Færsluflokkur: Bloggar

Lærdómur ársins 2024

  1. Inngangur

Á árinu sem er að líða gekk ég í gegnum einstæða reynslu, þ.e. að að bjóða fram í tvennum kosningum í þeirri viðleitni að vekja Íslendinga til vitundar um öfugþróun stjórnmálanna í átt til valdasamþjöppunar og valdaafsals, sem leiða munu þjóðina í fjárhagslegar og pólitískar ógöngur ef ekkert verður að gert.

Í því sem hér fer á eftir verður staldrað við góðar og slæmar hliðar þessarar reynslu. Samhliða verða dregnar upp grófar útlínur, í von um að þessir punktar geti aukið skilning og komið öðrum að gagni á síðari stigum.

  1. Sub sole, sub umbra virens (Þróttmikil í sól og í skugga)
    1. Bjarta hliðin

Í aðdraganda kosninganna gafst kostur á að tala við mikinn fjölda Íslendinga, bæði beint og óbeint (í gegnum fjölmiðla). Í kjölfarið hafa margir fundið hugrekki til að tjá sig sjálfir. Fólk sem ekki þekktist áður hefur kynnst og fundið nýjan vettvang til samvinnu og samtals. Von okkar er sú að búið sé að sá fræjum sem muni ná að spíra og bera ávöxt, þótt það taki einhver ár að spíra í hrjóstrugum íslenskum jarðvegi.

Á þessari vegferð höfum við hjónin styrkt hjónaband okkar, enda höfum við staðið saman sem einn maður. Þar hefur vissulega hjálpað að hafa kynnst öllu þessu góða fólki sem á vegi okkar hefur orðið. Við treystum því og trúum að þessi vegferð hafi verið nauðsynleg þó svo að við höfum ekki (enn) uppskorið það sem vildum sjá. En ferðin mun leiða okkur í átt að réttu marki. Á þeirri leið gildir að vera þrautseig, hugrökk og hafa þrek til að færa fram sjónarmið sem aðrir treysta sér ekki til að ávarpa.

  1. Skuggahliðin

Við höfum öll persónulega reynslu af þrautagöngu og erfiðleikum. Þjáning er forsenda skilnings. Að þekkja þjáningu eykur kærleikann til annarra sem hana þurfa að þola. Þjáning er andleg reynsla. Þjáning er ferðalag í gegnum myrkur í átt til ljóss, í gegnum þrengingar í von um frelsi, í gegnum prófraunir sem við stöndumst eða föllum á. Um leið verður okkur ljóst hvað betur hefði mátt gera, hvar við fórum út af sporinu. Okkur verður ljóst á endanum hvað var verið að prófa og við þekkjum okkur betur eftir á. Sú sjón er ekki alltaf þægileg. Freistandi getur verið að kenna öðrum um mistökin sem við gerðum. Vorum við óvarkár? Tillitslaus? Of beinskeytt? Hlustuðum við nægilega vel?

Reynslupróf af þessu tagi er í raun sérstakt í tilviki sérhvers manns og sérhverrar þjóðar. Hver og einn verður að draga sinn eigin lærdóm og meta með sjálfum sér hver rétt viðbrögð séu og hver lærdómurinn er. Þjáningin er alltaf persónuleg reynsla sem ekki er hægt að ramma inn í kreddu eða kenningu um hvernig beri að túlka og skilja. Samt má segja að í þessu leynist kjarni sem vel má draga fram og ræða. Í eldraun eins og þessari reynir á allt það sem við höfum byggt tilveru okkar á. Sumar stoðirnar bresta. Hinar sem eftir standa þarf mögulega að styrkja enn frekar. Þetta má líta á sem gagnlegt hreinsunarferli anda, sálar og líkama, þ.e. ef stefnt er að upplýsingu og uppljómun.

 

  1. Lýðræðisflokkurinn sem andóf gegn andlausri, lífvana pólitík

Hver sá sem býður sig fram til starfa á opinberum vettvangi fær fljótt að heyra þau skilaboð að hann verði að segja það sem fólkið vill heyra / segja það sem er vinsælt til að komast í stólinn sem keppt er um, en geta svo farið að sýna sitt rétta andlit þegar stólnum er náð. Slíkri ráðgjöf hlýtur heiðarlegur maður að hafna, því enginn vill ljúga sig inn á annað fólk eða ganga í augu þeirra á fölskum forsendum. Slíkt er ekki gott upphaf að hjónabandi og heldur ekki í opinberri þjónustu.

Lýðræðisflokkurinn hefur sérstöðu gagnvart öðrum flokkum því við sem stöndum að honum viljum tala af heilindum og ekki reyna að ljúga okkur inn í hjörtu fólks. Það hefur verið sérstök reynsla að heyra atvinnustjórnmálamenn segja það sem þeir telja vera vinsælt til að afla sér fylgis, verandi sjálfur meðvitaður um það að þetta sama fólk mun segja eitthvað annað þegar það er komið inn á Alþingi eða inn í ríkisstjórn. Reynslan sýnir að ekki er til vinsælda fallið að boða aðhald í ríkisrekstri og nauðsynlegan niðurskurð þegar aðrir flokkar bjóða viðbótarútgjöld upp á hundruði milljarða króna úr opinberum sjóðum. Lýðræðisflokkurinn var stofnaður til að veita slíkri pólitík viðnám og til að benda á að hérlendis er orðið til lokað pólitískt kerfi, sem stuðlar að samþjöppun valds og þjónar kerfinu fremur en fólkinu sem kerfið var stofnað til að þjóna.

  1. Lærdómurinn um íslensk stjórnmál

Þróun íslenskra stjórnmála í átt til lokaðs kerfis verður best skilin með hliðsjón af áhrifum EES samningsins.

Frá gildistöku EES samningsins árið 1994 hefur Ísland breyst úr því að vera skýrt dæmi um þjóðríki (með eigin lög, tungumál og menningu) yfir í að vera aðildarríki (með innflutt lög, ensku sem vinnumál og fjölmenningu). Í framkvæmd hefur þetta leitt til þess að stjórnmálakerfið hefur umbreyst: Lóðrétt tengsl milli innlendra valdhafa og almennra borgara hafa trosnað. Á sama tíma hafa lárétt tengsl milli valdhafa styrkst á milli landa. Afleiðingin hefur orðið sú að þrengt hefur verið að pólitískri umræðu og þess í stað er sérfræðingum (tæknikrötum) ætlað að leysa þau vandamál sem upp koma, m.a. með því að starfrækja velferðarkerfi, fletja út ójöfnuð með innheimtu skatta og útgreiðslu bóta, auk þess að stuðla að vaxandi ríkisumsvifum og ríkisafskiptum. Á þessum grunni hafa vinstri og hægri flokkar þjappað sér inn á miðjuna undir því yfirskini að þannig sé unnt að bæta lífskjör almennings. Þetta gekk ágætlega á eftirstríðsárunum, en frá og með 8. áratugnum hefur hægt á hagvexti á meginlandi Evrópu. Í viðleitni til að takast á við þetta tóku stjórnmálaflokkar bæði til vinstri og hægri upp hugmynd EB um „sameiginlegan markað“ og stórfellda einkavæðingu í von um að blása nýju lífi í efnahagsmálin. Um þetta voru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sammála í ríkisstjórninni sem sat þegar fjármálahrunið varð 2008 og um þetta eru stjórnmálaflokkarnir enn sammála á árinu 2024. Þetta er eina leiðin til að skilja áhuga Viðreisnar og Samfylkingar á ESB aðild og eina leiðin til að skilja þjónkun Sjálfstæðisflokksins við ESB, sbr. m.a. frumvarpið um bókun 35 sem síðastnefndi flokkurinn hefur ítrekað lagt fram á Alþingi.

Vandi stjórnmálanna (og þar með íslensku þjóðarinnar) er sá að ESB er lífvana, andlaust fyrirbæri, sem lýtur engu lýðræðislegu aðhaldi og þar sem skrifstofumenn, dómarar, bankamenn og forsætisráðherrar vinna, á bak við luktar dyr, að afgreiðslu mála „með einróma samþykki“. Á vettvangi ESB (og þar með EES) leysast hefðbundin stjórnmál upp, því kjörnir fulltrúar aðildarþjóða hafa ekki frumkvæðisrétt, heldur aðeins til að kjósa eða nei um tillögur sem koma frá skrifstofuveldinu. Í raun er hér orðin til ný tegund stjórnarfars þar sem línurnar eru lagðar af ósýnilegum mönnum (diplómötum, skrifstofum og æðstu embættismönnum) og stefnumörkunin í reynd tekin úr höndum kjörinna stjórnmálamanna. ESB (og þar með EES) er í raun kerfi sem lýtur fámennisstjórn. Rökræður þeirra sem þar sitja heyrast ekki opinberlega. ESB er ekki lýðræðislegt fyrirbæri og þróast raunar stöðugt lengra í átt til tækniveldis (e. technocracy) þar sem valdið verður stöðugt fjarlægara þeim sem ákvarðanir beinast að, þ.e. almenningi / kjósendum / skattgreiðendum. Á sama tíma hefur samhengi valds og ábyrgðar orðið stöðugt veikara. Þessi þróun hefur gengið það langt að valkostirnir eru orðnir skýrir: Vilja Íslendingar fórna fullveldi landsins síns í samskiptum við sífellt ágengara erlent pólitískt sambandsríki eða viljum við hafa stjórn á okkar eigin málum og hafna því að renna inn í „Bandaríki Evrópu“? Í tilviki Íslands þurfa menn að ræða heiðarlega um það hvort EES samningurinn, eins og hann hefur þróast, samræmist kröfum um lýðræðislegt stjórnarfar. Í því samhengi þarf jafnframt að ræða heiðarlega hvort útþanið regluverk EES hentar íslenskum fyrirtækjum, sem flest eru lítil á evrópskan mælikvarða; hvort ESB aðild henti smáþjóð sem þarf að beygja sig undir að ákvarðanir um fiskveiðar o.fl. komi frá Brussel og hvort upptaka Evru henti íslensku hagkerfi.

  1. Lærdómurinn um íslenskt samfélag

Við höfum lært að horfast í augu við að Ísland er klíkusamfélag, þar sem sumar klíkurnar (stjórnmálaflokkarnir) hafa gert samkomulag um að skammta sér 4 milljarða úr ríkissjóði á hverju kjörtímabili og lágmarka þannig líkur á að nýir flokkar komist á legg. Þannig er orðið til lokað pólitískt kerfi á Íslandi, þar sem allir flokkar hafa í raun runnið saman í eina stærri klíku sem sameinast um að styðja það kerfi sem að framan var lýst og um að jaðarsetja þá sem viðhafa aðra nálgun, sérstaklega hvað varðar kristileg viðmið, varðstöðu um fullveldið, lýðveldið (valddreifingu) o.fl.  Slíkar skoðanir eru að ósekju kenndar við harðlínu / öfgar og grafið er undan lögmæti þeirra (og útbreiðslu) í fjölmiðlum og á netinu.

Í klíkusamfélaginu leitast menn við að fela sig í hjörðinni, gagnrýna ekki félaga sína, síst af öllu foringjana. Í slíku andrúmslofti þrífast margs konar óhreinindi, spilling og óheilindi. Við höfum þurft að horfast í augu við þá staðreynd að ekki allir kjósendur ígrunda val sitt vel, heldur velja t.d. út frá útlitseinkennum og kynferði fremur en því sem frambjóðendur standa fyrir. Dæmi: „Ég er að hugsa um að kjósa hana því hún er með svo blítt andlit.“ / „Ég er svo heppin að ég þarf ekki að hugsa um hvern ég ætla að kjósa. Það er hefð í minni fjölskyldu að kjósa alltaf sama flokkinn.“ Á vinnustöðum er víða eitrað umhverfi þar sem fólki er ætlað að hafa tilteknar skoðanir og andmæli geta leitt til brottrekstrar. Umræðumenning er ekki nægilega langt komin þegar fólk / flokkar / skoðanir eru afgreiddar með hneykslun / flissi / sleggjudómum. Ef menn finna ekki hjá sér kjark til að tjá sig hreint út í slíku umhverfi má a.m.k. spyrja hvað hafi orðið um gildi þess að eiga opið samtal og fá að iðka gagnrýna hugsun.

Við lifum í samfélagi þar sem fylkingar takast á fremur en að við sem einstaklingar reynum að finna sameiginlegan flöt. Þetta þýðir að við erum á villigötum sem samfélag. Fylkingar nútímans eru litlu skárri en klíkur og ættbálkar fyrri tíðar. Við þurfum ekki þessa endalausu baráttu milli fylkinga, heldur jafnvægi sem byrjar hjá hverjum og einum einstaklingi. Því má spyrja: Erum við, sem einstaklingar, í jafnvægi? Þurfum við ekki að byrja á að skoða það? Merkimiðanir sem við notum (Samfylkingarmaður, Valsari, Hvergerðingur) segja ekkert um hver við erum í raun. Vitum við hver við erum á bak við alla þessa merkimiða? Ef þér finnst þetta vera erfið spurning er kannski þægilegra að leita skjóls í vinnunni, drekkja sér í verkefnum á virkum dögum og í víni um helgar, til að þurfa ekki að hugsa. Flest 10 ára börn eiga í erfiðleikum með að lýsa sjálfum sér. Fullorðið fólk á ekki mikið auðveldara með það. Hver ertu? Pípari, smiður, bókari, kennari? Nei, þú ert farvegur Guðs. Hlutverk þitt er að miðla ljósi inn í þessa myrku veröld.

Allt þetta þýðir í raun að við búum við skoðanakúgun sem er bæði sjálfskipuð og utanaðkomandi. Þetta birtist í því að fólk er hrætt við að tjá sig, óttast um afkomu sína, hræðist að falla í ónáð hjá klíkunni sem þau telja sig tilheyra. Í litlu samfélagi er gerð sú þögla krafa að menn ruggi ekki bátnum um of, heldur séu með á vagninum, með í partýinu. Lykilinn þekkja allir, þ.e. að „vera bara næs og skemmtilegur“. Vissulega er erfitt að vera einn á móti fjöldanum, en enginn maður sem vill vera heiðarlegur við sjálfa sig og aðra getur til lengdar barið niður sína innri rödd án þess að fara að lokum að fyrirlíta sjálfan sig. 

 

  1. Samantekt

Hér hafa verið nefnd stór álitamál sem tímabært er að tekin verði til heiðarlegrar umræðu. Í þeirri umræðu ber að gæta þess að kjósendur fái frið til að vega og meta andstæð sjónarmið. Í Egils-sögu (57. kap.) er því lýst hvernig sett voru upp vébönd í kringum þá sem leysa þurftu úr erfiðum álitaefnum. Véböndin gegndu því hlutverki að vernda þá sem innan þeirra voru, þannig að menn fengju frið til að hlusta, hugsa og mynda sér sjálfstæða skoðun, óáreittir. Þennan frið ber að verja með því að tryggja að fyrirtæki sem annast skoðanakannanir fari ekki að hanna skoðanir í aðdraganda kosninga. Með vísan til hinna fornu vébanda þarf að setja skýr tímatakmörk gagnvart því að birtar séu kannanir síðustu vikur fyrir kosningar.

Án þess að hér sé fjallað um hvort / hvernig skoðanakannanir fæli almenning frá því að kjósa samkvæmt sinni eigin samvisku, þá er ljóst að nýir flokkar þurfa að berjast við ofurefli ríkisrekinna stjórnmálaflokka sem gera hvað sem er til að geta haldið áfram að fjármagna sig úr vösum almennings; við atvinnustjórnmálamenn sem segja hvað sem er til að fá að halda starfinu; við að hefja á loft hugsjónir sem hafa rykfallið; við hagsmunaöfl sem vilja standa vörð um kerfið sem verndar þau; við sofandahátt þeirra sem vilja ekki vakna og taka ábyrgð á samfélagi sínu; við eiginhagsmunahyggju þar sem menn slást um að komast að veisluborði pólitískrar spillingar; við leti sem vill reiða sig á ölmusur úr ríkissjóði fremur en eigin vinnu; við undirgefni sem kýs sömu kerfisflokkana aftur og aftur. 

  1. Lokaorð

Ég og málsvarar Lýðræðisflokksins stöndum við allt sem við höfum sagt opinberlega á árinu. Málflutningur okkar grundvallaðist á ást til landsins og umhyggju fyrir framtíð íslenskrar þjóðar. Þessi grunnafstaða knúði okkur til að benda á óþægilegar staðreyndir. Þar með settum við okkur í stöðu drengsins í sögunni um Nýju fötin keisarans, sem sannarlega aflaði sér ekki vinsælda, hvorki hjá allsberum valdhafanum né hjá þeim sem í sjúklegri meðvirkni höfðu tekið þátt í veruleikafirringu fína fólksins. 

Vonandi tekst okkur aftur að finna aftur þann siðræna grunn sem heilbrigt samfélag getur staðið á, grunn klassískra dyggða og góðra gilda, sem gefur fólki þrek til að standa með sjálfu sér, verja landið sitt og allt það góða sem það hefur fóstrað í aldanna rás. Nú er runninn upp tími hvíldar og endurmats þar sem færi gefst til að horfa á þróun mála úr fjarlægð - með von um að allt fari eins vel og hægt er.

[Grein þessi birtist fyrst á www.visir.is 14.12.2024]


,,Þetta er ekki hægt ... en það verður samt að gera þetta."

Ofangreind orð komu frá einum af bestu sonum Íslands þegar við ræddum nú í haust um stofnun og framboð Lýðræðisflokksins. Já, við vissum að þetta yrði erfið sigling gegnum brimgarð ríkisrekinna stjórnmálaflokka sem auglýstu fyrir tugi milljóna; í gegnum múr ríkisstyrktra fjölmiðla; gegn innlendu og erlendu stofnanaveldi. Lýðræðisflokkurinn varð að komast á fót til að unnt væri að tjá, með skýrum hætti í kosningabaráttunni, að kjósendur geta haft áhrif og þyrftu ekki endalaust að þola ánauð spillts stjórnkerfis og fégráðugs ríkis

Lýðræðisflokkinn varð að stofna til að unnt verði að segja síðar meir að íslenskir kjósendur hafi sannarlega verið varaðir við þeirri hættu sem stöðugt nálgast: Þar sem vald og auður halda áfram að þjappast saman; þar sem íslenskir ráðamenn (nú væntanlega Alma, Víðir o.fl.) halda áfram að afhenda erlendum stofnunum (ESB, Nato, WHO, SÞ) stöðugt meiri áhrif, bæði innanlands og á sviði utanríkismála.

Hvenær mun koma að því að Íslendingar hætti að kjósa flokka (og fólk) sem þekktir eru fyrir að blekkja kjósendur með innihaldslausum loforðum? Hvenær munu Íslendingar hætta að treysta flokkum sem ítrekað hafa valdið skattgreiðendum beinu fjárhagstjóni (með mistökum og spillingu) og óbeinu (með peningaprentun til að borga vanhugsuð loforð). Hvenær munu Íslendingar hætta að kjósa flokka sem slegið hafa leyndarhjúp um mikilvæg gögn (t.d. varðandi Icesave og bóluefnakaup)? 

Með ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins eru litlar líkur á að háar skuldir ríkissjóðs (nú ca. 1800 milljarðar) verði lækkaðar, þrátt fyrir að ríkið muni halda áfram að hækka skatta og gjöld!

Framboð Lýðræðisflokksins þjónaði þvi hlutverki að skerpa athygli landsmanna gagnvart því sem fylgjast þarf með: Hvernig hulið erlent og innlent vald seilist til auðs og áhrifa, hvernig ríkisstyrktir fjölmiðlar hagræða sannleikanum í samræmi við pólitískan rétttrúnað, sem flestir stjórnmálamenn og stærstur hluti almennings endurtekur gagnrýnislaust. Dæmi: Flestir stjórnmálamenn (og kjósendur) virðast enn trúa því að átökin í Úkraínu hafi byrjað árið 2020 (en ekki 2014). Flestir trúa því sömuleiðis að sprautulyfin gegn Covid-19 hafi veitt vörn og ekki valdið umtalsverðum skaða). 

Ný ríkisstjórn mun vafalaust halda áfram að telja fólki trú um að við séum vel menntuð, frjálslynd, rík þjóð og meðal hamingjusömustu þjóða. Lýðræðisflokkurinn notaði ekki slíkan fagurgala, heldur raunsæi með því m.a. að benda á að þjóð sem státar sig af því að vera vel upplýst ætti ekki að eyðileggja heilsu sína með óheilbrigðum lífsstíl: Ef ekki verður tekið á rót vandans (guðleysi?) mun offita, kvíði, þunglyndi, félagsrof o.fl. knésetja heilbrigðiskerfið, bótakerfið og ríkissjóð.

Ein meginforsenda þess að íslenskt lýðræði geti gengið í endurnýjun lífdaga er sú að menntakerfið dragi úr kennslu og prófum sem snúast um hugsunarlausa endurtekningu. Þess í stað ber að efla gagnrýna hugsun og hvetja nemendur til að virkja hæfileika sína og sköpunarkrafta.  holtasóley

Að síðustu vil ég þakka öllum þeim sem studdu Lýðræðisflokkinn, öllum frambjóðendum fyrir hugrekkið og öllum sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt framlag þeirra í þágu hugsjónar um betri framtíð. Á fundum okkar kviknaði neisti sem halda verður lífi í fram að næstu kosningum, þegar Íslendingar verða vonandi tilbúnir að meðtaka skilaboð flokksins um frið, frelsi, líf og ljós í baráttu við öfl sem ýta undir myrkvun hugans, frelsishöft og stríð. Þessi barátta er raunveruleg og hún er eilíf. Frammi fyrir þeim hörmungum sem á ganga í heiminum, frammi fyrir þeirri illsku sem sýnileg er alls staðar, getur enginn staðið aðgerðarlaus á hliðarlínunni án þess að flekka sjálfan sig.  

Eins og allir aðrir stendur þú frammi fyrir vali, kæri lesandi. Taktu þér stöðu réttu megin. Feldu þig ekki í hjörðinni. Fylgdu ekki meirihlutanum í blindni. Hlýddu samvisku þinni og sannfæringu. Láttu ekki aðra hugsa fyrir þig: Skylda þín er ekki auðveld, en hún er skýr: Þér ber að standa vörð um það sem er saklaust, gott, fagurt og satt. 


Jörðin er þín og það sem lífið býður

Ef þú átt ró, er aðrir æðrazt hafa
og uppnám sitt og vanda kenna þér,
ef traust þín sjálfs er vaxið allra vafa,
og veiztu þó, að hann á rétt á sér,
ef kanntu í biðraun þoli þínu að halda
og þreyta án lygi tafl við grannans róg,
og láta ei heiftúð hatur endurgjalda,
en hafa lágt um dyggð og speki þó, – 

Ef draumum ann þitt hjarta og hönd þín dáðum
ef hugsun fleygri verðugt mark þú átt,
ef sigri og hrakför, blekkingunum báðum,
Þú brugðizt getur við á sama hátt,
ef sannleik þínum veiztu snápa snúa
í snörur flóna, en bugast ekki af því,
og lítur höll þíns lífs í rústamúga,
en lotnu baki hleður grunn á ný, – 

Ef treystist þú að hætta öllu í einu,
sem ævilangt þér vannst, í hæpið spil,
og tapa – og byrja á ný með ekki neinu
og nefna ei skaðann sem hann væri ei til,
ef færðu knúið hug og hönd til dáða,
er hafa bæði þegar lifað sig,
og þú átt framar yfir engu að ráða,
nema aðeins vilja, er býður: Stattu þig!  

Ef höfðingi ertu í miðjum múgsins flokki
og málstað lýðsins trúr í konungsfylgd,
ef hóf sér kunna andúð þín og þokki,
og þó ertu ávallt heill í fæð og vild,
ef hverri stund, er flughröð frá þér líður,
að fullu svarar genginn spölur þinn,
er jörðin þín og það, sem lífið býður,
og þá ertu orðinn maður, sonur minn!

Rudyard Kipling (þýð. Magnús Ásgeirsson)

If (Rudyard Kipling)

 


Árétting

Árétting í framhaldi af kappræðum á RÚV í gærkvöldi: Enginn þingmaður á Alþingi Íslendinga greiddi atkvæði gegn vopnakaupum í nafni Íslands. Örfáir þingmenn sátu hjá, en hjáseta er afstöðuleysi og jafngildir ekki því að greiða atkvæði gegn tillögu. Að því sögðu óska ég Íslendingum gleðilegs kjördags og skora á alla að taka afstöðu og tjá vilja sinn með skýrum hætti með atkvæði sínu. Þorum að standa með friði og farsæld.
Atkvæði greitt XL er atkvæði með lífi, ljósi og lýðræði, sbr. Morgunblaðsgrein mina í dag.

Samantekt um ,,Forystusætið" á RÚV í gærkvöldi

 
Frambjóðendur annarra stjórnmálaflokka tala tungum tveim og sitt með hvorri af því þeir vilja vera ATVINNUSTJÓRNMÁLAMENN. Þau hafa gleymt því að stjórnmálin eiga ekki að snúast um þá sem eru í stjórnmálum, heldur um FÓLKIÐ Í LANDINU.
Málflutningur frambjóðenda XL grundvallast á því að hér búi frjáls þjóð í frjálsu landi. Við viljum verja það sem er satt, gott og fagurt. Ég skora á fólk að kjósa með hjartanu. Ef fólk vill breytingar, þá verður það að kjósa breytingar. Lýðræðisflokkurinn hefur ekki svikið kjósendur.
 
P.S. Umhugsunarefni fyrir Íslendinga: Þáttastjórnandi setti fram lýsingu á Eldi Smára sem AÞJ kannaðist ekki við, enda mun sú lýsing ekki eiga stoð í raunveruleikanum: Eldur hefur aldrei verið handtekinn, aldrei fjarlægður af lögreglu, aldrei ráðist persónulega að fólki og ekki einu sinni fengið stöðumælasekt! Má ríkisfjölmiðill setja fram órökstuddar ásakanir með þessum hætti og vega þannig að mannorði þeirra sem ekki eru viðstaddir til að andmæla?

,,Rödd samviskunnar er lágvær en skelfilega skýr"

Á síðustu vikum hef ég sótt fleiri pólitíska fundi en ég hef áður gert á allri lífsleiðinni. Þegar fylgst er með fyrirsvarsmönnum ríkisflokkanna (sem skammta sér 4 milljarða kr. úr ríkissjóði á hverju kjörtímabili) tel ég mig geta greint betur hvernig hinn pólitíski ,,leikur" er spilaður á Íslandi: Atvinnustjórnmálamenn segja það sem þeir telja að fólkið vilji heyra. Í framkvæmd getur þetta að vísu haft þá óþægilegu myndbirtingu að fulltrúar flokkanna segja eitt á fundi um orkumál og eitthvað allt annað á fundi um náttúruvernd. En slík óheilindi virðast ekki trufla þá sem vilja vera atvinnumenn í stjórnmálum. Ekki virðist vera gerð rík krafa um það að menn séu samkvæmir sjálfum sér og blaðamenn hér á landi leggja sig ekki fram um að draga fram mismuninn á loforðunum sem gefin eru og því sem flokkarnir gera í framkvæmd. Trekk í trekk falla of margir kjósendur fyrir fallegum loforðum í stefnuskrám flokka sem áratugum saman hafa þó sýnt og sannað að þeim er ekki treystandi. 

Um þetta mætti skrifa langa ritgerð, en tímans vegna læt ég nægja að benda fólki á að bera saman málflutning stjórnmálaflokkanna á eftirfarandi fundum: 

1. Fundur Alþjóðamálastofnunar HÍ 14.11. sl. um öryggi, varnir og alþjóðasamskipti Íslands, þar sem fulltrúi Pírata (sjá 47:40) sagði að loftslagið væri að breytast (sem það er vissulega alltaf að gera) og að ríkisstjórnin þurfi að gera meira þrátt fyrir að hann segi sjálfur að óvíst sé hvort hitastig muni hækka eða lækka! Ísland á samkvæmt þessu að halda áfram að borga, jafnvel þótt Alþjóðabankinn geti ekki gert grein fyrir afdrifum 41 milljarðs USD sem greiddir hafa verið úr loftslagssjóðum síðastliðin ár.

2. Fundur Samorku 19.11. sl. þar sem flestir flokkar (nema XL) virtust mjög áhugasöm um vindorkugarða

3. Fundur Landverndar 23.11. sl. þar sem flestir flokkar (aðrir en XL) virtust hafa skipt um skoðun á vindorkugörðum. 

4. Fundur með Grindvíkingum um stöðuna þar 23.11. þar sem ástæða er til að benda fólki að hlusta vel eftir málflutningi frambjóðenda þeirra tveggja flokka (Samfylkingar og Viðreisnar) sem vilja framselja íslenskt ríkisvald til ESB. Málflutningur þessara manna gengur allur út á að hafa vit fyrir fólki. Víðir frá Samfylkingu talaði á Orwellískum nótum þegar hann sagði að ríkið þyrfti að "safna upplýsingum um börnin" okkar, á meðan XL leggur áherslu á að foreldrar og fjölskyldur eru þau sem þekkja börnin best og eru fullfær um að halda utan um þau þegar mest á reynir. Guðbrandur frá Viðreisn afhjúpaði ólýðræðislega nálgun síns flokks þegar hann sagði að við ættum að láta kerfin stjórna för (sjá mín. 1.52). Þegar ég andmælti því (mín. 1.54) brást Guðbrandur ókvæða við eins og heyra má á upptökunni. 

5. Fundur breiðfylkingar heilbrigðisstarfsfólks 22.11. sl. þar sem landlæknir og heilbrigðisráðherra eru allt í einu farin að tala um persónulegt samband í heilbrigðisþjónustu og nauðsyn þess að nýta persónulegt hæfi hvers og eins heilbrigðisstarfsmanns í samskiptum við sjúklinga og viðeigandi læknismeðferð fyrir hvern og einn, en þessir sömu ráðamenn beittu sér þó fyrir því í framkvæmd að ein ríkislausn væri notuð fyrir alla í kófinu og einni samræmdri meðferð beitt á alla með lyfjagjöf, lokunum o.fl. Sjá nánar hér.

Ég á mér þá ósk að við í Lýðræðisflokknum náum því í gegn að fólk þori að kjósa með hjartanu og láti ekki glepjast af gylliboðum atvinnustjórnmálamanna, sem kunna að spila með fólk. 

Við erum ekki af baki dottin og munum gefa allt í þetta á síðustu dögum, hjarta, lifur og lungu, en aldrei þó heilindi okkar og samvisku.

,,Rödd samviskunnar er lágvær, en skelfilega skýr" Sigurður Hallur Stefánsson.

 


Rödd friðar þarf að hljóma skærar

Í gær, 22. nóvember, voru 61 ár liðin frá því að John F. Kennedy var myrtur um hábjartan dag í Dallas. JFK var friðflytjandi sem talaði gegn vopnavæðingu, gegn herskárri útþenslustefnu hervelda, gegn afskiptum stórvelda af innanríkismálum annarra þjóða. JFK var talsmaður friðar sem gerði fólki og þjóðum kleift að vaxa og dafna, til að börn okkar gætu átt betri framtíð. "Friður er hið skynsamlega takmark skynsamra manna". Friður er okkar brýnasta hagsmunamál. Það ætti að vera öllum ljóst, nú þegar við stöndum á barmi þriðju heimsstyrjaldarinnar.  

JFK talaði inn í stjórnmál allra tíma þegar hann sagði að ,,vandamál okkar eru manngerð og geta því verið leyst af mönnum." Í samhengi íslenskra stjórnmála árið 2024 vísar þetta m.a. til óábyrgs hallarekstrar ríkissjóðs og of hárra skatta, ranglega reiknaðrar verðbólgu og vaxtaokurs, launamála kennara og heilbrigðisstarfsmanna, sem allir núverandi þingflokkar hafa haft á sínu borði án þess að leysa úr.   

Og nú hafa verið samþykkt fjárlög fyrir árið 2025 með heimild til vopnakaupa, án þess að séð verði að einn einasti þingmaður hafi andmælt því að skattpeningar Íslendinga séu notaðir í þessum tilgangi. [Á fundi ,,Breiðfylkingar heilbrigðisstarfsfólks" í gær (sjá mín. 44) kvaðst fulltrúi Pírata hafa andmælt vopnakaupum. Skráning á vef Alþingis bendir þó til að hlutaðeigandi hafi ekki greitt atkvæði við afgreiðslu fjárlaganna.] Um vopnakaupin fjallaði ég einnig á fundi Alþjóðamálastofnunar HÍ 14. nóv. sl.

Eins og aðrir dauðlegir menn voru Kennedy bræður vafalaust breyskir og ófullkomnir, en þeir voru með pólitíska áttavitann rétt stilltan. Margt hefði getað farið á annan og betri hátt ef mannkynið hefði mátt njóta leiðsagnar slíkra manna fremur en síngjarnra stríðshauka. Í því samhengi leyfi ég mér að rifja upp eftirfarandi tilvitnun til Roberts F. Kennedy eldri sem hann flutti í ræðu árið 1968, aðeins þremur mánuðum áður en hann var skotinn til bana í Los Angeles:rfk jfk

„Verg árleg þjóðarframleiðsla okkar telur nú meira en 800 milljarða dala. En sú framleiðsla tekur til loftmengunar, sígarettuauglýsinga og sjúkrabíla sem hreinsa mannfallið af þjóðvegum okkar. Hún nær til sérsmíðaðra lása á húsum okkar og fangelsanna fyrir fólkið sem brýtur upp lásana. Hún telur eyðingu skóga með og náttúruundur sem glatast vegna óreiðukenndrar útþenslu byggðar. Þjóðarframleiðslan nær yfir napalmsprengjur og kjarnaodda og brynvarða lögreglubíla sem notaðir eru til að berja niður óeirðir í borgum okkar. Hún tekur til [...] sjónvarpsefnis sem upphefur ofbeldi í þeim tilgangi að selja börnum okkar leikföng. En þjóðarframleiðslan reiknar ekki út heilsufar barna okkar, gæði menntunar þeirra eða gleðina í leik þeirra. Hún mælir ekki fegurð ljóða okkar eða styrk hjónabanda okkar, skynsemi opinberrar rökræðu eða heilindi embættismanna okkar. Hún mælir hvorki andlegt jafnvægi okkar né hugrekki, hvorki visku okkar né þekkingu, hvorki samúð okkar né hollustu við landið okkar. Hún mælir í stuttu máli allt nema það sem gerir lífið þess virði að lifa því. Og hún getur sagt okkur allt um Bandaríkin nema hvers vegna við erum stolt af því að vera Bandaríkjamenn.“     

Í Morgunblaðsgrein minni frá árinu 2017 bætti ég við um þetta: 

RFK var gagnrýninn á baráttuna gegn efnahagslegri fátækt vegna þess hún endurspeglaði rangar áherslur. „Jafnvel þótt okkur tækist að eyða slíkum efnahagslegum skorti þá bíður okkar annað stærra verkefni. Það er að berjast gegn skorti á lífsánægju ... sem þjakar okkur öll.“

Tæpri hálfri öld eftir að þessi orð voru töluð eiga þau enn fullt erindi því íbúar heimsins virðast nú, sem aldrei fyrr, ofurseldir því takmarki að safna veraldlegum auði. Þótt telja megi dapurlegt að framþróunin hafi ekki orðið önnur þarf það ekki að koma neinum á óvart. Allt frá tímum Aristótelesar hafa heimspekingar og stjórnmálamenn flutt röksemdir fyrir því að fjárhagslegur auður sé ekki markmið í sjálfu sér heldur tæki til að lifa „góðu lífi“.  Hið góða líf er þó furðu lítið áberandi í umræðum um löggjöf, stjórnmál og samfélagsmál nú á tímum.

Rökstuðningur stjórnmálamanna fyrir því hvers vegna eigi að innleiða stefnumál þeirra byggist nú á tímum á þrenns konar röksemdum, þ.e. að tillögur þeirra fjölgi valkostum fólks, auki hagkvæmni og verndi réttindi fólks. Minna ber á röksemdum þess efnis að tillögurnar muni gera okkur betur kleift að búa í siðuðu samfélagi eða lifa góðu lífi. Mælaborð þjóðmálanna sýnir efnahagslega mælikvarða en ekki þá sem Kennedy gerði að umtalsefni 1968. Frelsisáherslur birtast í ýmsum búningi, t.d. að fólk eigi að hafa val um alla skapaða hluti. Eftir stendur himinhrópandi spurning sem aldrei er svarað: Til hvers eigum við að nota þetta frelsi og í hvaða tilgangi erum við að safna þessum peningum, lausafjármunum og allri þessari steinsteypu? Þetta er sérstakt vegna þess að öll menning sem risið hefur hátt í mannkynssögunni hefur gert þetta að lykilspurningu: Hvernig lifum við góðu lífi?

Nú er það ekki hið góða líf sem við höfum áhuga á, heldur bara lífið sem slíkt: Hvernig við getum gert lífið auðveldara, þægilegra og hvernig við getum lengt það sem mest. Slíkt innihaldsleysi hefði verið mörgum fyrri tíðar manninum fjarlægt. Aristóteles taldi að maðurinn líkt og allt annað sem lifir, hefði tilgang og að tilgangurinn væri sá að lifa góðu lífi. Gott líf miðar því að fullkomnun. Gott líf felst ekki í því að velta sér upp úr nautnum. Letinginn sem lifir í vellystingum alla ævi lifir ekki góðu lífi í þessum skilningi, ekki frekar en sá sem slítur sér út eða jafnvel fórnar lífi sínu í þágu fyrirtækis, vörumerkis eða fjármuna sem hafa engan annan tilgang í sjálfu sér. Gott líf snýst ekki um að svala löngunum, metnaði eða hégóma, heldur skírskotar hið góða líf til þess að við stefnum að verðugu, réttu eða viðeigandi markmiði. Langanir okkar á að temja og beina þeim inn á réttar brautir í átt til þess sem er raunverulega þess virði að sækjast eftir. Besta leiðin til að þjálfa skynjun okkar í þessum efnum er að leggja rækt við siðrænt uppeldi og siðræna menntun. Sú ábyrgð hvílir ekki á foreldrunum einum og hún verður heldur ekki lögð alfarið á skólakerfið. Þetta er ábyrgð sem hvílir á samfélaginu í heild og þó sérstaklega nærsamfélaginu þar sem fjölskyldur, frjáls félagasamtök, trúarsöfnuðir og veraldlega þenkjandi samtök, sem og stjórnmálahreyfingar, gegna lykilhlutverki. Á tímum óhóflegrar einstaklingshyggju hafa stjórnmálin og kannski við öll lagt ónóga rækt við þessa grasrót en einblínt þess í stað á ríkisvaldið og miðstýrðar allsherjarlausnir. Pólarnir hafa orðið tveir, einstaklingarnir annars vegar og ríkið hins vegar. Meðan þeirri tvíhyggju er leyft að dafna er hætt við að mikilvægustu innviðirnir, þ.e. fjölskyldan og nærsamfélagið, sem bera uppi öll heilbrigð samfélög, veikist úr hófi. Úr þessu þarf að bæta. Til þess þarf hugarfarsbreytingu og mögulega nýja tegund samræðu.

Rödd friðar þarf að hljóma á ný í sölum Alþingis. Sú rödd hljómar skært í máli frambjóðenda Lýðræðisflokksins, sbr. sérstaklega þetta viðtal við Hrafnhildi í gær í Spursmálum Mbl.  

Eins og flestir Íslendingar á Hrafnhildur sér þá ,,von og trú að við Íslendingar getum orðið fyrirmynd annarra þjóða hvað varðar frið, hlutleysi, hreinleika náttúru og sjálfbærni.

Lýsum saman upp myrkrið sem er að herja á hjarta þjóðarinnar og mannkyn allt🙏🏻❤️"
 
[Grein þessi birtist fyrst á www.visir.is 23.11.24]

Viltu breytingar? Kjóstu þá breytingar

Lýðræðisflokkurinn var stofnaður á leifturhraða. Á leifturhraða tókst að stilla upp framboðslistum og bjóða fram í öllum kjördæmum. Í framhaldi hafa dunið á frambjóðendum spurningalistar, viðtalsbeiðnir, framboðsfundir, sjónvarpsupptökur o.s.frv. 

Þegar hraðinn er þessi er mikilvægt að undirstrika að flokkurinn er stofnaður á skýrum grunni og hefur skýran tilgang, þ.e. að minna á að ríkið var stofnað til að þjóna fólkinu í landinu en ekki öfugt. Allt vald ríkisins stafar frá fólkinu, sem er hinn sanni valdhafi, ekki báknið, ekki skrifstofuveldið, ekki embættismennirnir, ekki sérfræðingarnir. Ríkið hefur það meginhlutverk að verja frelsi fólks, eignir þess og frið. 

Stefna flokksins er skýr og góð. Hana má finna inni á vefsíðu flokksins. Frambjóðendur hafa áfram sínar persónulegu skoðanir og sitt málfrelsi, en stefna flokksins talar sínu máli og að henni viljum við öll vinna, því þar er neistinn sem drífur þetta allt áfram. 

Framboð Lýðræðisflokksins hefur nú þegar haft góð áhrif: Skyndilega eru ríkisflokkarnir orðnir sammála um að lækka beri vexti (!),  herða á landamæragæslu (!) o.fl. Frammi fyrir þessu nýja viðmóti þurfa kjósendur að gera upp við sig hvort þeir sem bjuggu til flækjur, kostnað og vandamál séu best til þess fallnir að leysa vandann. 

--

E.S. 

XL er að keppa við ofurefli ríkisflokka sem hver um sig ver tugum milljóna (af almannafé!) í ímyndarhönnun og kosningaauglýsingar. Ef þú trúir því að unnt sé að breyta íslensku stjórnarfari til hins betra þá máttu leggja okkur lið, t.d. með því að styrkja flokkinn

 


Valkostirnir eru skýrir

Heimsmyndin er um það bil að fara að gjörbreytast. Bandaríska alríkið verður skorið niður og breytt úr eyðslusömu óhófsríki yfir í ríki sem stýrast mun af hagsýni, ráðdeild og skilvirkni. Á sama tíma halda gömlu íslensku stjórnmálaflokkarnir áfram að lofa ,,allskonar fyrir alla" í anda Besta flokks Jóns Gnarr hér um árið. 

Lýðræðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur boðað raunverulegt aðhald og nauðsynlegan niðurskurð. Spennandi verður að sjá í hvora áttina Íslendingar vilja stýra: Í átt til meiri miðstýringar og markaðsbúskapar í anda ESB eða í átt til lægri skatta.

Hér er ein hugmynd: Hætta að dæla peningum íslenskra skattgreiðenda í erlenda ,,loftslagssjóði". Ástæðan er augljós og ætti að vera orðin öllum kunn: Alþjóðabankinn (World Bank) getur ekki gert grein fyrir afdrifum 41 milljarðs dollara, nánar tiltekið tæplega 40% allra loftslagssjóða sem bankinn hefur ráðstafað síðastliðin ár. Engar opinberar skrár er að finna sem gefa mynd af því hvað varð um þessa fjármuni og hvernig þeim hefur verið ráðstafað. 

Alþjóðabankinn var m.a. stofnaður til að aðstoða fólk sem býr við mestu fátækt. Rúmlega 10% mannkyns, 100 milljónir manna, lifa á minna en 2 dollurum á dag. Fjármagn sitt sækir bankinn til ríkustu þjóða heims. 

Nýlega ákvað Alþjóðabankinn að stýra 45% þróunarsjóða sinna frá því að berjast gegn fátækt og yfir í verkefni sem tengjast ,,loftslagsbaráttu". Bankinn eyrnamerkir nú um 40 milljarða dollara í mál sem tengjast ,,grænum" verkefnum (e. green agenda). Samhliða hafa stórar fjárhæðir greinilega gufað upp. 


mbl.is Musk annar stjórnenda nýs ráðuneytis Trumps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin liggur í frelsisátt, sem er vestur en ekki austur.

Hér eru fréttir sem þið lesið kannski ekki í íslenskum fjölmiðlum (ennþá): Sigurvegarinn í bandarísku forsetakosningunum hefur lýst því yfir að hann ætli að setja vaxtaþak (10%) á kreditkortafyrirtæki til að létta álagi af bandarískum heimilum og flýta fyrir því að hagvöxtur styrkist. Lýðræðisflokkurinn hóf kosningabaráttu sína á því að tala um vaxtaþak til að sporna gegn kæfandi vöxtum sem eru meira íþyngjandi hér á landi en í nokkru öðru Evrópulandi fyrir utan Úkraínu og Rússland. 

Á meðan aðrir flokkar vilja innleiða áætlunarbúskap í sovéskum stíl (með því að banna nýskráningu á bensín- og díselbílum), með því að stækka eftirlitsstofnanir ríkisins og belgja út ríkisvaldið með skattpíningu, er Lýðræðisflokkurinn eini flokkurinn sem talar skýrt í frjálsræðisátt, til varnar íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Skynsamt fólk mun kjósa XL. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband