Færsluflokkur: Bloggar

Grundvallaratriði til umhugsunar

Sú atburðarás sem lýst er í þessari frétt er með nokkrum ólíkindum. Geta kjósendur Sjálfstæðisflokksins lesið þetta án þess að finna til vantrausts gagnvart sínum eigin þingmönnum? Hvaða pólitíska öfugstreymi veldur því að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks skuli nú leggja fram og keyra áfram frumvarp sem miðar að því að veikja Alþingi og fullveldisrétt Íslands? Hvers vegna liggur svona mikið á að koma málinu í gegnum þingið? Hvaða undirmál valda því að málið var sett í hæsta forgang hjá utanríkismálanefnd í fjarveru formanns nefndarinnar?

Sem betur fer virðist þó a.m.k. einn sjálfstæðissinni vera eftir á þingi, þótt hann sé samkvæmt þessu ekki að finna í Sjálfstæðisflokknum. Bjarni Jónsson (VG) er sonur Jóns Bjarnasonar sem stóð vaktina þegar draga átti Ísland inn í ESB í eftirmálum bankahrunsins. Bjarni á hrós skilið fyrir að koma aga á starf utanríkismálanefndar að nýju, hægja á ferlinu og beina því farveg skynsamlegrar yfirvegunar. 

Til umhugsunar

Hvaða hagsmunum þjónar það annars að íslensk þjóð afsali sér nú fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti og lýðræðislegum stjórnarháttum? Þjónar það hagsmunum íslenskrar alþýðu? Íslenskra heimila? Íslenskra fyrirtækja? Eða þjónar það kannski fremur hagsmunum embættismanna, erlendra stórfyrirtækja, hagsmunum fjölmiðlamanna, eða sérfræðinga og fræðimanna?  

Samantekt

Frammi fyrir því sem hér er að gerast er vert að minna á að Íslendingar hafa aldrei samþykkt að gerast hluti af evrópsku sambandsríki. Þetta er grundvallaratriði.

Íslenskir ráðamenn hafa ekki fengið neitt umboð til að gefa óformleg loforð gagnvart erlendum kollegum eða erlendum embættismönnum. Íslenskir stjórnmálamenn hafa aðeins trúnaðar- og hollustuskyldur við umbjóðendur sína, þ.e. íslenska kjósendur, til að vinna að þeim stefnumiðum sem þeir voru kjörnir til að framfylgja. Enginn ríkisstjórnarflokkanna hefur lýðræðislegt umboð til að skerða vald Alþingis og færa Ísland lengra undir áhrifavald ESB.  

 


mbl.is Bókun 35 frestað í utanríkismálanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundur kl. 20 í kvöld.

Á þeim rúmlega 3 mánuðum sem liðnir eru frá því að þessi blogg-tilraun hófst hef ég fengið yfir 57.000 flettingar hér á síðunni, sem þakkað er fyrir. Hitt er erfiðara að mæla, hvort skrifin skili einhverjum árangri. Það veitir þó vissa von, að eftir ábendingar mínar hér í gær, 26.4., hefur utanríkismálanefnd ákveðið að kalla eftir umsögnum manna sem standa utan við hið þrönga 7 manna mengi sem nefnt var hér í gær og fengu umsagnarbeiðni 24.4.sl. Gott er einnig að sjá Morgunblaðið standa vaktina, m.a. með umfjöllun um á forsíðu í dag um asann og einsýnina sem einkenndi starf utanríkismálanefndar í fjarveru formanns þeirrar nefndar. 

Sem varaþingmaður hef ég takmarkaða möguleika á að hafa þau áhrif á þetta mál sem ég hefði viljað. Þetta blogg birtir lágmarksviðleitni í þá átt að halda á lofti sjónarmiðum klassísks frálslyndis. Til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri mun ég í kvöld halda erindi á fundi málfundafélagsins Frelsi og fullveldi kl. 20 í Hamraborg 11 í Kópavogi

Þar mun ég ræða um frelsið, bæði hið einstaklingsbundna frelsi sem og frelsi þjóða til að setja sín eigin lög og ráða eigin örlögum. Frammi fyrir þeim óveðursskýjum valdboðs og stjórnlyndis sem sækja sífellt nær stjórnmálunum, bæði hérlendis og erlendis, er brýnt að sem flestir láti rödd sína heyrast. Ég hvet alla frjálslynda lýðræðissinna til að mæta á fundinn í kvöld. Það geta menn gert án tillits til pólitískra skoðana að öðru leyti, enda er fundurinn ekki flokkspólitískur. 

 


Risamál má ekki afgreiða í flýti og af léttúð

Utanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um bókun 35 19. apríl sl. og að lokinni 1. umræðu þann dag gekk málið til utanríkismálanefndar. Á vef Alþingis er ekki annað að sjá en að unnið sé á leifturhraða að afgreiðslu málsins í nefndinni. Þetta virðist vera gert undir stjórn varaformanns nefndarinnar Njáls Trausta Friðbertssonar (D) í fjarveru nefndarformannsins Bjarna Jónssonar (VG).

Athygli vekur að nefndin óskaði eftir umsögnum frá 7 aðilum 24. apríl sl. og að skilafrestur umsagnar er örstuttur, þ.e. til 2. maí nk. Val á umsagnaraðilum er einnig mjög athyglisvert, en nöfn þeirra má sjá hér. Með fullri virðingu fyrir öllum þessum 7 umsagnaraðilum má ganga út frá að umsagnir þeirra verði allar jákvæðar og að þau muni ekki sjá mikla meinbugi á því að frumvarpið verði að lögum. Frammi fyrir þessum lista hlýtur íslenskur almenningur að spyrja hvers vegna utanríkismálanefnd kýs að velja umsagnaraðila úr svo þröngu mengi. Hvers vegna er ekki leitað til manna sem skiluðu umsögn um þessi atriði í aðdraganda EES samningsins 1993? Af hverju kýs utanríkismálanefnd að sniðganga prófessorana Stefán Má Stefánsson og Guðmund Alfreðsson, sem manna best þekkja söguna og þau stjórnskipulegu álitaefni sem hér reynir á? Af hverju er ekki óskað umsagnar Arnaldar Hjartarsonar aðjúnkts og héraðsdómara sem ásamt Stefáni Má hefur varað við því að frumvarp utanríkisráðherra verði að lögum í núverandi mynd? Af hverju leitar nefndin ekki umsagnar Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og dr. Hafsteins Dan Kristjánssonar sem nýverið birtu grein um frumvarpið þar sem dregin er fram sú staðreynd að hér er ekki um neitt smámál að ræða, heldur breytingu sem er til þess fallin að hafa veruleg og afgerandi áhrif á gildandi rétt. 

Á hvaða vegferð er utanríkismálanefnd í þessu máli? Hvers vegna hefur ríkisstjórn Íslands nú fyrirvaralaust gefist upp gagnvart ESA? Í góðri fréttaskýringu Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu í dag er kallað eftir því að þessi skyndilegi viðsnúningur íslenskra stjórnvalda verði útskýrður. 

Framangreindur flýtir og hraður viðsnúningur kalla á skýringar. Býr eitthvað að baki sem ekki þolir dagsljósið? Tala þingmenn og ráðherrar af heilindum þegar þau gera lítið úr mikilvægi frumvarpsins? Frumvarpið hefur í sér fólgna ráðagerð um framsal löggjafarvalds Alþingis og eftirgjöf á fullveldi þjóðarinnar. Í því ljósi er vandséð að þingmenn, sem allir hafa unnið drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins, hafi heimild til að veita frumvarpi þessu lagagildi. Fullveldið tilheyrir þjóðinni og ef gefa á það eftir verður þjóðin að fá að tjá hug sinn beint með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég læt aðra um að tjá sig um það hvort og þá hvaða afleiðingar það ætti að hafa ef talið yrði að þingmenn og ráðherrar hefðu með framgöngu sinni í þessu máli rofið þau heiti sem þeir hafa sjálfir unnið að stjórnarskrá lýðveldisins. 


Valdið afhent án umræðu?

Lögfræði hefur alla tíð verið snar þáttur í íslenskri menningu. Öldum saman var lögbókin Jónsbók afrituð og lesin af alþýðu manna. Lagaþekking var hluti af almennri þekkingu. Á þeim grunni stóðu Íslendingar í margar aldir gegn einhliða lagasetingarvaldi konungs. Í Jónsbók (1281) var grundvallarhugsunin sú að konungur skyldi gæta hinna fornu laga og einungis breyta þeim að undangengnu samráði við Íslendinga. 

Á einveldistímanum stigu konungar fram sem ,,lögin holdi klædd" (lex animata). Frammi fyrir því ægivaldi þurftu menn að takast á um það hvaða skorður ætti að setja löggjafanum. Til að mæta þessum vanda var í fyllingu tímans ákveðið að setja stjórnarskrár sem nokkurs konar æðri lög, sem jafnvel konungur mætti ekki ganga gegn. 

Bókun 35

Líta má á frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 sem birtingarmynd gamalkunnugs stefs, þar sem yfirvöld seilast lengra samhliða veikara viðnámi almennings: Yfirþyrmandi fjöldi lagareglna sem streymir frá Brussel er á góðri leið með að lama réttarvitund almennings. Fjölgun lagareglna veldur því að rétturinn breytist í völundarhús þar sem stórar ákvarðanir eru látnar velta á óljósum stefnuyfirlýsingum um fjórfrelsi ESB sem í framkvæmd er gert að yfirstjórnarskrá, sem yfirtrompar jafnvel stjórnarskrár þjóðríkjanna. Þegar almenningur, þingmenn og ráðherrar standa svo óörugg, týnd og ráðþrota í regluverks-þokunni getur verið freistandi að taka í stóra og sterka hönd æðsta veraldlega valdhafa sem finna má (lex animata) sem býðst til að vísa okkur veginn út úr óvissunni og inn í ,,fyrirmyndarríkið", sem þó er hvergi til.  

Höfum við gengið til góðs?

Erum við svo buguð, svo ráðþrota, svo hirðulaus um okkar eigin lög og stjórnarskrá, okkar eigið frelsi og framtíð, að við viljum nú afhenda endanlegt ákvörðunarvald um lögin í hendur fjarlægs, miðstýrðs og ólýðræðislegs valds í þeirri von að þurfa ekki að taka ábyrgð á sjálfum okkur? Ef Íslendingar 21. aldar ætla að afsala sér ábyrgð á eigin örlögum, andmælalaust og umræðulaust, eru þeir verr að sér en Íslendingar fyrri alda. Það væri sorgleg umsögn um allt okkar starf. Og það er hörmulegt, átakanlegt og raunalegt ef þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar að leiða þessa þýlyndisför út fyrir mörkin, sbr. leiðara Morgunblaðsins í dag. 


Lýðræðið deyr ef við gerum ekkert

Þegar svo er komið að skólastarf snýst um innrætingu frekar en menntun í klassískum skilningi; þegar matvælaframleiðsla gerir næringu að aukaatriði; þegar list snýst ekki um fegurð eða innsæi; þegar lyf eru framleidd sem veikja heilsu fólks; þegar fólk er beitt ofbeldi í nafni friðar; þegar menn halda ræður án þess að miðla upplýsingum; þegar mikilvægara er að sýnast en að vera, þá er kannski ekkert skrýtið að stjórnmál séu hætt að snúast um að halda tryggð við stefnumál. 

Upplausnarástand

Samfélagið hefur verið kvistað niður í flokka, deildir, hópa og hagsmunasamtök sem bítast um völdin. Í slíkri (ó)menningu er þess krafist að félagsmenn sýni flokki sínum hollustu og leiðtogunum hlýðni. Í slíku andrúmslofti, þar sem enginn þorir lengur að hugsa sjálfstætt og tjá sig frjálst, þar er gagnrýnin hugsun leyst af hólmi með blindri fylgispekt við foringja hópsins og þá línu sem lögð er hverju sinni.

Við erum mögulega komin á háskalegan stað, þar sem samfélag okkar er að leysast upp í ,,klíkustríð", þar sem andstæðir hópar bítast innbyrðis um völdin. Í slíkum átökum er kannski ekki að undra þótt hugsjónir hverfi og týnist í rykmekki. Þegar kennileitin eru horfin fer hver og einn flokkur að líkjast alræðisríki í smækkaðri mynd. Í orkupakkamálinu og í umræðu um frumvarp utanríkisráðherra um bókun 35 blasir við að stýrið hefur verið fest og stefnunni verður ekki haggað, hvað sem líður öllum efasemdum þeirra sem standa utan við flokkforystuna. Með þessu er ég ekki að segja að lýðræðið sé dauðadæmt, heldur benda á að við slík vinnubrögð verður ekki unað. Hinn almenni flokksmaður verður að standa upp, andmæla og þora að láta í sér heyra. Kalla verður eftir því að flokksforystan komi hreint fram og hætti að kasta ryki í augu fólks með hálfsannleika, útúrsnúningum og blekkingamoldviðri. Ég veit ekki með ykkur hin, en ég ætla ekki að láta ganga yfir mig með þessum hætti eða hrekja mig úr Sjálfstæðisflokknum. 

Um frumvarpið

Það er rangt að frumvarpið feli aðeins í sér skýringu. Verði frumvarpið samþykkt felur það í sér breytingu á lögum sem getur haft áhrif á réttarstöðu einstaklinga og lögaðila. Hér er verið að gefa út óútfyllta ávísun sem í síðari dómaframkvæmd getur verið notuð til að marka stefnu í ófyrirsjáanlega og skaðlega átt. Þetta mætti gera með framúrstefnulegri túlkun á EES réttinum og því sem fella mætti undir ,,skuldbindingar" Íslands samkvæmt EES samningnum.  

Það er einnig rangt að frumvarpið bindi ekki hendur Alþingis á nokkurn hátt. Í framkvæmd mun Alþingi aldrei setja lög og viðurkenna um leið að þau gangi gegn EES. Í því fælist viðurkenning á samningsbroti og myndi kalla skaðabótaskyldu yfir íslenska ríkið. 

Lokaorð

Til að unnt sé að eiga hér vitræna umræðu þarf hún að vera jarðtengd og það á að hvetja fólk til málefnalegrar þátttöku, ekki berja það niður og fæla það frá með vitsmunalegri bælingu, persónuníði, hótunum um pólitíska útskúfun, einelti o.s.frv. 

Frjálslynd stjórnmál snúast um skynsamlega stefnumörkun ekki kreddur. Um frjálst val, en ekki þvingun. Um frjálsa skoðanamyndun, en ekki boðun. Stjórnmálaflokkar eru frjáls félagasamtök, ekki ríkisstofnanir. Ef forystufólk íslenskra stjórnmálaflokka ætla að brjóta gegn öllu þessu gera þau flokkum sínum mikið ógagn og hrekja kjósendur í fang annarra.  

 

 

 


Allir þrælsáttir, eða hvað?

Sagan endurtekur sig kannski ekki, en mannlegt eðli gerir það að verkum að menn (og þjóðir) rata endurtekið í svipaðar aðstæður. Þá birtast atvik sem ríma við atburði fyrri tíma. 

Í Morgunblaðsgrein í gær benti ég á samsvörun milli atvika nú og á 13. öld, þar sem erlent vald knýr á um það að Íslendingar vinni trúnaðareiða og gerist valdinu handgengnir. Afleiðingin nú, eins og þá, gæti orðið sú að Ísland missi sjálfstæði sitt um leið og þjóðin missir frá sér sjálfsákvörðunarréttinn.

Eftir birtingu greinar minnar í gær hringdi í mig glöggur félagi minn, sem minnti á eitt höfuðmarkmið Gamla sáttmála 1262 var að tryggja Íslendingum aðgang að erlendum mörkuðum og siglingar hingað með erlendar vörur. Í samhengi við nútímann er vert að minna á að aðeins 9 árum síðar, 1271, fengu Íslendingar senda hingað heila lögbók, Járnsíðu, sem vegna útbreiddrar andstöðu á Alþingi var síðar endursamin og ný lögbók, Jónsbók, lögtekin hér 1281. 

Hin ótrausta heimild Wikipedia segir ,,ekki ljóst" hvers vegna Íslendingar stóðu gegn lögtöku Járnsíðu. Þetta er þó öllum ljóst sem gripsvit hafa á réttarsögu og hinum forna germanska rétti: Járnsíða var ekki sprottin upp úr jarðvegi daglegs lífs, menningar og viðskipta á Íslandi. Járnsíða var afsprengi allt annarrar lagahefðar, þar sem lögin eru sett fram sem fyrirskipanir, m.ö.o. sem valdboð að ofan. Þess vegna vildu Íslendingar ekkert með Járnsíðu hafa. 

Nú sjáum við þessi stef endurtaka sig í nútímanum: Til að tryggja aðgengi að erlendum (evrópskum) markaði ætla menn sem gerst hafa handgengnir erlendu valdi að knýja hér í gegn grundvallarbreytingu á íslenskum rétti sem mun þýða að höggvið verður á lýðræðislega rót réttarins og lögunum umbreytt í valdboð (fyrirskipanir) að ofan. Hlutverk Íslendinga á 21. öld skal aftur verða það sem þessi þjóð mátti lengst af búa við frá 1262: Að hlýða. Eru allir bara þrælsáttir við það? 


Ætlar Alþingi að grafa undan sjálfu sér og gengisfella íslenskt lýðræði?

Í Íslendinga sögu Jóns Jóhannessonar prófessors (1909-1957) er gerð grein fyrir endalokum hins forna lýðveldis Íslendinga (930-1262). Meginorsökin er þar rakin til þess að Íslendingar sem fóru til Noregs gerðust handgengnir konungi og sóru honum trúnaðareiða. „Sá siður hlaut að verða hættulegur, ef konungur reyndi að ná völdum hér á landi“ [JJ, 331]. Í lýsingu Jóns kemur fram að þessir menn hafi fest sig í viðjum valdsins, því konungur hafði hér útsendara, njósnara og opinbera erindreka. Hinir handgengnu menn urðu af þessum ástæðum hættulegir sjálfstæði þjóðarinnar. Þeir sköpuðu konungi bæði tæki og tækifæri til að skipta sér af málefnum Íslendinga, því þeim var skylt að reka erindi konungs samkvæmt skipunum hans og gæta hagsmuna hans vandlega. Á þeim sannaðist að enginn getur þjónað tveimur herrum. Þessir menn hafi að lokum átt um tvo kosti að velja og hvorugan góðan: Að svíkja þjóð sína eða svíkja konung.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35)

Framangreind atriði eru nefnd hér því líkja má nýju frumvarpi utanríkisráðherra um bókun 35 við nútímaútgáfu af trúnaðareiðum fyrri tíma. Verði frumvarpið að lögum er í raun verið að gera lýðveldið Ísland handgengið ESB með því að setja Íslendinga undir ok EES-réttar og festa okkur í viðjum erlends valds. Brýnt er að þingmenn og aðrir skilji þungann og alvöruna sem að baki býr. Með samþykkt frumvarpsins væri Alþingi gengisfellt til frambúðar og íslenskt lýðræði þar með líka.

EES-rétturinn er enn vaxandi að umfangi, teygir sig stöðugt lengra og regluverkið verður sífellt þyngra í vöfum. Þetta umhverfi hentar illa íslenskum fyrirtækjum, sem öll eru lítil/meðalstór á evrópskan mælikvarða. Frumvarpið miðar að því marki að samstilla réttinn (þ. Gleichschaltung) á öllu EES-svæðinu. Ómögulegt er þó að segja hvert þetta kann að leiða því ESB/EES-rétturinn hefur stöðugt verið að þenjast út og verið túlkaður á „dýnamískan“ (lesist: pólitískan) hátt af hálfu dómstóls ESB. Þrátt fyrir þessi óljósu ytri mörk stöndum við hér frammi fyrir því að réttur ESB/EES skuli hafa stöðu æðstu laga, m.ö.o. reglna sem ekki má breyta og ætlað er að þjóna sem rammi utan um alla aðra lagasetningu með því að afmarka hvað telst leyfilegt og hvað ekki.

Ef Alþingi samþykkir frumvarpið og þar með forgang EES-réttar umfram íslensk lög, má öllum vera ljóst að ESB mun eftir það alls ekki sætta sig við að Alþingi setji sérreglur sem raska þeirri réttareiningu og þeirri rétthæð lagareglna sem forgangsreglan miðar að.

Með frumvarpinu er stefnt að því að Alþingi geri Íslendinga ofurselda forgangsrétti EES-reglna, þrátt fyrir að þær eigi uppruna sinn hjá stofnunum ESB og þrátt fyrir að ESB hafi allt tangarhald á túlkunarvaldi um þessar reglur. Flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins sem telja að ESA og EFTA- dómstóllinn muni geta veitt ESB viðnám í því samhengi sem hér um ræðir hljóta að hafa óraunsæja sýn á styrk hinnar veiku EFTA-stoðar í EES-samstarfinu. Annars gætu þau ekki með góðri samvisku stutt frumvarp sem miðar að því að veikja grundvallarstofnanir og burðarstoðir okkar eigin lýðveldis.

Varnaðarorð

Verði frumvarpið að lögum væri verið að taka skref sem gæti reynst afdrifaríkt. Íslenskum rétti yrði teflt í óvissu með því að leggja mótun hans í hendur manna sem við þekkjum ekki og svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum. Með frumvarpinu er ýtt undir réttaróvissu, vegið að réttaröryggi, grafið undan fyrirsjáanleika laga og réttmætum væntingum Íslendinga gagnvart síðar samþykktum lögum frá Alþingi.

Sem smáþjóð höfum við Íslendingar alltaf þurft að beita lögum í vörn gegn ágengni annarra þjóða. Títtnefnt frumvarp er til þess fallið að slá þetta eina vopn úr höndum okkar og afhenda ESB vald til að setja lögin, túlka þau og framkvæma. Út frá þessu blasir við að málið er hálögfræðilegt og þarfnast mjög vandlegrar lögfræðilegrar ígrundunar áður en það verður sett í pólitíska umræðu og atkvæðagreiðslu. Þetta mál má því ekki keyra blindandi í gegnum Alþingi án þess að þingheimur og almenningur allur hafi gert sér skýra grein fyrir hvað hér er í húfi.

„Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja“

Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi setur það embættismenn Íslendinga í þá stöðu sem hirðmenn 13. aldar voru í gagnvart konungi, þ.e. að geta ekki óhlýðnast fyrirskipunum konungs (ESB) þótt þeim verði „stundum þvert um geð að framkvæma þær“. [JJ, 332]. Í þessu felst að embættismenn okkar geta í raun orðið ógn við sjálfstæði þjóðarinnar með því að skapa ESB bæði tól og tækifæri til að skipta sér af málefnum Íslendinga. Embættismenn, kostaðir af íslenskum skattgreiðendum, munu taka að sér að reka erindi ESB samkvæmt skipunum ESB og gæta hagsmuna ESB vandlega. Á þeim mun sannast að enginn getur þjónað tveimur herrum.

Ef Alþingi mun velja þann kost að vinna ESB þennan trúnaðareið gæti það orðið meginorsökin að endalokum lýðveldisins Íslands. Við munum búa við allt annars konar stjórnarfar en stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir. Við verðum eins og lén í konungsríki á miðöldum. Stjórnarstofnanir munu að vísu standa áfram en valdið verður fært úr landi í hendur manna sem Íslendingar hafa ekki kosið til áhrifa og bera engar taugar hins almenna Íslendings. Er þetta spennandi framtíðarsýn? Hér verða þingmenn okkar að svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum og eigin samvisku. Við kjósendur verðum að vekja þingmenn til vitundar um þá ábyrgð sem þau bera gagnvart þjóð sinni og framtíð lýðveldisins.

Sú þjóð sem löngum átti ‘ ekki‘ í sig brauð

en einatt bar þó reisn í fátækt sinni,

skal efnum búin orðin þvílíkt gauð

er öðrum bjóði sig að fótaskinni.

Sú þjóð sem horuð ærið afhroð galt

af ofurheitri trú á frelsið dýra,

hún býður lostug sama frelsi falt

með fitustokkinn belg og galtarsvíra.

 

Sú þjóð sem veit sér ekkert æðra mark

en aurasníkjur, sukk og fleðulæti,

mun hljóta notuð herra sinna spark

og heykjast lágt í verðgangsmanna sæti.

 

Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó,

og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,

skal fyrr en varir hremmd í harða kló.

Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!

(Jón Helgason, 1951)

 

Grein þessi birtist fyrst í Morgunblaðinu 20.4.2023.


Um lýðræðið

Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að minna þingmenn og ríkisstjórn á að þeirra hlutverk er ekki að láta hávaðamenn stýra för og ekki að hlýða þeim sem hæst hafa.

  • Þegar heykvíslarnar eru komnar á loft þurfa aðrir að vera tilbúnir til að standa vörð um réttarríkið og meginreglur þess, þ.á m. um það að enginn sé sekur þar til sekt er sönnuð.
  • Útgangspunktur í siðmenntuðu samfélagi hlýtur að vera að við treystum öðru fólki og göngum ekki út frá því að öðrum gangi illt til.
  • Við hljótum að vilja að menn séu metnir út frá mannkostum en ekki út frá útliti. Og við viljum standa vörð um borgaraleg réttindi sem á síðustu árum hefur verið sótt að úr ólíklegustu áttum, þ.m.t. tjáningarfrelsi, fundafrelsi o.fl.
  • Við eigum að verja rétt fólks til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, þ.e. að búa ekki við það að annað fólk eða stjórnvöld þvingi þig í tiltekna átt með vísan til útlitseinkenna þinna eða skírskotunar til „heildarinnar“ og „hópsins“.
  • Halda ber ríkisvaldinu í skefjum. Í því felst ekki síst að ríkið haldi sig við grunnhlutverk sitt, þ.e. að sinna innviðum og öryggismálum. Í þessu sem öllu öðru ber valdhöfum að stjórna með samþykki borgaranna en ekki með þvingunum, hótunum eða valdbeitingu.
  • Stjórnmálamenn er ekki kosnir til að ganga gegn þeirri stefnu sem þau buðu sig fram til að halda og verja.
  • Hlutverk stjórnmálamanna er að þjóna almenningi, ekki skipa okkur fyrir.
  • Göfugasta hlutverk laga er að verja frelsi fólks, ekki að skerða það.  

Lýðræðið er stjórnskipulega varin leið hins almenna borgara til að eiga þátt í ákvarðanatöku sem snýr að honum sjálfum. Lýðræðið miðar að því að kjörnir fulltrúar meirihlutans taki ákvarðanir en þó þannig að það ákvörðunarvald sé skýrt skilgreint og afmarkað, auk þess sem umboðið er tímabundið / afturkræft.

 


Sjálfstæðismenn athugið

Stefna Sjálfstæðisflokksins byggir á þeim klassíska grunni að lögin eigi sér lýðræðislega rót. Sjálfstæðisflokkurinn hefur það hlutverk að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands. Fullveldi snýst um að hafa rétt til að setja sín eigin lög, sem borgararnir geta treyst á að gildi í daglegu lífi sem grundvöllur fyrirsjáanleika og réttaröryggis. Þetta er lögfræðilegt atriði, en einnig pólitískt og samfélagslegt. Í þessu felst nánar að lög standa ekki undir nafni nema þau þjóni tilteknu samfélagi og að ekki er unnt að tala um samfélag fyrr en það hefur komið sér upp lögum í einhverri mynd. Íslenskur réttur – og vestræn stjórnskipun – byggir á því að lögin eigi sér lýðræðislegan grundvöll, þ.e. að allt vald komi frá þjóðinni, og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum.

Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður til að tryggja að grunnstefna hans sjáist í daglegri framkvæmd stjórnmálanna. Þverpólitísk moðsuða hefur valdið því að grunngildi Sjálfstæðisflokksins hafa horfið í móðu. Kjarnagildum hefur verið ýtt til hliðar en jaðarsjónarmið gerð miðlæg.  Þögn og meðvirkni hefur grafið um sig eins og krabbamein. Það er eitthvað mikið að ef lárétt skuldbinding milli kollega (stjórnmálamanna / embættismanna annarra ríkja) er farin að vega þyngra í framkvæmd en hin lóðrétta tenging milli kjörinna fulltrúa og borgara.

Hluti skýringarinnar á þessari öfugþróun er sú að Ísland er orðið að „aðildarríki“ en áherslan á þjóðríkið er hverfandi. Alþingi samþykkti vissulega árið 1993 að Ísland yrði aðili að efnahagslegu samstarfi (EES), en Íslendingar hafa aldrei formlega samþykkt að verða aðilar að pólitísku yfirþjóðlegu sambandi í núverandi mynd.

 


,, ...börnum og hröfnum að leik.“

Alþingi er helgasta stofnun lýðveldisins. Ef allt væri með felldu myndu þingmenn og ráðherrar líta á það sem skyldu sína að standa vörð um vald þess og virðingu. En nú virðist annað vera upp á teningnum.

Hvert stefnir?

Í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær undirstrikaði ég, með dæmum, alvarleika þess að vegið sé að réttaröryggi, fyrirsjáanleika laga, lýðræðisgrunni laganna og réttmætum væntingum með því að leiða í lög almenna forgangsreglu EES réttar. Ef þetta frumvarp verður að lögum er Alþingi í raun að gefa út óútfyllta ávísun sem ESB og stofnanir þess geta nýtt til að ógilda íslenskan rétt og víkja til hliðar ákvðum sem íslenskir borgarar og fyrirtæki hafa byggt á í góðri trú. Afleiðingarnar yrðu m.ö.o. þær að Íslendingar gætu ekki treyst því sem stendur í lagasafninu. Hverju geta menn treyst ef ekki er hægt að treysta því sem stendur í lögum?

Framsetning mín er ekki byggð á spádómum. Þetta er ályktun af áratugalangri réttarframkvæmd sem byggð er á skýrri tilvísun til Rómarsáttmálans sjálfs, þar sem tónninn er sleginn strax í upphafi með því að segja að stefnt sé að ,,stöðugt nánari samruna" (e. an ever closer union).

Hljóðlát bylting sem kemur ofan frá

Íslendingar verða að vakna til vitundar um hvað er að gerast. Hið nýja frumvarp utanríkisráðherra er til marks um að hér er að eiga sér stað hljóðlát bylting í stjórnarfari og stjórnskipun Íslands. Til að átta sig á þessu verðum við að skilja hvað ESB er í raun. Þáttur í því er að kunna skil á sögu ESB.

Upprunann má rekja aftur til hugmynda, sem fram komu á 3. áratugnum, um Bandaríki Evrópu að Norður-Amerískri fyrirmynd. Stjórnmálamenn hafa verið blindir gagnvart þessu. EES, sem fylgihnöttur ESB, hefur á síðari árum að mörgu leyti haft skaðleg áhrif á íslenska pólitík og lýðræði. Hugmyndir um stofnun yfirþjóðlegs sambandsríkis, með ólýðræðislega kjörinni stjórn, hafa verið dulbúnar sem eitthvað annað, þar á meðal sem friðar-, tolla- og fríverslunarbandalag, efnahagsbandalag og nú ESB (pólitískt og efnahagslegt bandalag). Í þessu samhengi má ekki líta fram hjá því hlutverki sem dómstóll ESB hefur tekið að sér, en hann hefur í reynd verið pólitískur dómstóll. Í framgöngu sinni og réttarframkvæmd hefur dómstóllinn seilst langt út fyrir öll hefðbundin mörk dómsvaldsins og gerst leiðandi í samrunaferlinu og knúið í gegn bein réttaráhrif Evrópuréttarins og æðstu lögsögu ESB dómstólsins, sem aðildarríkin sáu ekki fyrir árið 1957. Eftir dóma í Van Gend en Loos og Costa g. ENEL hefur dómstóllinn haldið áfram á sömu braut. Þannig má segja að við undirritun Lissabon sáttmálans 2009 hafi engin aðildarþjóð mátt ganga þess dulin hvers konar réttarskipan þau væru að festa í sessi. Annað gildir um Íslendinga sem hvorki hafa undirritað Maastricht sáttmálann um stofnun ESB 1993 né Lissabon samninginn. Engu að síður hefur það gerst á síðustu misserum að Þýskaland og Pólland sýna andstöðu gagnvart því að beygja sig alfarið undir það að ESB fari með æðsta vald og að lög ESB yfirtrompi jafnvel stjórnarskrár ríkjanna.

Segjum hlutina eins og þeir eru

Þrátt fyrir þá þróun sem við höfum orðið vitni að sl. ár og áratugi er því haldið fram að fullveldi okkar sé óskert. Hér fer hljóð og mynd ekki saman. Er verið að halla réttu máli? Getur verið að menn haldi beinlínis fram blekkingum og slái ryki í augu Íslendinga varðandi atriði eins og innleiðingu erlends réttar / áhrif ESB réttar?

Hafa sérfræðingarnir (og stjórnmálamennirnir) verið fullkomlega heiðarlegir? Að hvaða ósi fljótum við sem þjóð inni i EES samstarfinu? Eftir að hafa rætt við Helgu Völu Helgadóttur í fyrrnefndum útvarpsþætti í gær tel ég ljóst að flokkur hennar, Samfylkingin, er að slá ryki í augu sinna eigin kjósenda. Í Noregi, þar sem forgangur EES er viðurkenndur, hefur þetta t.d. þau áhrif að stéttarfélög geta ekki sinnt hagsmunagæslu á grunni landsréttar og vopnin eru slegin úr höndum þeirra með vísan til þess að fjórfrelsið yfirtrompi allt annað. Alvarleiki slíkra staðreynda verður ekki afgreiddur með flissi. Þetta er ísköld lögfræðileg staðreynd, en ekki ,,af því bara“ lögfræði eins og þingmaður Samfylkingarinnar kýs að orða sín „svör“.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband