík yfirlýsing mun veita WHO ráðstöfunarrétt yfir bæði fjármunum og bóluefnum, án þess að almenningur hafi nokkra leið til að koma böndum á þá valdbeitingu sem því fylgir. Við slíkar aðstæður stöndum við frammi fyrir hættu á alls kyns misbeitingu valds, mismunun, ritskoðun o.fl.who 1610

Eins og mál standa nú hafa einungis 3-4 þingmenn lýst áhuga á að sitja upplýsingafund um þetta nýja regluverk WHO sem felur í sér ögrun við lýðræðislega stjórnarhætti. Meðan Róm brann spilaði keisarinn á fiðlu. Vonandi verður ekki skrifað í sögubækur framtíðarinnar að á meðan öryggisventlar stjórnarskrárinnar voru aftengdir erlendis hafi íslenskir þingmenn verið uppteknir við að ræða um niðurgreiðslur nikótínlyfja. 

 

 

  


Fundarboð til þingmanna, sem dreifa má sem víðast

Í framhaldi af færslu minni nú í morgun um WHO sendi ég neðangreindan tölvupóst til allra þeirra sem nú sitja á þingi. Pósturinn var sendur kl. 14.34 í dag. Nú þegar klukkan er að verða 17.30 hefur aðeins einn maður svarað, nánar tiltekið Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sem hefur boðið mér á fund til að ræða málin. Willum Þór á að mínu mati miklar þakkir skildar fyrir þátt sinn í að vinda ofan af þeim stjórnarfarslegu óförum sem Íslendingar rötuðu í hér í kófinu. Er Willum eini sjálfstæðismaðurinn á Alþingi? Af hverju heyrist ekkert frá kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins?

Áður en dregin verður sú ályktun að alþingismenn okkar séu áhugalausir um fullveldi Íslands og þá mikilsverðu stjórnskipunarþætti sem í húfi kunna að vera, þá skora ég á alla lesendur þessarar bloggsíðu að framsenda áskorun mína til allra sem vettlingi geta valdið hérlendis með ósk um að viðkomandi sendi mér línu og óski eftir fundarboði. Eins og staðan lítur út núna er ekki nóg að menn "læki" á FB eða sitji tuðandi yfir tölvunni heima hjá sér. Hér þarf að eiga sér stað raunveruleg vakning meðal venjulegs fólks. Ekkert annað getur orðið til þess að vekja kjörna fulltrúa til meðvitundar um skyldur sínar og ábyrgð.

Hér er pósturinn sem fór til þingmanna og dreifa má sem víðast:

Ágætu alþingismenn.

Á 153. löggjafarþingi (2022-2023) lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp til sóttvarnalaga (þskj. 671 – 529. mál). Um er að ræða stjórnarfrumvarp sem fór í gegnum 1. umræðu. Í frumvarpinu er vísað til alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar alls fimmtíu og tvisvar sinnum. Á alþjóðlegu heilbrigðisþingi WHO sem fram fer í maí 2024 verða greidd atkvæði um breytingar á tilvísaðri alþjóðaheilbrigðisreglugerð. Meirihlutasamþykki dugar til að gera breytingarnar bindandi og þær munu taka gildi 12 mánuðum síðar eða 1. júní 2025, nema því aðeins að þjóðþing aðildarþjóða hafni breytingunum innan 10 mánaða.

Á sama tíma er verið að undirbúa breytingar á sáttmála WHO um heimsfaraldur (e. pandemic). Gert er ráð fyrir að þær breytingar taki gildi í nóvember 2025 að undangenginni fullgildingu aðildarríkja.

Í breytingunum felast ýmis atriði sem eru ósamrýmanleg lýðræðislegu stjórnarfari, grafa undan stjórnarskrám, afnema hömlur á stjórnvöld, innleiða ritskoðun og upplýsingastjórnun, afhenda völd til embættismanna WHO án samsvarandi ábyrgðar, og gætu falið í sér aðför að almennum mannréttindum og mannlegri reisn. Svo er að sjá sem allt þetta geti verið sett af stað með einfaldri ákvörðun æðstu stjórnar WHO um svonefnt „PHEIC“ (Public Health Emergency of International Concern). Gangi áætlanir WHO eftir mun slík ákvörðun hafa bindandi áhrif gagnvart aðildarríkum stofnunarinnar.

 

Sem fyrstu og fremstu vörslumenn stjórnarskrár lýðveldisins og þess stjórnarfars sem kennt er við frjálslynt lýðræði ber þingmönnum Íslendinga að vera vel vakandi gagnvart þeim erlendu reglum sem stjórnvöld kunna að vilja innleiða hérlendis. Því ber þingmönnum að hafa opin augu gagnvart þróun á vettvangi WHO sem miðar að því að gengisfella sjálfsákvörðunarrétt þjóða og innleiða alheimsstjórn án tilhlýðilegs aðhalds, sem rýrir fullveldisrétt aðildarríkja, er ósamrýmanlegt lýðræðislegum stjórnarháttum og innleiðir nýtt stjórnarfar sem uppfyllir ekki kröfur um stjórnskipulegt meðalhóf og grundvallarskilyrði réttarríkis um lögmæti, þrengir að tjáningarfrelsi og getur falið í sér ógn við almenn mannréttindi. Alþingi má ekki samþykkja / innleiða reglur sem hefðu slíkar afleiðingar í för með sér.

 

Hér er grafalvarleg þróun í gangi sem ráðherrar, alþingismenn, lögmenn, fjölmiðlamenn og allir áhugamenn um stjórnmál verða að þekkja til, því afskipta- og áhugaleysi er óverjanleg afstaða.

Ég býð öllum sem fræðast vilja nánar um þetta til fundar (á Netinu) síðar vikunni með James Roguski og Merryl Nass, en bæði hafi þau kynnt sér efnið mjög vel. Á tímum hjarðhugsunar og samstilltrar þagnar um alvörumál eru slíkar raddir dýrmætar og allt of sjaldgæfar. Áhugasamir geta sent mér póst á arnarthor@griffon.is Ég mun í framhaldinu senda út fundarboð með nánari tímasetningu.

 

Ég vænti þess að þingmenn sýni ofangreindu viðeigandi áhuga og óski eftir að fá að vera viðstaddir.

 

 


Fundur um WHO

Á sviði heilbrigðismála eru nú miklar breytingar í farvatninu. Þessar breytingar er verið að keyra á ógnarhraða í gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Breytingarnar eru gerðar í ört stækkandi skrefum og gert er ráð fyrir æ meiri inngripum WHO í stjórn þessara mála.  

Eins og ég les þetta nú munu breytingar sem gerðar voru hjá WHO á síðasta ári taka gildi 1. desember nk., þ.e. ef Alþingi hafnar þeim ekki. Þegar lagt er mat á stöðu Íslands í þessu samhengi er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að forsætisráðherra landsins gegnir nú jafnframt stöðu sendiherra WHO. Í því ljósi er væntanlega sérstök ástæða fyrir landsmenn að vera á varðbergi og vera upplýstir um þá þróun sem er að eiga sér stað. Við höfum ekki mikinn tíma til stefnu, því lestin brunar sífellt hraðar: Breytingar sem nú er verið að gera nú á sáttmála WHO og alþjóðaheilbrigðismálareglugerðinni munu að öllu óbreyttu taka gildi eftir aðeins 10 mánuði. Þær breytingar eru til þess fallnar að gjörbylta öllu innlendu stjórnarfari til hins verra, t.a.m. með því að afnema öryggisventla stjórnarskrárinnar þegar yfirstjórn WHO kýs að lýsa yfir PHEIC (Public Health Emergency of International Concern). 

Hér er grafalvarlegt mál á ferð sem ráðherrar, alþingismenn, lögmenn, fjölmiðlamenn og allir áhugamenn um stjórnmál verða að þekkja til, því afskipta- og áhugaleysi er óverjanleg afstaða.

Ég býð öllum sem fræðast vilja nánar um þetta til fundar (á Netinu) síðar vikunni með James Roguski og Merryl Nass, en bæði hafi þau kynnt sér efnið mjög vel. Á tímum hjarðhugsunar og samstilltrar þagnar um alvörumál eru slíkar raddir dýrmætar og allt of sjaldgæfar. Áhugasamir geta sent mér póst á arnarthor@griffon.is Ég mun í framhaldinu senda út fundarboð með nánari tímasetningu.

 


Sóknarfæri í fjármálaráðuneytinu

Frá lýðveldisstofnun hefur íslenska ríkið belgst út og sú þróun heldur áfram með hverjum deginum sem líður. Til að fjármagna útþensluna og stjórnlausa eyðslu eru stöðugt lagðir á nýir skattar. Samhliða stöðugt meira eftirliti seilast útsendarar ríkisins æ dýpra í vasa skattgreiðenda. Til að fjármagna allt það sem íslenskum stjórnmálamönnum dettur í hug að gera hafa verið búnir til fjölbreytilegustu skattstofnar. Dæmi: 

Eignaskattur, tekjuskattur, virðisaukaskattur, bifreiðagjöld, olíugjald / bensínskattur, þinglýsingagjöld, erfðaskattur, áfengisgjald, tóbaksgjald o.s.frv. Nýjasta dæmið eru svokallaðir kolefnisskattar (!). Greiðslur í verkfallssjóði mætti kannski einnig hafa á þessum lísta, í ljósi þess að sumir telja sig eiga jafnari rétt til greiðslna úr slíkum sjóðum en aðrir. 

Nýr fjármálaráðherra mun vonandi taka til hendinni í þessum efnum. Nýir vendir sópa best.  


Skólakerfið leysir foreldra, ömmur og afa ekki undan ábyrgð

Menntakerfi nútímans beinir sjónum nemenda í sívaxandi mæli að hinu jarðneska, áþreifanlega og mælanlega, en frá þeim mikilvæga þætti andlegrar tilvistar mannsins, sem fylgt hefur honum frá örófi og kenna má við hið eilífa, óbreytanlega, hið himneska og hið guðlega. 

Í þessu samhengi - og frammi fyrir sívaxandi áherslu grunnskólakennslu á hið kynræna - er ástæða til að minna á að hugtakið frjálsar menntir (e. liberal education) mótaðist með hliðsjón af því markmiði klassískrar menntunar að frelsa anda mannsins frá hinu jarðneska. Í dag er þessu öfugt farið. Kennd eru vísindi og fræði sem rígbundin eru við hið jarðneska, holdlega og efnislega. 

Hættan er sú að menn sem alist hafa upp í náttúruvísindalegu umhverfi nútímans falli á prófinu sem Snorri Sturluson vísar til í ,,Prologus" Snorra-Eddu: ,,[...] en alla hluti skildu þeir jarðlegri skilningu því þeim var ekki gefin andleg spektin."

Ef skólakerfið ætlar að bregðast nemendum að þessu leyti verða foreldrar, afar og ömmur að axla ábyrgð á uppeldishlutverki sínu og hjálpa börnum til að sjá við við erum fleira en bein og hold og blóð og hormónar. Við erum ekki bara líkamar, við erum fyrst og fremst andlegar verur sem höfum andlegan kjarna og andlegan tilgang. 

Börn hafa áhuga á eilífðarspurningunum, sem eru mikilvægustu spurningar í lífi sérhvers manns: 

1. Hvaðan komum við? 

2. Hver erum við? 

3. Hvers vegna erum við hér?

4. Hvernig ber okkur að lifa? 

5. Hvert erum við að fara?

Sem foreldrar, ömmur og afar berum við ríka ábyrgð gagnvart börnum okkar og barnabörnum. Ein af fyrstu og fremstu skyldum okkar er að hjálpa þeim að sjá heildarsamhengi tilverunnar. Það getum við gert með því að opna á samtal um þessi mál og leita svara í sameiningu í frjálsu samtali, m.a. út frá eigin lífsreynslu sem ekki verður öll skýrð með náttúrufræði og stærðfræði. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband