4.3.2023 | 08:54
Koma þarf umræðunni upp á hærra plan
Þegar við byggjum hús viljum við að það standi á traustum stoðum. Svo þarf að hugsa vel um þessar stoðir til að þær fúni ekki og veikist. Sinnum við vel slíkri umhirðu um grunnstoðir lýðveldisins okkar?
Í Morgunblaðinu í dag kallar Arnór Sigurjónsson, fyrrv. skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, eftir agaðri umræðu um öryggis- og varnarmál. Hann segir alla umræðu um þessi mál úti í skurði og að hún einkennist af þekkingarleysi og tilfinningum. Undir þetta hljóta flestir að geta tekið. Á stuttum tíma hefur öryggisástandið í heiminum gjörbreyst. Valdajafnvægi er að riðlast og staða Íslands er ótryggari en áður. Við þessar aðstæður leyfist kjörnum fulltrúum okkar ekki að sýna þessum málaflokki áhugaleysi.
En meðan eldarnir loga allt í kringum okkur kjósa Alþingismenn að ræða aukaatriði fremur en aðalatriði. Alþingi, sem á að heita ein af grunnstoðum lýðveldisins, hefur verið gert of léttvægt og hversdagslegt. Búið er að útvista stórum hluta verkefnanna til Brussel en þingmenn halda þó óbreyttum launum.
Ábending Arnórs Sigurjónssonar er rétt. Taka þarf öryggis- og varnarmál Íslands til gagngerrar endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna. Samhliða þurfa þingmenn að láta af gífuryrðum, innihaldslausum upphrópunum, skoðanahroka og tilgangslausu málþófi. Auk varnarmála þarf svo að ræða af aukinni ábyrgð um orkumál, veika stöðu lýðræðisins, útbreitt ólæsi, vaxandi heilsufarsvanda o.fl. Til lengri tíma er viðfangsefnið að blása lífi hið frjálsa hagkerfi þannig að það geti staðið undir því að verja grunnstoðir samfélagsins. Það best gert með því að hver og einn geti nýtt hæfileika sína, sjálfum sér og fjölskyldu sinni til góðs og samfélaginu til heilla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.