Lýðræðinu fórnað á altari markaðsguðsins?

Björn Bjarnason heldur áfram að vegsama EES samninginn og ,,hinn sameiginlega markað". Minnugur fyrsta boðorðsins hrekk ég í vörn þegar þess er krafist að ég falli á kné og tilbiðji skurðgoð. Ef við viljum geta rætt um EES samninginn með opnum huga þá verðum við að umgangast hann eins og mannanna verk, ekki eins og einhvers konar heilagan texta sem krefst trúarlegrar og skilyrðislausrar hollustu. 

Trúarbrögð er ekki hægt að rökræða

Eins og ég hef áður sagt virðast skrif Björns byggjast á þeirri fölsku forsendu að EES reglur tryggi rétt Íslendinga betur en íslensk lög. Í færslu á blogg-síðu sinni í dag vísar Björn til Davíðs Þórs Björgvinssonar til stuðnings þeirri ályktun að það teljist ekki framsal lagasetningarvalds þótt Alþingi setji lög um almennan forgang EES reglna ef þær reglur stangast á við ákvæði íslenskra laga. Látið er að því liggja að með þessu sé aðeins verið að tryggja rétt Íslendinga, en horft fram hjá því að þessi aðgerð kunni að valda meira tjóni en gagni.

Lesendum er bent á að íhuga eftirfarandi atriði í framsetningu Björns / Davíðs:

  • Eru það góð rök að forgangur ESB/EES-reglna sé „grundvallarregla í rétti sambandsins"? Skiptir ekki meira máli að horfa til okkar eigin grundvallarlaga, þ.e. stjórnarskrár lýðveldisins? Hún heimilar ekki að erlendur réttur gangi framar íslenskum lögum.
  • Eru það sterk rök fyrir forgangi EES reglna að það sé „forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum“? Væri ekki nær á þessu stigi að hugleiða þá staðreynd að íslenska þjóðin hefur aldrei verið spurð hvort hún samþykki að þessi ,,hugsjón um sameiginlegan markað“ ryðji burt lýðræðislegum öryggisventlum stjórnarskrár um valddreifingu og að valdhafar svari til ábyrgðar gagnvart kjósendum?
  • Er það góð lögfræði að vísa til bókunar 35 eins og hún geti rutt í burtu ákvæðum stjórnarskrár?
  • Eru það gild rök eða rökbrellur að halda því fram að réttindi Íslendinga séu best tryggð með því að lögleiða hér almenna reglu um forgang EES réttar? Væri ekki ábyrgara, í leit að svörum, að viðurkenna að slíkur forgangur geti valdið réttindamissi, skert frelsi okkar, höggvið á lýðræðislega ábyrgð, aftengt öryggisventla, gengisfellt mikilvægustu stofnanir íslenska lýðveldisins og valdið alls konar ófyrirsjáanlegu tjóni?

Er lýðræðisfórn nauðsynleg til að friða markaðsguðinn?  

Ef það er raunverulegur vilji Íslendinga að setja handlegginn í gin úlfsins og veðja á markaðinn fremur en lýðræðið, þá hlýtur það að vera lágmarkskrafa að um það sé kosið eins og í öðrum siðmenntuðum löndum. Óásættanlegt er að embættismenn í samstarfi við ESB-sinnaða íslenska stjórnmálamenn haldi stöðugt áfram að saxa fullveldi Íslands í sneiðar með Salami-aðferðinni. Þetta ættu allir að geta fundið á eigin skinni núna, þegar farið er að skera svo nærri lýðræðistauginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband