Hylja hvítu slopparnir ekki lengur nektina?

Stóra fréttamálið í Bretlandi síðan í gærdag er innihald um 100.000 skilaboða sem fóru á milli ráðherra í ríkisstjórn Bretlands eftir að ,,veiran skæða" kom fram á sjónarsviðið.

Fréttir af þessum samskiptum munu birtast í Daily Telegraph á næstu dögum. Eftirskjálftarnir gætu orðið víðtækir og langvarandi. Í stuttu máli afhjúpa umrædd skilaboð það hversu veikum fótum lýðræðið stendur, ekki bara í Bretlandi, heldur í öllum þeim rikjum sem stýrðu eftir sama kompás taugaveiklunar, vanhæfni, sýndarmennsku o.fl. Dæmi: Gögnin eru til marks um að yfirvöld hafi sett reglur sem þau vissu að myndu valda miklum skaða, t.d. að banna bannað fólki að heimsækja deyjandi ættingja á sjúkrahúsum og elliheimilum, án þess að vita hvort það veitti nokkra vernd. Áhersla stjórnvalda í Bretlandi var samkvæmt þessu lögð á að ,,gera eitthvað" til að þurfa ekki að sitja undir ásökunum um aðgerðarleysi.

Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa og ræða, ekki að breiða yfir og þagga

Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í umfjöllun um mál af þessari stærðargráðu. Hlutverk þeirra er að upplýsa almenning og veita valdhöfum nauðsynlegt aðhald, t.d. með að spyrja hvaða mat á kostnaði og ábata lá að baki ákvörðunum sem snertu atvinnulíf, menntun, friðhelgi einkalífs o.fl. Hver sem les þau samskipti sem hér um ræðir hlýtur að svitna við þá tilhugsun að sambærilegt ,,verklag" verði viðhaft þegar ,,næsti heimsfaraldur" skellur á. 

Hlutverk vísindamanna er að leita sannleikans, ekki að þykjast vera holdgervingar sannleikans

Á sama tíma og allar þessar upplýsingar birtast um pínlegt ráðaleysi æðstu ráðamanna eru vindar að snúast í vísindaheiminum. Margt það sem þóttu heilög sannindi árið 2020 er nú að umbreytast í ,,falsfréttir" og ,,upplýsingaóreiðu". Dæmi: Bóluefni veita ekki betri vörn en náttúrulegt ónæmi; grímunotkun hafði engin tölfræðilega marktæk áhrif á útbreiðslu veirunnar; hjartavöðvabólga meðal ungra karlmanna er algengari eftir bóluefnasprautur, en eftir covid-smit. 

Frammi fyrir öllum þessum nýju upplýsingum vakna fjölmargar spurningar: Er hugsanlegt að það hafi verið yfirvöld sjálf sem ollu mestu upplýsingaóreiðunni í kófinu? Hvers vegna voru réttar upplýsingar úthrópaðar sem falsfréttir en ósannindi sett á stall sem sannleikur? Hversu margt af þessu skrifast á einföld mistök og hversu margt var aðeins (hræðslu)áróður til að framkalla hlýðni borgaranna? 

Hlutverk valdhafa er að verja málfrelsið, ekki skerða það

Íslenskir fjölmiðlar og íslenskir stjórnmálamenn þurfa að leita svara við öllum þessum spurningum. Besta leiðin til þess er þó augljóslega ekki sú að þenja út eftirlitsbáknið og ýta undir ritskoðunar- og þöggunartilburði með því að styrkja fjölmiðlanefnd ,,til að takast á við falsfréttir á netinu".

Ef menn áttu enn erfitt með að skilja mikilvægi málfrelsis í síðustu viku þá ættu atburðir og afhjúpanir síðustu daga að vera til áminningar um að mannkynssagan fer ekki mjúkum höndum um þá sem vilja beita opinberu valdi til að skilgreina sannleikann.   

[Uppfærsla: Við athugun kl. 19.10 2. mars 2023 verður ekki séð að nokkur einasti fjölmiðill á Íslandi geri þessari bresku uppljóstrun nokkur skil.]

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband