Færsluflokkur: Bloggar
Það er tímanna tákn að nú er öllu snúið á hvolf. Á Alþingi birtist þetta í endurteknum ys og þys út af smámálum á meðan stórmál eru töluð niður og látin sigla hjá í þögn. Að mínu viti er frumvarpið um bókun 35 dæmi um hið síðarnefnda. Með þessu er ég ekki að reyna að vera leiðinlegur. Ef einhver móðgast þá þykir mér það leitt.
30 ára reynsla
Allir sem fylgst hafa með störfum Alþingis þekkja hvernig EES reglur buna inn á þingið og eru afgreiddar þar umræðulaust. Í reynd hefur innleiðingarferlið verið hömlulaust í næstum 30 ár. Þessi reynsla er til marks um að valdið í EES samstarfinu liggur í Brussel en ekki í Reykjavík. Það sem ræður för er sífellt nánari samvinna ríkja innan ESB (og EES).
Frumvarpið um bókun 35 er til marks um að skriðþungi EES-réttarins er enn að aukast að íslenskum rétti. Ísland og önnur EFTA-ríki standa höllum fæti hvað varðar aðkomu að mótun reglna, ákvarðanatöku og túlkun í réttarframkvæmd.
Íslenskur réttur stendur frammi fyrir stórum áskorunum hvað viðvíkur markmiðum EES-samningsins um einsleitni við ESB-rétt. Fyrir liggur að stofnsáttmálar ESB hafa tekið umtalsverðum breytingum frá því að EES-samningurinn tók gildi hérlendis árið 1994, en stjórnskipunarreglur Íslands eru óbreyttar og gera ekki ráð fyrir því framsali ríkisvalds sem EES-samstarfið virðist útheimta í æ ríkari mæli. Framsæknar lögskýringar EFTA-dómstólsins hafa aukið á þennan vanda, jafnframt því að magna upp lýðræðishalla sem lengi hefur verið tilfinnanlegur í tilviki íslenska ríkisins og veikrar stöðu þess í EES-samstarfinu.
,,Yfirstjórnarskrá"
Í réttarframkvæmd á sviði Evrópuréttar hefur fjórfrelsið notið verndar sem nokkurs konar yfirstjórnarskrá. Þetta er grundvallaratriði sem allir þurfa að átta sig á: Til að tryggja réttareiningu á sviði réttar ESB (og EES) endurspeglast í réttarframkvæmd óþol gagnvart því að menn séu að reyna að hnika þessum reglum til með sérreglum í landsrétti.
Af þessu leiðir að orðalag frumvarpsins um almennan forgang réttilega innleiddrar ,,skuldbindingar samkvæmt EES samningnum" umfram almenn íslensk lög er opinn tékki, sem viðbúið er að túlkaður verði með framsæknum hætti í réttarframkvæmd. Með þessu er vegið að réttaröryggi íslenskra borgara. Þar fyrir utan er ljóst af reynslu sl. 30 ára og þeim atriðum sem fyrr voru nefnd hér að þegar búið er að samþykkja forgang EES réttar sem meginreglu er verið að þyrla ryki í augu Íslendinga með orðalagi frumvarpsins í þá átt að Alþingi geti mælt fyrir um annað. Þegar Íslendingar verða búnir að setja handlegginn í gin úlfsins mun verða litið svo á að viðleitni til að ,,mæla fyrir um annað" feli í sér viðleitni til að hefta fjórfrelsið.
Gagnrýnin umræða er holl, þótt hún geti vissulega verið sársaukafull
Íslendingar hafa allan rétt til að gera málefnalegar athugasemdir við það sem hér er að gerast. Í stað þess að berja niður umræðu á þvert á móti að hvetja til umhugsunar um hvert stefnir og hvað gera megi til að bregðast við þeim stjórnskipulega vanda sem uppi er og hvernig verja beri íslenska hagsmuni í þessu samhengi.
Að lokum: Þetta frumvarp er að mínu mati einnig alvarlegt í víðara og sögulegu samhengi. Um það mun ég fjalla nánar þegar tími gefst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2023 | 07:58
Bálkösturinn stækkar
Í færslu hér um daginn spurði ég hvort allt væri til sölu, hvort okkur væri ekkert heilagt og hvort menn væru jafnvel tilbúnir að selja sjálfsvirðingu sína, bregðast frumskyldum sínum, til að þóknast öðrum. Í Morgunblaðsgrein í gær nefndi ég félagslega einangrun og sjúklegan ótta sem mögulegar skýringar á því að menn eru eins og skjálfandi kjötbúðingar gagnvart yfirvaldi og ætluðu almenningsáliti.
Mótþróaþrjóskuröskun?
Það var því hressandi að heyra ágætan vin minn segja í gær að hann ,,myndi heldur borða upp úr ruslatunnum" en að láta aðra segja sér hvað hann mætti segja og gera. Í nútímaskólakerfi yrðu slík ummæli sjálfsagt til þess að viðkomandi yrði leiddur inn á skrifstofu sálfræðings og stimplaður með mótþróaþrjóskuröskun. Í stað þess að berja frjálsan vilja úr fólki og sjúkdómsvæða sjálfstæðisþrána ætti hvetja til gagnrýnnar hugsunar. Samfélag sem er helsjúkt af meðvirkni, veiklyndi, undirlægjuhætti, hjarðhugsun og hjarðhegðun á að verðlauna þá sem sýna getu og vilja til sjálfstæðrar hugsunar, sjálfstæðrar sköpunar og þor til að fara eigin leiðir.
Hugsjónir sem brennifórn
En því miður er sá tímapunktur ekki enn kominn og við leggjum okkur af alefli fram við að fylgja þeim siðum sem háværustu siðapostularnir vilja halda á lofti. Í undirgefni og fylgispekt við erlent skrifstofuveldi hyggjast Alþingismenn, með stuðningi embættismanna íslenska ríkisins, leggja stjórnarskrá lýðveldisins á bálköstinn með því að samþykkja frumvarp sem veitir erlendum reglum almennan forgang umfram íslensk lög. Með því að standa að framlagningu slíks frumvarps leggur Sjálfstæðisflokkurinn stefnu sína og hugsjónir á bálið. Yfir brunarústunum mun forysta flokksins og þingmenn vonandi sjá sóma sinn í því að segja sig úr flokknum eða leggja til að fyrri hluti nafns hans verði þurrkaður út svo að heitið verði aðeins "Flokkurinn". Vinstri grænir hafa sömuleiðis lagt hugsjónir sínar um frið, hlutleysi og herleysi á þennan sama bálköst, gengið í þjónustu Nato og talað eins og stríðsæsingamenn. Með framgöngu sinni síðustu misseri og ár hafa Samfylking, Viðreisn og Píratar undirstrikað að þau starfa ekki í þágu íslenskra kjósenda heldur fyrir erlenda hagsmuni. Í stuttu máli snúast íslensk stjórnmál ekki um stefnumörkun, heldur hentistefnu.
Andvaraleysi leiðir til glötunar
Svo tekinn sé upp þráðurinn frá því í gær, þá útskýra ótti og einangrun þessa hegðun ekki að öllu leyti. Þarna vegur einnig þungt djúpstæð þörf okkar til að passa í hópinn, vera samþykkt af stofnunum sem við teljum geta haft áhrif á stöðu okkar, efnahag og velferð. Þetta er í sjálfu sér mannleg þörf og skiljanleg en framhjá því verður ekki horft að þessi tilhneiging hefur leitt menn til að berja niður eigin samvisku og aftengja sjálfstæða hugsun til að geta hrópað í kór með öðrum til stuðnings harðstjórum, stríðsherrum og illvirkjum, til persónulegrar þátttöku í skelfilegum ódæðisverkum, nornabrennum, barnsfórnum, umskurði kvenna og falsguðadýrkunar í öllum myndum.
Lokaorð
Það var greinilega af góðri ástæðu sem fyrsta boðorðið var sett efst á listann. Við þurfum á daglegri áminningu að halda, því meðan bálkösturinn stækkar eykst hættan á að við munum sjálf lenda í eldinum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2023 | 07:45
Einangrað og óttaslegið fólk lætur vel að stjórn
Ef hægt er að segja að það sé hollt að alast upp sem olnbogabarn, þá birtast ávextir slíks uppvaxtar m.a. í því að menn átta sig á að tilvistin er í raun óháð vinsældum okkar þá stundina. Ég nefni þetta hér því á tímabili (2021-2022) var ég farinn að halda að ég væri mögulega einn óvinsælasti maður á Íslandi! Síðustu vikur og mánuði er ég farinn að hallast í hina áttina, því alls staðar virðist ég eiga nýja vini. Í tveggja manna tali heyri ég setningar eins og þessar:
- Takk fyrir skrifin . ég tek undir allt sem þú segir sammála hverju orði en ég vil ekki læka neitt
- Þú átt mikinn stuðning og hann er víða . en menn þora ekki að tjá sig .
- Ekki gefast upp þótt þér finnist þú vera að tala út í tómið
- horfðu á það að enginn andmælir þér lengur og mundu að þögn er sama og samþykki
Þetta eru dæmi um samtöl og skeyti sem mér berast nánast daglega frá fólki sem er feimið við að lýsa eigin viðhorfum.
Ég rita þessar línur til að minna á að daglega höfum við val um það hvort við kjósum að tjá hug okkar eða ritskoðum okkur sjálf. Dæmin sem ég nefni hér að ofan hafa verið sett fram af fólki sem telur sig þurfa að ganga í takt við kollegana, vill forðast að vekja á sér athygli - og telur jafnvel að hreinskilin tjáning muni hafa skaðleg áhrif fyrir sig persónulega og fjárhagslega. Stærsta vandamálið við þessa afstöðu er að hún er í raun svo óheiðarleg, bæði gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Með því að hunsa rödd samviskunnar gröfum við smám saman undan eigin sjálfsvirðingu. Menn sem hafa ekki sjálfsvirðingu þora ekki að tjá hugsun sína, forðast þátttöku í opinberri umræðu og neyta ekki andmælaréttar.
Lágt sjálfsmat í menningarumhverfi sem hvetur fólk til sjálfs-ritskoðunar er augljóslega skaðlegt fyrir lýðræðið. Þegar við bætast ritskoðunartilburðir handhafa ríkisvalds og eigenda samfélagsmiðla, ríkisstyrktir og auðsveipir fjölmiðlar, auk útbreidds vantrausts til ríkisstofnana og samborgaranna, þá hafa í raun skapast kjöraðstæður fyrir valdboðs- og ráðríkisstjórnmál sem byggjast á hlýðni við valdhafa fremur en sjálfræði einstaklingsins.
Á fundi Málfrelsis í Þjóðminjasafninu kl. 14.00 nk. laugardag verða framangreind álitamál rædd og leitað svara við þeirri spurningu hvort samfélagsvefurinn sé að rakna upp. Á fundinum fá Íslendingar tækifæri til að hlusta á sjónarmið konu sem hvetur okkur til að verða ekki óttanum að bráð, heldur taka ábyrgð á eigin tilvist með virkri þátttöku í því að verja lýðræðið. Laura Dodsworth er höfundur bókarinnar A State of Fear" (2021) sem fjallar um þann hræðsluáróður sem fyrir liggur að bresk stjórnvöld beittu frá því snemma árs 2020 í því skyni að hræða fólk til hlýðni við tilskipanir yfirvalda. Líta má á fyrirsögn þessarar greinar sem tilraun undirritaðs til að lýsa megininntaki bókarinnar.
Annar frummælandi á fundinum verður Dr. Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem varað hefur við þeim neikvæðu og einangrandi áhrifum sem rafræn samskiptatækni er að hafa á samfélag okkar.
Óttaslegið fólk, sem glímir við vaxandi félagslega einangrun og keppist við að ritskoða sjálft sig og aðra gæti haft gagn af því að mæta á þennan fund og átta sig á að virði okkar er ekki mælt í vinsældum. Sjálfsvirðingu og heilbrigt lýðræði þarf að byggja upp innan frá, í samvinnu og í samfélagi við aðra. Heilbrigt lýðræði vex úr grasrótinni og upp. Valdboðsstjórnmál berja á okkur ofan frá og niður. Það má kallast verðugt verkefni okkar allra að rjúfa einangrunina, herða upp hugann og þora að tjá það sem í hjarta okkar býr.
(Birtist fyrst í Morgunblaðinu 13.4.2023).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2023 | 13:52
1135 dagar
Í fyrri pistlum og greinum hef gagnrýnt það hversu auðveldlega og andmælalaust réttarríkið var í kófinu látið víkja fyrir nýrri tegund stjórnarfars sem kenna má við sóttvarnaríki. Þetta var gert í nafni undantekningarástands sem kennt var við neyð, þótt snemma hafi verið orðið ljóst að veiran var þúsund sinnum hættulegri öldruðu fólki og veiku en ungu fólki og hraustu. Engu að síður var eitt látið yfir alla ganga. Í dag er loks verið að aflétta neyðarstigi vegna Covid-19 í Bandaríkjunum, eftir 1135 daga.
Hvað gerðist?
Eftir reynslu síðustu ára blasir við hversu auðveldlega má afnema borgaralegt frelsi og hversu höllum fæti réttarríkið og lýðræðið stendur þegar ríkisvald og stórfyrirtæki leggja til atlögu með aðstoð fjölmiðla (og samfélagsmiðla).
Hvaðan stafaði mesta ,,upplýsingaóreiðan"?
Með hverjum deginum sem líður kemur betur í ljós að:
- almenningur var beittur hræðsluáróðri í þeim tilgangi að tryggja hlýðni við tilskipanir yfirvalda;
- grímur veittu falskt öryggi;
- bóluefnin stóðu ekki undir væntingum, veittu ekki ónæmi, komu ekki í veg fyrir smit, voru framleidd í miklum flýti og kunna að valda alvarlegu / langvarandi heilsutjóni; lyfjum þessum fylgir umtalsverð hætta á aukaverkunum;
- að stjórnvöld og ríkisfjölmiðlar veittu í mörgum tilvikum rangar og villandi upplýsingar og gerðust þannig sek um að valda upplýsingaóreiðu
- ritskoðun á samfélagsmiðlum var beitt til að fela og koma í veg fyrir að gagnrýnisraddir heyrðust, réttmætar efasemdir kæmu fram og að stjórnvöldum yrði veitt nauðsynlegt aðhald
- opinberar tölur um fjölda Covid-andláta voru ýktar og þar af leiðandi óáreiðanlegar
- aðgerðir stjórnvalda (þ.m.t. lokanir fyrirtækja) ollu tjóni sem var langt umfram tilefni. Tjónið var ekki aðeins efnahagslegt heldur einnig andlegt, félagslegt, heilsufarslegt o.fl. Þetta tjón mælist í aukinni neyslu áfengis og vímuefna, atvinnumissi, fátækt, þunglyndi, seinkuðum læknismeðferðum o.fl.
Réttmætt tilefni?
Allt var þetta gert vegna veiru sem var hættulaus fyrir langstærstan hluta almennings (99%) og þrátt fyrir að ljóst væri mjög snemma að þeir sem létust úr veirunni þjáðust flestir af öðrum alvarlegum veikindum og að meðalaldur látinna var víðast hvar hærri en meðaltalslífslíkur fólks í hverju ríki fyrir sig.
Vörumst þá sem vilja grafa undan stjórnarskrá, réttarríkinu og lýðræðinu með vísan til þess að ástandið sé mjög ,,óvenjulegt" eða að tímarnir séu ,,fordæmalausir"
Lærdómurinn verður vonandi sá að almenningur, þingmenn og ráðherrar hugsi sig tvisvar um næst þegar hrópað verður "Úlfur, úlfur" og þess krafist að stjórnarskrárákvæðum og almennum lögum verði vikið til hliðar, réttindi skert og frelsi afnumið, í nafni ,,undantekningarástands". Það má aldrei endurtaka sig að við afsölum okkur frelsinu í skiptum fyrir falskt öryggi.
![]() |
Aflétta neyðarstigi vegna Covid-19 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2023 | 12:56
Hverju skilarðu í hans hendur?
,,Himinn og jörð munu líða undir lok, en mín orð munu aldrei undir lok líða.
Hann sagði það. Síðan eru 19 aldir. Og jörðin stendur og himininn er ekki hruninn. En hans orð? Er það ekki úr gildi fallið?
Hvað veizt þú?
Um framtíðina veiztu ekkert - nema eitt: Sá himinn og sú jörð, sem er heimur þinn í dag, líða undir lok, hverfa þér. Allt þetta, sem nú fyllir huga þinn frá degi til dags, gufar upp, týnist út í tómið. Það hljóðnar allt, allur ys og allar raddir dvína og slokkna loks í fjarlægu, fjarlægu myrki, sem hylur þessa jörð og allt, sem henni heyrir. Þú hnígur út af, fellur í fang djúprar þagnar, áfram heldur jörðin á sinni hringferð, en skilur þig eftir, þig aleinan með það líf sem þú hefur lifað, þá samvizku, sem það líf hefur merkt, þá vitund, sem ekki slokknar og rúmar það eitt, að hún á að mæta Mannsins syni.
Þá veiztu eitt: Hans orð stendur, hans orð er satt.
Þér er stakkur skorinn, tímans barni, þér er markað skeið. Dauðinn verður sendur að sækja hvað Skaparans er. Hverju skilarðu í hans hendur?
Sú spurning mætir þér oft á lífsleiðinni. En þar kemur, að þú færð ekki vísað henni á bug. Þú verður sjálfur að birta svar lífs þíns - birta það í ljósi þess orðs, sem er eilíflega satt og líður aldrei undir lok."
Sigurbjörn Einarsson, Meðan þín náð (1956), bls. 16-17.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2023 | 09:30
Uggvænleg þróun sem kallar á leiðréttingu
Alþjóðlegar fréttir birta endurtekin stef: Fjöldamótmæli gegn kjörnum fulltrúum; umbreytingar á vettvangi stjórnmálanna, þar sem gamlir flokkar verða svipur hjá sjón; popúlískir flokkar koma inn í staðinn (Ítalía, Ungverjaland, Spánn); óeirðir í Frakklandi, Brexit o.fl. Hérlendis birtist þetta m.a. í umræðu um Evrópumál og alþjóðavæðingu.
Í samfélagi sem kennir sig við lýðræði er ekki óeðlilegt þótt fólk andæfi þróun í þá átt að almenningur sé sviptur valdi og að allar ákvarðanir séu teknar ofan frá.
,,Samfélagsverkfræði"?
Við sitjum í vef sem verður sífellt þétt-ofnari, þar sem ráðuneyti, undirstofnanir, nefndir, ríkisfyrirtæki, embættismenn o.fl. móta reglurnar en bera enga ábyrgð og eru orðnir að eins konar ,,vélfræðingum" samfélagsins. Í háskólunum er þetta kallað ,,samfélagsverkfræði" og laganemar eru hvattir til að aðlaga sig þessu kerfi til að geta átt góðan starfsframa þar.
Lýðræðisskorturinn sem í þessu birtist er pínlegur fyrir þá sem tekið hafa að sér að halda uppi leiktjöldum lýðræðisins. Vandamálið verður enn erfiðara að fela þegar það gerist að reglurnar sem stafa frá ,,samfélagsverkfræðingunum" samfræmast illa áliti eða hagsmunum almennings sem við þær eiga að búa (dæmi reglugerð ESB um aukinn kolefnisskatt af flugi).
Því lengur sem þessi þróun heldur áfram, þeim mun meiri verður andstaðan við þetta fyrirkomulag. Engin samfélagshönnun / félagsleg vélfræði / samfélagsverkfræði getur komið í stað raunverulegs lýðræðis.
Meðan stjórnmálin bregðast ekki við með ábyrgum hætti t.d. með því að vernda frelsið (í stað þess að takmarka það og taka sér sífellt meiri völd yfir almenningi) mun spennan halda áfram að magnast milli búrókratíunnar annars vegar og stjórnmálahreyfinga sem vilja valdefla alþýðu manna.
Tveir pólar
Andstæðingar síðarnefndu tilhneigingarinnar kenna slíkar hreyfingar við ,,popúlisma". Eins og það er ljótt orð þá er valkosturinn ekki sérlega kræsilegur, þ.e. að sérfræðingar taki sér vald yfir almenningi, vilji hafa vit fyrir okkur, þrengi sífellt meira að daglegu lífi, einkaframtaki og atvinnurekstri, þenja út lagareglurnar og nota þær til að þjóna eigin hagsmunum á kostnað almennings.
Með þessu móti er maðurinn / borgarinn / einstaklingurinn smám saman leystur undan ábyrgð á sjálfum sér. Mennskan týnist og deyr í tómarúmi milli tveggja póla: Markaðarins (sem leysir okkur undan því að hugsa) og ríkisvaldsins (sem leysir okkur undan ábyrgð). Fórnarkostnaðurinn er sá að við glötum frelsi okkar. Þetta er uggvænleg þróun sem kallar á leiðréttingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2023 | 08:26
Allt til sölu? Ekkert heilagt?
Hvert sem litið er virðist sem gjá hafi myndast milli almennings og stjórnmálamanna. Þessi gjá breikkar og dýpkar með hverjum deginum. Við sjáum óeirðir í Frakklandi sem snúast ekki aðeins um lífeyrismál, heldur um lýðræðisskort. Í Skotlandi, Nýja-Sjálandi og víðar eru kjósendur að hafna stjórnmálamönnum sem sýnt hafa lýðræðinu lítilsvirðingu með því að fara offari í valdbeitingu og frelsisskerðingum.
Hnignun stjórnarfarsins
Ef einhverjum skyldi enn ekki vera orðið það ljóst, þá er ESB (og EES) stjórnað af embættismönnum og tæknimönnum, sem skortir þekkingu og áhuga á aðstæðum fólks á Íslandi. Þetta er stjórnarfar sem er ónæmt fyrir umkvörtunum kjósenda og talar ekki okkar tungumál, en skilur aðeins hið alþjóðlega tungumál markaðarins. Þetta tungumál heitir peningar.
Er allt til sölu?
Er allt til sölu nú á tímum? Við erum að selja undan okkur landið, jaðarsetja okkar eigið tungumál og horfum auk þess aðgerðalaus á að lýðræðið okkar og löggjafarþing sé gengisfellt með frumvarpi sem miðar að forgangi erlendra reglna. Er staðan sú að stjórnmálamenn okkar samsama sig fremur með erlendum kollegum en íslenskum kjósendum? Telja þau sig nú bera þyngri skyldur gagnvart erlendum stofnunum en íslenska lýðveldinu?
Er okkur ekkert heilagt?
Er ekkert heilagt lengur? Eru menn jafnvel tilbúnir að bregðast frumskyldum sínum til að falla í hópinn? Eða hvernig ber annars að skýra atburði síðustu missera, þar sem börn voru sprautuð með lyfjum sem ljóst var að þau þurftu ekki á að halda? Þar sem sakleysi barnæskunnar er mengað með kynlífsvæðingu námsefnis? Þar sem lögreglan umbreyttist úr þjóni laganna yfir í ógn við almenna borgara sem lá á hleri og gægðist inn um glugga? Þar sem þingmenn og ráðherrar afhentu sérfræðingum alla stefnumótun? Er þetta merki um krónískan undirlægjuhátt eða snýst þetta bara um að fá launaseðilinn, fá að vera með í partýinu? Gera sérfræðingarnir okkar (læknar, lyfjafræðingar, kennarar, embættismenn) hvað sem er fyrir fé ... og frama?
Hvað með okkur sjálf, afsölum við okkur málfrelsinu til að halda öðrum góðum? Hvað gerir fólk sem selur sjálfsvirðingu sína með þeim hætti? Kæfum við rödd samviskunnar með því að fordæma og krossfesta þá sem eru rödd samviskunnar? Verður rödd sannleikans þögguð niður með þeim hætti? Höfum við ekkert lært? Fáum við ekki (enn) þá leiðtoga sem við eigum skilið að fá? Er þá ekki bara rökrétt að leiðtogar okkar aðhyllist afstæðishyggju og forðist ábyrgð? Getum við þá kvartað ef í ljós kemur að leiðtogar okkar kjósa að lúta ekki æðstu lögum heldur aðeins vilja þeirra sem beita mestum þrýstingi þá stundina? Erum við sem sagt enn á þeim stað að vilja fórna því göfugasta, háleitasta og dýrmætasta til að komast hjá því að skoða eigin tilveru, eigin athafnir, eigin misbresti í skæru ljósi?
Lokaorð
Á þjóð sem selur frá sér sjálfsákvörðunarréttinn skilið að vera frjáls? Getur þjóð sem hafnar staðreyndum og samþykkir að sannleikurinn sé afstæður ratað réttan veg?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2023 | 16:57
Lýðræðinu fórnað á altari markaðsguðsins?
Björn Bjarnason heldur áfram að vegsama EES samninginn og ,,hinn sameiginlega markað". Minnugur fyrsta boðorðsins hrekk ég í vörn þegar þess er krafist að ég falli á kné og tilbiðji skurðgoð. Ef við viljum geta rætt um EES samninginn með opnum huga þá verðum við að umgangast hann eins og mannanna verk, ekki eins og einhvers konar heilagan texta sem krefst trúarlegrar og skilyrðislausrar hollustu.
Trúarbrögð er ekki hægt að rökræða
Eins og ég hef áður sagt virðast skrif Björns byggjast á þeirri fölsku forsendu að EES reglur tryggi rétt Íslendinga betur en íslensk lög. Í færslu á blogg-síðu sinni í dag vísar Björn til Davíðs Þórs Björgvinssonar til stuðnings þeirri ályktun að það teljist ekki framsal lagasetningarvalds þótt Alþingi setji lög um almennan forgang EES reglna ef þær reglur stangast á við ákvæði íslenskra laga. Látið er að því liggja að með þessu sé aðeins verið að tryggja rétt Íslendinga, en horft fram hjá því að þessi aðgerð kunni að valda meira tjóni en gagni.
Lesendum er bent á að íhuga eftirfarandi atriði í framsetningu Björns / Davíðs:
- Eru það góð rök að forgangur ESB/EES-reglna sé grundvallarregla í rétti sambandsins"? Skiptir ekki meira máli að horfa til okkar eigin grundvallarlaga, þ.e. stjórnarskrár lýðveldisins? Hún heimilar ekki að erlendur réttur gangi framar íslenskum lögum.
- Eru það sterk rök fyrir forgangi EES reglna að það sé forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum? Væri ekki nær á þessu stigi að hugleiða þá staðreynd að íslenska þjóðin hefur aldrei verið spurð hvort hún samþykki að þessi ,,hugsjón um sameiginlegan markað ryðji burt lýðræðislegum öryggisventlum stjórnarskrár um valddreifingu og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum?
- Er það góð lögfræði að vísa til bókunar 35 eins og hún geti rutt í burtu ákvæðum stjórnarskrár?
- Eru það gild rök eða rökbrellur að halda því fram að réttindi Íslendinga séu best tryggð með því að lögleiða hér almenna reglu um forgang EES réttar? Væri ekki ábyrgara, í leit að svörum, að viðurkenna að slíkur forgangur geti valdið réttindamissi, skert frelsi okkar, höggvið á lýðræðislega ábyrgð, aftengt öryggisventla, gengisfellt mikilvægustu stofnanir íslenska lýðveldisins og valdið alls konar ófyrirsjáanlegu tjóni?
Er lýðræðisfórn nauðsynleg til að friða markaðsguðinn?
Ef það er raunverulegur vilji Íslendinga að setja handlegginn í gin úlfsins og veðja á markaðinn fremur en lýðræðið, þá hlýtur það að vera lágmarkskrafa að um það sé kosið eins og í öðrum siðmenntuðum löndum. Óásættanlegt er að embættismenn í samstarfi við ESB-sinnaða íslenska stjórnmálamenn haldi stöðugt áfram að saxa fullveldi Íslands í sneiðar með Salami-aðferðinni. Þetta ættu allir að geta fundið á eigin skinni núna, þegar farið er að skera svo nærri lýðræðistauginni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2023 | 21:57
Jú, frumvarpið vegur að stjórnarskrá og fullveldi Íslands
Fullveldi er undirstaða stjórnmála og lagasetningar, því það ber með sér þann undirstöðurétt sérhverrar þjóðar setja þau lög sem dómstólar og framkvæmdavald beita gagnvart borgurunum.
Í þessu ljósi má það kallast réttaröryggismál að valdhafar á Íslandi beri skynbragð á aðstæður hér á landi, hlusti á vilja kjósenda og svari til ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum.
Það sem nú er að gerast má í þessu ljósi kallast grafalvarlegt. Ef þetta frumvarp utanríkisráðherra verður að lögum stöndum við frammi fyrir nýjum veruleika þar sem höggvið verður á þráðinn milli íslensks samfélags og þeirra sem setja okkur lög.
Afleiðingin verður í stuttu máli sú að lögin hætta að vaxa úr grasrót samfélagsins, en hvolfast þess í stað yfir okkur eins og hlemmur, án þess að við getum rönd við reist.
Ísland hefur vissulega ekki sömu innleiðingarskyldur og ESB ríkin, en til að gefa lesendum mynd af umfangi ESB réttar, þá voru reglur EB árið 1973 prentaðar á 2800 bls., en árið 2020 þurfti 90.000 bls. undir gildandi rétt ESB. Með frumvarpinu er verið að ofurselja Ísland stærsta skrifstofuveldi / skrifræði í sögu mannkynsins. Þótt EES rétturinn sé ekki jafn mikill að vöxtum er umfang hans slíkt að með frumvarpi utanríkisráðherra er verið að gera réttinn óaðgengilegan öllu venjulegu fólki á Íslandi. Það sem verra er: Þetta eru reglur sem Íslendingar geta ekki haft nein áhrif á. Þær eiga bara að njóta hér almenns forgangs og setja ramma utan um alla umræðu, án þess að vera sjálfar til umræðu!
Með þessu frumvarpi er verið að festa í sessi áhrif stofnana ESB á íslenskan rétt og íslenskt þjóðlíf. Um leið er grafið undan íslenska ríkinu og stofnununum þess, þ.m.t. Alþingi og dómstólum. Frumvarpið á sér ekki stoð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, heldur brýtur gegn henni. Það er í andstöðu við fullveldi Íslands. Frumvarpið samræmist ekki grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Frumvarpið er ólýðræðislegt.
Um þetta má hafa mörg fleiri orð, en ég læt þetta duga að sinni.
![]() |
Hvorki vegið að stjórnarskrá né fullveldi framselt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2023 | 17:18
,,Þú strumpar falskt" - ,,Nei, hann strumpar bara öðruvísi"
Samfélagsumræða á Íslandi hefur verið yfirtekin af fólki sem gefur sig út fyrir að hafa öll svör á reiðum höndum. Þetta er umræðuhefð sem er húmorslaus og umber ekki gagnrýnar spurningar. Allir eru með svör, en spurningar eru illa séðar.
Gagnrýnin hugsun er vinsælt spari-hugtak sem er notað í hátíðarræðum. Í daglegri framkvæmd er óvinsælt að menn beiti gagnrýninni hugsun, a.m.k. ef það þýðir að menn vogi sér að hugsa öðru vísi en aðrir.
Fyrirsögnin hér að ofan er úr Strumpasöng með Halla og Ladda. Þetta var stutt samtal sem undirstrikaði kröfu hópsins um eina rödd, en er líka áminning um mikilvægi þess að við fáum að vera frjáls og sjálfstæð.
Þversagnir í flatneskjunni
Það er erfitt að skilja þessa þörf fyrir andlega flatneskju, fyrir að allir sem tilheyra þessum eða hinum hópnum hugsi eins. Það líka skrýtið þegar örþunn góðsemisgríman fellur við minnsta áreiti. Þessi skrýtna blanda af hroka og óöryggi kemur vel í ljós þegar einhverjum verður á að skilja ekki það sem öllum er ætlað að skilja, sjá það sem öllum er ætlað að sjá, segja það sem öllum er ætlað að segja.
Ef við gefum okkur smá tíma til að hugsa, þá hljótum við öll að sjá að með þessu framhaldi breytist samfélag okkar í fangelsi, þar sem menn verða undir stöðugu eftirliti samborgara sinna en lifa þó í einsemd og viðvarandi ótta. Slíkt samfélag er gegnsýrt af vantrausti. Þar hugsa allir eins, tala eins, tilbiðja sömu falsguði og eiga enga aðra von en þá að ríkið komi þeim til bjargar.
Hver reisir múrana?
Andleg flatneskja hefur eyðileggingarmátt sem hefur verið til sýnis á myrkustu tímabilum mannkynsins. Alræðisríkin sem flöttu út mannlífið með hugmyndafræði sinni létu borgarana sjálfa um að reisa fangelsismúra um hugsun, orð og athafnir. Byggingarefni þessara múra er alltaf það sama: Ótti.
Treystir þú þér til að sýna vilja, getu og djörfung til að ,,strumpa öðru vísi"?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)