Færsluflokkur: Bloggar

Skólakerfið leysir foreldra, ömmur og afa ekki undan ábyrgð

Menntakerfi nútímans beinir sjónum nemenda í sívaxandi mæli að hinu jarðneska, áþreifanlega og mælanlega, en frá þeim mikilvæga þætti andlegrar tilvistar mannsins, sem fylgt hefur honum frá örófi og kenna má við hið eilífa, óbreytanlega, hið himneska og hið guðlega. 

Í þessu samhengi - og frammi fyrir sívaxandi áherslu grunnskólakennslu á hið kynræna - er ástæða til að minna á að hugtakið frjálsar menntir (e. liberal education) mótaðist með hliðsjón af því markmiði klassískrar menntunar að frelsa anda mannsins frá hinu jarðneska. Í dag er þessu öfugt farið. Kennd eru vísindi og fræði sem rígbundin eru við hið jarðneska, holdlega og efnislega. 

Hættan er sú að menn sem alist hafa upp í náttúruvísindalegu umhverfi nútímans falli á prófinu sem Snorri Sturluson vísar til í ,,Prologus" Snorra-Eddu: ,,[...] en alla hluti skildu þeir jarðlegri skilningu því þeim var ekki gefin andleg spektin."

Ef skólakerfið ætlar að bregðast nemendum að þessu leyti verða foreldrar, afar og ömmur að axla ábyrgð á uppeldishlutverki sínu og hjálpa börnum til að sjá við við erum fleira en bein og hold og blóð og hormónar. Við erum ekki bara líkamar, við erum fyrst og fremst andlegar verur sem höfum andlegan kjarna og andlegan tilgang. 

Börn hafa áhuga á eilífðarspurningunum, sem eru mikilvægustu spurningar í lífi sérhvers manns: 

1. Hvaðan komum við? 

2. Hver erum við? 

3. Hvers vegna erum við hér?

4. Hvernig ber okkur að lifa? 

5. Hvert erum við að fara?

Sem foreldrar, ömmur og afar berum við ríka ábyrgð gagnvart börnum okkar og barnabörnum. Ein af fyrstu og fremstu skyldum okkar er að hjálpa þeim að sjá heildarsamhengi tilverunnar. Það getum við gert með því að opna á samtal um þessi mál og leita svara í sameiningu í frjálsu samtali, m.a. út frá eigin lífsreynslu sem ekki verður öll skýrð með náttúrufræði og stærðfræði. 

 


Festarklettar í ólgusjó tilverunnar

Eftir fundi og ferðalög síðustu daga ætla ég að hvíla mig á umræðu um Sjálfstæðisflokkinn. Áður en ég legg þetta alveg frá mér vil ég þó birta hér eftirfarandi setningu, sem kom til mín milli draums og vöku í nótt: 

Sjálfstæðisstefnan er eins og festarklettur. Sjálfstæðisflokkurinn verður annað hvort að binda sig við hann ... eða brotna á honum.

Á allt öðrum nótum deili ég hér með lesendum þessu ljóði sem spratt upp úr andlegum fjársjóði sem opnaðist í veiðiferð sl. sumar í Aðaldal. Ljóðið mun vera eftir Steingrím Baldvinsson í Nesi (1893-1968) og þar er lýst öðru hugarfari en því sem nú svífur yfir vötnum: 

Steingrímur í Nesi


Borgaraleg skylda okkar allra

Í kvæði Jóns Helgasonar, skálds og prófessors, í Árnagarði, má finna eftirfarandi ljóðlínur: 

Vatnsfallið streymir af ókunnum öræfaleiðum,

andblærinn líður um túnið af fjarlægum heiðum,

kveiking í hugskoti handan við myrkvaða voga

hittir í sál minni tundur og glæðist í loga.

Þessar línur áttu vel við þegar ég las bókina A State of Fear eftir Lauru Dodsworth og hnaut þar um eftirfarandi línur:

I had some fear about contracting Covid, but I soon realised I was more frightened of authoritarianism than death, and more repulsed by manipulation than illness.

Orð Lauru lýstu afstöðu minni betur en mér hafði sjálfum tekist að orða. 

Þetta er sú rót sem hefur knúið mig áfram síðustu ár í þeirri viðleitni að reyna að vekja Íslendinga til meðvitundar um þá háskalegu öfugþróun sem er að eiga sér stað á stjórnarfarinu, í átt frá valddreifingu til samþjöppunar valdsins, í átt frá þingræði til sérfræðingaræðis, í átt frá lýðræði til fyrirtækjaræðis, í átt frá lýðveldi til skrifstofuveldis

Í þessum tilgangi hef ég ritað tugi greina, haldið fjölda fyrirlestra, stigið út á vettvang stjórnmálanna (nógu langt til að skynja að kjörnum fulltrúum finnst þessi umræða mjög óþægileg), talað í útvarpi, opnað blogg-síðu, haldið fundi og nú síðast: Prentað tímarit. Þetta hef ég ekki gert í fjárhagslegum tilgangi eða vegna persónulegs metnaðar, heldur vegna þess að ég tel það borgaralega skyldu að andæfa og sporna við framangreindri afturför.

Ég hef varið nógu mikilli orku í þetta til að átta mig á að nú er að verða umsnúningur, þótt sú umbreyting sé enn full hægfara. Margir eru að vakna en finna ekki hjá sér kjark til að andmæla, jafnvel ekki þegar þeim er sagt að 2+2 séu 5. En umpólunin í frelsisátt mun verða fyrr en síðar. Þá munu ofríkismennirnir sem vildu hafa vit fyrir okkur með stöðugt fleiri ,,inngripum stjórnvalda" ekki líta vel út. Sagan mun kveða upp sinn dóm. 

E.S. Hér eru upptökur frá þremur fundum sem haldnir voru á AkureyriAkranesi og í Sandgerði síðustu daga. Menn geta óhræddir hlustað / horft, því þarna er ekkert sagt sem kalla mætti ljótt eða ómálefnalegt :)

 

 


Messa í loftslagskirkjunni

Í gær, 18.10., var messað í loftslagskirkjunni í Reykjavík. Af fréttum að dæma var þetta innblásin hallelúja-samkoma sanntrúaðra á þau vísindi að heimurinn stefni fram af hengiflugi niður til heljar. Ekki er að sjá að þessi trúarbrögð leyfi kirkjudeild mótmælenda, a.m.k. virðist rödd þeirra aldrei heyrast á samkomum. Predikunarstóllinn stendur opinn innvígðum vísindaklerkum og sanntrúuðum stjórnmálamönnum. En óttist ekki, æðsti prestur (formaður vísindanefndar) boðar að bjargræðið sé í nánd: Leiðin ,,til lausnar" er sögð sú ,,núm­er eitt að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Ann­ars þarf að aðlag­ast og síðan að þola af­leiðing­arn­ar. Til að tryggja að áskor­an­ir vegna lofts­lags­breyt­inga verði ekki meiri þarf t.d. inn­grip frá stjórn­völd­um."

Inngrip frá stjórnvöldum er lykilsetningin hér. Stjórnvöld vilja nú sem sagt stjórna loftslaginu. Við slíku má kannski búast frá fólki sem vill stýra því hvernig við ferðumst milli staða, hvað við borðum í kvöldmat og hvaða orð við notum. 

Allt framanritað er viðvörun til lesenda. Alræðisríki einkennast af stjórnarfari þar sem yfirvöld vilja hafa alla stjórn á framleiðsluháttum og eignum, auk þess að stýra öllu upplýsingaflæði, viðhafa strangt eftirlit, takmarka tjáningarfrelsi, stjórna allri menntun o.s.frv.

Í alræðisríkjum er allt réttlætt með skírskotun til heildarhags (e. common good), allt er leyfilegt í þágu samfélagsins / heildarinnar. Í slíku samfélagi er einstaklingsmiðuð nálgun ekki vel séð: Einstaklingurinn er eigingjarn og honum ber að skera niður / spara / sýna aðhald / herða sultarólina / breyta lífsháttum sínum. Af því leiðir t.d. að fólk má ekki eiga stóra bíla / stór hús, ekki keyra of mikið. Til að halda fólki í skefjum leggja alræðisríki stöðugt meiri hömlur á einstaklingsfrelsið, safna stöðugt meiri upplýsingum og gera sífellt fleiri athafnir (og yfirlýsingar) refsiverðar. Í slíkum ríkjum eru andmæli illa séð og að lokum alveg bönnuð, en hlýðið og meðfærilegt fólk safnar stjörnum í kladda stjórnvalda. Okkar helsta / eina von um hjálpræði eru þá ,,leiðtogar" okkar, sem lofa raunar paradís ef við aðeins erum góð og hlýðin. Í paradís framtíðarinnar munum við ferðast um í borgarlínum, án einkabíls og hjóla um stræti Reykjavíkur á stuttbuxum í góðu veðri. 

Um allan hinn vestræna heim (og mögulega víðar) er verið að færa stjórnarfarið í þessa átt. Þetta mætti kalla valdarán sérfræðinga, embættismanna og alþjóðastofnanna, með aðstoð ógagnrýninna innlendra stjórnmálamanna sem eins og börn afsala sér völdum í hendur þessara ,,vina" sinna. Líkja má þessu við hljóðláta byltingu án blóðsúthellinga, sem er framkvæmd með þungum straumi þéttskrifaðra lagareglna, sem sendar eru í pósti og okkur er ætlað að samþykkja án umræðu, þótt reglurnar valdi því að efnahagurinn dragist saman og fyrirtækin eigi stöðugt erfiðara með að troða marvaðann í regluverksþykkninu. 

Andóf gegn þessari þróun snýst ekki um hægri og vinstri pólitík, heldur um það að verja frelsi okkar gegn þessu kæfandi valdboði. Frjálshuga fólk á að sameinast gegn stjórnlyndum sérfræðingum og stjórnmálamönnum. Að öðrum kosti verður stjórnarfarið fyrirtækjaræði að bráð, þar sem lýðræðið verður að blekkingu, kosningar að leikriti og mannréttindi að sjónhverfingu.  

 

 


Sjálfsákvörðunarréttur = Kjarni mannréttinda

Á fundum síðustu daga - í Sandgerði, á Akranesi, Akureyri, Eskifirði - hef ég fjallað um Sjálfstæðisstefnuna og hvatt fólk til að láta rödd sína heyrast, því Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eign flokksforystunnar, heldur hinna almennu flokksmanna. Margt skynsamlegt hefur verið sagt á þessum fundum og ég hef haft gagn af því að hlusta á raddir sem spretta úr jarðvegi lífsreynslu og heilbrigðrar skynsemi. Allt hefur þetta styrkt trú mína á það að kjósendur hafi óbrenglaða dómgreind og gleypi ekki hrátt allt það sem yfirvöld setja fram. Ég hitt t.d. engan sem trúir því að kynin séu 72 eða að loftslagskvótar séu gott stjórntæki. 

Á fundunum slípaðist líka ýmislegt til í mínum eigin huga. T.d. það að til grundvallar öllum þessum fínu mannréttindum sem stjórnvöld lofsama í orði (en ekki endilega í verki) liggur eitt orð: Sjálfsákvörðunarréttur. Það er okkar (en ekki yfirvalda) að ákveða það hvað við segjum, hvað við kjósum að vinna við, hvernig við ráðstöfum orku okkar, líkama okkar og hvert við förum. Án sjálfsákvörðunarréttar erum við ekki frjálsar manneskjur. En einmitt þennan rétt vilja ,,leiðtogar" okkar stöðugt skerða, nú síðustu ár í nafni umhyggju og verndar. 

Undir þeim formerkjum að vilja vernda okkur fyrir upplýsingaóreiðu vilja stjórnvöld skerða tjáningarfrelsið. Undir yfirskini umhyggju vilja þau stjórna því hvaða lyf við tökum, undir fána góðmennsku seilast stjórnvöld lengra ofan í vasann á okkur, undir merkjum friðar eru skattpeningar notaðir til að kaupa og senda vopn til annarra landa, undir merkjum viðskiptafrelsis á að framselja lagasetningarvald úr landi og skerða þannig sjálfsákvörðunarrétt íslenskrar þjóðar. Með öllu þessu er verið að skerða möguleika okkar á því að ráða okkar eigin nútíð og framtíð. 

Eftirlits- og barnfóstruríkið er orðið að ógn við borgaralegt frelsi. Frammi fyrir því verður fólk að vakna og spyrna á móti áður en það verður of seint. 


Vituð þér enn – eða hvað?

Í framhaldi af fyrri umfjöllun um bóluefnin sem stjórnvöld héldu svo stíft að almenningi síðustu ár er full ástæða til að vekja athygli á beittri grein Þorgeirs Eyjólfssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag (smellið til að stækka / lesa). Þorgeir

Samhliða því að íslenskur hjartalæknir gerir heiðarlega grein fyrir því að hann myndi mæla gegn bólusetningu ungra karla gegn Covid-19, endurbirtir Dr. Elizabeth Evans, stjórnarformaður Medical Freedom Alliance í Bretlandi þessa grein um ósiðlega auglýsingaherferð breska heilbrigðiskerfisins sem beint var að 5-11 ára börnum og þau hvött til að vera ofurhetjur og láta sprauta sig. Á sama tíma liggur fyrir að bandarísk börn eru nálapúðar lyfjafyrirtækja og fá um 70 sprautur fyrir 18 ára aldur. Frammi fyrir þessu er sláandi að sjá fréttir af aukinni tíðni einhverfu meðal bandarískra ungmenna og að 54% þeirra glími við langvinna sjúkdóma.    

Íslendingar hópuðust í bólusetningarstöðvar í góðri trú, í trausti gagnvart yfirvöldum, í góðri hópstemningu og einlægum samhug um að ráða niðurlögum ,,veirunnar skæðu." Með hverjum deginum sem líður verður sú spurning áleitnari hvort hópeflið verið reist á traustum grunni eða hvort ríkisstjórnir og lyfjafyrirtæki hafi haft fólk að ginningarfíflum. 


Fréttin sem hvarf?

Í hádegisfréttum RÚV í dag var rætt við hjartalækni sem

,,segist sennilega myndu mæla gegn því að karlmenn, 30 ára og yngri, yrðu bólusettir við COVID19 í dag.  

Tilvik hjartavöðvabólgu í kringum þriðju bólusetningina voru algengust hjá þessum aldurshópi hér á landi." Tilvitnuð orð eru beint af vef RÚV. 

Þetta má heyra bæði í yfirlitinu fremst í hádegisfréttunum og aftur í lok fréttatímans, en af einhverjum ástæðum er viðtalið sjálft ekki aðgengilegt sem hluti fréttatímans og virðist hafa verið klippt út. Ef hvarf þessa hluta fréttatímans skýrist af handvömm hjá tæknimönnum RÚV, þá hlýtur viðtalið að verða komið á sinn stað seinna í dag. Ef það gerist ekki verða menn að draga sjálfstæðar ályktanir. 

Þeir sem hafa allt sitt vit frá RÚV, vita það kannski ekki, en hjartavöðvabólga í tengslum við covid-bóluefnin hefur verið raunverulegt vandamál, sjá t.d. þessa viðurkenningu CDC í Bandaríkjunum frá júní 2021. Af handahófi má auk þess nefna þessar fréttir hérhér og hér. Eldri gerðir bóluefna höfðu ekki framkallað hjartavöðvabólgu og þegar tilkynningar fóru að berast um þetta, strax í janúar 2021, fóru yfirvöld og lyfjafyrirtæki að reyna að sópa þessu undir teppið. Varla er skyndilegt hvarf fyrrgreinds viðtals við hjartalækninn til marks um að RÚV taki þátt í slíkri þöggun? Þegar horft er til baka vekur athygli að samhliða því að fleiri og alvarlegri vísbendingar komu fram um tengsl milli covid-sprauta og hjartavöðvabólgu lækkuðu yfirvöld öryggiskröfur og leyfðu notkun þessara efna á sífellt yngri þjóðfélagshópa. Þrátt fyrir allt framangreint hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld verið í afneitun og nú í ágústmánuði sl. kom fram í máli sóttvarnalæknis, Guðrúnar Aspelund, að hún ,,þekki ekki til rann­sókna sem sýni fram á að ungt bólu­sett fólk þjá­ist af auka­verk­un­um eins og hjarta­vöðva­bólgu í meira mæli en fólk sem sýkt­ist af veirunni". Í ljósi alvarleika málsins ætti slík fáviska hjá manneskju sem gegnir ábyrgðar- og eftirlitshlutverki í þjónustu almennings að varða tafarlausum brottrekstri.

Skorað er á lesendur að setja þrýsting á RÚV þannig að draga megi viðtalið við hjartalækninn upp úr minnisholunni sem það virðist hafa verið sett í.

E.S. Minnishola er þýðing á hugtakinu memory hole, sem útskýrt er í skáldsögunni 1984, þar sem söguhetjan Winston Smith starfar við það í Sannleiksráðueytinu að láta óþægilegar fréttir hverfa. 

 


Nýtt tímarit

Hvað sem stólaskipti gærdagsins þýða fyrir framtíð Sjálfstæðisflokksins, þá binda þúsundir Íslendinga vonir við að flokkurinn rati aftur til uppruna síns úr þeirri hugmyndafræðilegu eyðimerkurgöngu sem hann hefur verið á síðustu ár. Ef mönnum er annt um pólitískan og lagalegan stöðugleika þurfa íslensk stjórnmál að eiga lýðræðissinnaðan, borgaralegan og frjálslyndan kjölfestuflokk. Með frjálslyndi er hér vísað til klassísks frjálslyndis sem ver tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi o.fl., en ekki gervifrjálslyndi nútíma vinstri manna sem vilja innleiða ritskoðun, framselja lagasetningarvald Alþingis, þenja út skrifstofuveldið, hækka skatta, auka eftirlit og lúta forsjá ólýðræðislegra, alþjóðlegra stofnana.Heimaey2

Sjálfstætt hugsandi fólk getur enn spornað gegn þessari þróun og kallað eftir endurnýjun stjórnmálanna. Í þeim tilgangi ákvað ég með stuttum fyrirvara að láta gamlan draum rætast og hefja útgáfu nýs tímarits um lög og samfélag, sem gefið verður út mánaðarlega og ber heitið Heimaey. Nafnið vísar til þess að Ísland er heimaey allra þeirra sem landið byggja, þótt það vissulega eigi sér persónulega skírskotun í mínu tilviki. Útgáfan er áframhaldandi liður í þeirri viðleitni að vekja Íslendinga til meðvitundar um varhugaverða þróun stjórnmálanna í átt til valdboðs og stjórnlyndis. Þetta er orðað með eftirfarandi hætti í greín á forsíðu blaðsins:

Valdboðsstjórn býður heim hættu á harðstjórn þeirra sem fara með mikil völd og peninga. Í stað þess að áhersla sé lögð á að halda valdinu í skefjum má nú víða sjá merki þess að valdhafar freisti þess að halda almenningi í skefjum. 

Stjórnmál nútímans eru til sýnis á leiksviði, en framvindunni er stýrt af ósýnilegum handritshöfundum sem fá miðaverðið í sinn vasa. 

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að finna aftur kennileiti sjálfstæðisstefnunnar, hætta ögra fólki með stuðningi við ólýðræðislega löggjöf og hætta að stýrast út frá hugmyndafræðilegum villuljósum. 

Fyrsta tbl. tímaritsins er helgað Sjálfstæðisstefnunni. Blaðið er 24 síður, með fáum myndum og þéttrituðum texta. Næsta tbl. mun fjalla um tjáningarfrelsið. Þeir sem vilja styðja útgáfuna / fá blaðið sent / gerast áskrifendur geta sent mér tölvupóst á arnarthor@griffon.is


Lengri göng

John Quinton, sem hlýtur að hafa verið góður húmoristi, sagði að stjórnmálamenn væru fólk, sem þegar þau sjá ljós við enda ganganna, panta lengri göng. Þessi orð komu mér í hug þegar Bjarni Benediktsson birti fallega mynd af undirgöngum fyrr í vikunni. Bjarni Benediktsson er greindur og hæfileikaríkur maður, sem ég og margir fleiri hafa bundið miklar vonir við. Ég vil leyfa mér að fullyrða að Bjarni sé í hjarta sínu sammála mörgu því sem ég hef sagt um nauðsyn þess að stefna Sjálfstæðisflokksins birtist skýrar í stjórnarframkvæmdinni, þótt honum kunni að finnast óþægilegt að heyra slíkt tal þegar hann stendur í miðri á með samstarfsfólki sem virðist ekki vilja ná þurru landi. Skilja mátti á orðum Bjarna fyrr í vikunni að afsögn úr embætti fjármálaráðherra væri honum þungbær og að honum væri brugðið. Á slíkum stundum endurhugsa menn oft sitt ráð og ástæðulaust er að útiloka að atburðir liðinnar viku kunni að fæða af sér eitthvað gott, svo sem skarpari fókus á það sem gera þarf og fyrir hverja er unnið.

Allir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa það hlutverk að bæta almannahag hérlendis, þ.e. að starfa í þágu íslensku þjóðarinnar og verja hagsmuni hennar. Þeir hafa ekki umboð kjósenda til að starfa í þágu WHO eins og forsætisráðherra hefur opinberlega skuldbundið sig til að gera. Þeir hafa heldur ekki umboð til að starfa sérstaklega í þágu hvala eins og matvælaráðherra hefur lýst yfir að hún geri. Síðast en ekki síst hafa íslenskir ráðherrar ekki umboð til að starfa í þágu ESB eins og (fráfarandi?) utanríkisráðherra hefur gert í verki með framlagningu frumvarps um bókun 35. Taki Bjarni Benediktsson við embætti utanríkisráðherra, eins og Morgunblaðið gefur í skyn í þessari forsíðufrétt sinni í dag, þá mun hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins næsta örugglega leggja bókunarfrumvarpið á hilluna og vona að það gleymist að slíkt frumvarp hafi nokkurn tímann verið lagt fram undir merkjum flokks sem tekið hefur sér það göfuga hlutverk að standa vörð um frelsi og sjálfstæði Íslands.  


mbl.is Bjarni og Þórdís skiptast á stólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rödd samviskunnar á að hljóma, ekki kafna

Með hverri vikunni sem líður dvínar traust mitt til fjölmiðla, sérfræðinga og yfirvalda sem halda því fram að við getum vart lifað ósprautuð, að kynin séu ekki tvö heldur tugir, að æviskeið úttaugaðra, offeitra nútímamanna verði 120 ár, að transkonur keppi á jafnréttisgrunni í kvennaíþróttum, að við munum sökkva í sæ, að Úkraína sé að vinna stríðið , að Justin Trudeau sé frjálslyndur og víðsýnn mannvinur, að stjórnvöld starfi í þágu tjáningarfrelsis, o.s.frv. 

Eftir því sem fleiri ósannindum er haldið að okkur og eftir því sem meira hefur verið þrengt að málfrelsinu og frjálsri skoðanamótun eykst áhugi minn á að kaupa allar eigulegar gamlar bækur sem ég kemst í tæri við. Líta má á þetta sem björgun menningarverðmæta og varðveislu þekkingar sem tapast getur í ritskoðun, minnisholum (í anda 1984) og bókabrennum framtíðarinnar. 

Í einum slíkum gullmola, gamalli alfræðiorðabók, segir að stjórn ríkis miði að því að efla almannaheill (þ.e. velsæld samfélagsins sem stjórnað er). Ríkisstjórnir hafi verið settar á fót til að koma í veg fyrir stjórnleysi, framfylgja lögum, verja borgarana, verja hina veiku gagnvart yfirgangi hinna sterku. Með ríkisvaldi sé stefnt að því að veita yfirvöldum nægilegt vald til að ná þessum markmiðum.  

Frammi fyrir því sem gengið hefur á í hinum vestræna heimi síðustu ár, þar sem alþjóðleg risafyrirtæki hafa dyggri aðstoð stjórnvalda og alþjóðastofnana valtað yfir almenning, bæði afturábak og áfram, verða menn að spyrja grundvallarspurningar: Eru þessi grundvallaratriði gleymd? Þekkja valdhafar ekki undirstöður þess hlutverks sem þeim hefur verið treyst fyrir? Halda stjórnmálamenn (og embættismenn) að stjórnarfarið snúist um þeirra eigin hag, þeirra eigin frama? Stjórnmál snúast ekki um að selja samvisku sína til að þjóna eigin hag. Þau snúast um að þjóna almannahag. Sagan sýnir að hver einasta kynslóð þarf að veita styrkt aðhald í þessum efnum. Afskipta- og áhugaleysi veldur stórslysum, fjárhagstjóni og mannskaða.  

E.S. Áhugasömum um ofangreint er bent á þennan seinni hluta viðtals míns við svissneska lögmannsinn Phillip Kruse, sem er gegnheill maður og talar bæði af þekkingu og greind. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband