Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnmál eru ekki grín

"Ég þarf ekki að búa til neina brandara. Ég bara fylgist með ríkisstjórninni og segi frá staðreyndum". Will Rogers (1879-1935)

Í síðustu viku var ég spurður að því a.m.k. tvisvar sinnum hvað ég hefði lært af pólitískri þátttöku. Án þess að vilja vera of neikvæður sagðist ég hafa stigið út í marga drullupolla um dagana, en engan eins ógeðfelldan og þann pólitíska, þar sem hnífarnir koma fljúgandi úr öllum áttum, hugsjónir eru gerðar að gluggaskrauti og sá nær bestum árangri sem best kann að segja ósatt / fá fólk til að trúa óraunsæjum loforðum. 

Fyrir stuttu skrifaði ég hér á bloggið að VG og XD greiði nú fyrir framgöngu sína síðustu árin, þ.e. fyrir að hafa fórnað hugsjónum sínum fyrir völd. Flokkar sem hafa skorið sig af sinni hugmyndafræðilegu rót eru einskis virði. Falleg orð á landsfundum bjarga þeim ekki þegar allt annað blasir við í framkvæmd. Um Framsóknarflokkinn þarf ekki að tala, því hann er hentistefnuflokkur. Núverandi ríkisstjórnarflokkar náðu góðum árangri í kosningunum með því að lofa öllu fögru (m.a. að hækka bætur en ekki skatta), tala fallega um frið og um það hvernig þeir vildu framkvæma vilja kjósenda. Eftir kosningar hafa þeir snúið sér að því að hækka skatta, framkvæma vilja erlendra búrókrata með því að vinna að því að koma ríkisstjórn Íslands undir erlenda stjórn (ESB), auk þess að vilja efla hernaðarþátttöku Íslands (með 70 milljörðum úr tómum ríkissjóði) á sama tíma og horft er fram hjá því að mesta ógnin við öryggi Íslendinga kemur nú innan frá en ekki utan frá, þ.e. frá skipulögðum glæpasamtökum sem hér starfa án verulegra afskipta frá fjársveltri lögreglu. 

Sem lýðræðissinni vil ég auðvitað ekki fæla fólk frá þátttöku í stjórnmálum, en við þurfum þó að vera raunsæ og horfast í augu við að flest (ekki öll) þeirra sem sitja nú á þingi vilja vera á framabraut í stjórnmálunum (innan flokksins, innan alþjoðastofnana) og þá er hætt við að hagsmunir lands og þjóðar lendi í öðru sæti.  


Hugsunarglæpamaður sem þarf að stöðva!!

Ef þú tilheyrir enn (ört minnkandi) hópi fólks sem veitir fréttaútgáfu ríkisins (RÚV) daglegan aðgang að huga sínum, þá eru hér upplýsingar sem gætu komið þér á óvart: Landlæknisembætti Bandaríkjanna hefur, að frumkvæði heilbrigðisráðherrans, RFK jr., stöðvað notkun "covid-bóluefna" gagnvart börnum og barnshafandi konum. Fyrir þessu eru ríkar læknisfræðilegar ástæður. Á sama tíma er RFK að taka til hendinni gagnvart matvælaiðnaði sem tekið hefur gróðasjónarmið fram yfir hollustu og heilsuvernd. Þetta gerir hann með því að leggja bann við notkun tiltekinna litarefna og gerviefna í matvælaframleiðslu

RFK er sjaldgæf tegund í mannlífsflórunni: Maður sem þorir að synda á móti straumnum og verja það sem hann telur satt og rétt, öfugt við flesta sem kjósa að berast með straumnum hvert sem hann leiðir. Hvers vegna kýs fólk að blakta eins og lauf í vindi fremur en að standa með því sem það veit að er satt? Við því er ekkert einfalt svar, en flestir gera þetta líklegast af ótta við að verða stimpluð sem "rugludallur" eins og Ríkisfréttastofan leyfði sér að stimpla RFK. Það er auðvelt að sitja á vernduðum, ríkisreknum vinnustað og nota svona stimpla, sérstaklega ef maður hefur sjálfur aldrei hugsað frumlega hugsun eða tekið skýra afstöðu á grundvelli eigin sannfæringar og samvisku.

Frammi fyrir því sem RFK er að gera hljóta allir þeir sem láta RÚV hugsa fyrir sig að sameinast í hörðum mótmælum, því siðapostular RÚV eru á einu máli um að hugsunarglæpir séu verstir allra glæpa. 

 

 

 

 


Ég ekki skilja ...

Eitt af því sem er ofar mínum takmarkaða skilningi er langlundargeð almennings. Fólk sættir sig andmælalaust við að verja helmingi okkar dýrmæta tíma og starfsorku í vinnu fyrir "hið opinbera" sem sólundar svo stærstum hluta peninganna, m.a. til vopnakaupa fyrir aðrar þjóðir á meðan löggæslan hér innanlands er fjársvelt og vanrækt. Enginn horfir gagnrýnum augum um öxl á þá staðreynd að yfir 90% fullorðinna létu sprauta sig aftur og aftur með efnakokteil sem veitti litla sem enga vörn og hefur framkallað alls kyns aukaverkanir og heilsutjón. Kjósendur velja frambjóðendur sem gefa stærstu loforðin, en sætta sig þegjandi við að loforðin séu svikin. 

En kannski er best að spyrja engra spurninga. Þegar Sókrates frétti að Véfréttin í Delfí hefði sagt að hann væri "vitrasti maður Aþenu" varð hann furðu lostinn því hann taldi sig ekki hafa sérþekkingu á neinu. Þetta leiddi til þess að hann fór að beina spurningum til stjórnmálamanna, herforingja og annarra sem hann hélt að væru með viti. Þessi (ó)siður hans varð til þess að hann var dæmdur til dauða. Þess vegna er kannski best að vera eins og allir aðrir: Sætta sig við svikin loforð, blekkingar, fals og óheilindi.

Og þó. 

 


Í fréttum er þetta helst ...

Daglegur fréttaflutningur færir okkur þau skilaboð að heimurinn sé að fara til fjandans: Stríð, loftslagsbreytingar, vírusar, hryðjuverk, rán, ofbeldi o.s.frv. Með því að berja á almenningi með þessu oft á dag er í raun verið að flytja þau skilaboð að algjört stjórnleysi sé á næsta leiti. 

En ekki hafa áhyggjur, því í stað óstjórnar verður okkur boðið upp á ofstjórn: Stjórnvöld rétta fram "hjálparhönd" til að koma skikki á hlutina með eftirliti, gjaldheimtu, "öryggismyndavélum", vopnakaupum, fleiri ríkisstofnunum, valdframsali til erlendra stofnana o.s.frv. Handvaldir sérfræðingar stjórnvalda munu taka enn þéttar um stjórnartaumana. Í skiptum fyrir (falskt) öryggi afsalar óttasleginn almenningur sér frelsinu í hendur valdhafa. 

Þegar valdakerfi ríkisins er farið að nærast á ótta þarf almenningur að finna sinn innri styrk. Besta leiðin til þess er að hætta að hlusta á hrollvekjur ríkisstyrktra fjölmiðla.

“Those who would give up essential liberty to purchase a little temporary safety, deserve neither liberty nor safety.”

Benjamin Franklin

 

 


Ó Liverpool

Fólk trúir þessu ekki, en Seneca (4 fKR-65 eKR) bjó fyrir ofan baðhús og líkamsræktarstöð í Róm og í einu af bréfum sínum kvartar hann yfir skarkala frá mönnum sem eru þar að lyfta lóðum. Bók hans "Um lífsins stuttu stund" (e. On the Shortness of Life) er gagnrýni á það hve illa menn fara með tíma sinn. "Lífið er nógu langt, en mennirnir sóa því í hégóma, persónulegan metnað, auðsöfnun og hvers kyns fánýti". Þeir einu sem lifa skynsamlega eru þeir sem nýta tímann vel, kunna að gera greinarmun á eigin vilja og annarra, og geta einblínt á það sem skiptir máli. 

Ekkert hefur breyst. Við förum ekki betur með tímann nú en fyrir 2000 árum. Einn versti tímaþjófurinn eru daglegar fréttir. Tíminn sem fer í þær er óréttlætanlegur þegar haft er í huga að eftir árið situr ekki annað eftir en 3-4 stórviðburðir. Harmleikurinn í Liverpool verður væntanlega einn þessara atburða, þar sem 50 manns slösuðust og þar af 4 lífshættulega. En þegar ég sá að lögreglan rannsakar þetta "ekki sem hryðjuverk" heldur sem árekstur í umferð (e. road traffic collision), gat ég ekki varist þeirri hugsun að fréttirnar séu raunverulega forheimskandi. Hvað er það annað en hryðjuverk að aka bíl í gegnum mannþröng (án tillits til uppruna / útlits ökumannsins)? Í þessu - og því hvernig flest önnur stórmál eru leyst upp í frumeindir þar til þau hverfa - birtist stef sem m.a. kristallast í Njálu: Útúrsnúningar eru notaðir til að þurfa ekki að taka á stærstu vandamálum samtímans, því slíkt uppgjör hentar hvorki valdamönnum, né almenningi, því ef við ættum að ræða þau þyrftum við að horfast í augu við eigin heimsku, fordóma, græðgi, hégóma og forgengileika.   

Ég ætla að fara í fréttabindindi - og er sannfærður um að það mun auka lífshamingju mína. Ef einhver vill tala við mig þá verð ég á Óðinsgötu 4, í skarkala "heimsborgarinnar", að kortleggja skynsamlegustu leiðina að réttu marki - í anda Seneca. 

 

 


Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis láti til sín taka

Í ljósi alls þess sem fram kemur í tímamótaviðtali Stefáns Einars við Úlfar Lúðvíksson ætti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að kalla alla hlutaðeigandi á sinn fund og gefa þeim kost á að standa fyrir sínu máli. Nefndinni ber að hafa "frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra." Nefndin hefur einnig það hlutverk að "gera tillögu um hvenær er rétt að skipa rann­sóknar­­nefnd og gefur þinginu álit sitt um skýrslur þeirra." Viðtalið bendir til að alvarlegar brotalamir í landamæragæslu ógni þjóðarhagsmunum og þjóðaröryggi. Rannsóknarnefndir hafa verið skipaðar af minna tilefni.


Úlfari hent fyrir úlfana til að ríkið geti hljóðlega vanrækt grundvallarhlutverk sitt.

Ef allt væri með felldu á Íslandi og ef Íslendingar gæfu sér tíma til að hlusta á viðtal Stefáns Einars við Úlfar Lúðvíksson fyrrum lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, þá væri orðinn hér pólitískur landskjálfti. Í viðtalinu staðfestir Úlfar þar sem við öll vissum - eða mattum vita - að aðild Íslands að Schengen samkomulaginu frá 2001 hafi verið mistök og landamæraeftirlit Íslands gagnvart þeim sem koma hingað frá öðrum Shengen ríkjum hafi "ekki verið neitt" frá 2001 til 2021 þegar Úlfar fór að reyna að stoppa í götin. Fyrir það hefur honum nú verið vikið úr starfi með sameiginlegu sparki innan úr innsta hring kerfisins. 

Lesendur ættu að staldra við þetta og spyrja sig hvað hefði gerst í Bretlandi ef yfirmaður lögreglunnar á suðurströnd Bretlands yrði rekinn fyrir að gera reka að því að stöðva stöðugan straum bátaflóttamanna. Ljóst má telja að ef í ljós kæmi að ráðherrar (og æðstu embættismenn) sendu uppsagnarbréf til slíks manns til að kæfa umræðu og koma í veg fyrir að kastljósið beinist að vítaverðu athafnaleysi yfirvalda í málaflokki sem varðar þjóðarhag og þjóðaröryggi, þá myndu breskir fjölmiðlar og almenningur kalla eftir afsögn annarra en lögreglustjórans. En á Íslandi þegir ríkismiðillinn um viðtalið við Úlfar. Þögnin á visir.is er sömuleiðis ærandi. Einn og hálfur sólarhringur hefur liðið frá því þetta tímamótaviðtal birtist en ríkisreknir holræsamiðlar þegja þunnu hljóði. Úlfur

Ég rita þessar línur til að benda lesendum á að viðtalið við Úlfar undirstrikar að íslenska ríkið rambar nú á siðferðilegu og lagalegu hengiflugi. "Löggæslumál á Íslandi eru ekki á góðum stað" segir Úlfar og vísar m.a til erlendra glæpagengja sem náð hafa fótfestu hér og menn framið hafa kaldrifjuð morð spóka sig um spariklæddir örstuttu eftir glæp sinn og allt gerist þetta með vitund æðstu embættismanna og lögreglustjóra sem þiggja laun fyrir að sitja í þjóðaröryggisráði!

Frammi fyrir þessu ber að rifja upp að ríkisvaldi var upphaflega komið á fót til að stuðla að friðsamlegri lausn deilumála, halda uppi lögum og verja öryggi almennings. Þegar svo er komið að ofvöxtur hefur hlaupið í ríkið sem teygir sig sífellt lengra ofan í vasa almennings og gengur sífellt nær frelsi fólks en stendur ekki lengur undir grundvallarhlutverki sínu, þ.e. löggæslu, þá er ekkert lýsingarorð nærtækara en "þrotríki" (e. failed state). Þegar ríkið vanrækir kjarnahlutverk sitt en vill á sama tíma vasast í hlutum sem koma því ekki við, þá hverfur siðferðilegt lögmæti ríkisins. Á þennan stað erum við komin. Við þessu vildi ég vara þegar ég sagði af mér dómaraembætti því ég vildi ekki bíða þau örlög að þurfa sem embættismaður að ganga erinda siðferðilega gjaldþrota ríkisvalds. Að sjá og heyra skyldurækinn og ærlegan mann eins og Úlfar Lúðvíksson tala af umhyggju fyrir landi og þjóð veitir endurnýjaða von um að unnt verði að vekja Íslendingar af Þyrnirósarsvefninum og til vitundar um þá stjórnarfarslegu hnignun sem hér hefur orðið. 

Fólkið í landinu verður að taka sig saman um að endurbæta stjórn landsins. Við höfum ekki mikinn tíma til stefnu ef takast á að bjarga þeirri samfélagsgerð sem mótast hefur í sambúð íslenskrar þjóðar í landinu sem við fengum í arf. 

 

 


Til hvers var unnið?

Ísland er að breytast hratt - og ekki að öllu leyti til hins betra. Landamæragæsla hefur verið í molum árum saman og stjórnleysi ríkt í innflytjendamálum. Sem herlaus örþjóð með fámennt lögreglulið eru Íslendingar í sérlega viðkvæmri stöðu gagnvart skipulagðri glæpastarfsemi, vopnaburði og innfluttri ofbeldismenningu. En um þetta hefur ekki mátt ræða, varnaðarorð hafa verið þögguð niður og upphrópanir notaðar til að koma í veg fyrir málefnalega umræðu. Þótt flestir innflytjendur komi til Íslands í þeim tilgangi að vinna og vilji laga sig að siðum samfélagsins, þá fáum við líka daglega áminningu um önnur viðhorf. Þegar svo er komið að innflytjendur sjá ekki tilgang í því að læra íslensku þá er tímabært að staldra við og íhuga hvað verða muni um íslenskan menningararf og sögu. 

En þetta gerðist ekki af tilviljun. Fyrri ríkisstjórn var mögulega sú versta í lýðveldissögunni (fyrir utan kannski Jóhönnustjórnina), því hún lét reka á reiðanum í þessum málum með opingáttarstefnu í landamæramálum og með innleiðingu alls konar erlendra stefnumiða sem þjónuðu ekki íslenskum hagsmunum, þ.m.t. ónauðsynlegri innleiðingu á erlendum orkupökkum. Núverandi ríkisstjórn virðist ætla að halda ótrauð áfram á sömu braut í þágu ESB, SÞ og NATO. 

Hver verður arfleifð stjórnmálamanna sem í aðdraganda kosninga gefa íslenskum kjósendum fögur loforð en einbeita sér svo að því að vinna i þágu erlendra hagsmuna? Daglega erum við minnt á hverfulleika lífsins: Fólk deyr / lætur af störfum / hverfur sjónum. Hvað stendur eftir? Fyrir hvað er fólks minnst? Foringjar síðustu ríkisstjórnar, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson, voru bæði greind og gjörvileg. Bæði gátu flutt innblásnar ræður á flokksþingum þar sem lofað var að standa vörð um hugsjónirnar. En þegar upp er staðið - og þau bæði horfin af vettvangi - þá standa flokkar þeirra beggja eftir í rjúkandi rúst og íslenskt samfélag er veikara en fyrr. Til hvers var þá unnið?   


mbl.is Íbúi segir hverfinu haldið í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð sem gleymir sögu sinni er dæmd til að endurtaka mistök fortíðar

Í bók Ásgeirs Jónssonar um Jón Arason (útg. 2020) er m.a. sagt frá þeim miklu breytingum sem urðu á íslandi eftir fall Jóns Arasonar og siðaskiptin 1550. Danakonungur sölsaði undir sig auðlindir Íslands, jarðeignir klaustranna og útvegsjarðir kirkjunnar. Samhliða var erlendum þjóðum ýtt út úr verslun og með verslunareinokuninni 1602 var lokað fyrir samskipti við aðrar þjóðir en Dani. Fram að því höfðu Íslendingar farið til náms víða um heim, en eftir þetta kom í raun aðeins Kaupmannahöfn til greina. Fram að þessu höfðu Íslendingar hagnast vel á frjálsum utanríkisviðskiptum, en þegar þeir voru neyddir til að selja vörur til Danmerkur langt undir heimsmarkaðsverði breyttist það til hins verra. Í kjölfar siðaskiptanna fór fram gífurleg eignaupptaka og frelsissvipting sem gerði Ísland að einni fátækustu þjóð í Evrópu.  Jón Sigurðsson Hrafnseyri

Rikisstjórn Íslands stefnir nú að því að koma Íslendingum aftur undir erlent vald (ESB) sem vill stýra verðlagningu (með niðurgreiðslum og kvótum), hefta samkeppni (með verndartollum) og stýra framleiðslu (með íþyngjandi regluverki). 167 ríki standa utan ESB og telja hag sínum betur borgið með því að eiga frjáls og óheft viðskipti við allan heiminn en að loka sig inni á hnignandi efnahagssvæði. Í sjálfstæðisbaráttunni lagði Jón Sigurðsson (1811-1879) ofuráherslu á sögulegt mikilvægi þess að Íslendingar ættu frjáls alþjóðleg viðskipti. Hann myndi snúa sér við í gröfinni ef hann heyrði hvernig talsmenn ESB aðildar Íslands reyna að nota ESB aðild sem samheiti yfir "alþjóðlegt verslunarfrelsi", því þvert á móti heftir ESB slíkt frelsi aðildarþjóða. Ef umræða um ESB aðild Íslands á að ná einhverju vitrænu flugi þá verða menn að svara því hvers vegna Íslendingar ættu að loka sig inni í þröngu kerfi tollamúra og regluverks, sem þjónar betur hagsmunum stórfyrirtækja en lítilla fyrirtækja (sem íslensk fyrirtæki eru langflest). Vonandi hafa ESB sinnar betri svör en þau að ESB aðild þjóni best hagsmunum atvinnustjórnmálamanna og innlendra sérfræðinga sem vilja vera á fóðrum í Brussel.   

 


"Autopennar" finnast víðar en í Bandaríkjunum

Nú geisar mikil umræða í Bandaríkjunum um vélstýrðan penna (e. Autopen) Joe Biden. M.a. er vísað til þess að Joe hafi samþykkt 2,5 milljarða dollara framlag til Úkraínu meðan hann var í fríi í St. Croix, sbr. meðfylgjandi mynd. Á sama tíma hafi "forsetinn" undirritað náðunarbréf, slakað á landamæragæslu o.fl. Spurt er hver stýrði pennanum í fjarveru forsetans, hvert peningarnir fóru og hvort / hvernig megi rekja upp það sem þannig hafi verið samþykkt. Í raun hafi forsetaembættið og vald þess verið yfirtekið af óþekktu og umboðslausu fólki. Talað er um þetta sem eitt stærsta hneyskli í sögu Bandaríkjanna og að þetta megi aldrei endurtaka sig, því svona "vinnubrögð" við lagasetningu brjóti gegn grundvallarviðmiði vestrænnar stjórnskipunar um jafnvægi milli valdaaðila (e. checks and balances).Biden
 
Á sama tíma horfa Íslendingar þegjandi upp á það, árum og áratugum saman, að Alþingismenn og ráðherrar skrifi undir og innleiði ALLAR tilskipanir og reglugerðir sem Brussel-veldið póstsendir til Íslands. Engin þjóð getur búið við slíkt bremsulaust stjórnarfar án þess að þurfa að gjalda fyrir það að lokum. Í raun er þessi framkvæmd hrein og klár niðurlæging fyrir þjóð sem á stjórnarskrá og kýs sér ennþá fulltrúa á löggjafarþing í þeim tilgangi að þeir gæti réttar Íslendinga. En þessi framkvæmd er þó ekki aðeins niðurlægjandi og þetta er ekki aðeins til marks um lausung í lagasetningu. Þetta sjálfvirka afgreiðslu- og undirritunarferli felur í sér viðvarandi brot gegn þeim skyldum sem handhafar íslensks löggjafarvalds hafa undirgengist með þvi að vinna drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. 
 
 
  
 
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband